Bloggfærslur mánaðarins, desember 2009
Íðilfagra Kunene
21.12.2009 | 08:50
Tímasetning okkar á Kuneneferðinni var alveg fullkomin. Þegar við komum á hótelið í Opuwo var nýbúið að bera áburð á grasflatirnar svo að allt ilmaði vel af skít. Alveg eins og heima, nema fnykurinn var rétt farinn að dala þar. Annars tók Kunene á móti okkur iðagræn og íðilfögur, eins og vanalega. Hér koma nokkrar myndir frá byrjun ferðarinnar, en við komum til Opuwo eftir átta og hálfs tíma akstur.
Hér er verið að reyra farangur á þakið fyrir brottför. Það eru ekki margir sem skella sér í minipils og skríða upp á þak til þeirra erindagjörða.
Laugin er alltaf góð í Opuwo, drengirnir allir orðnir syndir, enda fara þeir í sundtíma í skólanum.
Spilin eru tekin með fyrir háa sem lága.
Annars er það að frétta af okkur að mamma er komin til jóladvalar og jólaundirbúningurinn er kominn í gang. Ég las þessa fínu, íslensku jólasveinabók sem Rósa frænka sendi strákunum. Þar vöktu jólakötturinn og Grýla mikla athygli. Þarna lá ég í rúminu með Stefán á aðra hönd sem benti á tvenninguna og sagði "þessi er vond og þessi er vondur. Þau koma að taka Óskar." Hann taldi sjálfan sig vera nokkuð hólpinn þar sem hann er ekki eins baldinn og bróðir sinn, og því eðlilegt að hann yrði betri kostur fyrir þá sem koma og taka óþekk börn. Sá lá við hina hlið mína, skjálfandi og sagði eins og Baktus forðum "ó, ég er svo hræddur, óóó hvað ég er hræddur".
Svo er netið nánast alveg búið að liggja niðri undanfarna daga, svo ég hef ekki getað sett inn færslur, en vonandi stendur það til bóta.
Nú eru flestir í hlaupahópnum farnir í frí úr borginni, svo að ég fór klukkan 6 í morgun með Davíð við annan mann út að hlaupa, en skrifstofan hjá Davíð opnar klukkan 7:30. Þetta er langbesti tíminn til hlaupa þar sem sólin er ekki farin að baka mann. Hitinn er frá 35 til 42 stig yfir daginn og erfitt að hlaupa í hitanum eftir klukkan 8 á daginn.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 10:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Komin heim úr óbyggðum
13.12.2009 | 13:15
Við vorum að skríða í hús eftir viku ferð til Kunene í norðvestur Namibíu, sem var alveg geggjuð. Búin að skrölta eftir þeim mestu fjallvegum sem ég hef séð í lífinu. Bullbarinn á bílnum er við það að skröltast af, og númeraplatan fór alveg, en annars stóð bíllinn sig bara mjög vel. Sáum enga ferðamenn dögum saman, og reyndar ekki annað hvítt fólk, ef út í það er farið. Náttúran er ótrúleg, óbyggðirnar víðfemar og fólkið litríkt. Allt gekk eins og í sögu, einn ældi bara einu sinni í bílinn en annars var bílveikin bara temmileg. Ég hugsa að maður gæti vel villst þarna árum saman ef ekki væru staðkunnugir að leiðsegja. Yfir hádegið liggur sólin í hvirfilsstað, svo að ekki er hægt að notast við hana þegar maður er að reyna að ná áttum.
Ég reyndi ítrekað að setja inn færslu áður en við fórum, en netið var óstöðugt svo að það hafðist ekki.
Windhoek tók á móti okkur með yfir 40 stiga, brakandi þurrum hita. Sem er svosem alveg indælt, en sumum heimilismeðlimum þótti nóg um. Sýni ykkur myndir frá ferðinni þegar um hægist.