Bloggfærslur mánaðarins, júní 2009

Heimferð í augsýn

Nú er kominn heimferðarhugur í fjölskylduna. Air Namibia sló aðeins á þann titring með því að aflýsa fluginu okkar, sem var næturflug á laugardagskvöld, og við þurfum að fara í dagflug í staðinn á sunnudag. Flugfélagið var heldur ekki að láta vita af þessu, heldur fréttum við þetta úti í bæ. Þá þurfum við að stoppa yfir nótt í Frankfurt og taka eftirmiðdagsflug til Íslands á mánudag. Við erum nú ekkert eiturhress yfir þessu, enda auðvelt að taka strákana í 10 tíma næturflug þar sem þeir sofa megnið af tímanum. Erfiðara er að hafa ofan af fyrir þeim í 10 tíma yfir daginn, og þá sérstaklega Stefáni. En það hlýtur að hafast. Finnskir ferðalangar sem voru að koma í gegnum Frankfurt voru látnir sitja í vélinni í 4 tíma úti á braut, fengu mat og þessháttar, en svo var fluginu bara aflýst eftir þessa 4 tíma bið úti í vél. Maður vonar til Guðs að slíkt hendi ekki okkur. Air Namibia er því neðarlega á vinsældarlistum hjá fleirum en okkur.

Skólinn er að klárast á morgun, og nú eru krakkarnir í lokahófum og að klára skólastarfið, en það er stuttur skóladagur á morgun. Ég hef verið að ganga frá lausum endum og svo förum við að pakka á morgun. Reikningsheilinn hann Halli benti á að Stefán er nánast búinn að búa jafn lengi í Afríku og á Íslandi. Það er alveg kominn tími til að hann fari heim að sjá framan í ættingjana.

Karnival dýranna

bit 2 018

bit 2 026

Ég var að koma frá karnivali dýranna, þar sem yngstu bekkirnir í alþjóðaskólanum héldu tónleika fyrir foreldra, þar sem þemað var dýr. Leikskólakrakkarnir voru skjaldbökur. Óskar sendi móður sinni nokkra fingurkossa á góðri stundu við fögnuð foreldra, þar sem hann leit út eins og óperusöngvari eftir heimsklassa performans. Hér eru nokkrar myndir af drengjunum. bit 2 027

bit 2 035bit 2 037
Af Halla er það að frétta að hann er enn heima, en er á batavegi. Davíð og hans ferðafélagar eru nú á heimleið en þurfa að leggja að baki yfir 1200 kílómetra í dag, svo að dagurinn verður langur hjá þeim.


Líf og leikur

Þegar við fluttum út, komum við með óskapar magn af íslensku barnefni - leikritum, þáttum og myndum handa strákunum. Eggert Þorleifsson var ákaflega vinsæll á tímabili, þar sem hann leiklas alla gömlu Tinnaþættina, sem horft var á lon og don, og fór á kostum í hlutverki Vælu Veinólínu. Á sama tíma hljómaði Hárfinnur í tækinu og við fullorðna fólkið álpuðumst til að horfa á Stóra planið. Nú er Íþróttaálfurinn aðalhetjan hjá Stefáni og ef hann er þægur og stilltur fær hann að horfa á myndbrot af netinu í tölvunni. Við vorum áðan að horfa á Magnús Scheving tala um hugmyndafræði þáttanna á netinu (náttúrulega búin að fara í gegnum allt hitt efnið) og klöppuðum honum lof í lófa.

legoRúnar Atli er núna í heimsókn og er lególeikur í fullum gangi, en Óskar leikur sér lon og don að því. Þar umbreytast flugvélar í þyrlur yfir í bát og svo aftur í flugvélar. Mjög praktískt því leiknum er aldrei lokið. Stefán aðstoðar eftir megni og syngur svo twinkle twinkle little star fyrir byggingarmeistarana.

málariÁður hafði Óskar tekið litunar- og málunaræði og eyddi heilu og hálfu dögunum í að lita eftir númerum.
Fótboltaguttar
Hér kemur svo önnur mynd af stákunum þegar þeir voru að fara í crazy soccer day í skólanum. Halli er nú reyndar ekki alveg jafn hress á þessari stundu og hann var á myndinni. Hann fékk einhvern veginn bit á kviðinn í síðustu viku sem er heiftarlega sýkt, væntanlega kóngulóarbit. Fór til skólahjúkkunnar á föstudag, læknis á sunnudagmorgun og byrjaði á lyfjum, annar læknir í býtið á þriðjudagsmorguninn og enn meiri lyf. Hann er alveg bakk og við bíðum nú eftir að seinni lyfin fari að virka. Davíð er í vinnuferð fyrir norðan og snýr til baka seint á föstudagskvöldið. Við höfðum ætlað út úr bænum um helgina á fótboltamót með Halla, en þeim áætlunum hefur öllum verið aflýst. Annars er allt við það sama, nema Windhoekbúar kvarta sáran yfir kuldakastinu sem hefur hrjáð þá, og virðist ekki ætla að linna. Þetta er ágætis aðlögunartími fyrir okkur drengina, svo að viðbrigðin verða ekki mikil þegar við komum heim til Íslands.


Blessaðar skepnurnar

Hér er ein góð af Himbakúm að svala þorstanum. Nautgripirnir ganga fyrir mannfólkinu, en þegar Himbi er spurður um það mikilvægasta í lífinu svarar hann, nautgripir númer eitt, nautgripir númer tvö og nautgripir númer þrjú. Fjölskyldan kemur svo á eftir því. Búfénaðurinn er ekki bara lífsafkoman, heldur endurspeglar líka félagslega stöðu, og gengur erfðum svo að ekki má ganga á stofninn. Hann gengur því fyrir þegar vatn er annars vegar, en mikilvægt er að dýrin geti drukkið úr sér trogum svo að mannfólkið noti ekki vatn úr sama íláti, því það ku vera mjög óheilsusamlegt.  

mumu


Óskar í hjarta Afríku

water 205

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Í Kuneneferðinni okkar varð Halli lasinn og ég varð því eftir heima á hóteli lengsta daginn, með Halla og Stefán. Það reyndist vera happadrjúg ákvörðun enda dagleiðin löng, vegirnir slæmir og Halli bílveikur. Óskar er hins vegar mjög hraustur og til í allt. Hann fór því ásamt Hreinsa og Davíð að heimsækja vatnsból og þorp sem eru ansi afskekkt. Leiðin liggur eftir hlykkjóttum og grýttum vegaslóðum þar sem ekið er á um 10km hraða.

Þessi mynd er af hópi Himbakrakka, sem höfðu reyndar tekið á flótta þegar ferðalangana bar að garði, því þau voru viss um að þeir myndu drepa þau. Hér er þeim að aukast kjarkurinn og eru þau komin með epli frá aðkomumönnunum, á meðan Óskar er að maula saltstangir. Himbakrakkarnir fá helst engin sætindi því að tannheilsan er slæm, enda þekkjast þar engir tannburstar. Óskar er að spá og spekúlera í krökkunum, á meðan geiturnar þramma hjá í bakgrunni. 

water 251
Óskar naut sín að sögn vel í ferðinni. Hér er hann að tengjast Himbakonu tryggðaböndum. Það er reyndar voða gott að ferðast með börn á þessum slóðum því að Himbakonurnar fara sjálfar ekki neitt án þess að vera með börnin sín með og finnst því undarlegt að sjá fólk á besta aldri ferðast án barna. Ferðalangar fá því gjarnan þá spurningu hvar börnin þeirra séu eiginlega? Börnin brjóta því klakann og auðveldara er að tala við fólk, en Himbarnir eru nú kannski ekki þekktastir fyrir að vera opnir og málglaðir.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband