Já, lýðræði er skrýtið æði
23.11.2009 | 13:12
Namibía fékk ekki eins góða einkunn á spillingarlista Transparency international og vonir stóðu til. Þetta er stjórnvöldum til mikils ama, sem telja, skv. málgagni þeirra, að þetta mat sé bara huglægt bull og byggt á villu. Vilja fremur nota afríska spillingarkvarða sem láta landið líta betur út.
Ég les nú sjaldan blað stjórnvalda, en kíkti í það um daginn. Á forsíðu eru þrír vaskir kappar með hnefann á lofti, vel í holdum og líta að auki út fyrir að vera komnir vel yfir fertugt. Þar eru komnir forystumenn ungliðahreyfingar Frelsishreyfingar Namibíu, sem hefur töglin og haldirnar í stjórmálum og stjórnkerfi. Ástæðan er sú að atkvæði í utanþingstaðakosningu eru komin inn og hafa verið talin. Hér eru bara tveir hópar sem geta tekið þátt í utanþingstaðakosningu, diplómatar og sjómenn. Ein vinkona mín var sárreið að fá ekki að kjósa, enda verður hún utanlands á kjördag. Aðrir koma heim til Namibíu til að kjósa. Almenningur verður bara að passa sig að vera á réttum stað á réttum tíma.
Þessir ungliðar héldu fund fyrir fjölmiðla og heimtuðu að tilteknir diplómatar í þjónustu ríkisins yrðu kallaðir heim, því að þeir væru ekki fulltrúar Flokksins. Niðurstaða utankjördæmakosninganna var nefninlega sú að Flokkurinn fékk bara helming atkvæða. Félagarnir spyrja í forundran: "Hvað er svona merkilegt við þetta fólk sem bregst vonum okkar þegar við getum fundið betra fólk í okkar Flokki? Af hverju erum við svona blind gagnvart þeim sníkjudýrum sem éta í sundur innviði okkar megnuga Flokks?" - Flokkurinn mun væntanlega fá mikinn meirihluta atkvæða í komandi kosningum, svo félagarnir taka vonandi gleði sína á ný. Svo er að lokum lagt til að í mars muni verða endurskipað í allar æðri stöður hins opinbera, í samræmi við manifesto Flokksins.
Hin forsíðufréttin er af lögreglustjóra í Caprivi sem er ásakaður um að berja lögregluþjón og að tæta í sundur búninginn hans. Stjórinn hefur látið lögregluþjónana gæta geitanna sinna, sem eru minnst 100 talsins. Einnig hafa þeir sótt börnin hans til borgarinnar við og við, sem er 2 600 km. langferð. Meintur lögregluþjónn ku hafa mótmælt þessu og viljað fremur stunda hefðbundin lögreglustörf. Lögreglustörf eru, eins og allir vita, mjög áhættusöm starfsgrein.
Margir eru efins og ringlaðir varðandi lýðræðisferilinn. Aðspurð flissar Leja, og ætlar að sjá til eftir 5 ár, í næstu kosningum. Kannski kjósa þá. Ekkert breytist, hvort eð er. Aðrir eru hræddir um að þeir verði spurðir út í hvað þeir hafi kosið. Betra að kjósa bara ekki neitt. Ég bíð spennt til að sjá hver kosningaþátttakan verði í ár.
Namibía lenti í 56. sæti spillingarlistans hjá Transparency International í ár, með einkunnina 4,5 sem gefur því einkunnina "highly corrupt". Þetta er hrap frá einkunninni 5,7 árið 2002. Ég get frætt áhugasama lesendur um það að Ísland er í því glæsilega sæti númer 8 (einu ofar en Noregur) með einkunnina 8,7. Enda er kosningaþátttaka á Íslandi líka með því besta sem gerist í heiminum.
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 15:31 | Facebook
Athugasemdir
hmmm kannski spyr ég "einsog fávís kona" en er spilling mæld i kosningaþátttöku eða er einungis átt við spillingu í tengslum við kosningar eða???
Ása Dóra (IP-tala skráð) 27.11.2009 kl. 17:35
Haha, þú verður að vera mjög vel inni í málum varðandi mælingar, og nei, það eru margar mælistikur sem eru notaðar. Ég beiti minni alræmdu kaldhæðni í þessari færslu, svo að þú verður að lesa á milli línanna. Ekki orð um það meira.
Erla perla (IP-tala skráð) 28.11.2009 kl. 11:50
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.