Íðilfagra Kunene
21.12.2009 | 08:50
Tímasetning okkar á Kuneneferðinni var alveg fullkomin. Þegar við komum á hótelið í Opuwo var nýbúið að bera áburð á grasflatirnar svo að allt ilmaði vel af skít. Alveg eins og heima, nema fnykurinn var rétt farinn að dala þar. Annars tók Kunene á móti okkur iðagræn og íðilfögur, eins og vanalega. Hér koma nokkrar myndir frá byrjun ferðarinnar, en við komum til Opuwo eftir átta og hálfs tíma akstur.
Hér er verið að reyra farangur á þakið fyrir brottför. Það eru ekki margir sem skella sér í minipils og skríða upp á þak til þeirra erindagjörða.
Laugin er alltaf góð í Opuwo, drengirnir allir orðnir syndir, enda fara þeir í sundtíma í skólanum.
Spilin eru tekin með fyrir háa sem lága.
Annars er það að frétta af okkur að mamma er komin til jóladvalar og jólaundirbúningurinn er kominn í gang. Ég las þessa fínu, íslensku jólasveinabók sem Rósa frænka sendi strákunum. Þar vöktu jólakötturinn og Grýla mikla athygli. Þarna lá ég í rúminu með Stefán á aðra hönd sem benti á tvenninguna og sagði "þessi er vond og þessi er vondur. Þau koma að taka Óskar." Hann taldi sjálfan sig vera nokkuð hólpinn þar sem hann er ekki eins baldinn og bróðir sinn, og því eðlilegt að hann yrði betri kostur fyrir þá sem koma og taka óþekk börn. Sá lá við hina hlið mína, skjálfandi og sagði eins og Baktus forðum "ó, ég er svo hræddur, óóó hvað ég er hræddur".
Svo er netið nánast alveg búið að liggja niðri undanfarna daga, svo ég hef ekki getað sett inn færslur, en vonandi stendur það til bóta.
Nú eru flestir í hlaupahópnum farnir í frí úr borginni, svo að ég fór klukkan 6 í morgun með Davíð við annan mann út að hlaupa, en skrifstofan hjá Davíð opnar klukkan 7:30. Þetta er langbesti tíminn til hlaupa þar sem sólin er ekki farin að baka mann. Hitinn er frá 35 til 42 stig yfir daginn og erfitt að hlaupa í hitanum eftir klukkan 8 á daginn.
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 10:09 | Facebook
Athugasemdir
Vá hvað ég er fegin að vera heima á Ökrum í éljagangi en ekki 40 stiga hita og þurrki! En ef ég man rétt þá ertu spræk sem læk í svona mollu ;)
Vona að þið hafið það öll ljómandi gott um hátíðirnar,
jólaknús frá Sivu og Jóa :)
Siva (IP-tala skráð) 21.12.2009 kl. 12:49
Alveg rétt, ég hef sjaldan verið sprækari, hitinn venst bara betur með aldrinum ef eitthvað er. Nú eru allir að bíða spenntir eftir regni, hér hafa sést rigningaský á himni og allir spenntir.
Sendi okkar bestu jólakveðjur, bæði í Skagafjörðinn og í Aðaldalinn, njótið hátíðanna!
Erla perla (IP-tala skráð) 21.12.2009 kl. 14:47
hahahah hrikalega sé ég þá bræður fyrir mér - var einmitt að lesa þessa bók fyrir litlurnar hennar Friðdóru - en þær eru kannski ekki alveg að átta sig á þessu - ennþá svo litlar ;o)
Annars óska ég ykkur öllum gleðilegra jóla - frábært að heyra að mamma þín sé hjá ykkur.....ég vona þið hafið það agalega huggulegt í hitanum ;o)
en bíddu - hvað er Siva að gera á Ökrum - eru það Akrar í Blönduhlíðinni??
knús og jólakveðjur af klakanum - fengum smá jólasnjó um sexleytið í dag - annars bara búið að vera kalt og snjólaust undanfarið - vona það haldist þannig svo ég komist í Borgarfjörðinn eftir matinn á gamlárskvöld ;o)
Ása Dóra (IP-tala skráð) 25.12.2009 kl. 01:11
Haha, sveitastúlkan hún Siva er frá Ökrum í Aðaldal (varstu farin að spinna upp einhver spennandi tengsl??). Huggulegt hér, enginn snjór en það er farið að rigna síðan í dag, svo að rigningartímabilið er efalaust hafið, og þá verður ekki eins heitt og verið hefur. Áramótakveðjur!
Erla perla (IP-tala skráð) 30.12.2009 kl. 16:49
Gledilega hatid og gott nytt ar. Kvedja Lola og co i Sviariki
Lola (IP-tala skráð) 31.12.2009 kl. 15:21
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.