Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2010
Komin heim/að heiman
7.8.2010 | 14:09
Við erum komin aftur til Windhoek eftir heljarinnar ferðalag. Í Frankfurt var tekið á móti okkur með gleði, en þar voru komin Rósa og Jóndi sem fóru svo með okkur niður í miðbæ á meðan beðið var eftir vélinni til Windhoek. Halli hafði eitthvað blendnar tilfinningar að yfirgefa Ísland, en litlu drengirnir líta á Von Eckenbrecher strasse númer sjö sem sitt heimili, enda búnir að eyða stórum hluta síns stutta lífs hér.
Það er áhugavert að koma til Íslands þegar maður eyðir megninu af árinu erlendis og margt sem rifjast upp, og annað sem kemur á óvart. Hvergi í veröldinni er jafn miklu af hillurými matvöruverslana eytt undir sælgæti. Það tekur miklu meira pláss en grænmetið og ávextirnir. Heilu og hálfu gangarnir eru undirlagðir af sætindum af öllu tagi. Það er reyndar ljúft, íslenska nammið. Sest svo beint á mjaðmirnar. Þegar það gerist á Íslandi fær maður "þú ert að blása út, kona" eða "hryllilega ertu að fitna". Íslendingar verða nefninlega seint sakaðir um að skafa utanaf hlutunum. Hérna úti er hins vegar bara uppi vinningsstaða. Þegar maður er í léttingi, þá hrósa vestrænu vinkonurnar og segja hvað maður líti óskaplega vel út. Þegar maður er búinn að bæta á sig, klípa þessar afrísku í stækkandi kinnar og segja að maður sé mun fegurri, "allt annað að sjá þig".
Það verður að viðurkennast að Ísland er frámunalega yndislegt yfir sumarið, björtu næturnar, náttúran (já og Skagafjörðurinn auðvitað), fjölskyldan og vinirnir (þó við höfum nú ekki náð að hitta alla). Og ég er ekki frá því að Dabbi hafi rétt fyrir sér með að öllu léttara hafi verið yfir öllu mannlífinu yfirleitt, en áður. Nú eru þó bara 4-5 mánuðir áður en við pökkum saman hér fyrir fullt og allt.
Skólinn byrjaði með glans á fimmtudag. Óskar er byrjaður í fyrsta bekk og er með ástralskan kennara. Hann fór í fyrsta frönskutímann sinn og man ekki neitt eftir honum. Veit ekki alveg hvort það lofar góðu eða ekki. Stefán er í efsta stigi leikskólans með kennara frá Mauritius. Núna syngur hann af fullum krafti frumsamið lag um Íslandsfána og hleypur með tvo hring um húsið. Halli er byrjaður í unglingadeild og er með her af ólíkum kennurum. Hann kom heim í gær með þetta heljarinnar súkkulaðistykki sem hann fékk í verðlaun fyrir að standa sig best í keppni í hugarreikningi. Það er jú verulega öðruvísi hvatakerfið hér en heima. Krakkarnir þurftu að skila fullt af heimavinnu sem var sett fyrir yfir sumarið.
Davíð dreif sig strax í vinnuna, og biðu fullt af verkefnum eftir honum. Ég er að sortera gögn og koma tæknimálunum í farveg hjá mér, áður en gagnasöfnun byrjar aftur á mánudag. Við fórum í ræktina og svo var hlaupahópurinn endurlífgaður. Það var hress hópur sem hittist úti á hlaupabrautum í gær. Nú stefna flestallir á hálfmaraþon niðri á strönd um miðjan október, þ.m.t. Dabbi og ykkar einlæg.
Við þekkjum orðið fleiri í Kringlunni hér í Windhoek en í Kringlunni í Reykjavík, og það var gaman að hitta vinina. Sú sem var efalaust glöðust yfir endurkomu okkar var hún Leja, en hún lifir að mestu á afgöngum frá okkur, og það munar miklu þegar engin svoleiðis búbót er fyrir heimilið. Hún sigldi sæl niður götuna, eftir vinnu á miðvikudag með troðinn höldupoka af mat handa sér og stráknum sínum.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 14:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)