Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2008

Af kóki og kexi

Hér á heimilinu er tiltölulega rólegt, að því undanskildu að Stefán er með mótþróa og vill ekki taka miðdegisblundinn sinn. Óskar sefur rótt og blítt og Davíð flaug í dagrenningu til Outapi í norður Namibíu á vegum vinnunnar. Mamma og Halli lögðu á svipuðum tíma af stað í ferðalagið frá Íslandi til Namibíu. Hér er mikil tilhlökkun að fá Halla heim og ömmuna í heimsókn í tvær vikur. Þau koma til landsins í fyrramálið.

Veðrið er orðið alveg frábært aftur, og svo virðist sem veturinn sé genginn um garð. Á kvöldin er aftur orðið sæmilega hlýtt og gott og hitinn yfir miðjan daginn er um 22 stig. Alveg mátulegt. Við höfum tekið þessari hlýnun fagnandi, en það er skrýtið til þess að hugsa að maður á efalaust eftir að sakna svalans þegar heitast verður í sumar.

Þegar við fórum um Omusati héraðið í ferðinni okkar, og í gegnum Outapi, fórum við Andrea í kjörbúð. Við útganginn situr öryggisvörður sem fer vandlega í gegnum allt í pokunum manns og merkir samviskusamlega við allar vörurnar, eina af annari, á strimlinum úr kassanum. Þetta er einnig víða gert í höfuðborginni, en þar er þó áberandi að hvíta fólkinu, sem er líklegra til að eiga peninga, er oftar hleypt í gegn athugasemdalaust. Oft er verið að leita á þeldökkum viðskiptavinum á leið út úr búðum. Búðarhnupl er nokkuð algengt, og einnig verður maður að hafa varann á því að maður rekst á það að búið er að opna pakka í búðunum, t.d. snakkpoka eða kexpakka þar sem einhver hefur verið að fá sér í svanginn inni í búðinni.

kók 1

Vöruúrvalið af neysluvöru í þessari búð fyrir norðan var nú ekki mikið, en mest þó af vefnaðarvöru. Hjá drykkjunum var þó að finna sjálfa holdgervingu vestrænnar neyslumenningar, kók. Og það hálfs líters í glerflösku. Ég keypti flöskuna sérstaklega, ásamt kexi og snakki og fleiri drykkjum. Nú átti að taka heimildarmynd af kókneyslu í bílnum. Ég byrjaði á því að taka mynd af Halla með flöskuna, en það reyndist þrautin þyngri því það voru svo mikil hopp og læti í bílnum af því að við vorum að keyra holóttan vegarslóða. Þessi mynd kom best út eftir að margar tilraunir voru gerðar ...

 

 

 

 

 

 

kók 2

..og svo tók ég fleiri myndir af bílstjóranum sem einnig fékk sér sopa

 

 


Sossusvlei


soss 5
Sossusvlei er vinsælasti ferðmannastaður Namibíu. Þetta er saltslétta í Namib eyðimörkinni og þarna eru sandöldur af öllum stærðum og gerðum. Þær eiga einnig að vera þær stærstu í heimi.
 
Sossus á að þýða staðurinn sem enginn snýr til baka frá og vlei þýðir sandalda.  Flestir reyna að koma þangað í dagrenningu að sjá sólaruppkomuna í þessu ótrúlega umhverfi. Við vorum nú ekki svo metnaðarfull, heldur slöppuðum af í náttstað og komum um miðjan morgun. Hér verður efalaust óbærilega heitt yfir sumarið, því að þó að það væri hávetur, þá var ansi heitt, og sérstaklega þegar við fórum að brölta upp sandöldur.
 
 
 
soss 4
Við byrjuðum á einni nettri sem hér sést. Eða ætti ég að segja að strákarnir byrjuðu á einni. Hér eru Halli og Hrafnkell á leiðinni upp. Við hin tókum nestispásu og horfðum á kappana klífa fjallið.
 









soss 2
Þessir félagar fóru líka í smá sandöldugöngu, hér eru Gunnar og Óskar á leiðinni upp....
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
soss 1
...og svo tóku þeir smá pásu, og lágu sem dauðir væru í sandinum.
 
Fyrir utan þessa fjóra og Kára að auki sem fór upp á topp, ákvað doktorinn að klífa ölduna góðu. Hann lagði af stað þegar eldri strákarnir voru komnir upp, og sagðist ætla að "kíkja upp líka". Hann stökk af stað eins og springbok í blóma lífsins. Þegar hann var kominn svona fjórðung leiðarinnar dró vel af honum og hann líktist frekar öldnum nashyrningi. Í millitíðinni hafði bandarísk fjölskylda komið og hóf einnig göngu. Það leið ekki á löngu þar til lítil stelpa í yfirvikt tók fram úr Dabba greyjinu, sem auðsjáanlega hafði ofreynt sig á fyrstu metrunum.
  
 
 
soss 3
Við hin fylgdumst með og skemmtum okkur konunglega, og eins og sjá má, skín kátína úr hverju andliti.
 
Við vorum ekki alveg eins borubrött þegar við byrjuðum sjálf að klifra sandinn. Maður stígur eitt skref og sígur svo til baka. Ekki bætir úr skák að hafa barn á öxlunum. Óskar stóð sig reyndar mjög vel, klifraði af hörku og tók svo pásur inn á milli þar sem hann faðmaði sandinn og móður jörð af innlifun.
 
 
 
 
 
 
soss 6
Hér er Kári á toppnum á tilverunni. 
 
 
 
 

Fótboltastjörnur fæðast


fótbolti 4
Við fórum í dag í stórverslun til að kaupa inn fyrir heimilið. Litlu drengirnir kunna ágætlega að meta slíkar ferðir, Stefán sat í stórri kerru og Óskar fékk að ýta lítilli kerru á undan sér sjálfur og við tíndum vörur í hana. Hann stóð sig bara vel og klessti ekki oft á, þó að það hafi stundum skapast smá umferðaröngþveiti þar sem hann hefur ekki mjög djúpan skilning á umferðarmenningu innan stórverslana.
 
Við keyptum lítil fótboltamörk handa drengjunum til að fara að rækta fótboltahæfileikana og fórum í ljósaskiptunum til fótboltaiðkunar úti í garði. Þeir sýndu góða takta, eins og sjá má. Óskar var þó öllu fagmannlegri en litli bróðir sinn, enda hefur hann verið í þjálfun hjá Halla bróður sinum.
 
 
fótbolti 5
Til marks um þetta má nefna að Stefán, sem átti að fara í mark, lagðist inn í það í makindum. Þar að auki finnst honum líka eðlilegra að taka boltann með höndunum og kasta honum en að vera að vesenast þetta með að sparka endalaust.

 


Óskar er hins vegar orðinn nokkuð skotfastur, og við bindum vonir við að Halli fari að stjórna fótboltaæfingum úti í garði í nánustu framtíð. Hans er von heiman frá Íslandi á fimmtudag, en við hlökkum öll óstjórnlega mikið til að fá hann aftur til okkar.





fótbolti 1

Twyfelfountain

 
Twyfel2Við keyrðum frá Opuwo niður til Twyfelfountain á einum degi. Þetta er í útjaðri Kunene héraðsins, en það er að stórum hluta illfært. Hér gefst ferðalöngum færi á að sjá villt dýr í eiginlegum heimkynnum sínum, þar sem þau ráfa frjáls um, en það eru ekki margir staðir í Afríku sem geta boðið upp á slíkt. Á flestum stöðum fara ferðalangar inn fyrir mörk þjóðgarða þegar skoða á villt dýralíf. Við sáum fjöldan allan af sebrahestum (sumir gætu hafa verið eyðimerkursebra, við vorum bara ekki nógu fróð til að þekkja þá í sundur), antílópum af öllum gerðum, strúta og svo sjakala. Stjórnun villts dýralífs þarna er mjög áhugaverð, en doktorinn getur sagt áhugasömum allt um það, þar sem hann gerði mastersrannsókn sína í auðlindafræði á þessum slóðum, einmitt um slíka stjórnun.

Við stoppuðum ekki oft á leiðinni, en hér eru Halli og Kári reyndar í stoppi við vegaskilti þar sem við snæddum nesti og gáfum ferðalangi líka í svanginn.



Twyfel1

Landslagið breyttist mikið á leiðinni, er mjög myndrænt og opið og var oft glettilega líkt Íslandi, en maður hefur að sjálfsögðu tilhneygingu til að bera það saman við það sem maður þekkir best.

Við vorum mjög heppin en þegar við komum á áningarstað í Twyfelfountain, þá voru eyðimerkurfílar að fá sér að drekka við vatnsbólið. Þeir eru afbrigði af sléttufílum (African bush elephants), og þola þurrk sérstaklega vel. Ég las nú einhvers staðar að þeir væru líka eilítið stærri, og það þýðir væntanlega að þetta eru stærstu landdýr veraldar. 

Þarna er ævintýralega fallegt.

 

Twyfel3

Gististaðurinn var líka ævintýri líkastur, hér eru strákarnir að nýta  síðustu geisla síðdegissólarinnar, og eru að skella sér út í sundlaugina.

 

 

 

 

 

 

Twyfel4

Twyfelfountain þýðir ótryggur brunnur, en þarna er vatnsból sem þornaði upp yfir þurrkatímann. Staðurinn er þekktastur fyrir steinristur sem gerðar voru af San fólki fyrir um 5 til 20 þúsundum ára. San fólkið er eini hópurinn í Namibíu sem hefur stöðu frumbyggja í landinu, þrátt fyrir þann fjölda hópa sem nú byggja landið. Staðurinn er nú friðlýstur og er þetta líkt og að koma í risastórt safn sem er utandyra. 

Steinristurnar segja ýmsar sögur, og hafa varðveist ótrúlega vel í allan þennan tíma. Þegar maður sér ummerki um þessa fornu menningu fer maður ósjálfrátt að velta fyrir sér stöðu San í namibísku samfélagi í dag, en þeir staða þeirra er mjög bágborin. Meira um það síðar.

 

Twyfel5 Sumir höfðu nú meiri áhuga á að skoða smásteina og leika með þá en einhverjar æfagamlar myndir á steinum.

 

Þrátt fyrir að nú væri vetur var góður hiti þarna, enda er þetta eiginlega eins og ofn þarna í eyðimörkinni. Leiðsögukonan sagði okkur að hitinn færi yfir 50 stig á sumrin.  Ég hygg að það væri nú aðeins of mikið fyrir viðkvæma Frónbúa.


Sveitaferð


Jenny2
Við skruppum í sveitaferð í dag, en Jenny, skrifstofustjórinn hjá ICEIDA á landskika stutt frá Windhoek þar sem hún eyðir helgunum með fjölskyldunni. Þau hafa kindur og við fórum að heimsækja þau nú í morgun. Aðaltilgangur ferðarinnar hjá okkur var að skoða lömbin.
 
Kindurnar eru nú aðeins öðruvísi en heima. Hér heldur Óskar á mórauðu lambi. Ullin er stríð, enda myndu þær festast í kjarrinu ef þær hefðu ullarlagð eins og íslensku kindurnar. Þessar eru ræktaðar fyrir kjötið. Eyrun eru lafandi og dindillinn langur. Lömb eru nú alltaf svo yndisleg og við gátum kjassað þau að vild.
 
 

traktor
Þau eru með 76 kindur og lömb, eitt lambanna dó reyndar úr kulda um daginn þegar kaldast var. Ærnar bera tvisvar á ári og eru þær jafn litskrúðugar og hinar íslensku systur þeirra.

Strákarnir fengu að taka í traktorinn. Svo fórum við í stutta gönguferð um skikann. Bavíanar gera stundum mikinn usla, með því að skemma girðingar og fleira. Nú voru óvenju fáir bavíanar því að það hefur verið hlébarði í nágrenninu og þá halda aparnir sig í fjarlægð. Við sáum einmitt hlébarðaspor í sandinum þegar við vorum í labbitúrnum.






Jenny3Við tókum með okkur nesti, nýbakað brauð og ýmis konar álegg, drykki og fleira og snæddum undir beru lofti. Það var frábært að fá tækifæri til að komast aðeins út úr bænum og fyrir strákana að spretta aðeins úr spori úti í náttúrunni. 
 
Hér er Jenny í makindum við nestisborðið.

Bakaradrengirnir


Baka2
Við tókum okkur til núna síðdegis eftir að Stefán hafði vaknað af blundinum sínum, og bökuðum múffur til að hafa með eftirmiðdagskaffinu.
 
Hér er mynd af öðrum bakarameistaranum sem passaði formið (notaði það reyndar sem hatt). 
 
 
 
 
 
 
 
 
baka3
Hér er hinn bakarameistarinn sem var ábyrgur fyrir að hræra í kökuna.
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
Baka1
Hér eru múffurnar konmar inn í ofn og eitthvað af deiginu komið upp í munn. Drengirnir eru í þessum glæsilegu svuntum sem amma þeirra gaf þeim.
 
Nú eru múffurnar inni í ofni og bökunarlyktin fyllir húsið. Við teljum mínúturnar þangað til að við getum farið að gæða okkur á múffum og mjólk. 

Join us og fleiri góðir barir

Namibía er rúmlega 825 þúsund ferkílómetrar, og í því búa rétt tæplega tvær milljónir manna. Það er því eilítið strjálbýlla en Ísland og í veröldinni allri er einungis Mongólía strjálbýlla. Það er því gott fyrir Íslendinga með sitt víðáttubrjálæði að ferðast í Namibíu. Mikill hluti landsins er ákaflega harðbýll og fáir lifa í suðurhlutanum, sem er að miklu leyti eyðimörk. 60% landsmanna búa norðan Etohsa og ef að Windhoek og svæðið norður af því er talið með, þá búa þar um 80% landsmanna.

Þegar komið er norður fyrir Etosha, er komið í Owamboland sem er kallað menningarlegt hjarta Namibíu. Þegar við fórum þarna um var orðið mjög líflegt að keyra í gegn, og margt fólk að fara meðfram veginum í ýmsum erindagjörðum. Sumir voru bara í stuði og dönsuðu með vegarkantinum. Sumir voru að sækja vatn, aðrir að gæta geita, og enn aðrir að koma af fótboltaleik. Við fórum í gegn á sunnudegi og keyrðum framhjá þremur fótboltaleikjum, en það virðist auðsjáanlega vera afþreyingin á sunnudögum. Mikill fjöldi fólks var þar samankominn, og við sáum smá eftir að hafa ekki stoppað til að fylgjast betur með. 

asni

Svo er náttúrulega mikið af dýrum sem fara yfir veginn eins og þetta asnagrey. Einnig má sjá ummerki regntímans, en það var mikið af vötnum hér og þar, og margir sem voru að veiða fiska með tágakörfum sem þeir setja yfir fiskinn niður í vatninu. Fiskurinn er svo seldur við vegarkantinn, hengdur þar upp í greinar.

 

 

 

bar1

Skondnustu húsin og of þau sem mest er lagt er í, eru barir. Þá er að finna mjög víða við veginn. Það sem einnig vekur athygli er að nafngiftin á börunum er oft mjög skrautleg, eins og Come Happy Bar (vonandi fer maður ennþá meira happy). Ég tók nokkrar myndir til að sýna barina, hér er t.d. Toola Silver Mines Bar...

 

 

bar2

..þessi heitir This Night Bar..

 

 

 

 

 

bar3

..og þessi bar heitir Join Us Bar, hvernig er hægt að standast slíkt boð?


Operation Red Wasps

Í gærkvöldi eftir sólsetur hófst aðgerðin rauðar vespur.

Neðst í garðinum hafa rauðar vespur verið að hreiðra um sig, og af þeim sökum höfum við ekkert verið að nota neðsta hluta garðsins. Þetta eru skaðræðiskvikindi, og stungur þeirra eru víst sérstaklega sársaukafullar. Ein namibísk vinkona okkar sagði... Já, einmitt. Rauðar vespur. Við segjum eiginlega ekki að þær stingi, heldur bíti, því það er svo sárt!

-Við Frónbúar erum nú sérstaklega varkárir varðandi skorkvikindi, og við vildum helst að garðyrkjumaðurinn sæi um vandamálið. (Það er garðyrkjufyrirtæki sem sér um garðinn, en það er innifalið í leigunni). Hann er víst búinn að vera að humma það fram af sér í mörg ár, enda eru allir logandi hræddir við þessi kvikindi. Húshjálp sem starfaði í húsinu fyrir nokkru síðan sýndi mér ljótt ör sem hún hafði fengið eftir eina stungu, en hún stokkbólgnaði á allri hendinni. Vespurnar hafa sumsé verið þarna í mörg ár, og við ákváðum því að taka til okkar ráða. Vanalega eru vespubúin brennd þegar myrkur er, því þá eru þær allar í rólegheitum inni í búinu.

Við hjónin röltum því niðureftir í myrkrinu í gærkveldi, vopnuð löngum kyndli, tveimur gerðum af skordýraeitri, grillvökva, stiga, grillbakka og slökkvitæki (allur er varinn góður). Búin reyndust vera þrjú, og við byrjuðum á að eitra þau í bak og fyrir (las svo reyndar á netinu að þessi kvikindi væru sérstaklega þolin gagnvart skordýraeitri, en það var bara gott að við vissum það ekki). Svo klipptum við búin niður, létum þau detta í grillbakkann, úðuðum grillvökva yfir og kveiktum í. Það logaði vel, og það voru bara tvö kvikindi að þvælast eitthvað í kringum búin, sem við kveiktum í með kyndlinum.

Aðgerðin heppnaðist því með ágætum og við erum hæstánægð með árangurinn.


Þjóðargersemin Etosha


Etosha 4
Við heimsóttum Etosha þjóðgarðinn, þjóðargersemi Namibíu. Þegar garðurinn var stofnaður upp úr aldamótum var Namibía þýsk nýlenda. Þá var hann á stærð við Ísland og var stærsti þjóðgarður heims. Í dag er hann er rúmlega 22 þús. km. Leiðsögubækurnar segja að hann sé hvað besti staður Afríku til að sjá villt dýralíf, og það er efalaust ekki ofsagt.
 

 
  

Etosha 8
Ferðalangurinn hefur nokkuð frjálsar hendur því að þarna getur maður keyrt um (á vegum, að sjálfsögðu) að vild, þó að ekki megi fara út úr bílunum af augljósum ástæðum. Enginn vill jú vera étinn af ljónum. 
 
Dýrin hafa vanist umferð og maður kemst mjög nálægt þeim, eins og sjá má. Myndirnar gefa lítilsháttar innsýn inn í hvað má upplifa í Etosha.

Umferðin var lítil enda var aðal ferðamannatíminn ekki hafinn. Maður fær aðeins á tilfinninguna að vera einn í Eden.
 
 
 
Ethosa 1
Mikill hluti þjóðgarðsins einkennist af saltþöku en þarna var mikið vatn til forna, sem verður svo aftur til yfir regntímann. Hann var óvenju gjöfulur í ár, svo að hún var enn þakin vatni þegar við áttum leið hjá. San sagnir segja að vatnið hafi orðið til er kona missti barn sitt og grét hún svo óstjórnlega að risastórt vatn myndaðist og saltið úr tárum hennar varð eftir þegar tárin þornuðu. Sú skýring hentar okkur Íslendingum náttúrulega miklu betur en einhverjar skraufþurrar landfræðilegar skýringar.
 
 
 
 
 
 
 
 
 
  
Etosha 9
Við sáum einnig sjakala og fjölda antílópa og þessa jarðíkorna sem eru frændur þeirra sem hafast við í bakgarðinum hjá okkur. Þá er fuglalíf afar ríkt, ekki síst þegar það er enn vatn á saltþökunni. Mikið er um strúta, sem eru mjög flottir.
 
Fyrstu nóttina gistum við utan við garðinn, og gátum því notað heilan dag inni í garðinum. Svo gistum við í Halali, sem er kampur í miðjum garðinum. Þar var alveg fyrirtak að vera, og við hvern gististað eru vatnsból sem dýrin koma að til að svala þorstanum. Fólk situr andaktukt og bíður eftir að dýrin birtist út úr runnagróðrinum, og segir ekki orð því að hávaði getur vitanlega fælt dýrin burtu.
 
 
 
Etosha 10
Við kíktum á vatnsbólið þegar sólin var að setjast. Það fyrsta sem Óskar gólaði með sinni einstaklega sterku rödd var: MAMMA, SJÁÐU, ÞARNA ER SUNDLAUG!!! og benti að vatnsbólinu. Við hlutum ófá illskuleg augnaráð frá þeim gestum sem voru þarna komnir til að berja dýrin augum. Sumir eru þarna tímunum saman og koma með kaffi á brúsa til að halda sem lengst út.

Við sáum því að þetta væri kannski ekki alveg hentugasti staðurinn fyrir blessaða drengina, en á myndinni er sólin að ganga til viðar og drengirnir að mæna út á afrísku sléttuna við vatnsbólið.




Etosha 3
Við skiptum aðeins liði um kvöldið og Andra og Haddi fóru upp að vatnsbóli á meðan við vorum með drengjunum. Þau sáu nashyrning. Við Dabbi fórum svo saman, og sáum ekkert nema hvort annað og kappklædda þýska túrista. Það var engu líkara en að þeir væru allir að fara í jöklaferð á Íslandi, í goritex með húfur og hanska. Þetta var á laugardagskvöldi og í næturhúminu barst þessi fína partýtónlist frá hýbýlum þjónustufólksins sem var þó í nokkurri fjarlægð, ekta afrískur söngur.



Ethosa 2
Seinni daginn notuðum við til að koma okkur í rólegheitum út úr garðinum og við síðasta vatnsbólið sem við stoppuðum var 16 fíla hjörð og gíraffar í massavís. Fílsungarnir eru ótrúlega flottir.

Það er nú dálítið skrýtið að sjá þessi massífu dýr drekka, og það án mikilla láta. Við vorum nokkuð nálægt, og vorum að bisast við að halda þögn í bílnum. Við gáfum drengjunum snakk og nammi að maula, og eftir smástund var farið að hrópa NAMMI!....súpa!... hvar er geimbojinn minn? -Maður sá fyrir sér að annað hvort myndi öll hjörðin flýja út í buskann eða að óður fíll kæmi að trampa á bílnum með geimboj og öllu.



Etosha 6Til þess kom þó ekki og þessi glæsilegu dýr drukku nægju sína og hurfu svo á brott, ótrúlega hljóðleg.
 
Á leiðinni út um norðurhliðið voru miklar hjarðir af dýrum á sléttunni, m.a. af wilderbeest, sem eru glæsileg dýr. Ég bjóst hálfpartinn við að nafni hans Dabba, Attenborró myndi spretta upp úr skrælnuðu grasinu segjandi... here, midst in unspoiled Namibia these manificent animals graze under the burning African sun.... 

Brrrr

Á meðan sumarið nær hámarki á Íslandi er hávetur hér í Windhoek. Í morgun var allt hrímað í garðinum og húsið er hrollkalt. Allar sængur og teppi hafa verið tekin í notkun og við erum í flíspeysum hér innandyra. Í morgun þegar ég skrapp til slátrarans var ekki ólíkt því að vera á fallegum haustmorgni á Íslandi, gufa kemur úr vitum fólks og allir eru dúðaðir. Nú er sólin þó farin að hita, en hitinn á að ná upp í 20 yfir hádaginn skv. spám.

Einhver staðarmaður hélt því fram að nú um helgina væri veturinn hér í Windhoek, og að vanalega væri fyrsta helgin í júlí hámarkið og að veðrið snerist til betri vegar eftir það. Við eigum eftir að sjá til hvernig sú spá rætist.

Óskar og Dabbi skruppu í bíó, þetta verður í annað skipti sem Óskar fer í bíó, en hann fór einu sinni á Íslandi með frænkum sínum. Við Stefán tökum því rólega á meðan hér heima við.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband