Komin heim úr óbyggðum
13.12.2009 | 13:15
Við vorum að skríða í hús eftir viku ferð til Kunene í norðvestur Namibíu, sem var alveg geggjuð. Búin að skrölta eftir þeim mestu fjallvegum sem ég hef séð í lífinu. Bullbarinn á bílnum er við það að skröltast af, og númeraplatan fór alveg, en annars stóð bíllinn sig bara mjög vel. Sáum enga ferðamenn dögum saman, og reyndar ekki annað hvítt fólk, ef út í það er farið. Náttúran er ótrúleg, óbyggðirnar víðfemar og fólkið litríkt. Allt gekk eins og í sögu, einn ældi bara einu sinni í bílinn en annars var bílveikin bara temmileg. Ég hugsa að maður gæti vel villst þarna árum saman ef ekki væru staðkunnugir að leiðsegja. Yfir hádegið liggur sólin í hvirfilsstað, svo að ekki er hægt að notast við hana þegar maður er að reyna að ná áttum.
Ég reyndi ítrekað að setja inn færslu áður en við fórum, en netið var óstöðugt svo að það hafðist ekki.
Windhoek tók á móti okkur með yfir 40 stiga, brakandi þurrum hita. Sem er svosem alveg indælt, en sumum heimilismeðlimum þótti nóg um. Sýni ykkur myndir frá ferðinni þegar um hægist.
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.