Bloggfærslur mánaðarins, maí 2008

Pay day

Í dag var pay day og borgin iðaði af lífi þegar við fórum í bæinn núna seinni partinn, en hún er oft fremur daufleg. Nú fá allir útborgað og yfirbragðið er allt annað. Leja var einmitt að hlægja að vinkonum sínum sem starfa við húshjálp hér í hverfinu því að vanalega fara þær í vinnusloppum í vinnuna, en í dag slepptu þær því. Þær ætluðu beint á djammið eftir vinnu!

Africa Day

Helgin var óvenjulega löng hjá okkur því að á mánudaginn var Africa Day og því frídagur. Við ákváðum að brjóta helgina aðeins upp með því að fara út fyrir bæinn og fórum á búgarð í hálftíma keyrslu í burtu. Þar eru dýr í aðlögun áður en þeim er hleypt út í náttúruna aftur, og ef það reynist ekki hægt, þá í umsjón manna. Við fórum sérstaklega að sjá matargjöf til ólíkra dýra og gerðum okkur í hugarlund að þarna gætum við farið í svona hálftíma ökuferð og svo borðað hádegismat í rólegheitum á búgarðinum. Það var öðru nær og fórum við í þriggja tíma maraþontúr með leiðsögumanni frá Hollandi sem var afskaplega hægmæltur og sagði flesta hluti aftur og aftur og aftur. Að því slepptu var þetta hin besta ferð. Þarna sáum við bavíönum gefið, hlébörðum, blettatígrum, ljónum og afrískum villihundum, en þeir eru mjög merkileg dýr sem eru í mikilli útrýmingarhættu.

Því miður var myndavélin batteríislaus og því koma engar myndir af þessari ferð. Eftir alla þessa keyrslu var ljúft að komast í hús aftur og snæða hádegismat. Við vorum örugglega jafn svöng og ljónin.  

Búgarðurinn er með fjöldan allan af sjálfboðaliðum sem koma alls staðar að úr heiminum og vinna þarna í skemmri og lengri tíma. Með okkur var sjálfboðaliði frá Írlandi sem hafði stúderað dýrafræði í háskóla og hugðist eyða þremur mánuðum í Namibíu við sjálfboðastörf. Þarna gefst þeim tækifæri til að kynnast villidýrum sem eru sem næst í náttúrulegum aðstæðum. Mörgum dýranna er ekki hægt að sleppa út í náttúruna aftur, þar sem þau hafa kynnst manninum og geta því reynst hættuleg. Bavíanar verða t.d. nokkuð stórir og geta með léttum leik drepið fólk. Flestir eru hins vegar hræddir við mannsskepnuna, en þarna ala sjálfboðaliðarnir þá upp, fæða og kúra með litlu krílin á næturnar. Þeir hætta því að vera hræddir við fólk og geta ráðist á það þegar þeir verða eldri. Þeir verða því að bera beinin innan girðingar. 

Í gær var svo líka frí í skólanum hjá Halla og við mæðginin skelltum okkur í fyrsta skipti hér í Windhoek, í bíó.  Maður hefur heldur aldrei í lífinu farið svona snemma í bíó, en sýningin byrjaði kl. 9:15 (að morgni!), sem hentaði okkur reyndar vel því að litlu guttarnir voru á leikskólanum sínum.


Kátir krakkar

Sætir krakkar

Við fjölskyldan höfðum það náðugt yfir evróvision í gærkveldi, Óskar rétt náði íslenska framlaginu áður en hann datt út. Við náðum evróvision á portúgalskri stöð, en svo var útsendingin bara búin eftir að flutningi laganna var lokið, svo að það leit út fyrir að við myndum ekki ná stigagjöfinni, sem er nú skemmtilegasti hlutinn, ekki síst fyrir Halla sem er mjög kappsfullur. Við náðum svo að fara inn á gríska stöð þar sem útsending var frá stigagjöfinni og það var stemmning að heyra í grísku þulunum þegar Grikkirnir voru að fá sín stig. Trúlega ekki eins fjörlegt í íslensku útsendingunni.

 

 

Kátir krakkar

Heimilisfaðirinn er kominn aftur með myndir í farteskinu sem ég ætla að deila með ykkur. Hann var í vinnuferð í norðaustur Namibíu í síðustu viku, að skoða leikskólamál á svæðinu því hann er að vinna verkefni í þeim geira. Ríkið kostar menntun grunnskólabarna, en ekki leikskóla og því eru þróunarsamvinnustofnanir og sjálfstæðar hjálparstofnanir að vinna mikið í þeim geira hér. Þau eru mörg sæt krakkarnir hér í landi.  

 

Svo verða þau ákaflega kát þegar þau fá að sjá mynd af þeim sjálfum í myndavélinni, það vekur alltaf kátínu.

Flottur gaurHér er t.d. einn rosalega flottur lítill gaur. Það er mjög erfitt að segja til um aldur krakka, en þau eru vanalega mun smágerðari en íslensku hraustleikabörnin sem við erum vön.















Leikið í sandinum
Svo er náttúrulega leikið í sandinum.












Fótbolti á fullu

Ef þið rýnið vel í þessa mynd, má sjá krakka við fótboltaiðkun. Hægt er að stækka myndina með því að klikka á hana.

 

 

 

 

 

 

Flott þak?

Fólk býr annað hvort í bárujárnskofum, þ.e. það sem er betur sett eða í kofum úr trjágreinum. Hér hefur einhver bætt um betur og gert svona voða fínt þak úr klifurjurtum.

 

 

 

 

 

Leikskóli undir beru

Aðstaðan í leikskólum er mjög mismunandi, hér er einn leikskóli sem er úti undir beru lofti, en þó í skugga undir tré.

 

 

 

 

 

 


Laugardagsmorgunn

Nú er laugardagur og Dabbi fór út í búð í morgun og keypti nýbakað brauð fyrir okkur í morgunmat. Svo fórum við öll í fyrsta skipti á laugardagsmarkaðinn, þar sem við keyptum ákaflega ljúffengan, heimagerðan ost og ólvívur. Í framtíðinni getum við keypt þar grænmeti og annað ljúfmeti fyrir heimilið. Svo keypti heimilsfaðirinn sólblómablómvönd handa elskunni sinni á 70 kall, sem var reyndar orðinn hálf laslegur þegar heim var komið. Hann prýðir samt matarborðið úti núna. Svo fjárfestum við í kubbakassa handa litlu drengjunum sem er heimagerður, með stafi og tölustafi og þessháttar og hægt að snúa kubbunum og raða saman í orð og reikningsdæmi. Hann kostaði 1000 kall. Davíð hélt að hann væri gerður á einhverju sambýli en strákurinn sem var að selja hann hafði reyndar gert hann sjálfur. Þetta er mjög sjarmerandi leikfang sem við erum öll ánægð með, og kemur sér efalaust vel við lestrarkennslu í náinni framtíð.

Svo var farin ferð í leikfangaverslun og allir drengirnir fengu dót, lego og baðdót. Við tókum nú ekki of mikið með okkur frá Íslandi, en getum kannski fengið sent með ferðalöngum sem leggja leið sína hingað til okkar.

Eftir að hafa stússast í smá framkvæmdum hér innan húss, og litlu drengirnir farnir að sofa, fórum við þrjú í vist og Haraldur vann eins og hans er vani. Nú sitjum við hjónin hér úti í sólinni og bíðum eftir að litlu drengirnir vakni.

Leja missti barnapössunina sína síðustu helgi. Vinkona hennar sem hafði passað Santiago, fjögurra ára son hennar, var barin illa af eiginmanni sínum, og m.a. reif hann m.a. úr henni eyrnarlokk í gegnum eyrað. Sú hafði áður haft langt, flott hár og hafði svo fengið sér ofurstutta hárgreiðslu til að hann gæti ekki dregið hana á hárinu. Eftir þessa uppákomu ákvað hún að skilja við manninn sinn og flytja til systur sinnar. Leja var eyðilögð, en heimilsofbeldi er mjög algengt hér. Við höfðum nú rætt um að það væri bara hollt fyrir Santiago að fara á leikskóla, en hún hafði ekki haft efni á því. Hann byrjaði á föstudag og við borgum leikskólagjöldin. Við vorum búin að ræða að gera það hvort eð er, en þau eru 1850 kr. á mánuði. Manni finnst það nú bara vera skítur á priki á íslenskan standard, en það er heilmikið fyrir fólk sem varla hefur til hnífs og skeiðar.

Við vorum einmitt að ræða fjármálin hennar í vikunni og hún sagðist vera ákveðin í því að kaupa líftryggingu handa fjölskyldunni þegar hún hefði meira svigrúm, c.a. eftir svona þrjá mánuði. Hún á líka strák sem heitir Lionel og er 21 árs gamall. Hún orðaði það svo sérkennilega: Hvernig á ég að borga fyrir kistuna og svona ef að Lionel deyr? - Maður er ekki vanur því að foreldrar séu að spá í dauðdaga barns sem er bara 21 árs gamall. Hér er veruleikinn annar en heima á Fróni og það er áhugavert að fá innsýn inn í líf fólks, enda finnst mér mjög gaman að spjalla við hana, Hún er ótrúlega dugleg og er mjög glöð að fá vinnu eftir tæplega fimm ára atvinnuleysi. Enginn er glaðari en ég yfir því samt. Nú var verksmiðja að loka sem rekin var af malasíumönnum og um 5000 enn eru atvinnulausir og upplitið er dauft yfir heimamönnum.

Nú eru dregirnir vaknaðir og ég verð að þjóta.


Af kóngulóm og kvikindum


kónguló
Hér er eintakið sem nú er uppi á svefnherbergisvegg (ég set þessa mynd inn sérstaklega fyrir þig, Bobbie!).
 
Það hefur allt verið vaðandi í kóngulóm upp á síðkastið. Dabbi þykist vera svalur og vildi ekkert vera að drepa þær því að þær drepa önnur kvikindi hér innan húss. Hann varð nú ekkert hrifinn þegar ein var að skríða á honum þar sem hann sat í sófanum í stofunni og svo var þetta farið að keyra um þverbak því þær voru inn um alla skápa og manni dauðbrá við að finna þær hér og þar.

Óskar hefur verið mjög duglegur við að murka lífið úr þeim, en gallinn er að þær eru ákaflega snöggar enda komst ég að því eftir rannsóknir á netinu að þær gera sér ekki vef til að afla sér matar, heldur elta fórnarlömbin uppi og stökkva á þau. Það passaði einmitt við snerpuna á þessum kvikindum. Reyndar venjast þær og maður er hættur að kippa sér upp við að sjá þær.

Nú er Halli búinn að vera að læra um lindýr í skólanum og er búinn að greina þessa tegund sem hann telur vera the common house spider. Og alveg pottþétt eitruð. Pottþétt.
 
Ég stóla nú reyndar á frekar á hana Leju, sem segir að þessar geti ekki bitið mann nema að þær verði þeim mun stærri. Mér finnst þessar nú reyndar nógu stórar. Leja hins vegar fann eina sem henni leist ekki á úti í guavatrénu við snúrurnar. Sú átti að vera eitruð, en fannst svo ekki aftur þegar til átti að taka. Við sýnum bara aðgát.
 
Leja er útsjónarsöm þegar kemur að því að fæða fjölskylduna, og fær einmitt guava af trénu með sér heim þegar þau hafa náð þroska. Hún er í samkeppni við þessa líka hlussufugla, sem eru gráir að lit og með brúsk upp af hausnum. Maggi frændi getur greint þá þegar hann kemur í heimsókn. Þeir amra eins og lítil börn þarna í trénu þegar síst varir svo manni dauðbregður. Og éta ávextina hennar Leju. Hún er heldur ekki mjög hrifin af fuglunum, hefur ekki beint hallmælt þeim en sagði...ooooh, that´s a biig bird..
 
Svo hefur hún líka farið heim með poka fullan af límónum af límónutrénu, sykur í poka og tómar djúsflöskur frá strákunum, til að gefa litla stráknum sínum límónaði. 
 
Nú er aðeins farið að kólna og ekkert hefur borið á stóru maurunum í stofunni (kannski eru kóngulærnar að vinna vinnuna sína), en þessir litlu eru alltaf jafn hressir. Stebbi var að dandalast með afgang af nestinu sínu í boxi sem hann skildi eftir inni í herbergi og eftir aðeins smátíma var það orðið iðandi af maurum sem voru farnir að gæða sér á brauðinu og salami. Þetta venst bara og maður er ekki að skilja eftir mat um húsið. Nú virðast allar moskítóflugurnar vera horfnar á brott þessa síðustu vikuna og við fullorðna fólkið verulega ánægð með það.

Kuka í ræktinni

Ég byrjaði í ræktinni í síðustu viku eftir allt of langt hlé. Fór í fyrsta tímann minn hjá þjálfara sem heitir Kuka en hún var í strengjabuxum sem skárust upp í rassinn. Okkur Halla fannst nafnið vera mjög viðeigandi þegar tekið var tillit til formsins sem ég er í. Kannski fæ ég mér einhvern tímann svona buxur, var líka að spá í að senda Lindu einar og sjá hvort að þær slá ekki í gegn í Hress.

Strandlífið í Swakopmund

Í sjónum 2
Þá var haldið á ströndina á föstudaginn, til Swakopmund, sem er í þriggja tíma keyrslu í vesturátt frá Windhoek. Landslagið er mjög fjölbreytt, og er farið úr grónu fjalllendi í gegnum eyðimörk þegar maður nálgast ströndina. Hér eru víðáttur miklar, sem hentar íslenskum smekk. Ég gat ekki varist þeirri hugsun að gaman væri að spretta þarna úr spori á góðum hesti. Barnatónlist og leikrit eru spiluð í bílnum til að stytta stundir, og það var dálítið súrrealískt að þeysast í gegnum eyðimörkina í bifreið með ríðum heim til Hóla sem hljómaði í tækinu.



 
Stiklað á stóru
Swakopmund er mun stærri bær en ég hafði gert mér í hugarlund, en það eru margir sem eiga þar heilsárshús og þau standa því auð einhvern hluta ársins. 

Atlantshafið er svellkalt allt árið um kring, en Halli lét sig ekkert um það muna og lék sér í öldunum. Óskar fór aðeins út í líka, sem og Stefán sem bleytti sig aðeins, þó að það hefði nú ekki verið gert með ásetningi. 


Hér er Óskar að leika sér á stiklum upp að einu húsanna við ströndina.
 

Á bryggjunni í Swakopmund
Það er mikið mistur við ströndina fram eftir morgni, sem hádegissólin rekur svo í burtu. Það er því dimmt yfir framanaf. Hér eru félagarnir Dabbi og Óskar á bryggjunni.










Sandkastali í Swakopmund
 Svo var náttúrulega leikið í sandinum og byggðir kastalar, Halli lék fótbolta við föður sinn í flæðarmálinu á meðan.
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
Stefán í sandinum
 
 
Stebbi stóð á ströndu og það var stuð!
 
 
 
 
 
 
 
Nú er Dabbi farinn í nokkurra daga vinnuferð norður í land og lífið gengur sinn vanagang hjá okkur hinum Ég vinn inn á milli þess sem ég sinni drengjunum sem voru bara ánægðir að byrja í skóla og leikskóla eftir þessa góðu pásu.
 
 
 
 

Labbitúr í Dan Viljoen

 

Pása í Dan Viljoen

Nú er löng helgi framundan hjá okkur. Strákarnir eru í fríi frá skóla og leikskóla frá fimmtudegi fram á þriðjudag. Í morgun skruppum við aðeins út fyrir borgina til að fá okkur labbitúr í náttúrunni. Við settum sólhattana, sólarvörnina, djús og snakk í bakpokann og héldum í Dan Viljoen game park. Hann er um 20 km. fyrir utan borgina.

 

Þar fórum við í göngutúr um uppþornaðan árfarveg, hér eru strákarnir að taka pásu frá göngunni.

 

 

 

 

Nestispása í Dan Viljoen

 Svo tókum við náttúrulega nestispásu líka, drukkum djúsið og fengum okkur kex og snakk.

 

 

 

 

 

 

Útsýni yfir borgina

Síðan fórum við í bíltúr um svæðið og sáum apa, gíraffa, springboek og  wildebeest sem starði furðu lostið á ferðalangana frá Íslandi. Svæðið er stutt frá borginni og á stöku stað er hið besta útsýni yfir borgina eins og sjá má ef rýnt er vel í myndina. 

 

 

 

 

Pikk nikk svæðið í Dan Viljoen

Að lokum stoppuðum við á útivistarsvæðinu þar sem fyrirtaks aðstaða er til að borða nesti, grilla og fyrir börnin að teygja aðeins úr sér. Þarna er Stefán að prófa hvað borðin eru traust.

Á morgun ætlum við að halda niður á strönd og vera tvo daga í Swakopmund. Allir hlakka mikið til að sjá sjóinn og fá að dýfa tánum í Atlantshafið. 

 

 

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband