Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2009
Karlinn kýs
29.11.2009 | 19:05
Það var náttúrulega þrælgaman í matarboðinu í gær og farið út um víðan völl í samræðum. Hér er smá sýnishorn:
"....hahaha, eru Íslendingar virkilega svona fáir? Þetta eru jafn margir og búa í blokkinni minni í Buenos Aires!!!"
"Margrét, Laos er verulega yndislegt land sem þú ættir endilega að heimsækja. Passaðu þig bara á lao-lao (heimabruggi), lao (bjórnum), og jú og svo jarðsprengjum"
"..já, blessaður vertu, Íslendingar eru búnir að fá orðspor sem heimsins mestu listasvindlarar, þeir fara þar fremstir í flokki og svo rétt á eftir koma Nígeríumenn"
Svo var kosið í Namibíu um helgina. Ég hitti vinkonu mína í síðustu viku og spurði hvort hún ætlaði ekki að kjósa. Sú er menntuð, klár og í góðri stöðu. Það þarf vart að taka fram að ég er langt í frá búin að jafna mig á svarinu, sem var: "nei, maðurinn minn kýs fyrir mig"
Hlaup og staup
28.11.2009 | 13:18
Dagurinn byrjaði vel hjá okkur hjónunum. Við fórum út fyrir bæinn í býtið og hlupum 10 km. í hlaupi sem hlaupaklúbbur Windhoek stóð fyrir. Dabbi, sem hleypur vanalega á brettinu í ræktinni afsannaði rækilega þá lummu að það væri auðveldara að hlaupa á bretti en úti í náttúrunni. Hann og Carla, hlaupafélagi minn, hlupu nánast hönd í hönd í markið, mjög sæt. Ég var mjög stolt af þeim báðum, og þau á góðum tíma. Ég blómstraði ekki alveg, en rétt náði mínu lægsta takmarki, og þá er bara að gera betur í næsta hlaupi. Magga gerði þetta mögulegt með því að passa drengina fyrir okkur, og skellti sér svo í ræktina þegar við komum heim. Operation six pack er sumsé enn í fullum gangi.
Talandi um blóm, nú er skammdegið með því besta á Íslandi. Hér eru nokkrar myndir úr garðinum okkar af blómunum sem ég tók hér eitt kvöldið, bara til að koma smá litum inn í líf ykkar heima á Fróni.
Fegursta blómið í garðinum þetta síðkvöldið var að sjálfsögðu hann Stefán.
Ég eyddi gærkvöldinu niðri í skóla að fæða góða gesti, en nú er haldið íþróttamót fyrir alþjóðaskóla í sunnanverðri Afríku, svo að það koma keppendur frá SA, ZIM, Sambíu og Botswana. Mikið fjör í skólanum þessa dagana.
Við erum svo öll að fara í matarboð síðdegis hjá vinum okkar, og fengum okkur í staup til að halda upp á hlaupin. Magga verður dedicated driver (jú, og designated líka), og hittir svo væntanlega vini sína í kvöld til að fara út á lífið þegar við gamla liðið drögum okkur í hlé.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 13:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Já, lýðræði er skrýtið æði
23.11.2009 | 13:12
Namibía fékk ekki eins góða einkunn á spillingarlista Transparency international og vonir stóðu til. Þetta er stjórnvöldum til mikils ama, sem telja, skv. málgagni þeirra, að þetta mat sé bara huglægt bull og byggt á villu. Vilja fremur nota afríska spillingarkvarða sem láta landið líta betur út.
Ég les nú sjaldan blað stjórnvalda, en kíkti í það um daginn. Á forsíðu eru þrír vaskir kappar með hnefann á lofti, vel í holdum og líta að auki út fyrir að vera komnir vel yfir fertugt. Þar eru komnir forystumenn ungliðahreyfingar Frelsishreyfingar Namibíu, sem hefur töglin og haldirnar í stjórmálum og stjórnkerfi. Ástæðan er sú að atkvæði í utanþingstaðakosningu eru komin inn og hafa verið talin. Hér eru bara tveir hópar sem geta tekið þátt í utanþingstaðakosningu, diplómatar og sjómenn. Ein vinkona mín var sárreið að fá ekki að kjósa, enda verður hún utanlands á kjördag. Aðrir koma heim til Namibíu til að kjósa. Almenningur verður bara að passa sig að vera á réttum stað á réttum tíma.
Þessir ungliðar héldu fund fyrir fjölmiðla og heimtuðu að tilteknir diplómatar í þjónustu ríkisins yrðu kallaðir heim, því að þeir væru ekki fulltrúar Flokksins. Niðurstaða utankjördæmakosninganna var nefninlega sú að Flokkurinn fékk bara helming atkvæða. Félagarnir spyrja í forundran: "Hvað er svona merkilegt við þetta fólk sem bregst vonum okkar þegar við getum fundið betra fólk í okkar Flokki? Af hverju erum við svona blind gagnvart þeim sníkjudýrum sem éta í sundur innviði okkar megnuga Flokks?" - Flokkurinn mun væntanlega fá mikinn meirihluta atkvæða í komandi kosningum, svo félagarnir taka vonandi gleði sína á ný. Svo er að lokum lagt til að í mars muni verða endurskipað í allar æðri stöður hins opinbera, í samræmi við manifesto Flokksins.
Hin forsíðufréttin er af lögreglustjóra í Caprivi sem er ásakaður um að berja lögregluþjón og að tæta í sundur búninginn hans. Stjórinn hefur látið lögregluþjónana gæta geitanna sinna, sem eru minnst 100 talsins. Einnig hafa þeir sótt börnin hans til borgarinnar við og við, sem er 2 600 km. langferð. Meintur lögregluþjónn ku hafa mótmælt þessu og viljað fremur stunda hefðbundin lögreglustörf. Lögreglustörf eru, eins og allir vita, mjög áhættusöm starfsgrein.
Margir eru efins og ringlaðir varðandi lýðræðisferilinn. Aðspurð flissar Leja, og ætlar að sjá til eftir 5 ár, í næstu kosningum. Kannski kjósa þá. Ekkert breytist, hvort eð er. Aðrir eru hræddir um að þeir verði spurðir út í hvað þeir hafi kosið. Betra að kjósa bara ekki neitt. Ég bíð spennt til að sjá hver kosningaþátttakan verði í ár.
Namibía lenti í 56. sæti spillingarlistans hjá Transparency International í ár, með einkunnina 4,5 sem gefur því einkunnina "highly corrupt". Þetta er hrap frá einkunninni 5,7 árið 2002. Ég get frætt áhugasama lesendur um það að Ísland er í því glæsilega sæti númer 8 (einu ofar en Noregur) með einkunnina 8,7. Enda er kosningaþátttaka á Íslandi líka með því besta sem gerist í heiminum.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 15:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Jólasveinninn kominn til Windhoek
21.11.2009 | 17:49
Í hádeginu var hið árlega jólaboð fyrir starfsfólk ICEIDA. Dabbi var vopnaður myndavél og hér er afraksturinn. Jólasveinninn mætti á svæðið, hlaðinn gjöfum fyrir börnin.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 17:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Skítamál
19.11.2009 | 12:51
Nú er skítamálið enn að versna. Í kvöldmatnum vorum við eins og börn frá Biafra, með húsflugurnar skríðandi um allt andlit, en skíturinn í garðinum hefur væntanlega svona mikið aðdráttarafl. Dabbi fékk nóg og ætlaði að hringja brjálaður í garðyrkjumanninn, en var svo ósköp blíðmæltur í símann því hann er svo ljúfur karakter. Garðyrkjumaðurinn er nefninlega með bílskúrinn hálfan af skítapokum sem hann hugðist bæta við, en það er vonandi úr sögunni.
Og að öðru, það eru aðrir en bara við sem hrífast af stuttu gallabuxunum sem karlmenn hér ganga stundum í. Við köllum þær búabuxur og ætlum að flytja nokkrar til Íslands fyrir skemmtanahald þegar við förum heim. Hér er auglýsing sem er óspart sýnd í sjónvarpinu þar sem þær koma fram í öllu sínu veldi. Njótið vel:
Dabbi í dýfu og Erla með orminn
17.11.2009 | 14:41
Nú eru komnar myndir úr afmælisteitinu. Hér er mynd af fjörkálfinum Dabba að bruna niður fjallið. Hann var alveg jafn hress þegar upp var komið, enda höfðu allir gaman af salíbununni.
Ekki er mikið annað fréttnæmt, húsið er enn fullt af skítafýlu úr garðinum, sem Óskar virðist nú taka mest nærri sér. Nú er orðið skýjað á köflum og svo komu nokkrir dropar í gær. Sumsé, mun bærilegri hiti í dag.
Svo eru kosningar í landinu eftir tvær vikur og kominn smá kosningaskjálfti í menn.
Ég náði mér svo í sveppasýkingu í húð í ræktinni, aftan á öxlinni. Hlaupastúlkurnar voru fljótar að greina meinið. Mér varð ekki um sel þegar sú suður-afríska sagði með fullvissu: "ahhh, jiiis, þis is a vööörm". Um stund sá ég fyrir mér líkamann undirtekinn af einhverjum hitabeltisormum. Svo reyndist nú ekki vera, heldur er þetta saklaus sýking sem heitir ring worm. Svo fór ég til læknisins, sem fannst nú ekki mikið til koma, kannski mest að þetta skyldi vera svona fallega hringlaga. Svo fékk ég bara smyrsl og þetta er á undanhaldi núna.
Leja fræddi mig svo á því að þegar einhver fær svona sýkingu, þá segir hjátrúin að von sé á barni í fjölskyldunni. Ég er nú ekki líklegur kandídat sjálf, en nú er bara að bíða og sjá hvar barnið poppar upp.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 15:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Munaðarleysingjar og meira
16.11.2009 | 14:15
Nú er orðið skýjað og allir horfa vongóðir til himins eftir regni. Þá myndi kólna aðeins. Þegar ég sótti Möggu í vinnuna í dag lýsti hún honum sem "mesta svitadegi lífs míns", en það varð henni til happs að aðstoðarkennarinn í bekknum hans Óskars hafði forfallast og hún fylgdi þeim í tölvutíma og bókasafnstíma, þar sem var loftkæling til staðar.
Ég var við það að fá hitaslag við hlaupin í morgun, enda var hitinn kominn upp í 27 gráður strax í morgunsárið. Svo snarhitnar yfir daginn, enda eru þessar öfgar dæmigerðar fyrir eyðimerkurloftslagið sem við búum við, svo það ríður mikið á að ná að komast í hlaupin sem fyrst um morguninn. Sú suður-afríska kom og gaf skýrslu frá "móður allra þríþrauta", Mariental þríþrautinni sem hún komst í gegnum um helgina. Hún náði gulli í eldri kvennaflokki (enda eini keppandinn!). Mjög fyndið, en hörmungarnar eltu hana linnulaust. Þau syntu í stíflu þar sem ekki sér handa skil og erfitt að finna réttu leiðina fyrir sundfólkið. Svo taka við snarbrattar brekkur fyrir bæði hjólamennskuna og svo hlaupin. Hún hló nú bara samt að þessu og ætlar sér í hálfan iron man í byrjun desember. Það er þó niðri á strönd svo að það verður ekki eins heitt.
Við Davíð fórum í þessa frábæru fertugsveislu í gær. Myndavélin var náttúrulega batteríislaus, svo að því miður varð ekkert um myndatökur. Farið var upp á fjallstopp í nágrenni Windhoek með trukkum og svo var brunað á vírum milli tinda við mikinn fögnuð. Gífurlegt stuð, svo drykkir við sólseturbil, en útsýnið er ótrúlega flott yfir borgina sem liggur í fjallasalnum sínum í fjarska. Þeir eru með einfalda byggingu þarna uppfrá þar sem drykkir og svo grill er borið fram um kvöldið. Loks mjakast maður niðureftir aftur á trukkunum og dægurlög sungin við raust í kvöldrökkrinu. Þetta hygg ég að sé vænleg leið til að halda upp á slíkan aldursáfanga. Gestahópurinn var skemmtilega samsettur, frá öllum heimshornum.
Garðyrkjumennirnir eru búnir að bera lífrænan áburð á allt í garðinum, svo að lyktin hér inni í stækjunni er ansi megn, og minnir á þegar verið er að skítadreifa og slóðadraga á vorin heima. Stebbi situr nú við púslun og Halli rembist við að búa til ný trúarbrögð fyrir heimavinnuna sína, sem eru svona rétt að smella saman.
Nú er þónokkur vinnutörn hjá mér því margt sem þarf að gera fyrir ferðina okkar í desember, en vettvangsvinnan er að hefjast fyrir ritgerðina mína og kúrsavinna sem þarf að klára. Í fyrramálið er ég svo að fara að pakka in gjöfum í massavís fyrir munaðarleysingja í Namibíu, niðri í skóla og svo erum við líka að gefa gjafir á föstudaginn fyrir annað munaðarleysingjahæli sem leikskólinn er að styrkja. Ég fæ tækifæri til að fara að kaupa föt handa lítilli stelpu, sem er ágætist tibreyting. Við höfum komist að þeirri niðurstöðu að það sé alveg fyrirtak að einbeita sér að nánasta umhverfi fyrst við erum stödd hér á annað borð. Dabbi fer alveg hamförum í kaupum, en aðstæður eru oft hrikalegar á munaðarleysingjahælum þar sem ekki er neitt til neins fyrir börnin. Ég fór með Magga, Signýju, Árna og Möggu í heimsókn á munaðarleysingjahæli uppi í fátækrahverfi, hér eru nokkrar myndir.
Magga tekur sig vel út með lítinn gaur í fanginu. Krakkarnir eru oft æst í að láta halda á sér því að þau fá ekki mikla ástúð enda margir að bítast um athygli örfárra umsjónarkvenna.
Það er gaman að leika sér í pappakassa.
Maggi var náttúrulega ólmur að taka myndir af krökkunum, sem hafa gaman af. Það allra besta er þó að sjá sjálfan sig á mynd eftirá. Ég sýni flottar myndir frá honum síðar.
Meme Liina sem rekur þetta hæli er meira að segja komin með heimasíðu, sem er hér: http://www.itif.iway.na, ef einhver vill senda styrk í jólagóðgjörðina til Namibíu þetta árið.
Aðstæður hafa breyst þónokkuð til batnaðar, en kirkja í nágrenninu gaf nýja byggingu svo að krakkarnir eru komnir með betra svefnpláss.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 14:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Hot, hot, hot
14.11.2009 | 15:06
Nú er farið að hitna í kolunum, 40 stiga hiti, en það hefur ekki rignt vikum saman. Ekki bætti úr skák að ég er að fara á góðgerðarsamkundu í kvöld til styrktar munaðarleysingjahæli og namibísku íþróttafólki, og baust til að fara með satay á hlaðborðið. Við grilluðum því í hádeginu.
Girnilegt?
Hér stendur Dabbi við grillið og eldar mat handa ríka fólkinu, fyrir fátæka fólkið. Það var ekki fyrir hvern sem er að koma nálægt grillinu í hitasvækjunni, en braiimeistarinn lætur sér fátt fyrir brjósti brenna. Segir að þetta sé ekki fyrir kvenfólk (eftir að ég kvartaði yfir því að augnhárin væru sviðin af mér). Hann er kannski að verða smá afrikaans í sér, þessi elska?
Það er mikið að gera í félagslífinu núna rétt fyrir annarlok í skólanum. Við vorum í afmælisteiti í gær, svo er annað afmæli á morgun líka. Við skiptum aðeins liði og í kvöld förum við Magga saman og skiljum Dabba eftir heima í umsjá barnanna.
Ein vinkona mín tók þátt í þríþraut í morgun hér suður í landi, í miðri eyðimörkinni, þar sem verður mun heitara en í borginni. Hef ekki heyrt frá henni enn, vona að hún sé ekki einhvers staðar með hitaslag.
Það er svo heitt að jafnvel tanning meistarinn hún Magga helst ekki einu sinni við úti í sólinni. Halli kom til baka úr skólaferðinni og byrjaði á því að slasa sig á hné á skólalóðinni rétt eftir að hann steig út úr rútunni. Nú skröltir hann um með bundið hné og heimtar hækjur. Erik kom til að halda honum félagsskap. Óskar og Stefán eyddu öllum morgninum í að púsla, en Óskar fékk 100 púsla púsl fyrir afburða frammistöðu í lestri og Stefán erfði gömlu púslin hans svo að það var mikið að gera. Stefán fór svo í afmæli hjá bekkjarsystur sinni um miðjan dag og kom til baka sem tígrísdýr.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 15:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Meira tungumálanám
9.11.2009 | 19:00
Hér eru rólegheit, allir drengirnir farnir í rúmið og ég ein á fótum og sit við nám og skriftir. Dabbi og Magga lögðu af stað út í eyðimörk í dag, og á þessari stundu er Dabbi að berjast við leðurblökur í Grootfontein. Þau fara á morgun í San byggðir að kynna og færa þeim kennslubækur í táknmáli fyrir San tungumál sem í útrýmingarhættu. Mjög verðugt verkefni.
Hér heima hefur einnig staðið yfir nám, en Óskar hóf aftur lestrarnám í gærkveldi, eftir þónokkurt hlé, með mjög góðum árangri. Svo góðum að hann hefur verið að lesa í allan heila dag, svo mér var orðið nóg um. Allt í einu var hann kominn með vald á lestri og við öll vorum að vonum mjög uppveðruð yfir þessu, og hann ekki síst.
Halli fer í tveggja daga skólaferð á miðvikudag í lodge stutt frá borginni til að æfa hópvinnu og hópefli, fara í þrautabrautir, klifur og fleira. Mjög spennandi. Hann er kominn í nemendaráð framhaldsstigs (sem mér þykir nokkuð merkilegt þar sem hann er á yngra stigi) og ég er orðinn ritari foreldrafélagsins. Við erum sumsé orðin potturinn og pannan í skólastarfinu.
Allir bíða spenntir eftir ferðasögum, en hér kemur ein góð mynd af landamærastöð þar sem drengirnir bíða þolinmóðir í steikjandi hita. Upplitið á þeim segir meira en mörg orð.
Svo læt ég fylgja eitt myndband af Stefáni sem flytur lagið Strákurinn með skeggið, hann heitir Stebbi, bæði í upprunalegri útgáfu og svo í rokkaðri útgáfu. Takið eftir að hann er annars vegar á Zambesi ánni í siglingu frá Zimbabwe, og hins vegar á Chobe ánni í siglingu frá Botswana.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 19:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Málanám
7.11.2009 | 17:30
Hér gengur allt sinn vanagang, það er orðið vel heitt yfir daginn og Stefán eyðir megninu af deginum berrassaður. Moskítóflugurnar eru komnar á "hate" listann hjá enn einni mannveru í veröldinni, henni Möggu Dísu. Hún er bitin út og suður og hefur komist að sömu niðurstöðu og Halli frændi sinn; að heimurinn yrði mun betri staður ef flugunum yrði eytt með öllu. Annars stúderar hún nú suður-afrískan hreim af kappi og æfir sig samviskusamlega til að geta náð valdi á honum. Breski hreimurinn þvælist reyndar eitthvað fyrir. Hreimurinn er annars mjög heillandi, en hér er smá sýnishorn af honum:
Á mánudag fer Magga svo með Davíð í þriggja daga vinnuferð inn í búskmannaland, en þangað hef ég aldrei farið og er því gul og græn.
Allir af eldri kynslóðinni eru komnir í operation six pack, sem felur í sér venjulegu lummuna - hollt mataræði, hlaup og ræktina. Nú sitja þau félagarnir, Dabbi og Magga, í sófanum inni í stofu og eru á þessari stundu að réttlæta smá súkkulaðiát fyrir hvort öðru. Ég verð að fara að taka í taumana...
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 17:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)