Bloggfærslur mánaðarins, september 2008
Halli 9 ára
28.9.2008 | 11:16
Alþjóðlegur morgunverður
27.9.2008 | 10:29
Íþróttir og annað
13.9.2008 | 15:16
Morguninn er búinn að vera annasamur. Halli fór fyrst að spila fótboltaleik með liðinu sínu og svo fórum við á íþróttadag hjá Alþjóðaskólanum, sem strákarnir þrír ganga í. Þar var keppt í ýmsum greinum, en skólanum er skipt í þrjú lið, ljón, hlébarða og blettatígra. Þessi lið kepptu sín á milli, og einnig var keppt á milli bekkja. Halli keppti í hindrunarhlaupi, fótbolta og lekandi rörapípuburði. Ekki einu sinni spá í hvað það er. Dabbi lagði hlébörðum lið í reiptogi, tapaði einu og vann eitt. Þetta er mikil stemning, ég stefni á 60 metra hlaup á næsta ári, verð að byrja að þjálfa markvisst ekki seinna en strax. Annars ræður íþróttaandinn ríkjum og heldur minni keppnisandi en heima. Smá slagsmál í fótboltanum, en það var nú bara á milli keppenda í sama liði, svo það var ekki svo alvarlegt.
Minnstu börnin, þ.e. Óskar og Stefán voru með íþróttadag í gær og kepptu af mikilli leikgleði. Sonur hans Frankie Frederics sem er helsta íþróttahetja þeirra namibíumanna er í sama bekk og þeir. Hann var heimsmeistari í 200 metra hlaupi árið 1993 og var upp á sitt besta þegar Michael Johnson var að hlaupa sem mest og var þá annar hraðasti maður veraldar. Náði 4 ólympíumeistaratitlum og á því væntanlega margar medalíur. Frúin hans kom í skólann að sýna krökkunum medalíur og við Halli vorum græn og gul af öfund að fá ekki að sjá medalíurnar. Óskar var nú ekki hjálplegur við að segja okkur fréttir af þessum atburði. Svo erum við þrjú búin að vera að spila scrabble núna um eftirmiðdaginn, en það þjálfar Halla mikið í íslenskum orðaforða. Annars er það að frétta að Stefán er að standa sig mjög vel í koppamálunum og mun væntanlega henda bleyjunni á næstu vikum. Leja var einmitt að dáðst að honum og sagði mér af vinkonu sinni sem á þriggja ára strák sem bleytir alltaf buxurnar. "Svo ber hún hann svo mikið þegar hann pissar á sig. Og ég var að segja henni að hún ætti kannski ekki að berja hann alveg svona mikið, að hann myndi kannski frekar koma til ef þú myndir berja hann aðeins minna?" - Við vorum alveg sammála um þetta, við Leja.
Kunnugir vita nú að Leja er einn helsti máttarstólpi heimilisins. Hér er mynd af henni, þar sem hún var á milli hárgreiðslna og því með höfuðklút. Hún er í gamalli íþróttapeysu af mér, en hún fær allt sem til fellur á heimilinu, gömul föt og mat í massavís. Ég segi ykkur nú söguna af Leju seinna.
Við keyrðum hana heim í gær, með tvo plaststóla fyrir heimilið í skottinu. Hún býr í sæmilegu hverfi (miðað við allra fátækustu hverfin) í kofa sem er opinn út í báðar áttir, með strákunum sínum tveimur. Hún hefur hafið framkvæmdir við að loka honum, en gerir það smátt og smátt eftir því sem hún hefur ráð á, með aðstoð frá okkur. Hún er mjög klár og sér um fjölmarga hluti á heimilinu.
Veðrið er orðið fullkomið, ég gat reyndar ekki sofnað fyrir hita um daginn og hélt að ég væri farin að þjást af taugaveiklun því ég rauk upp í svitakófi um það bil sem ég var að festa svefn og varð að fara fram til að kæla mig. Kom svo ekki í ljós að Stebbi hafði verið að fikta við ofninn, sem er enn uppi eftir veturinn og hafði sett hann á fullt og af þeim sökum var kæfandi hiti í svefnherberginu. Dabbi svaf eins og ungabarn.
Nú mallar osso bucco í hvítvíni á vélinni og Halli horfir á fótboltann í kassanum. Leiktímabilið er hafið en við höfum ekki keypt áskrift af fótboltarásunum og því tapaði ManU í dag fyrir Liverpool, af því að Halli gat ekki veitt þeim fjarstuðning í gegnum kassann. Heimur íþróttanna er flókinn.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 15:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Á flakki meðal flóðhesta
7.9.2008 | 12:19
Er ekki alltaf málið að finna einhverja svona fyrirsögn sem með góðum hljómi og hrynjanda? Er kannski dálítið eins og séð og heyrt, eða hvað..En hvað um það, í ferðinni okkar um daginn fórum við til Mount Etjo safari lodge, sem var mjög skemmtilegur.
Umhverfið er yndislegt, en þarna er fjöldi dýra, og státa þeir meðal annars af flóðhestum, sem annars er bara að finna í Caprivi. Hér eru pelíkanar í síðdegissólinni. Við komum síðdegis og fengum okkur köku og kaffi.
Strákarnir fengu far með kerrunni sem flytur farangur gesta.
Eftir kaffið ákvað mútta að fara í smá göngutúr að kanna nánasta umhverfi og við fórum að láta renna í heita pottinn.
Þarna er mjög fallegt, eins og sést af þessari mynd sem mamma tók í labbitúrnum.
Svo sá hún líka svona krúttlegt skilti sem hún tók mynd af. Ef betur er að gáð, þá sést að þarna er verið að vara fólk við flóðhestum, en flóðhestar eru stórhættulegir og eru mannskæðustu dýr Afríku,
Það kom nefninlega í ljós að mamma hafði gengið framhjá þessu skilti á hliðinu, sem hafði verið opið þegar hún fór í síðdegisflakkið sitt. Þarna má lesa: HÆTTA, ekki má ganga handan girðingar - eða eitthvað í þá áttina.
Það hlupu allir upp til handa og fóta þegar sást til mannveru gangandi við vatnið. Björgunarleiðangur var gerður út og henni var í snatri bjargað úr þessum ógöngum. Okkur fannst þetta náttúrulega bráðfyndið, en hóteleigendum var ekki eins mikill hlátur í hug. Dabbi var svo sérstaklega beðinn um að sjá til þess að hún færi ekki á flakk aftur.
Móðir mín slapp sem betur fer óhult úr þessari lífshættu, og við gátum heyrt flóðhestana rymja og svamla í myrkrinu síðar um kvöldið.
Hér er svo mynd af strákunum að aðstoða trommuslagarann sem kallaði á gesti í mat.
Við yljuðum okkur við opinn eld fyrir matinn, og hér er aðeins farið að hitna í kolunum hjá Óskari sem tekur fyrir andlitið.
Annars er dagurinn í dag búinn að vera rólegur. Við erum búin að vera úti í garði að sulla og spila borðtennis. Ég brölti eitthvað inn í garðgeymslu og fann þar trampólín, sundurtekið. Ég hugsaði mér gott til glóðarinnar, og dró dúkinn út til að skoða hvort þetta væri hugsanlega í lagi. Það voru kóngulær út um allt, sumar eins stórar og hnefinn á Halla. Dúkurinn reyndist svo vera rifinn á festingunum svo að það verður ekkert úr hoppi hjá okkur á næstunni.
Strákarnir vöknuðu óvenju seint í morgun, eða eftir klukkan 6. Skýringuna á því er að finna í tímanum því að í nótt færðum klukkuna fram um eina klukkustund. Nú er því aftur tveggja stunda munur á Namibíu og Íslandi.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 12:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Ljónaveisla
5.9.2008 | 07:11
Tennur á ferð og flugi
1.9.2008 | 07:10
Hér eru Himbarnir sem við fórum að heimsækja um daginn. Karlinn hefur engar tennur í neðri gómi að framan. Himbarnir trúa því að þegar þeir sofi, þá fari tennurnar á flakk á næturnar og borði alls konar drasl. Því verði þær ógeðslegar og langbest að taka þær bara úr. Þær eru því slegnar úr stálpuðum strákum með hvössum steinum. Þessi skýring á því af hverju tennurnar eru fjarlægðar er að finna í menningu og hjátrú Himbanna. Nytjahyggjuskýringar eru á annan veg. Annars vegar þær að Himbarnir standa ekki mjög framarlega í tannhirðu og því séu tennurnar fjarlægðar. Skynsamlegasta skýringin er hins vegar sú að þessi hefð eigi rætur sínar að rekja til þrælatímans, og að karlar hafi síður verið líklegir til að vera hnepptir í þrældóm þegar það vantaði tennur. Þeir voru skoðaðir eins og nautgripir, með tilliti til hversu vel þeir myndu nýtast til vinnu.
Það er efalaust ekki ánægjulegt að láta slá úr sér tennurnar með steini. Einn minn besti lærdómur í viðskiptum var þegar ég seldi afa mínum augntönn fyrir pepsíflösku. Gosdrykkir voru mikið dýrindi í sveitinni, svo að það var auðvelt að múta mér með pepsí. Skrambans augntönnin ætlaði ekki að fara og var farin að vera fyrir fullorðinstönnunum sem á eftir komu. Mamma var farin að hafa áhyggjur og afi sagðist nú að hann myndi líklegast kippa tannskrattaum út. Og fyrir það átti ég að fá borgað umrætt pepsí. Svo var farið út á hlað, afi með töng og ég gapandi undir hendinni á honum. Um leið og hann er búinn að koma tönginni fyrir á tönninni finn ég að hún er bara alveg blýföst. Og ég fór að góla að ég væri hætt við. Þarna er lærdómur númer eitt. Það er stundum erfitt að bakka út úr samningum. Og stundum alveg ómögulegt. Svo tók hann til að rykkja tönninni út, sem var eins og áður segir alveg blýföst. Ég hélt að hann myndi brjóta beinið, en tönnin kom út að lokum, og ég á hana enn. Rótin er þrisvar sinnum lengri en tönnin sjálf, því að hún kom út með rót og öllu. Eftir þessi átök lærðist önnur mikilvæg lexía, og það er að maður verður að semja um sanngjarnt verð, því að jafnvel þegar tönnin var farin fannst mér ég hafa samið allhrapalega af mér að fá bara eina pepsíflösku fyrir tönnina og þennan sársauka. En ég er amk með beinar og fallegar tennur í dag. Himbastrákarnir líta trúlega á það sem manndómsmerki þegar það er kominn tími til að láta slá úr sér tennurnar en eru efalaust jafnframt fegnir þegar athöfnin er yfir staðin.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 13:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)