Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2010
Frá toppi til táar
26.1.2010 | 14:47
Ég fór að klifra í morgun og tók myndavélina með. Maður er reyndar frekar upptekinn þegar klifrið er í gangi, svo að afrakstur dagsins var ekki mikill í myndum talið. Annar afrakstur er að ég get vart hreyft fingurna þrautalaust.
Eins og sjá má eru klettarnir hrikalegir, en henta vel til klifurs. Við Davíð ræddum þetta og ég taldi helstu hættuna vera þá að klifurfélaginn fengi hjartaáfall og væri einhvers staðar uppi í háloftunum á meðan. Reyndar gæti ég trúlega náð honum niður á tiltölulega auðveldan hátt svo að það væri kannski ekki svo mikil hætta eftir allt. Dabbi var fljótur að sjá fyrir sér aðrar aðstæður; að sá gamli fengi áfall þegar ég væri í hæstu hæðum og hann að styðja mig frá jörðinni. "Ég hef engan áhuga á að burðast með þig lamaða frá toppi til táar", komst hann að orði. Hann er sumsé ekki alveg sáttur við klifrið.
Er ekki freistandi að hendast þarna upp?
Myndatökur og fleira
25.1.2010 | 18:33
Ekki mikið að frétta af daglegu lífi hjá okkur. Dabbi segir að borgin sé að fyllast af Angólafólki, og ég held reyndar að það sé rétt hjá honum. Alls staðar er töluð portúgalska þegar maður er í bænum. Þetta er efnað fólk sem kemur niðureftir til að versla. Og það verslar sko. Heilu kerrurnar af fatnaði og dóti. Gott fyrir efnahaginn hér, en það eru fáar búðir þarna uppfrá.
Halli er útskrifaður af markaðsfræðideild skólans, búinn að framkvæma þrjár markaðskannanir og getur sagt ykkur allt um markaðinn. Óskar bara reiknar og reiknar þessa dagana. Alveg ágætt.
Nú eru að koma myndatökur fyrir árbókina í skólanum. Bekkjarsystir hans Óskars fór í klippileik og snoðaði af sér toppinn, mjög flott. Stefán er með laglegt glóðarauga eftir að hafa hlaupið á vegg hér heima. Sá verður flottur í bókinni. Hann hefur nýlega uppgötvað fjörkálfinn í sér og er hættur að vera þessi rólyndispiltur, er sumsé kominn í takt við afganginn af fjölskyldunni. Hann er orðinn orðinn yfirlýst partýdýr fjölskyldunnar. Hann er með geislaspilara inni hjá sér og hefur spilað Latabæ linnulaust og sungið með fullum rómi. Nú er hann kominn með suður ameríska djassaða tónlist, sem er af diski sem vinkona mín gaf mér í jólagjöf, og dansar linnulaust með miklum látum við hana. Hann heimtar líka tónlist á leiðinni heim frá skólanum á degi hverjum. Alltaf partý hjá honum. Hvaðan koma þessi gen eiginlega?
Ég er að verða eins og miðaldra, kvenkyns útgáfa af karate kid, farin að grípa moskítóflugur á flugi. Eini munurinn á mér og karatedrengnum er að hann notaði matarprjóna en ég nota guðsgafflana. Þetta skilar alveg ágætis árangri. Miklu færri bit.Vinir og fjölskylda | Breytt 26.1.2010 kl. 05:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Smá frá Zim og Botswana
21.1.2010 | 15:47
Eftir ferðina til Zimbabwe og Botswana stóðu einhverjar 6000 myndir, en Maggi stóð myndavaktina. Ég fregnaði að það væru allt að 400 myndir af sama fuglinum, en sel það ekki dýrara en ég keypti. Ég sé ekki að ég geti nokkurn tíma grafið mig í gegnum það allt til að flokka og sortera. Kannski ef ég verð komin með nóg af krítískum kenningum og velferðarhagfræði.
En myndirnar eru góðar, og algjörir gimsteinar innan um. Ég skelli hins vegar inn núna mannlífsmyndum, mest af okkur fjölskyldunni til að sýna hvað við vorum í góðri stemningu. Við leigðum rútu og komumst öll þar inn, með nóg pláss fyrir farangur. Dabbi gerðist rútubílstjóri og svo var keyrt og keyrt.
Við byrjuðum á að fara til Grootfountain, svo Mahango, áfram upp Caprivi, í gegnum Katima Mulimo, Botswana og til Victoria Falls í Zimbabwe. Allt gekk eins og í sögu. Það var reyndar komið rökkur þegar við komumst loks yfir landamærin til Zimbabwe. Þá vorum við stoppuð af úniformuðum manni. Engin umferð og engin ljós, bara vegur sem lá í gegnum þjóðgarð. Signý átti stórafmæli og var viss um að sjá ekki það næsta. Ég var nú eiginlega á því líka.
Signý: uss, Dabbi, keyrðu bara áfram, vertu ekkert að stoppa
Dabbi rútubílstjóri: ha, ég fer ekki að byrja á því að keyra niður lögreglumann (skrúfar niður rúðuna)
Löggumann: do you have anything from the bush?
Dabbi rútumann: from the bush??? No, we just want to get to our hotel
Þarna lauk þeim samskiptum. Hann var sumsé að hafa eftirlit með veiðiþjófum, en mikill skortur hefur verið í landinu, og gnægð fæðu að fá úr þjóðgörðunum. Svo að Dabbi drap engann, og við sigldum í gegnum myrkrið og sungum afmælissönginn. Daginn eftir voru Viktoríufossar skoðaðir og farið í booze crouse svo fóru nokkrir útvaldir í raftsiglingu á Zambesi ánni daginn eftir það. Ég hugðist fara en fékk magakveisu (mér finnst líklegast að Dabbi hafi byrlað mér ólyfjan því að hann fékk mitt pláss á bátnum) og í kjölfarið lyf hjá Signýju. Hún kom með ágætan lyfjaskáp og ætti að taka Signýju með í allar svona ferðir.
Þá var farið niður til Chobe þjóðgarðsins í Botswana og í gegnum Nata að Makadikadi saltpönnunni. Þá til Maun þar sem við flugum yfir Okavango Delta og loks heim til Windhoek. Þetta voru 10 dagar í allt, og 3300 km. keyrsla, eða hér um bil.
Eina sem skyggði á ferðina hjá Dabba var að hann var aftur stöðvaður af löggumann, nú í Botswana og fyrir of hraða keyrslu. Þeir eru víst voða mikið í þessu (við höfum komist að því á okkar ferðum að ef að Lonely Planet varar við einhverju, þá gerist það nánast undantekningalaust). Það var svo skemmtileg tilviljun að við hittum þarna vini okkar sem höfðu verið stoppaðir líka. Þau voru á 140 km. hraða, en Dabbi átti ekkert í það, var bara á 80. Enda var pinni undir bensíngjöfinni sem tryggði að hann stundaði engan ofsaakstur á afrískum vegum. Hann er hins vegar ekki ennþá búinn að jafna sig á að hafa þurft að borga sekt fyrir hraðakstur í Botswana.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 15:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Klifra, klifra kletta
19.1.2010 | 14:50
Það var aldrei að kynntist ekki einhverjum áhugaverðum karlmanni í ræktinni, eftir samviskusamlega mætingu síðustu tvö árin. Magga, sem skoðaði hann, taldi nú ekki heimturnar vera góðar, eftir allan þennan tíma. Þessi var aldinn Þjóðverji, sem var svo elskulegur að bjóða mér með sér í klettaklifur þar sem hann vantaði klifurfélaga.
Við drifum okkur í morgun, á gullfallegan stað sem er í 20 mín. keyrslu suður af borginni. Eftir smá gang af veginum er komið í klettaborg sem er í laginu eins og skeifa. Lóðréttir hamrar úr sandsteini og kvarts, sem eru um 25 metra háir. Þarna er sportklifur stundað, og ég fékk aldeilis að spreyta mig við klifur og aðstoð (hvaðanúheitir á íslensku). Ég hafði áður prófað klifur í c.a. 2ja metra hæð frá jörðu, í Klifurhúsinu. Sá gamli þeyttist um klettaveggina eins og kóngulóarmaður, vendilega studdur af mér á jörðu niðri, en rassinn á mér var nú umtalsvert þyngri í klifrunum. Ég fengi nú seint verðlaun fyrir klifurþokka eða glæsileika. Sá gamli var ótrúlega þolinmóður og ég náði fljótt tökum á þessu. Það hvarflaði reyndar að mér þar sem ég hékk í einhverri undarlegri stellingu þarna í háloftunum, að ég gæti eins hangið utaná einhverri þriggja hæða blokk í Grafarvoginum, með ekkert andsk... grip neins staðar.
Þetta var bráðskemmtileg reynsla, og ég væri til í að klifra öðru hvoru. Tek myndavélina með næst. Ekki eru miklar líkur til að Dabbi skelli sér með, enda með mínus áhuga, svo að hans orð séu notuð. Aðstæður þarna eru hins vegar frábærar og náttúran glæsileg. Eina sem angrar er bavíanaskítur í klettunum, en það er nú bara partur af prógramminu. Nú þarf ég bara að léttast um nokkur kíló og byrja svo hvern dag á því að taka 50 armlyftur á fingrunum. Með aðra hendi í einu, vitanlega.
Halli er með einhverja magakveisu og er heima í dag, en er bara nokkuð hress. Janúar var alltaf þindarlaus pestarmánuður heima á Íslandi, en ekki saknar maður þeirra pesta. Hér fáum við bara moskítóbit í staðinn, en það hefur rignt á hverjum degi og hefur flugan aukist að sama skapi.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 14:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Magga komin af stað
15.1.2010 | 09:29
Jæja, nú breytist heimilislífið, Magga er komin af stað til Joburg, og fer þaðan til Dubai, og svo til London. Síðan til Malasíu í næstu viku. Spennandi tímar framundan hjá henni. Við erum hins vegar leið að sjá hana fara og eigum eftir að sakna hennar mikið.
Nú er hlaupahópurinn að mestu kominn í gang, en ég hóf daginn með hressandi hæðahlaupi í einu úthverfanna. Um síðustu helgi fórum við hjónin í 10K hlaup, þar sem ég beitti hraðastjórnun í miklum móð á Davíð í fyrstu 7 kílómetrana (með hjálp fína, fína hlaupaúrsins sem hann gaf konunni sinni í jólagjöf), og bætti hann tímann sinn um nærri fjórar mínútur. Það var hið besta mál.
Það var mikið um að vera í gærkvöldi. Við fórum út að borða til að kveðja Möggu. Svo kláraði Óskar Gagn og gaman. Mikið óskaplega var ég fegin. Þetta eru jú rúmlega 90 síður, svo að maður fær alveg nóg. Óskar fékk hins vegar verðlaun fyrir að klára bókina, og var alsæll í gærkveldi með nýjan legókassa (sem hann fékk reyndar ekki að byrja á því það var kominn háttatími). Hann fær ekki að lesa ensku fyrr en hann verður orðinn fimm ára, en þá ætti íslenskulesturinn að vera orðinn honum nokkuð tamur. Við eigum íslenskar bækur sem ættu að duga okkur fram til vors/hausts. Hann skiptir nú stundum yfir í ensku, hér er sýnishorn frá því að hann var að lesa hér rétt um daginn:
"X og Z eeeru hjjjón. Kyssaaast upp á títuprrrjón. Wow, this is freaking me out."
Og skyldi engan undra.
Halli var önnum kafinn í allan gærdag og var svo að baslast við að ljúka heimaverkefni í gærkvöldi. Krakkarnir eru að læra markaðsfræði í þessari lotu og verkefnið var að markaðssetja popp. Það gekk upp og ofan, en því lauk í morgun með því að popppokinn var kominn með sólgleraugu og glæsilegt bros. Varan hét HAPPYCORN og slagorðið var R U READY 2 SMILE? Kannski getur Halli séð fyrir foreldrunum í ellinni með því að búa til slagorð.
Framundan er verkefni þar sem þau búa til einhverja vöru, og selja svo á markaðsdegi við verslunarmiðstöðina. Markaðurinn ræður því velgengni vörunnar, og þ.m. krakkanna í lotunni. Það verður gaman að sjá það mótast. Krakkarnir eru mjög skapandi, og miklar umræður um framsetningu vöru, markhópa, verðlagningu o.s.frv. Á sama tíma eru þau að læra enskan orðaforða úr markaðsfræðinni. Halli er líka kominn í gítartíma hjá þýskum gítarsnillingi, og gengur vel. Kannski verður hann bara spilandi og syngjandi markaðsgúrú.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 10:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Jólastuð í Kuneneferð
13.1.2010 | 14:19
Fyrst ég er nú búin að uppgötva kosti picasa, þá skelli ég inn myndasýningu hér neðar frá Kunene ferðinni, þar sem við fórum inn í hjarta Kaokolands. Magga á frasa ferðarinnar: "ég er bara í sjokki, þetta er svo fallegt". Hvað finnst ykkur?
Reyndar vorum við akkúrat þá að keyra í gili frá Pourros, í vesturátt þar sem náttúrufegurðin er gífurleg. Við vorum að leita að ljónum, sem reyndust svo hafa farið alveg niður að strönd, en þau fara stundum niður á Helgrindarströnd til að gæða sér á selum og hvalreka.
Kunene er hérað í norðvestur Namibíu sem er þónokkuð stærra en Ísland, og þar telst vera síðasta ósnortna víðerni Afríku og þó víðar sé leitað. Við rákumst ekki á neitt ferðafólk, enda er nú ekki fjölfarið þarna. Við fórum eftir vegaslóðum sem eru eins og draumur jeppaferðalanga (er búin að finna hlaupaleið sem yrði kjörin fyrir hlaupafólk í ævintýraleit, bara ekki svona á heitasta tímanum). Við vorum þríbíla en ferðafélagar okkar voru frá vatnsmálaráðuneytinu og frjálsum félagasamtökum sem hafa unnið við beitarstjórnun á svæðinu í marga áratugi. Þeir voru staðkunnugir, enda eins gott því að þarna er auðvelt að villast. Einn bíll fór útaf einu sinni, og svo lentum við ofan í árfarvegi þegar við vorum búin að skilja við ferðafélagana. Við vorum svo glöð að sjá vegamerkingu að við fylgdum henni í blindni með ofangreindum afleiðingum. Það fór nú allt vel að lokum. Í myndasýningunni má sjá marmaranámu, húsið á hæðinni, rauðtunnu, fjölskylduna, en síðast ekki ekki síst náttúruna og mannlífið. Ferðin tók viku og gekk í alla staði hið besta.
Samveran í bílnum gekk glimrandi vel. Við fórum með jólalögin með okkur og sungum við raust við Baggalút. Þar var líka mikið spjallað og sumir að berjast við bílveiki í hristingnum.
Magga: ég get svarið það, ég held að þessir tveir séu minnst bílveikustu börn í heiminum
Óskar: Magga, sjáðu hér í Gagn og gaman... Tóóótii hnerrar oog hnnerrar
Stefán: Magga, Magga, Magga, sjáðu kúkabókina - hver á þetta spor, sjáðu, þetta spor?
Magga: úfff strákar, það er ekki hægt að lesa í svona hristingi, það getur það enginn. Ég sver það, þeir eru ekki eðlilegir. Halli, þú er hvítur í framan. Varstu að spila gameboy? Ekki vera í svona kuðung. Það er ávísun á bílveiki. Hallaðu þér bara aftur, svona, og reyndu að anda rólega.
Hitinn úti er um 40 yfir daginn, og er það eins og að ganga inn í ofn þegar maður opnar bílhurðina til að fara út. Sólin er yfir hvirfli manns þegar hún er í hádegisstað. Þá ríður á að finna skugga. Himbarnir láta sér fátt um finnast og teyga það sem dýrmætast er af öllu dýrmætu á þessum slóðum; vatnið.
Nú fer að líða að því að Magga fari til Malasíu, reyndar fyrst til London. Suður afrískur réttur í kvöldmatinn af því tilefni.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 14:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Desember í Afríku
12.1.2010 | 06:35
Eins og nokkrir hafa bent á, þá er ég komin ansi langt á eftir í færslum. Á eftir Zimbabwe og Botswana ferð, Kunene ferð, Etosha ferð og jól og áramót.
Hér er smá sýnishorn af því sem við vorum að bralla í desembermánuði. Eins og sjá má voru Magga Dísa og mamma með okkur yfir jólin. Við nutum lífsins, fórum í matarboð og héldum matarboð, fórum til Lake Oanob yfir nótt, hlupum og fórum í ræktina, og mamma og Magga fóru með strákana í safarí.
Svo er smá pistill um jólin í Namibíu í veftímariti Þróunarsamvinnustofnunar.
Gleðilegt nýtt ár!
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 12:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)