Bloggfærslur mánaðarins, júní 2010
Pakki pakk
17.6.2010 | 19:18
Þjóðhátíðardagurinn fór í undirbúning fyrir ferð okkar heim til Íslands.
Ég fór í þriggja daga vinnuferð upp til Rundu í norðaustur Namibíu í vikunni, sem gekk svona glimrandi vel fyrir mína vinnu. Ég talaði við fólk í opinbera geiranum og í þróunarsamvinnu innan vatnsgeirans. Tók m.a. þátt í námskeiði til að þjálfa fólk í samfélögunum til að greiða úr vandamálum tengdum vatnsverkefnum á eigin forsendum. Þetta var bráðskemmtilegt, því þátttakendur voru svo skapandi, mótuðu leikþætti til að setja á svið ólík vandamál sem þau þekkja af eigin raun og hvernig mátti nota ólíka leiðtogahæfileika til að leysa úr vandamálunum.
"Þær tvær eru konur að koma að sækja vatn. Þessi er umsjónarmaður brunnsins. Þessir tveir eru kúasmalar. Þessi er eigandi barsins."
Svo hófst leikþátturinn. Vandamálið var að kúasmalarnir tóku allt vatnið frá konunum, og að umsjónarmaðurinn var latur og hékk á barnum. Eigandi barsins var alveg vitlaus þegar átti að ná umsjónarmanninum út að brunni til að opna fyrir vatn - fólk ætti ekki að taka frá honum besta viðskiptavininn, hvernig ætti hann þá að eiga til hnífs og skeiðar. Við hlógum okkur öll máttlaus, þó að mestu væri talað á Kavango máli og túlkunin upp og ofan. Lausnin fólst í að umsjónarmaðurinn ætti ekki endilega að hætta að drekka áfengi, heldur mætti hann bara drekka á kvöldin og tryggja að allir fengju réttlátan aðgang að vatni á daginn. Þau voru mikið fyrir málamiðlanir, þetta var trúlega mjög raunhæf lausn. Allir héldu sínu og réttlæti tryggt.
Eins og gerist ætíð þegar ég bregð mér frá búi, þá var Halli veikur, og er búinn að vera frá skóla í viku. Það er amk. heppilegt að HM er í gangi svo að hann getur fylgst vel með. Við fórum enn og aftur til læknis í dag sem var með mikinn áhuga á genum Íslendinga, eins og fleiri. Hann fræddi okkur einnig á því að yfirstandandi rannsókn sýnir einhverjar tilteknar vændiskonur í Naíróbí geta ekki smitast af eyðni. Það sé trúlega genetískt. Verst er að þær eru drepnar af glæponum eins og fleiri í þessari starfsgrein, vísindamönnunum til mikils ama. Þeir gera ekki greinarmun á milli góðra gena og slæmra.
Skólanum er að ljúka, og allar einkunnir komnar í hús. Stefán gerði þessa fínu mynd sem átti að endurspegla sjálfið, þar sem mátti sjá hann vera að læra heima og bræður hans voða sætir að hjálpa honum af því að hann er svo lítill. Aðspurður sagði Stefán hins vegar að þetta væru kindur og gerði pabba sinn þar með alveg ruglaðan.
Halli greindi heildarniðurstöðurnar og telur að Óskar standi sig best akademískt, þá hann sjálfur og loks Stefán. Hegðurnarlega sé staðan hins vegar þveröfug, Stefán standi upp úr, þá Halli og Óskar reki lestina. Hann er með ágætis greiningarhæfileika, drengurinn.
Við höldum heim til Íslands á morgun, pökkun er í fullum gangi.
Enn af lokaverkefnum
7.6.2010 | 12:41
Stefán var að flytja sitt lokaverkefni í skólanum í morgun, um fíla. Fór með þessa heljarinnar fílahárkollu og tjáði sig fyrir framan bekkinn um þessi göfugu dýr (þau eru með show and tell í hverri viku). Óskar gerir sitt á föstudag, en hans bekkur á að skrifa sögu og flytja hana með handbrúðum, sem allir eru búnir að útbúa heima og skila inn.
Þemað er sirkus. Óskar er búinn að gera uppkast að sögunni sinni sem varð eiginlega hálf ruglingsleg og endaði illa. Hans brúða er trúður, en við bökuðum andlitið úr trölladeigi og límdum sleif á hana, skreytt skyrta utanum. Svona er sagan:
Once upon a time there was a little clown. He caught an animal, a lion, from the forest. The lion tamer in the circus let him jump through a fiery hula hoop. The small clown made funny things in the circus. He had balloons and a big flower. The lion bid the clown.
Þegar þarna var komið sögu fannst móðurinni að sagan væri að taka á sig óæskilega mynd, svo að við ákváðum að vinna þetta frekar í vikunni. Við Dabbi fórum svo í afmælisboð um helgina, Halli á grímuball í skólanum og loks héldum við matarboð. Við verðum að nýta tímann vel, þar sem að við erum að halda heim innan skamms. Hér eru síðan nokkrar myndir sem við tókum á sýningunni og útskriftinni hans Halla um daginn:
Lokaverkefni Halla
4.6.2010 | 12:02
From 2010-05-06 WIS exhibition May 2010 |
Vettvangsferð til Omaheke héraðs
4.6.2010 | 06:26
Við Björn Páll fórum í vettvangsferð til Gobabis í Omaheke héraði um daginn þar sem ég ræddi við fólk á skrifstofu vatnsmála, heimsótti skrifstofu úti í sveit og skoðaði að auki eitt vatnsból. Við fórum með yfirmanni þeirrar deilda starfsmanna sem starfa með fólkinu að vatnsmálum. Sá var bráðskemmtilegur og dældi upp úr sér fróðleik á meðan við keyrðum út í sveit. Hann er Herero, sem halda búfénað. Hann var óskaplega ánægður að ég skyldi vera úr sveit. Svoleiðis fólk hlyti að skilja hvað skepnur væru mikilvægar, svo að við sameinuðumst í kærleik okkar til búfénaðar og bárum saman búskaparhætti milli Namibíu og Íslands. Hann hafði margt skemmtilegt fram að færa.
"Sko, Oshiwambo fólkið, það er ekki eins þróað og við Herero. Við erum með nautgripina okkar, við elskum nautgripina okkar. Og við virðum konur. Ekki eins og Oshiwambo, sem lætur konurnar gera alla vinnuna. Þannig að við erum miklu þróaðri en þeir." Það kom upp úr kafinu að Herero með sjálfsvirðingu á að eiga amk. einn nautgrip fyrir hvert ár sem hann lifir, þannig að fimmtugur maður á að eiga amk. fimmtíu nautgripi. Ekkert minnst á konur núna. Eftir að hafa ýtt á hann, sagði hann mér að hann ætti um 90 nautgripi. "Ég verð að fara að slátra, það er heldur ekki gott að eiga of mikið. Betra að eiga peninga í bankanum sem fólk veit ekki um, þá er maður ekki að sýnast um of." Þetta er efalítið dæmi um stjórnun náttúruauðlindar af hefðasamfélaginu, þar sem menning takmarkar ofnýtingu auðlinda; ef fólk safnar ekki búfénaði (sem er merki um stöðu þína í samfélaginu) út í hið óendanlega, þá getur allt samfélagið nýtt vatn og beitarland í sameiningu. Kynslóð eftir kynslóð.
Í héraðinu eru einnig semfélög og hópar San fólks, eða búskmanna. Gæslumaður vatnbólsins sem við heimsóttum var einmitt San, sem brosti út að eyrum svo að skein í brúnar tennurnar, þegar ég sýndi honum myndirnar sem ég var búin að taka af honum. Konan á myndunum er formaður vatnsnefndar. Þau voru mjög ánægð að fá að svara spurningum, og stolt af vinnunni sinni. Ég spurði vin minn frá vatnsmálaskrifstofunni spurninga, hann talaði við konuna á Herero, og hún spurði svo gæslumanninn á San tungumáli. Hér koma svo myndirnar.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 06:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Myndir og fleira
3.6.2010 | 07:14
Ég eyddi öllum gærdeginum á vinnufundum um niðurgreiðslur í vatnsgeiranum í Namibíu með fólki úr geiranum. Mjög áhugavert. Á meðan gerðist það markvert að Óskar var sendur til skólastjórans. Eiginlega skrýtið að hann hafi ekki verið tekinn fyrr á beinið í skólanum.
Vettvangsvinnan fyrir doktorsverkefnið er á rífandi siglingu hjá mér, í næstu viku fer ég að vinna með Evrópusambandinu og svo í vettvangsferð norður til Rundu á slóðir verkefna Lux-Development vikuna þar á eftir. Síðan verður haldið heim til Íslands í frí.
Talandi um frí, hér koma nokkrar myndir frá Swakopmund frá maí í ferðinni með Sivu og Jóa. Myndir frá Kunene og Fílabeinsströndinni eiga enn eftir að rata á síðuna, það er í hægri vinnslu.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 09:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ágætis búðarferð
2.6.2010 | 13:00
Ég stóð við hraðbankann í gær þegar vaktaskipti stóðu yfir hjá öryggisvörðunum. Annar veifaði myndarlegri haglabyssu framan í mig, og var að stympast með hana í gríni við félaga sinn sem var að koma á vakt. "Þú verður að taka hana, hún er góð þessi.." Ég horfði til himins og hugsaði hverjar líkurnar væru að hún væri óhlaðin. Engar. Líkurnar á að þessir félagar myndu skjóta mig óvart í hausinn. Verulegar. En þeir voru fjörugir og glaðir, svo að ég brosti eins og morgusólin til þeirra.
Hraðbankinn er við verslunarkjarnann Eros sem er mjög nálægt heimili okkar (nafnið minnir mig reyndar óljóst á einhver dónablöð). Þar er slátrari, kaffihús, vídeóleiga, apótek, blómabúð, innrömmun, djúsbúð (ávaxta), djúsbúð (ekki ávaxta), banki og verslun. Framkvæmdir hafa átt sér stað, svo að allt er að verða óskaplega snyrtilegt og flott. Búðin hefur líka staðið í framkvæmdum, þar er verið að skipta um allt gólfefni, en verið er að setja ægilega fínar nýmóðins flísar á gólfið. Þeir hafa ekki haft fyrir því að loka búðinni. Rekkunum hefur verið ýtt hingað og þangað, svo að viðskiptavinir þurfa að troða sér á milli til að finna vörur. Þær eru vanalega með þykku ryki og óhreinindum.
Iðnaðarmennirnir voru með slípurokk fyrir ofan dyrnar, svo að neistum rigndi yfir mann þegar gengið var inn. Og þessi indæla lykt sem fylgir. Nú voru komnir nokkrir skurðir í mitt gólfið, þar sem vinnumenn stóðu upp að mitti og hjuggu af miklum móð með hökum (það eru reyndar alltaf nokkrir aðrir að horfa á þegar einhver er að vinna). Á nokkrum stöðum var búið að setja blikkplanka yfir skurðina þar sem maður gat farið með innkaupakerrurnar yfir.
Ég var skítug og úfin þegar ég kom heim eftir að hafa skroppið í búðina. Kom sigri hrósandi með mjólkurflösku sem var brún af ryki, en hafði svo ekki fundið helminginn af því sem ég hugðist kaupa því að þeir eru alltaf að færa hluti til og frá, og enginn leikur að leita að hlutum. Ég var amk. ekki með brunasár eftir neistana, og hafði heldur ekki verið skotin í hausinn með haglabyssu. Þetta var ágætis búðarferð.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 13:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Auglýsingar fyrir HM
1.6.2010 | 06:56
Og nú að léttari málum... stemningin magnast, Maradonna fær boðlegt klósett til að gera sínar þarfir í, og fyrirtækin hlakka til að fá aukin viðskipti. Þau eru komin með skemmtilegar auglýsingar í imbann. Þessi er í uppáhaldi hjá stóru strákunum mínum - en eins og forsetinn segir, þá eiga allir að vera góðir við gestina:
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 07:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)