Bloggfærslur mánaðarins, desember 2010
Hérumbil flutt
1.12.2010 | 15:31
Við héldum upp á fullveldisdaginn með því að koma dótinu okkar út í flutningabíl og er nú húsið hálf tómt. Íslensku fánarnir fóru niður í kassa. Hér hefur verið hamast látlaust við pökkun og við þykjumst góð að hafa klárað verkefnið. Í gær kom flokkur manna að hjálpa okkur við að pakka inn, en við sáum þó um allt dót úr skápum og herbergjum, en þeir um stærri muni og skraut. Einn félaginn mætti of seint, ilmandi af víni, góðglaður og brosandi út að eyrum, og mjög skrautlega tenntur. Hann var lang hressastur á svæðinu, en hann kunni að lesa og skrifa og hélt utanum vöruskrána.
Við höfum alltaf lifað í þeirri trú að við værum svo óskaplega nægjusöm, en eitthvað er fallið á það núna, eftir að við sáum kassa eftir kassa fyllast af alveg bráðnauðsynlegu dóti sem við förum með til Íslands. Við skiljum þó alveg ótrúlegt magn eftir. Leja verður væntanlega með fullbúið barnaheimili þegar við förum, fullt af hjólum, leikföngum, fatnaði og húsgögnum. Davíð sem kann vel við að spara hafði í byrjun beðið mig um að "fara nú ekki alveg hamförum í að gefa dót", en sú rödd dó út fyrir löngu. Mínar áhyggjur snúast nú að mestu um að gámurinn skili sér ekki og allar mínar vettvangsnótur týnist þar með.
Maður er farinn að spá í hvers maður muni sakna þegar heim er komið. Kannski helst þessara hversdagslegu hluta. Um síðustu helgi fórum við niður í miðbæ, þar sem við sátum saman á bekk, gæddum okkur á ljúffengum ítölskum ís í hitanum og fylgdumst með mannlífinu. Þarna sigldu tvær berbrjósta Himastúlkur framhjá í stuttu leðurpilsunum sínum, makaðar leir. Þar voru einnig owambo tískudrósir í háum hælum og gallabuxum, með þrýstinn afturenda sem sveiflast til og frá hverju skrefi. Blaðasalarnir horfa viðurkenningaraugum á eftir þeim. Hereokona í hátíðarbúningi stoppaði hjá okkur og var að bisast við að festa eitt af undirpilsunum betur, áður en hún hélt ferð sinni áfram. San götustrákar hlupu framhjá með látum, og maður fann ramma reykjarlyktina af þeim. Tvær eldri, þýskar frúr, báðar með sérkennilegt fyrirferðamikið, rautt, litað hár, skröltu áfram á hælunum sínum og földu sig bakvið risavaxin sólgleraugu. Og inn á milli ráfa sveittir ferðamennirnir, uppdubbaðir í kakímúnderingar, opinmynntir yfir framandleikanum og óvissir hvert ferðinni skuli heitið. Sú blinda sat þolinmóð á sínum stað og beið eftir að einhver gaukaði að henni aur.