Bloggfærslur mánaðarins, maí 2009
Lake Oanob
27.5.2009 | 07:16
I nágrenni Windhoek er eru margir skemmtilegir staðir, en við fórum á einn þeirra á fimmtudaginn sem heitir Lake Oanob. Þetta er manngert vatn/stífla með kofum á bakkanum, og svo er boðið upp á vatnsíþróttir. Þetta er bara í 40 mín. ferð frá borginni, sem þykir nú ekki neitt hér um slóðir.
Hér eru litlu guttarnir að gefa öndum og gæsum eftir sundsprett í lauginni (ekki alveg eins og við tjörnina í Rvk, eða hvað?)
Á meðan var Halli í ævintýramennskunni. Hér er hann á gúmmítuðru sem dregin er á ofurhraða af hraðbát. Mjög í anda Halla. Báturinn þurfti að stoppa því að þeir héldu að Halli væri að grenja svona hátt, en hann var bara að veina af adrelínkikki.
Við hjónin rifjuðum upp að við höfðum ekki farið á kajað eða kanó síðan í Kanada, svo að fjölskyldunni var allri hlaðið í einn kanó og haldið af stað út á vatn. Það eina sem rauf sveitasæluna og fuglasönginn við vatnið eftirmiðdaginn þann var rifrildið hjá þessum tveimur, en Stefán gat illa valdið árinni sinni og barði Óskar ítrekað í höfuðið, sem skammaði bróður sinn miskunnarlaust á meðan Dabbi reyndi að stilla til friðar. Það var ekki friðsælt síðdegið hjá gestunum við vatnið, en við hin nutum þess að reyna okkur við róðurinn enda alvön svona temmilegum látum.
Hér er svo framvarðarsveitin, með Halla fremstan.
Nú er dagur að kveldi kominn, við grilluðum svo í góðum félagsskap í næsta bústað, þar sem Halli fékk að sofa hjá vinum sínum.
Svínaflensan skollin á
26.5.2009 | 14:54
Við fórum út úr bænum á fimmtudaginn með vinum okkar. Einn starfar sem ráðgjafi og fór þeirra erinda til Eritreu um daginn. Ekki er nú beint straumur ferðamanna til þess lands, en þegar hann kom á staðinn kom í ljós að hann átti að hafa meðferðist vottorð um að vera ekki smitaður af svínaflensu. Hann var náttúrulega ekki með slíkt skjal og var að leita ráða til að fá slíkt þarna á flugvellinum, finna lækni sem gæti reddað vottorði. Einhverjir voru nú samskiptaörðugleikarnir, því að fyrr en varði var minn bara kominn inn í eitthvert herbergi, aleinn. Og hann dúsaði þar í einhvern tíma og varð því feginn þegar einhver laumaði síma inn til hans og sagði að þar biði hans símtal frá Suður-Afríku.
Þetta reyndist vera landlæknisembætti Suður-Afríku. "Við höfum fengið staðfest að svínaflensa hefur komið upp í Eritreu. Þú ert sumsé hinn smitaði?" Haaa?!?? Suður-Afríka talaði hina bestu ensku svo að það leystist snarlega úr þessum vanda og minn var leystur úr sóttkví (sem hann vissi reyndar ekki að væri sóttkví fyrr en hann var leystur úr henni) og var hleypt inn í landið til að sinna sínum verkefnum í Eritreu.
Ég sé nú reyndar fyrir mér að flensa á borð við svínaflensu gæti orðið nokkuð skæð, sérstaklega hér í suðurhluta Afríku þar sem hlutfall eyðnismitaðra er mjög hátt. Fólk á besta aldri er því viðkvæmara fyrir en ella, auk þess sem heilbrigðiskerfið hefur hvorki mikla burði til að koma í veg fyrir útbreiðslu smitsjúkdóma, né að sinna sjúkum eða koma lyfjum til veikra. Flensan hefur ekki greinst ennþá í Namibíu, svo að maður verður bara að bíða og sjá hver þróunin verður.
Ægifegurð Epupa fossa
20.5.2009 | 10:40
Við vorum mjög spennt þegar við fórum að skoða Epupa fossa í Kunene ánni, enda fræddi leiðsögubókin okkur á því að mörgum finndust fossarnir fegurri en Viktoríufossar sjálfir, sem eiga þó að vera eitthvert mesta náttúrundur Afríku. Ég á enn eftir að sannreyna það, en hins vegar eru Epupa fossar dýrðlegir eins og sjá má. Við Íslendingar köllum nú ekki allt ömmu okkar í fossamálum, en hafa ber í huga að ekki hefur rignt jafn mikið í 80 ár og því var mjög mikið í Kunene ánni á þessum tíma. Þarna steypist vatnið niður í óteljandi litlum fossum, en ekki er nokkur leið að ná öllum fossunum á eina mynd. Það má kannski segja að þetta séu Hraunfossar hundraðfaldir.
Það er yndisleg gönguleið meðfram fossunum, og fáir ferðamenn á þessum tíma. Þeir hafa nú þótt vera lítt aðgengilegir til þessa, en nú er verið að gera stíflu vestan fossanna og því er búið að bæta veginn og auðvelt að komast að þeim. Reyndar eru fjarlægðir miklar, en það fylgir nú alltaf pakkanum í Namibíu.
Maðurinn á gististaðnum gaf okkur lítilsháttar leiðbeiningar til að finna réttu leiðina. Og bætti svo við.. ég myndi ekki mæla með því að þið færuð að baða ykkur þarna. Einmitt, maður sæi sig í anda fara í sullferð með börnin í þessar ógurlegu flúðir. Enda hafa tveir látið lífið í fossunum síðan við vorum þar.
Það sem er svo skemmtilegt er að fossarnir eru auðsjáanlega í hitabeltisumhverfi, þarna má sjá gríðarstór baobab tré á vatnsbakkanum sem hafa staðið vaktina við fossinn um hundruðir ára, og verða vonandi þar um ókomna tíð.
Það getur verið erfitt að ganga í hitanum.
Og því er gott að leggja sig smá inn á milli.
Halli er reyndar íðilsvalur eins og alltaf.
Og mæðginin saman.
Hreinsi allt í einu staddur í myrkviðum Afríku.
En daglegt líf heldur áfram, hér er verið að þvo þvotta fyrir ofan fossana.
Upp úr aldamótum var ætlunin yfirvalda að byggja stíflu í ána, sem átti að vera sú hæsta í Afríku, og þar með færu fossarnir undir lón. Alþjóðleg umhverfisverndarsamtök tóku höndum saman við Himbana við að mótmæla þessum fyrirætlunum, sem beindi alþjóðlegu kastljósi að Himbunum. Sú barátta vannst, og er unnið að gerð stíflu neðar í ánni, þar sem minna rask verður fyrir mannfólk og náttúru.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Fréttir úr fátækrahverfinu
20.5.2009 | 08:30
Maður þarf stundum hálfgerða áfallahjálp þegar maður les staðarblöðin. Frásagnir af glæpum eru mjög lýsandi, og sérstaklega er gert í því að hafa eftir innihald krufningaskýrslna sem eru með eindæmum óhuggulegar. Atburðirnir standa eftir ljóslifandi. 23ja ára, tveggja barna móðir var dregin frá hópi vina út í myrkrið þar sem þær voru að koma út af bar í Windhoek, hún hrópandi við vina sinna "hjálpiði mér, ég verð drepin". Svo var henni nauðgað af fjórum og hún kyrkt í kjölfarið. Nú standa yfir réttarhöld og blöðin gefa manni þessar lýsingar í smáatriðum. Frásagnir af ofbeldisglæpum eru reyndar erfiðir fyrir viðkvæmar sálir yfirleitt og að auki kemur Leja síðan með sögur úr fátækrahverfinu sem eru ekki síður krassandi.
Ofbeldi gegn konum og börnum er mjög algengt, en hún sagði mér frá því þegar lítil stelpa vinkonu hennar var að skreppa í búðina um daginn til að kaupa mjöl. Þetta var um kvöldmatarleytið. Sex ára kríli. Einhver glæpon réðst á hana, dró hana inn í runna, tróð fingrum inn í hana svo úr blæddi, braut bjórflösku og var að fara að beita henni þegar einhver skarst í leikinn. Glæponinn forðaði sér. Ég var alveg miður mín, og spurði hvernig vesalings móðurinni hefði eiginlega liðið.
"Ja, við ætluðum nú aldrei að finna hana. Hún fannst svo á barnum".
Allamáttugur, sagði ég, hún hefur örugglega verið alveg miður sín. Maður finnur örugglega til máttleysis að geta ekki varið börnin sín frá svona viðbjóði.
"Já, hún var mjög leið. Hún fór svo aftur á barinn til að hressa sig við."
Samúð mín með móðurinni snarminnkaði, en hugurinn staldrar við hjá blessuðum börnunum sem alast upp við slíkar aðstæður. Svo er spurning um hvort að hið saklausa, íslenska sálartetur venjist þessu eða ekki (efast nú reyndar stórlega um það), en amk. fer maður betur að skilja gleði fólks þegar lögreglan lætur til sín taka. Þeir skutu þjóf þar sem hann kom út úr verslun um daginn, og uppskáru velþóknun margra.
Maurar, maurar og aftur maurar
19.5.2009 | 06:45
Baráttan við maurana er að vinnast. Við höfum verið löt við að eitra, enda ekki vön að vera með úðabrúsa vinstri og hægri (auk þess sem viðkvæma blómið hann Dabbi er með ofnæmi fyrir eitrinu og þolir ekki við þegar verið er að eitra). Mauraplágan var farin að keyra um þverbak, svo að eitrið var tekið upp.
Í kjölfarið eru þeir búnir að liggja eins og ský við alla veggi og á gólfum, í milljónatali. Sokkar heimilisfólks verða svartir á iljunum af maurum. Svo slæðast stærri maurar inn á milli svo Halli hefur verið bitinn nokkrum sinnum. Alltaf koma fleiri kvikindi. Eftir margar eiturumferðir og þrif inn á milli, þá held ég að þetta sé að hafast. Við höfum mokað þeim upp í fægiskófluna, og ef þeir eru með lífi fara þeir í klósettið, annars í ruslið.
Þeir halda sig bakvið gólflista og undir gólfinu. Hér eru myndir af síðustu (vonandi) fórnarlömbunum í þessu stríði, sem gefur kannski smá innsýn af því hvernig ástandið hefur verið, þó að þetta sé nú bara smáræði miðað við hvernig þetta var um helgina.
Annars er Leja líka búin að standa í mjög öflugri baráttu við eðlu sem kom sér fyrir undir vaskaskápnum og fór að fjölga sér. Þetta er ekki svona sætar geckos, sem hlaupa veggina og eru mestu nytsemdarskepnur, heldur stærri kvikindi. Litlu eðlunum nær hún með eitri og notar svo rottueitur á stóru mömmu. Hún hefur ekki náðst ennþá svo vitað sé, en ég vona að hún hafi amk. flutt sig um set.
Naktar konur
18.5.2009 | 11:51
Ég fór í bráðskemmtilegt kerlingarboð á laugardaginn. Mjög kreppulegt, og myndi efalaust henta vel á Íslandi. Yfirskriftin var naktar konur, og þátttakendur hreinsuðu föt út úr fataskápnum sem voru brúkleg og fóru með í boðið. Reyndar var nú ekki um auðugan garð að gresja hjá mér því að ég hef gefið Leju allar flíkur sem ég hef ekki haft not fyrir. Dabbi hugsaði sér gott til glóðarinnar og samdi við mig um að ég gæti valið eina flík og svo mætti hann velja einhverja aðra sem hann þoldi ekki o.s.frv. Það endaði (eða kannski byrjaði öllu heldur) með því að hann stóð ráðþrota við fataskápinn og sagði að lokum "hmm... þú átt kannski ekkert svo mikið af fötum, elskan?" Það er örugglega draumur flestra kvenna að fá þetta frá eiginmönnunum, en staðreyndin er sú að ólíkt flestu kvenfólki, þá hef ég ekki mjög gaman af því að versla föt.
En aftur að boðinu. Í einu herbergi voru kjólar og jakkar, því næsta toppar og peysur, og svo var einnig karlmannafatnaður og bækur og myndir. Einhverjar voru að flytja af landi brott svo að sumar komu með rosalegt magn. Þetta varð einskonar allsherjar skiptimarkaður og nú er ég að lesa mjög hvetjandi bók sem ég fékk þar um hvernig á að hækka greindarvísitöluna (enda fékk ég lítilsháttar áhyggjur þegar ég lenti í úrtaki hjá ÍE fyrir minnisprófanir, en steingleymdi í kjölfarið að taka prófið). Ég náði nú að skrapa í höldupoka af fötum, og kom til baka með annað eins og fann líka glæsilegan kjól handa Leju. Afgangurinn fór svo í góðgerðarstarfsemi, en af nógu er að taka í þeim efnum hér. Ég hygg að þessi hugmynd muni ganga mjög vel upp á Íslandi, nema hvað að þar væri drukkið aðeins meira, aðeins flottari föt og aðeins meira fjör. Þetta var svona helst til siðmenntað fyrir minn smekk.
Svo vorum við með grillpartý á föstudag, enda þurfti að vera með gleðiboð til að taka á móti Eyrúnu til borgarinnar og einnig að kveðja Katrínu og móður hennar, sem yfirgáfu Namibíu í gær. Það dæmdist svo á Villa og Gullu að hafa Evróvision partý á laugardaginn, enda eru þau sko með miklu, miklu, miklu flottara sjónvarp en við, eins og hann Halli myndi segja. Þar er skemmst frá því að segja að við töpuðum fjámunum í fjárhættuspili, og Villi vann pottinn þar sem hann veðjaði á að Ísland yrði í öðru sæti. Halli var að tryllast af spenningi og allir hæstánægðir með frammistöðu Íslands. Finnarnir voru mjög svartsýnir fyrir hönd sinnar þjóðar og munaði ekki miklu að þeir giskuðu á rétt sæti fyrir hönd Finnlands, en þeir lentu á botninum. Ég var sú svartsýnasta og spáði íslenska liðinu 12 sæti, en vil reyndar taka fram að frá tölfræðilegu sjónarhorni þótti mér það mjög gáfulegt, því ég hefði unnið pottinn fyrir öll sæti undir því tólfta þar sem sá sem giskaði á sætið næst úrslitunum átti að vinna pottinn. Þetta mistókst því hrapalega hjá mér, en ég verð örugglega búin að finna betri aðferð að ári, því ég verð sko komin með miklu, miklu, miklu hærri gáfnavísitölu þá.
Evróvision
13.5.2009 | 06:26
Við komum okkur fyrir undir teppi í gærkvöldi og horfðum á fyrsta hluta Evróvision, á einhverri portúgalskri sjónvarpsstöð. Við héldum út fram yfir íslenska keppandann.
Hvers vegna í ósköpunum er rithætti nafnsins breytt? Virkar Jóhanna ekki eins vel í Austur-Evópsku áhorfendurna? Ekki voru nú mörg áhugaverð lög í boði þarna í fyrsta hlutanum, þó að mér finndist nú Ísrael og Svíþjóð reyndar vera fín. Dabbi og Halli voru aftur á móti hrifnir af Tyrklandi, sem mest skýrðist nú af búningavalinu hjá stelpunum, held ég.
Eins og sönnum Íslendingum sæmir fannst okkur náttúrulega íslenska lagið lang lang lang best, og Halla fannst Jóhanna líka vera lang lang lang sætasta stelpan, svo að allt var eins og það átti að vera. Við sáum í morgun að lagið komst áfram, svo að það er útlit fyrir að við leggjumst aftur undir feld á laugardagskvöldið.
Atvinnubótavinna?
8.5.2009 | 09:22
Ég hef svarið þess dýran eið að skrifa ekki staf um þjóðmál og pólitík, bara skrif um fjölskylduna sem enginn nennir að lesa nema skylduræknustu fjölskyldumeðlimir og vinir. En mikið hefur nú verið áhugavert að fylgjast með þjóðmálaumræðunni heima síðustu mánuði. Og er af nógu að taka. Undantekningar eru frá öllum reglum, ekki satt?
Það sem mér finnst merkilegast núna er að bankarnir halda áfram að auglýsa sig fyrir landanum. Nú á þjóðin bankana, sem, merkilegt nokk, halda áfram að reyna að laða til sín viðskiptavini hver frá öðrum með auglýsingaherferðum. Málið er því svona í kjarnann:
Eigendur bankanna: þjóðin
Markhópur bankanna: þjóðin
Tilgangur bankanna: færa viðskiptavini (þjóðina) frá einum banka til annars (frá þjóðinni til þjóðarinnar)
Þetta er ágætis æfing í fallbeygingu, sem sýnir að ég botna bara ekkert í þessu, en þetta er kannski ekkert undarlegra en margt annað sem ég hef verið að skoða frá Íslandi undanfarið. Kannski færa einhverjir vesalingar sig frá einum banka til annars, hver veit? Markaðsdeildir bankanna eru því ekki dauðar úr öllum æðum, það er gott að einhver fær vinnu þar. Og ríkið styrkir á þennan hátt efalaust einnig auglýsingastofur út í bæ. Það er huggun að vita til þess að einhver fær vinnu í kreppunni.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 12:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Íslendingar þurfa fisk-fixið sitt
8.5.2009 | 08:54
Mataræði hjá okkur er mjög svipað og heima á Íslandi, enda eru Þjóðverjarnir hér snillingar í að þjónusta hverja aðra og er fjöldi stórmarkaða með frábæru úrvali matvara. Mest framleitt í Suður Afríku, enda urðu þeir að framleiða allt fyrir heimamarkað þegar þeir voru komnir í viðskiptabann á sínum tíma vegna kynþáttaaðskilnaðarstefnunnar. Og Namibía nýtur nú góðs af. Og svo eru Þjóðverjar nú Þjóðverjar. Við verslum mikið í Spar versluninni sem er þýskari en allt þýskt. Við áleggsborðið stendur maður gapandi þegar þýsku frúrnar eru að kaupa pylsurnar sínar. Og ekkert smá magn. Ég legg ekki í mikið meira en skinku og salami (lít löngunaraugum á svínahausasultu sem minnir mig svo á sviðasultuna íslensku og ég er sólgin í). Enda borðum við nú ekki mikið af unnum kjötafurðum, og förum frekar í heilsuhornið, sem gefur því íslenska ekkert eftir.
Þar sem borgin er inni í landi gæti maður haldið að erfitt væri að fá fisk, en svo er nú ekki. Við Davíð erum tíðir gestir á fiskveitingahúsi, enda þurfum við Íslendingar okkar fiski-fix. Þarna gæðum við okkur á smokkfiski, mussels, rækjum og yndislegum fiski sem heitir kingklip. Ekki angelfish, nei, takk. Fiskimið eru fengsæl hér fyrir utan ströndina og er keyrt með ferskan fisk á hverjum degi til borgarinnar. Svo höfum við nokkrum sinnum keypt okkur rándýran, norskan lax, sem var mjög ljúffengur. Reyndar féll svo eitthvað á dýrð kingklip um daginn þegar við sáum neytendaþátt frá Suður Afríku. Þeir eru mjög sleipir í gerð slíkra þátta (eitthvað sem vantar nú alveg á Íslandi, þó af mörgu sé að taka þar..) og kom fram með DNA prófum að til landsins streymdi fiskur frá Asíu sem væri seldur fiskiheildsölum undir röngum merkjum. Heildsalarnir seldu svo veitingahúsum fisk sem ætti að vera Kingklip en væri einhver ljúffeng, asísk tegund sem væri í útrýmingarhættu, yrði ekki kynþroska fyrr en 12 ára og veiddur löngu fyrir þann tíma. Ekki þykir það nú gott í okkar húsum. Nú búum við okkur undir mikla neyslu þegar heim til Íslands er komið - lax og þorskur namminamminamm... Annað á matseðlinum þar verður skyrsúpa, brauðsúpa, svið, harðfiskur og náttúrulega fullt, fullt, fullt af eldsúru slátri. Handa húsfrúnni, náttúrulega.
Nú er komið haust í Namibíu, og hrollkalt á kvöldin og morgnana. Strákarnir eru því farnir að sofa í náttfötum, en ég slysaðist til að taka nóg af slíku með frá Íslandi. Maður gerði sér ekki grein fyrir hvað verður kalt á veturna, enda eru búðirnar nú komnar með prjónapeysur, mokkajakka og tunglbomsur í löngum bunum.
Ég læt fylgja eina mynd af Stebba með þessa óhuggulegu grímu. Hann hræddi líftóruna úr pabba sínum með henni, en einhvern veginn renna brúnu augun hans svo vel saman við litina í grímunni.
Alþjóðadagurinn og afslappelsi
3.5.2009 | 15:25
Alþjóðaskólinn hélt upp á alþjóðadaginn síðasta laugardag, en þar er menningarlegum fjölbreytileika innan skólans hampað. Hver bekkur velur sér land og skreytir stofuna, og býður upp á veitingar frá því landi, fræðslu og uppákomur. Bekkurinn hans Halla var Marokkó, og þar var hægt að slappa af á púðum og snæða marokkóskan mat. Stelpurnar dönsuðu síðan í hringlandi pilsum. Við sáum nú reyndar ekki mikið af Halla, sem var að hjálpa til í Marokkó, og fór svo með vinum sínum í heimsóknir í ólík lönd og að leika í leiktækjum. Þarna var hægt að finna Kanada, Mexíkó, Indónesíu, Grikkland, Ítalíu (frábærar pizzur), Argentínu (krakkarnir sýndu frábæran tangó) og fjöldamörg önnur lönd. Leikskólinn var Ísrael af öllum löndum veraldarinnar en þar var boðið upp á ljúffengan mat og fullt af skemmtilegum leikjum fyrir þau yngstu. Ég hafði boðið mig fram í andlitsmálningu og hóf daginn með að mála spennta krakka.
Hér er Óskar, skrautlegur eftir móðurina, klifrandi upp í tré.
Og litlu strákarnir í leiktækjum fyrr um morguninn.
Dagurinn heppnaðist mjög vel, og var með öðru sniði en í fyrra, en helgin var rétt eftir að við komum til Namibíu. Þá var helst hægt að setjast niður í bjórtjaldi þar sem foreldrarnir gátu setið og þambað bjór af hjartans lyst. Við þurftum að hafa mikið fyrir að finna djús handa drengjunum. Mjög þýskt. Nú var allt annað snið á hlutunum og miklu meiri fjölskyldustemning og við skemmtum okkur hið besta.
Nú eru langar helgar í löngum bunum, öll fríin virðast falla á þennan árstíma. Við erum bara heima að slappa af þessa helgina, fórum út að borða við vinum okkar og gerðum heiðarlega tilraun til að fara og spila borðtennis úti í bæ í gær, en það eru svo margir út úr bænum þessa dagana, svo því var frestað. Grilluðum í staðinn og héldum borðtennismót heima í garðinum í staðinn. Í morgun erum við búin að fara í ræktina, Halli var með vin sinn í sleepover og nú eru þau þrjú að spila tölvuspil inni í herbergi. Óskar fékk að fara til Rúnars Atla vinars síns í heimsókn, og var afar sæll með það. Dabbi er búinn að vera að baka bláberjamúffur sem eru núna inni í ofni og Stefán er að taka miðdegisblundinn sinn. Á morgun er líka frí svo að afslöppunin heldur bara áfram.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 16:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)