Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2008
Af kóki og kexi
23.7.2008 | 13:59
Hér á heimilinu er tiltölulega rólegt, að því undanskildu að Stefán er með mótþróa og vill ekki taka miðdegisblundinn sinn. Óskar sefur rótt og blítt og Davíð flaug í dagrenningu til Outapi í norður Namibíu á vegum vinnunnar. Mamma og Halli lögðu á svipuðum tíma af stað í ferðalagið frá Íslandi til Namibíu. Hér er mikil tilhlökkun að fá Halla heim og ömmuna í heimsókn í tvær vikur. Þau koma til landsins í fyrramálið.
Veðrið er orðið alveg frábært aftur, og svo virðist sem veturinn sé genginn um garð. Á kvöldin er aftur orðið sæmilega hlýtt og gott og hitinn yfir miðjan daginn er um 22 stig. Alveg mátulegt. Við höfum tekið þessari hlýnun fagnandi, en það er skrýtið til þess að hugsa að maður á efalaust eftir að sakna svalans þegar heitast verður í sumar.
Þegar við fórum um Omusati héraðið í ferðinni okkar, og í gegnum Outapi, fórum við Andrea í kjörbúð. Við útganginn situr öryggisvörður sem fer vandlega í gegnum allt í pokunum manns og merkir samviskusamlega við allar vörurnar, eina af annari, á strimlinum úr kassanum. Þetta er einnig víða gert í höfuðborginni, en þar er þó áberandi að hvíta fólkinu, sem er líklegra til að eiga peninga, er oftar hleypt í gegn athugasemdalaust. Oft er verið að leita á þeldökkum viðskiptavinum á leið út úr búðum. Búðarhnupl er nokkuð algengt, og einnig verður maður að hafa varann á því að maður rekst á það að búið er að opna pakka í búðunum, t.d. snakkpoka eða kexpakka þar sem einhver hefur verið að fá sér í svanginn inni í búðinni.
Vöruúrvalið af neysluvöru í þessari búð fyrir norðan var nú ekki mikið, en mest þó af vefnaðarvöru. Hjá drykkjunum var þó að finna sjálfa holdgervingu vestrænnar neyslumenningar, kók. Og það hálfs líters í glerflösku. Ég keypti flöskuna sérstaklega, ásamt kexi og snakki og fleiri drykkjum. Nú átti að taka heimildarmynd af kókneyslu í bílnum. Ég byrjaði á því að taka mynd af Halla með flöskuna, en það reyndist þrautin þyngri því það voru svo mikil hopp og læti í bílnum af því að við vorum að keyra holóttan vegarslóða. Þessi mynd kom best út eftir að margar tilraunir voru gerðar ...
..og svo tók ég fleiri myndir af bílstjóranum sem einnig fékk sér sopa
Sossusvlei
21.7.2008 | 19:40
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 19:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Fótboltastjörnur fæðast
20.7.2008 | 18:15
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 18:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Twyfelfountain
16.7.2008 | 13:15
Við keyrðum frá Opuwo niður til Twyfelfountain á einum degi. Þetta er í útjaðri Kunene héraðsins, en það er að stórum hluta illfært. Hér gefst ferðalöngum færi á að sjá villt dýr í eiginlegum heimkynnum sínum, þar sem þau ráfa frjáls um, en það eru ekki margir staðir í Afríku sem geta boðið upp á slíkt. Á flestum stöðum fara ferðalangar inn fyrir mörk þjóðgarða þegar skoða á villt dýralíf. Við sáum fjöldan allan af sebrahestum (sumir gætu hafa verið eyðimerkursebra, við vorum bara ekki nógu fróð til að þekkja þá í sundur), antílópum af öllum gerðum, strúta og svo sjakala. Stjórnun villts dýralífs þarna er mjög áhugaverð, en doktorinn getur sagt áhugasömum allt um það, þar sem hann gerði mastersrannsókn sína í auðlindafræði á þessum slóðum, einmitt um slíka stjórnun.
Við stoppuðum ekki oft á leiðinni, en hér eru Halli og Kári reyndar í stoppi við vegaskilti þar sem við snæddum nesti og gáfum ferðalangi líka í svanginn.
Landslagið breyttist mikið á leiðinni, er mjög myndrænt og opið og var oft glettilega líkt Íslandi, en maður hefur að sjálfsögðu tilhneygingu til að bera það saman við það sem maður þekkir best.
Við vorum mjög heppin en þegar við komum á áningarstað í Twyfelfountain, þá voru eyðimerkurfílar að fá sér að drekka við vatnsbólið. Þeir eru afbrigði af sléttufílum (African bush elephants), og þola þurrk sérstaklega vel. Ég las nú einhvers staðar að þeir væru líka eilítið stærri, og það þýðir væntanlega að þetta eru stærstu landdýr veraldar.
Þarna er ævintýralega fallegt.
Gististaðurinn var líka ævintýri líkastur, hér eru strákarnir að nýta síðustu geisla síðdegissólarinnar, og eru að skella sér út í sundlaugina.
Twyfelfountain þýðir ótryggur brunnur, en þarna er vatnsból sem þornaði upp yfir þurrkatímann. Staðurinn er þekktastur fyrir steinristur sem gerðar voru af San fólki fyrir um 5 til 20 þúsundum ára. San fólkið er eini hópurinn í Namibíu sem hefur stöðu frumbyggja í landinu, þrátt fyrir þann fjölda hópa sem nú byggja landið. Staðurinn er nú friðlýstur og er þetta líkt og að koma í risastórt safn sem er utandyra.
Steinristurnar segja ýmsar sögur, og hafa varðveist ótrúlega vel í allan þennan tíma. Þegar maður sér ummerki um þessa fornu menningu fer maður ósjálfrátt að velta fyrir sér stöðu San í namibísku samfélagi í dag, en þeir staða þeirra er mjög bágborin. Meira um það síðar.
Sumir höfðu nú meiri áhuga á að skoða smásteina og leika með þá en einhverjar æfagamlar myndir á steinum.
Þrátt fyrir að nú væri vetur var góður hiti þarna, enda er þetta eiginlega eins og ofn þarna í eyðimörkinni. Leiðsögukonan sagði okkur að hitinn færi yfir 50 stig á sumrin. Ég hygg að það væri nú aðeins of mikið fyrir viðkvæma Frónbúa.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 20:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Sveitaferð
13.7.2008 | 18:19
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 18:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Bakaradrengirnir
10.7.2008 | 14:50
Join us og fleiri góðir barir
8.7.2008 | 16:14
Namibía er rúmlega 825 þúsund ferkílómetrar, og í því búa rétt tæplega tvær milljónir manna. Það er því eilítið strjálbýlla en Ísland og í veröldinni allri er einungis Mongólía strjálbýlla. Það er því gott fyrir Íslendinga með sitt víðáttubrjálæði að ferðast í Namibíu. Mikill hluti landsins er ákaflega harðbýll og fáir lifa í suðurhlutanum, sem er að miklu leyti eyðimörk. 60% landsmanna búa norðan Etohsa og ef að Windhoek og svæðið norður af því er talið með, þá búa þar um 80% landsmanna.
Þegar komið er norður fyrir Etosha, er komið í Owamboland sem er kallað menningarlegt hjarta Namibíu. Þegar við fórum þarna um var orðið mjög líflegt að keyra í gegn, og margt fólk að fara meðfram veginum í ýmsum erindagjörðum. Sumir voru bara í stuði og dönsuðu með vegarkantinum. Sumir voru að sækja vatn, aðrir að gæta geita, og enn aðrir að koma af fótboltaleik. Við fórum í gegn á sunnudegi og keyrðum framhjá þremur fótboltaleikjum, en það virðist auðsjáanlega vera afþreyingin á sunnudögum. Mikill fjöldi fólks var þar samankominn, og við sáum smá eftir að hafa ekki stoppað til að fylgjast betur með.
Svo er náttúrulega mikið af dýrum sem fara yfir veginn eins og þetta asnagrey. Einnig má sjá ummerki regntímans, en það var mikið af vötnum hér og þar, og margir sem voru að veiða fiska með tágakörfum sem þeir setja yfir fiskinn niður í vatninu. Fiskurinn er svo seldur við vegarkantinn, hengdur þar upp í greinar.
Skondnustu húsin og of þau sem mest er lagt er í, eru barir. Þá er að finna mjög víða við veginn. Það sem einnig vekur athygli er að nafngiftin á börunum er oft mjög skrautleg, eins og Come Happy Bar (vonandi fer maður ennþá meira happy). Ég tók nokkrar myndir til að sýna barina, hér er t.d. Toola Silver Mines Bar...
..þessi heitir This Night Bar..
..og þessi bar heitir Join Us Bar, hvernig er hægt að standast slíkt boð?
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 16:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Operation Red Wasps
6.7.2008 | 13:21
Í gærkvöldi eftir sólsetur hófst aðgerðin rauðar vespur.
Neðst í garðinum hafa rauðar vespur verið að hreiðra um sig, og af þeim sökum höfum við ekkert verið að nota neðsta hluta garðsins. Þetta eru skaðræðiskvikindi, og stungur þeirra eru víst sérstaklega sársaukafullar. Ein namibísk vinkona okkar sagði... Já, einmitt. Rauðar vespur. Við segjum eiginlega ekki að þær stingi, heldur bíti, því það er svo sárt!
-Við Frónbúar erum nú sérstaklega varkárir varðandi skorkvikindi, og við vildum helst að garðyrkjumaðurinn sæi um vandamálið. (Það er garðyrkjufyrirtæki sem sér um garðinn, en það er innifalið í leigunni). Hann er víst búinn að vera að humma það fram af sér í mörg ár, enda eru allir logandi hræddir við þessi kvikindi. Húshjálp sem starfaði í húsinu fyrir nokkru síðan sýndi mér ljótt ör sem hún hafði fengið eftir eina stungu, en hún stokkbólgnaði á allri hendinni. Vespurnar hafa sumsé verið þarna í mörg ár, og við ákváðum því að taka til okkar ráða. Vanalega eru vespubúin brennd þegar myrkur er, því þá eru þær allar í rólegheitum inni í búinu.
Við hjónin röltum því niðureftir í myrkrinu í gærkveldi, vopnuð löngum kyndli, tveimur gerðum af skordýraeitri, grillvökva, stiga, grillbakka og slökkvitæki (allur er varinn góður). Búin reyndust vera þrjú, og við byrjuðum á að eitra þau í bak og fyrir (las svo reyndar á netinu að þessi kvikindi væru sérstaklega þolin gagnvart skordýraeitri, en það var bara gott að við vissum það ekki). Svo klipptum við búin niður, létum þau detta í grillbakkann, úðuðum grillvökva yfir og kveiktum í. Það logaði vel, og það voru bara tvö kvikindi að þvælast eitthvað í kringum búin, sem við kveiktum í með kyndlinum.
Aðgerðin heppnaðist því með ágætum og við erum hæstánægð með árangurinn.
Þjóðargersemin Etosha
5.7.2008 | 13:36
Til þess kom þó ekki og þessi glæsilegu dýr drukku nægju sína og hurfu svo á brott, ótrúlega hljóðleg.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 13:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Brrrr
5.7.2008 | 10:42
Á meðan sumarið nær hámarki á Íslandi er hávetur hér í Windhoek. Í morgun var allt hrímað í garðinum og húsið er hrollkalt. Allar sængur og teppi hafa verið tekin í notkun og við erum í flíspeysum hér innandyra. Í morgun þegar ég skrapp til slátrarans var ekki ólíkt því að vera á fallegum haustmorgni á Íslandi, gufa kemur úr vitum fólks og allir eru dúðaðir. Nú er sólin þó farin að hita, en hitinn á að ná upp í 20 yfir hádaginn skv. spám.
Einhver staðarmaður hélt því fram að nú um helgina væri veturinn hér í Windhoek, og að vanalega væri fyrsta helgin í júlí hámarkið og að veðrið snerist til betri vegar eftir það. Við eigum eftir að sjá til hvernig sú spá rætist.
Óskar og Dabbi skruppu í bíó, þetta verður í annað skipti sem Óskar fer í bíó, en hann fór einu sinni á Íslandi með frænkum sínum. Við Stefán tökum því rólega á meðan hér heima við.