Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2009

Himbabolti

bolti 6

Megintilgangur ferðarinnar hjá Davíð var að skoða brunna sem Þróunarsamvinnustofnun hefur verið að byggja í samvinnu við Himbana og stjórnvöld. Einn þeirra er í Epembe, á leiðinni upp til Epupa og stoppuðum við þar. Hér má sjá Himbastrák við vatnskranann og skólahús í bakgrunni. Meðan Davíð var að sinna skyldu sinni, fékk ég að kíkja inn í skólann, sem var eitt stórt herbergi, með þremur borðum og nokkrum stólum. Krakkarnir sitja væntanlega á gólfinu en þarna eru þrír kennarar með rúmlega 60 börn á aldrinum 6 til 14 ára. Það var helgi þegar þetta var og aðeins nokkrir strákar sem voru þarna eftir yfir helgina því það var of langt heim til þeirra. Mun færri stelpur eru í skólanum en strákar, en 79% fullorðinna hafa aldrei farið í skóla, og sjá því kannski ekki þörfina fyrir skólagöngu, og stúlkurnar gjalda meira fyrir en drengirnir.

bolti 4

Hér er ég að gefa strákunum penna, sem þeir voru ákaflega glaðir með.

bolti 5

Svo glaðir að þeir dönsuðu um af kátínu.

bolti

Við strákarnir og Hreinsi tókum síðan smá fótbolta með strákunum, en þeir áttu einn bolta sem var vita loftlaus en gagnaðist okkur bara vel. Við ætlum að senda þeim nokkra bolta og pumpur þegar við fáum næst ferð þarna uppeftir, enda er fótbolti praktískur því að það þarf ekki meira en bolta og svo er hægt að spila á sandi sem alls staðar finnst.

bolti 2

Hér er Stefán í hringiðu atburðanna.

bolti 3

Og svo Halli, sem reyndar var ekki upp á sitt  besta því að hann var með svæsna magakveisu. Himbastrákarnir voru hins vegar nokkuð sleipir í fótboltanum, og síðan voru mennirnir frá vatnsmálaráðuneytinu sem voru að skoða brunnana með okkur, líka komnir í fjörið.


Borðtennistímabilið er hafið!

tennis 3Nú er regntímabilinu lokið og borðtennisborðið var aftur sett upp í garðinum á laugardag. Hér má sjá yngsta fjölskyldumeðliminn beita spaðanum af mikilli leikni.

tennis 4

Hér má svo sjá heimilisföðurinn sem horfir á Halla og Eric taka fyrsta leikinn sinn. Við kveiktum einnig upp í grillinu. Nú er kominn vetrartími hjá okkur og þá fer að dimma um klukkan sex, svo að kvöldin nýtast ekki alveg eins vel. Hins vegar má segja að morgnarnir nýtist mjög vel, því að vetrartíminn er ekkert að flækjast fyrir Stefáni og Óskari sem enn vakna hressir og kátir klukkan 5 á morgnana. Gaman að því.

tennis 2

Í hádeginu fórum við á kaffihús í garðiyrkjustöð sem er með afgirtu leikhorni fyrir krakkana. Mjög praktískt. Stefán fann sér ljón til að hamast á, og Halli gat klifrað í trjánum.

tennis 1


Hættur Kunene árinnar

Hreinsi Epupa 2

Við gistum við árbakka Kunene árinnar þegar við fórum í ferðina góðu. Þarna má sjá sólarlagið og ef vel er að gáð, úðann frá Epupa fossunum.

Hreinsi Epupa

Hér situr Hreinsi í makindum með bjórinn sinn (hann er þarna þó að hann sjáist kannski ekki) með Angóla og Kunene ána í  bakgrunni. Við vorum náttúrulega með lífið í lúkunum með að hafa strákana þarna við ána, en kunnugir fullvissuðu okkur um að það væru ekki neinir krókódílar þarna því að áin væri orðin of straumhörð.

Halli komst að þeirri skynsamlegu niðurstöðu að maður myndi væntanlega ekki  halda lífi ef maður dytti í ána. Og hann hefur efalaust haft rétt fyrir sér því að fyrir viku dó Bandaríkjamaður sem reyndi að synda yfir ána og lenti í fossunum (clever?). Og ekki nóg með það, þá hvarf þýskur leiðsögumaður á þessum gististað sporðlaust í vikunni. Talið var að krókódílar hefðu dregið hann niður í ána. Lík hans fannst 12 kílómetrum neðar í ánni, en það var ekki með bitmörkum svo að málið er enn í rannsókn. Maður hugsar til ferðafólks hans sem væntanlega hefur kosið að fara í hópferð því að hættur Afríku eru of miklar og því telja margir það betra að fara í hópferð heldur en að ferðast á eigin vegum. Þau hafa efalaust stykst í þeirri trú sinni eftir þessa reynslu.

Okkar hættur reyndust helstar þær að við vorum bitin út og suður af moskítóflugum þessa nótt sem við gistum (og þvílík nótt) og þetta er á svæsnu malaríusvæði. Þrátt fyrir veikindi síðustu vikur, þá höfum við sloppið og getum væntanlega þakkað malaríulyfjunum fyrir það, en við tókum þau af mikilli samviskusemi.


Gleðilega páska!

Paskar 1

Við höfum tekið því rólega um páskana, ekkert farið út úr bænum eins og meginhluti hvíta samfélagsins virðist hafa gert. Amk. er mjög dauft yfir borginni, en hún er aldrei yndislegri en þá. Á páskadag buðum við næstu nágrönnum okkar í lambahrygg, en það eru þau Grayson og Myrna sem eru bandarískir prófessorar sem eru að kenna við University of Namibia og eru hér í sex mánuði. Þau koma á vegum frjálsra félagasamtaka sem styrkja fræðafólk til kennslu í þróunarlöndunum. Hann er lífefnafræðingur og hún tónlistarfræðingur. Það er ótrúlega gaman að spjalla við þau, enda hafa þau frá mörgu að segja, hafa búið í Zimbawe í 8 ár og svo í Suður Afríku. Það eru margar skrautlegar sögurnar úr háskólanum, en grunnnámi er ákaflega ábótavant og því hafa nemar slakan grunn til framhaldsnáms. Einungis um 3,8% nema ljúka prófi til að komast inn í háskólanám því brottfall og fall veldur því að flestir detta út áður en þeir ná 12. bekkjar prófum. Afrísk tímaskynjun veldur því t.d. að margir nemar (og reyndar kennarar líka!) eiga erfitt með að mæta í tíma.

Paskar 2 

Í gærmorgun var eggjaleit hér innanhúss og í morgun fengu strákarnir páskapakkana frá Bjarna og Erlu. Stefán tók andköf af gleði þegar hann fékk latabæjarlímmiða í hendurnar enda einlægur aðdáandi Íþróttaálfsins.

Svo var hinn eiginlegi afmælisdagur hans Óskars í vikunni. Hér má sjá hvað hann varð gamall.

Hann fór með köku og góðgæti í skólann handa bekkjarfélögunum. Þar var líka eggjaleit svo að það voru örugglega margir krakkar í vænu sykursjokki svona rétt fyrir páskafríið.

 Paskar 3
Hér er afmælisbarnið að blása á kertin - aftur.

Hann er að læra að skrifa litla stafi í skólanum og svo er hann farinn að lesa Gagn og gaman hér heima, en allur ættboginn hefur lært að lesa með þeirri bók og engin ástæða til að hverfa frá þeirri hefð. Óskar og Stefán eru einnig orðnir nokkuð sleipir í enskunni. Hún blandast stundum skemmtilega við íslenskuna þrátt fyrir gallharða málverndarstefnu á heimilinu. Veit t.d. einhver hvað þetta þýðir: hvað heppnaðist fyrir þig??


Afmælisboð

Oskar afmæli 3

Við áttum annríkan laugardag. Halli keppti leik í götukeppni fótboltaliða og við fjölskyldan fórum á leikinn ásamt Erik, vini hans Halla. Hér eru litlu guttarnir að búa sig undir að hlaupa niður brekku á meðan við vorum að bíða eftir að leikurinn byrjaði.

Oskar afmæli 4

Veðrið er svo frábært á þessum árstíma, ekki of heitt og ekki of kalt.

Oskar afmæli 2

 

 

 

 

 

 

 

 

Svo á Óskar afmæli á fimmtudaginn en við héldum afmælisveislu á laugardaginn því að Rúnar Atli og fjölskylda eru að fara í ferðalag. Við bökuðum pizzu og höfðum nammiköku.

Oskar afmæli 5Hér eru svo hollensku vinir okkar.

Oskar afmæliÓskar kann vel að meta lego, og fékk fullt af því í afmælisgjöf. Hér eru Erik og Óskar að koma legoflugvél saman. 



Óskar fékk svo magapínu í gærkvöldi  og er því heima í umsjón móður sinnar í dag, á  meðan Stefán og Halli eru í skólanum.


Af kosningu, ráni og brimbrettagæjum

Við hjónin kusum til Alþingiskosninga í sendiráði Íslands í Windhoek í morgun og þá er því verki aflokið. Það vildi svo til að á sama tíma í spilasal (gambling house) rétt við hliðina, einnig á International avenue, átti rán sér stað. Sex glæponar rændu staðinn en einhver náði að kalla til lögreglu í tíma. Hún var búin að koma sér fyrir fyrir utan staðinn og skaut þá bara þegar þeir komu út, einn af öðrum. Fjórir látnir og hinir tveir særðir. Mjög röggsamir, laganna verðir. Glæpir eru í uppsveiflu, svo að fólk er ánægt með lögregluna þegar þeir ná að murka lífið úr sakamönnum. Ekkert verið að hafa fyrir að rétta yfir fólki eða spreða í fangelsiskostnað og svona.

surfing 2

Annars minntist ég á bretti og sjóinn í síðustu færslu, en um daginn fórum við að sjálfsögðu á ströndina að leika okkur og Halli og Óskar voru með ný bretti sem tekin voru í notkun. Halli fór í öldurnar og Óskar í flæðarmálinu, en skemmti sér engu að síðar hið besta.

surfing 3Við fórum á Lönguströnd, tókum með okkur dýrðlega góðar pizzur og snæddum á ströndinni. Þarna er nú ekki mikið af fólki, bara við Stefán eins langt og augað eygir.

surfing 4

Við Óskar gerðum líka listaverk í sandinn með tásunum.

 

 

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband