Twyfelfountain

 
Twyfel2Við keyrðum frá Opuwo niður til Twyfelfountain á einum degi. Þetta er í útjaðri Kunene héraðsins, en það er að stórum hluta illfært. Hér gefst ferðalöngum færi á að sjá villt dýr í eiginlegum heimkynnum sínum, þar sem þau ráfa frjáls um, en það eru ekki margir staðir í Afríku sem geta boðið upp á slíkt. Á flestum stöðum fara ferðalangar inn fyrir mörk þjóðgarða þegar skoða á villt dýralíf. Við sáum fjöldan allan af sebrahestum (sumir gætu hafa verið eyðimerkursebra, við vorum bara ekki nógu fróð til að þekkja þá í sundur), antílópum af öllum gerðum, strúta og svo sjakala. Stjórnun villts dýralífs þarna er mjög áhugaverð, en doktorinn getur sagt áhugasömum allt um það, þar sem hann gerði mastersrannsókn sína í auðlindafræði á þessum slóðum, einmitt um slíka stjórnun.

Við stoppuðum ekki oft á leiðinni, en hér eru Halli og Kári reyndar í stoppi við vegaskilti þar sem við snæddum nesti og gáfum ferðalangi líka í svanginn.



Twyfel1

Landslagið breyttist mikið á leiðinni, er mjög myndrænt og opið og var oft glettilega líkt Íslandi, en maður hefur að sjálfsögðu tilhneygingu til að bera það saman við það sem maður þekkir best.

Við vorum mjög heppin en þegar við komum á áningarstað í Twyfelfountain, þá voru eyðimerkurfílar að fá sér að drekka við vatnsbólið. Þeir eru afbrigði af sléttufílum (African bush elephants), og þola þurrk sérstaklega vel. Ég las nú einhvers staðar að þeir væru líka eilítið stærri, og það þýðir væntanlega að þetta eru stærstu landdýr veraldar. 

Þarna er ævintýralega fallegt.

 

Twyfel3

Gististaðurinn var líka ævintýri líkastur, hér eru strákarnir að nýta  síðustu geisla síðdegissólarinnar, og eru að skella sér út í sundlaugina.

 

 

 

 

 

 

Twyfel4

Twyfelfountain þýðir ótryggur brunnur, en þarna er vatnsból sem þornaði upp yfir þurrkatímann. Staðurinn er þekktastur fyrir steinristur sem gerðar voru af San fólki fyrir um 5 til 20 þúsundum ára. San fólkið er eini hópurinn í Namibíu sem hefur stöðu frumbyggja í landinu, þrátt fyrir þann fjölda hópa sem nú byggja landið. Staðurinn er nú friðlýstur og er þetta líkt og að koma í risastórt safn sem er utandyra. 

Steinristurnar segja ýmsar sögur, og hafa varðveist ótrúlega vel í allan þennan tíma. Þegar maður sér ummerki um þessa fornu menningu fer maður ósjálfrátt að velta fyrir sér stöðu San í namibísku samfélagi í dag, en þeir staða þeirra er mjög bágborin. Meira um það síðar.

 

Twyfel5 Sumir höfðu nú meiri áhuga á að skoða smásteina og leika með þá en einhverjar æfagamlar myndir á steinum.

 

Þrátt fyrir að nú væri vetur var góður hiti þarna, enda er þetta eiginlega eins og ofn þarna í eyðimörkinni. Leiðsögukonan sagði okkur að hitinn færi yfir 50 stig á sumrin.  Ég hygg að það væri nú aðeins of mikið fyrir viðkvæma Frónbúa.


Sveitaferð


Jenny2
Við skruppum í sveitaferð í dag, en Jenny, skrifstofustjórinn hjá ICEIDA á landskika stutt frá Windhoek þar sem hún eyðir helgunum með fjölskyldunni. Þau hafa kindur og við fórum að heimsækja þau nú í morgun. Aðaltilgangur ferðarinnar hjá okkur var að skoða lömbin.
 
Kindurnar eru nú aðeins öðruvísi en heima. Hér heldur Óskar á mórauðu lambi. Ullin er stríð, enda myndu þær festast í kjarrinu ef þær hefðu ullarlagð eins og íslensku kindurnar. Þessar eru ræktaðar fyrir kjötið. Eyrun eru lafandi og dindillinn langur. Lömb eru nú alltaf svo yndisleg og við gátum kjassað þau að vild.
 
 

traktor
Þau eru með 76 kindur og lömb, eitt lambanna dó reyndar úr kulda um daginn þegar kaldast var. Ærnar bera tvisvar á ári og eru þær jafn litskrúðugar og hinar íslensku systur þeirra.

Strákarnir fengu að taka í traktorinn. Svo fórum við í stutta gönguferð um skikann. Bavíanar gera stundum mikinn usla, með því að skemma girðingar og fleira. Nú voru óvenju fáir bavíanar því að það hefur verið hlébarði í nágrenninu og þá halda aparnir sig í fjarlægð. Við sáum einmitt hlébarðaspor í sandinum þegar við vorum í labbitúrnum.






Jenny3Við tókum með okkur nesti, nýbakað brauð og ýmis konar álegg, drykki og fleira og snæddum undir beru lofti. Það var frábært að fá tækifæri til að komast aðeins út úr bænum og fyrir strákana að spretta aðeins úr spori úti í náttúrunni. 
 
Hér er Jenny í makindum við nestisborðið.

Bakaradrengirnir


Baka2
Við tókum okkur til núna síðdegis eftir að Stefán hafði vaknað af blundinum sínum, og bökuðum múffur til að hafa með eftirmiðdagskaffinu.
 
Hér er mynd af öðrum bakarameistaranum sem passaði formið (notaði það reyndar sem hatt). 
 
 
 
 
 
 
 
 
baka3
Hér er hinn bakarameistarinn sem var ábyrgur fyrir að hræra í kökuna.
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
Baka1
Hér eru múffurnar konmar inn í ofn og eitthvað af deiginu komið upp í munn. Drengirnir eru í þessum glæsilegu svuntum sem amma þeirra gaf þeim.
 
Nú eru múffurnar inni í ofni og bökunarlyktin fyllir húsið. Við teljum mínúturnar þangað til að við getum farið að gæða okkur á múffum og mjólk. 

Join us og fleiri góðir barir

Namibía er rúmlega 825 þúsund ferkílómetrar, og í því búa rétt tæplega tvær milljónir manna. Það er því eilítið strjálbýlla en Ísland og í veröldinni allri er einungis Mongólía strjálbýlla. Það er því gott fyrir Íslendinga með sitt víðáttubrjálæði að ferðast í Namibíu. Mikill hluti landsins er ákaflega harðbýll og fáir lifa í suðurhlutanum, sem er að miklu leyti eyðimörk. 60% landsmanna búa norðan Etohsa og ef að Windhoek og svæðið norður af því er talið með, þá búa þar um 80% landsmanna.

Þegar komið er norður fyrir Etosha, er komið í Owamboland sem er kallað menningarlegt hjarta Namibíu. Þegar við fórum þarna um var orðið mjög líflegt að keyra í gegn, og margt fólk að fara meðfram veginum í ýmsum erindagjörðum. Sumir voru bara í stuði og dönsuðu með vegarkantinum. Sumir voru að sækja vatn, aðrir að gæta geita, og enn aðrir að koma af fótboltaleik. Við fórum í gegn á sunnudegi og keyrðum framhjá þremur fótboltaleikjum, en það virðist auðsjáanlega vera afþreyingin á sunnudögum. Mikill fjöldi fólks var þar samankominn, og við sáum smá eftir að hafa ekki stoppað til að fylgjast betur með. 

asni

Svo er náttúrulega mikið af dýrum sem fara yfir veginn eins og þetta asnagrey. Einnig má sjá ummerki regntímans, en það var mikið af vötnum hér og þar, og margir sem voru að veiða fiska með tágakörfum sem þeir setja yfir fiskinn niður í vatninu. Fiskurinn er svo seldur við vegarkantinn, hengdur þar upp í greinar.

 

 

 

bar1

Skondnustu húsin og of þau sem mest er lagt er í, eru barir. Þá er að finna mjög víða við veginn. Það sem einnig vekur athygli er að nafngiftin á börunum er oft mjög skrautleg, eins og Come Happy Bar (vonandi fer maður ennþá meira happy). Ég tók nokkrar myndir til að sýna barina, hér er t.d. Toola Silver Mines Bar...

 

 

bar2

..þessi heitir This Night Bar..

 

 

 

 

 

bar3

..og þessi bar heitir Join Us Bar, hvernig er hægt að standast slíkt boð?


Operation Red Wasps

Í gærkvöldi eftir sólsetur hófst aðgerðin rauðar vespur.

Neðst í garðinum hafa rauðar vespur verið að hreiðra um sig, og af þeim sökum höfum við ekkert verið að nota neðsta hluta garðsins. Þetta eru skaðræðiskvikindi, og stungur þeirra eru víst sérstaklega sársaukafullar. Ein namibísk vinkona okkar sagði... Já, einmitt. Rauðar vespur. Við segjum eiginlega ekki að þær stingi, heldur bíti, því það er svo sárt!

-Við Frónbúar erum nú sérstaklega varkárir varðandi skorkvikindi, og við vildum helst að garðyrkjumaðurinn sæi um vandamálið. (Það er garðyrkjufyrirtæki sem sér um garðinn, en það er innifalið í leigunni). Hann er víst búinn að vera að humma það fram af sér í mörg ár, enda eru allir logandi hræddir við þessi kvikindi. Húshjálp sem starfaði í húsinu fyrir nokkru síðan sýndi mér ljótt ör sem hún hafði fengið eftir eina stungu, en hún stokkbólgnaði á allri hendinni. Vespurnar hafa sumsé verið þarna í mörg ár, og við ákváðum því að taka til okkar ráða. Vanalega eru vespubúin brennd þegar myrkur er, því þá eru þær allar í rólegheitum inni í búinu.

Við hjónin röltum því niðureftir í myrkrinu í gærkveldi, vopnuð löngum kyndli, tveimur gerðum af skordýraeitri, grillvökva, stiga, grillbakka og slökkvitæki (allur er varinn góður). Búin reyndust vera þrjú, og við byrjuðum á að eitra þau í bak og fyrir (las svo reyndar á netinu að þessi kvikindi væru sérstaklega þolin gagnvart skordýraeitri, en það var bara gott að við vissum það ekki). Svo klipptum við búin niður, létum þau detta í grillbakkann, úðuðum grillvökva yfir og kveiktum í. Það logaði vel, og það voru bara tvö kvikindi að þvælast eitthvað í kringum búin, sem við kveiktum í með kyndlinum.

Aðgerðin heppnaðist því með ágætum og við erum hæstánægð með árangurinn.


Þjóðargersemin Etosha


Etosha 4
Við heimsóttum Etosha þjóðgarðinn, þjóðargersemi Namibíu. Þegar garðurinn var stofnaður upp úr aldamótum var Namibía þýsk nýlenda. Þá var hann á stærð við Ísland og var stærsti þjóðgarður heims. Í dag er hann er rúmlega 22 þús. km. Leiðsögubækurnar segja að hann sé hvað besti staður Afríku til að sjá villt dýralíf, og það er efalaust ekki ofsagt.
 

 
  

Etosha 8
Ferðalangurinn hefur nokkuð frjálsar hendur því að þarna getur maður keyrt um (á vegum, að sjálfsögðu) að vild, þó að ekki megi fara út úr bílunum af augljósum ástæðum. Enginn vill jú vera étinn af ljónum. 
 
Dýrin hafa vanist umferð og maður kemst mjög nálægt þeim, eins og sjá má. Myndirnar gefa lítilsháttar innsýn inn í hvað má upplifa í Etosha.

Umferðin var lítil enda var aðal ferðamannatíminn ekki hafinn. Maður fær aðeins á tilfinninguna að vera einn í Eden.
 
 
 
Ethosa 1
Mikill hluti þjóðgarðsins einkennist af saltþöku en þarna var mikið vatn til forna, sem verður svo aftur til yfir regntímann. Hann var óvenju gjöfulur í ár, svo að hún var enn þakin vatni þegar við áttum leið hjá. San sagnir segja að vatnið hafi orðið til er kona missti barn sitt og grét hún svo óstjórnlega að risastórt vatn myndaðist og saltið úr tárum hennar varð eftir þegar tárin þornuðu. Sú skýring hentar okkur Íslendingum náttúrulega miklu betur en einhverjar skraufþurrar landfræðilegar skýringar.
 
 
 
 
 
 
 
 
 
  
Etosha 9
Við sáum einnig sjakala og fjölda antílópa og þessa jarðíkorna sem eru frændur þeirra sem hafast við í bakgarðinum hjá okkur. Þá er fuglalíf afar ríkt, ekki síst þegar það er enn vatn á saltþökunni. Mikið er um strúta, sem eru mjög flottir.
 
Fyrstu nóttina gistum við utan við garðinn, og gátum því notað heilan dag inni í garðinum. Svo gistum við í Halali, sem er kampur í miðjum garðinum. Þar var alveg fyrirtak að vera, og við hvern gististað eru vatnsból sem dýrin koma að til að svala þorstanum. Fólk situr andaktukt og bíður eftir að dýrin birtist út úr runnagróðrinum, og segir ekki orð því að hávaði getur vitanlega fælt dýrin burtu.
 
 
 
Etosha 10
Við kíktum á vatnsbólið þegar sólin var að setjast. Það fyrsta sem Óskar gólaði með sinni einstaklega sterku rödd var: MAMMA, SJÁÐU, ÞARNA ER SUNDLAUG!!! og benti að vatnsbólinu. Við hlutum ófá illskuleg augnaráð frá þeim gestum sem voru þarna komnir til að berja dýrin augum. Sumir eru þarna tímunum saman og koma með kaffi á brúsa til að halda sem lengst út.

Við sáum því að þetta væri kannski ekki alveg hentugasti staðurinn fyrir blessaða drengina, en á myndinni er sólin að ganga til viðar og drengirnir að mæna út á afrísku sléttuna við vatnsbólið.




Etosha 3
Við skiptum aðeins liði um kvöldið og Andra og Haddi fóru upp að vatnsbóli á meðan við vorum með drengjunum. Þau sáu nashyrning. Við Dabbi fórum svo saman, og sáum ekkert nema hvort annað og kappklædda þýska túrista. Það var engu líkara en að þeir væru allir að fara í jöklaferð á Íslandi, í goritex með húfur og hanska. Þetta var á laugardagskvöldi og í næturhúminu barst þessi fína partýtónlist frá hýbýlum þjónustufólksins sem var þó í nokkurri fjarlægð, ekta afrískur söngur.



Ethosa 2
Seinni daginn notuðum við til að koma okkur í rólegheitum út úr garðinum og við síðasta vatnsbólið sem við stoppuðum var 16 fíla hjörð og gíraffar í massavís. Fílsungarnir eru ótrúlega flottir.

Það er nú dálítið skrýtið að sjá þessi massífu dýr drekka, og það án mikilla láta. Við vorum nokkuð nálægt, og vorum að bisast við að halda þögn í bílnum. Við gáfum drengjunum snakk og nammi að maula, og eftir smástund var farið að hrópa NAMMI!....súpa!... hvar er geimbojinn minn? -Maður sá fyrir sér að annað hvort myndi öll hjörðin flýja út í buskann eða að óður fíll kæmi að trampa á bílnum með geimboj og öllu.



Etosha 6Til þess kom þó ekki og þessi glæsilegu dýr drukku nægju sína og hurfu svo á brott, ótrúlega hljóðleg.
 
Á leiðinni út um norðurhliðið voru miklar hjarðir af dýrum á sléttunni, m.a. af wilderbeest, sem eru glæsileg dýr. Ég bjóst hálfpartinn við að nafni hans Dabba, Attenborró myndi spretta upp úr skrælnuðu grasinu segjandi... here, midst in unspoiled Namibia these manificent animals graze under the burning African sun.... 

Brrrr

Á meðan sumarið nær hámarki á Íslandi er hávetur hér í Windhoek. Í morgun var allt hrímað í garðinum og húsið er hrollkalt. Allar sængur og teppi hafa verið tekin í notkun og við erum í flíspeysum hér innandyra. Í morgun þegar ég skrapp til slátrarans var ekki ólíkt því að vera á fallegum haustmorgni á Íslandi, gufa kemur úr vitum fólks og allir eru dúðaðir. Nú er sólin þó farin að hita, en hitinn á að ná upp í 20 yfir hádaginn skv. spám.

Einhver staðarmaður hélt því fram að nú um helgina væri veturinn hér í Windhoek, og að vanalega væri fyrsta helgin í júlí hámarkið og að veðrið snerist til betri vegar eftir það. Við eigum eftir að sjá til hvernig sú spá rætist.

Óskar og Dabbi skruppu í bíó, þetta verður í annað skipti sem Óskar fer í bíó, en hann fór einu sinni á Íslandi með frænkum sínum. Við Stefán tökum því rólega á meðan hér heima við.


Þjóðhátíðarheimsókn í skóla

Skóli 3Leiðsögumanninum leist svo vel á okkur að hann bauð okkur í óvænta heimsókn í skóla í nágrenninu, sem við þáðum með þökkum. Þarna skröltum við uppi á palli öll tíu í meira en hálftíma eftir hálfgerðri vegleysu. Við komum að skólahúsi sem hafði einu sinni verið kirkja og þar fyrir utan voru allir nemendurnir, sitjandi á klappstólum í sandinum. Skólinn var fyrir nemendur í fyrsta til fjórða bekk, en aldur nemendanna var mismunandi, allt upp í 15 ára aldur.

 

 

 

Skóli 2

Við heilsuðum upp á krakkana sem voru náttúrulega spennt að fá gesti. Það er örugglega ekki oft sem sex ljóshærðir strákar koma í skólaheimsókn þarna.

 

 

 

 

 

 

Skóli 1

 Himbakrakkarnir ganga í skóla með hinum, þó að skólagangan sé stundum rysjótt.

 

 

 

 

 

 

 

 


Skóli 4

Svo farið í kennslustund og við fengum að fylgjast með kennslu, en eina greinin sem kennd er á ensku er stærðfræði. Kennarinn var að fara yfir tvisvar sinnum töfluna með fjórða bekk. Halli var nokkuð imponeraður því að hann hélt í fyrstu að þau væru að fara í 12 sinnum töfluna (það var svo mikið kám á töflunni) og fannst þetta sko almennilegt. Það var mikill spenningur í bekknum og klappað ógurlega þegar einhver nemandanna kom með rétt svar.

 

 

 

Skóli 5

Það er erfitt að snúa að töflunni þegar það eru gestir frá Íslandi eru aftast í stofunni.

 

 

 

 

 

 

 

Skóli 6

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Skóli 7

Svo buðu þau upp á tónleika, nokkrir nemendur komu upp á svið og sungu og dönsuðu fyrir okkur. Drengurinn í bláu skyrtunni var með ótrúlega skæra og fallega rödd. Hann var forsöngvari sem syngur fyrst og svo svarar kórinn. Tær barnsröddin fyllti skólahúsið og hefur efalaust borist langt út um sveitina.

 

 

 

 


Skóli 8

Krakkarnir voru aðeins feimin í byrjun en dönsuðu síðan skemmtilega og slógu taktinn með fótunum. 

 

 

 

 

 

 

 

 

Skóli 9

Við ákváðum náttúrulega að reyna að gefa eitthvað til baka og fórum upp á svið. Ég er nú hrædd um að framlag okkar til tónlistargyðjunnar hafi nú ekki verið eins markvert eins og infæddu krakkanna. Við sungum um dagana og mánuðina, en allur skólinn hafði sungið um þá þegar við mættum fyrst á staðinn. Við höfðum einmitt fengið ágætis æfingu í að syngja um dagana, því að Gunnar hafði kyrjað þann söng af miklum krafti í ferðinni. Hann tók sér reyndar pásu þarna. Ég fór upp til að styðja drengina í söngnum, og sagði líka að við værum glöð að vera komin og að það væri þjóðhátíðardagurinn okkar í dag svo að í dag væru hátíðahöld hjá okkur. 

 


Skóli 10Við sungum lagið bara tvisvar og krakkarnir voru hálf hissa þegar við létum það bara nægja, því að krakkarnir höfðu sungið nokkuð lengi sjálf.

Svo skoðuðum við aðeins skólann, en á bakvið skólann var heljarinnar pottur á hlóðum með maísgrautinn mallandi. Það er mikilvægt fyrir skóla að bjóða upp á mat - sem reyndar samanstendur vanalega bara af maísgraut. Maturinn er hvati fyrir krakkana að mæta í skólann, og fyrir foreldrana að senda krakkana. Ef vel árar er sykri eða fitu bætt í grautinn. Krakkarnir elda sjálfir grautinn, og skiptast á að taka það verkefni að sér.

Svo gáfum við skólanum smá pening, og það var ákveðið að fara strax í næsta þorp að kaupa kex handa krökkunum til að halda upp á daginn. Kennarinn og elsti drengurinn, Michael að nafni, fóru í það verkefni.





Skóli 11
 
Kennarinn og Michael fengu far með okkur að næsta þorpi, Swartbooisdrift (sem var nú bara nokkrir kofar gerðir úr trjágreinum). Hér eru Óskar, Halli og Michael á leiðinni til baka.
 
Andrea tók allar þessar myndir því að myndavélin okkar bilaði kvöldið áður. Við sáum aðeins eftir því að hafa ekki tekið með okkur íslenska fána til að gefa skólanum líka, en Andrea gaf leiðsögumanninum fána þegar við komum heim á gististað til að færa skólanum við tækifæri. Kannski prýðir íslenski fáninn núna veggi skólans, hver veit?


Frá Kunene ánni

Kunene river 3Hér eru myndir frá Kunene ánni þar sem við gistum, en þarna er mjög fallegt. Dabbi er að slaka á niðri við ána.

Þarna var umtalsvert heitara en niðri í Windhoek enda við nánast komin eins norðarlega eins og mögulegt er innan Namibíu. 

Drengirnir gátu dundað sér við að skoða fjölbreytt skordýr og eðlur. Svo voru líka apar í trjánum sem vöktu lukku hjá yngri kynslóðinni. Minni hjá mér því að einn var að brölta uppi á þaki á húsinu okkar með hávaða og látum þegar ég var að reyna að sofna um kvöldið.

 

Kunene river 2

Þarna eru strákarnir með íslensku fánana á þjóðhátíðardaginn og við hin að spjalla saman eftir að hafa snætt ljúffengan morgunverð undir trjánum.

 

 

 

 

Kunene river 1

Hér er sólarlagið, hinu megin við ána er Angóla.


Til Himbanna

Nú fer ég að koma glefsum úr ferðasögunni á netið, en ég ætla að byrja á ferð til Himbanna sem við fórum á 17 júní. Þá höfðum við farið alveg upp til landamæra Angóla, til Kunene árinnar. Við ákváðum að heimsækja Himba frekar þarna uppfrá þar sem færri ferðamenn koma, heldur en í Opuwo. Himbarnir eru hópur sem hefur að miklu leyti haldið í gamla lífshætti, og er áhugavert að heimsækja. Þeir eru hirðingjar sem lifa í Kunene hérðaði í norður Namibíu. Kunene hérað, eða Kaokoland er stærra en Ísland og mikill hluti þess er mjög óaðgengilegur. Himbarnir rækta geitur og nautgripi á þessu svæði sem er mjög harðbýlt. Þeir færa sig um til að ná til beitarlands og eiga því hús á mörgum stöðum. Húsin geta verið margskonar, sumum er líkt við býflugnabú vegna þess hvernig þau eru í laginu, en önnur er gerð úr trjágreinum. Utan um þorpin er vanalega girðing og kallast þorpin homesteads.

 

Himbar 10

Himbarnir eru hvað þekktastir fyrir að konurnar smyrja sig með blöndu af litarefni (steinn eða jarðvegur, ochre), smjöri og plöntum á líkama sinn. Þetta gefur þeim fallega brúnan lit og þær fara aldrei í bað á lífsleiðinni, heldur bera á sig smyrslið á hverjum degi.

Við heimsóttum lítið þorp með tveimur fjölskyldum. Börnin voru þrjú, og var eitt þeirra enn á brjósti. 

 

 

 

Himbar 8

Hér er konan að mylja ochre fyrir litablönduna. Litinn sækja þeir yfir til Angóla, en þar þarf að grafa um 2 metra niður til að komast að litnum. Himbarnir ferðast frjálsir yfir landamærin milli Angóla og Namibíu enda eru einnig Himbar í Angóla. Þeir komu upphaflega til Namibíu frá Angóla.

Fólkið er afskaplega fallegt. Hefðirnar tengja fjölskyldurnar bæði við föður- og móðurættirnar, og gerir það að verkum að tengslanetið er víðtækara en meðal margra hópa. Það er líka talin ein af ástæðunum af hverju Himbarnir hafa lifað af í gegnum tíðina en þurrkar geta farið illa með bústofna þeirra. ÞSSÍ er m.a. að vinna með Himbunum við að bora eftir vatni. Nálægðin við Kunene ánna gerir það að verkum að vatnsskortur er ekki eins og á öðrum svæðum þar sem Himbarnir lifa.

 

 

 

 

Himbar 1

Konurnar eru ábyrgar fyrir mestri erfiðisvinnunni, að bera vatn, mjólka, elda, sjá um börnin o.s.frv. Karlarnir gæta nautgripanna og geitanna. Reyndar voru hundarnir bara úti með geitunum þennan dag að gæta þeirra. Þarna eru sjakalar sem geta verið skæðir, og svo eru krókódílar í ánni sem geta tekið geiturnar þegar þær fara niður að ánni að drekka.

 

 

 

 

 

 

 

Himbar 3

 

 

Halla fannst dálítið skrýtið að vera í kringum Himbakrakkana. 

 

 

 

 

 

 

 

 

Himbar 4

Eins og Haddi benti síðar á, í samhengi við hina dæmigerðu umræðu um villimenn í Afríku, þá fór sko ekki á milli mála hverjir voru villimennirnir hér. Litlu guttarnir þrír voru allir hressir og fundu sér allir eitthvað að gera. Gunnar nagaði geitaskít, sem var á jörðinni innan homestead á meðan Óskar var kominn lengst upp í tré. Stefán bætti um betur og réðst inn í annað húsið og harðneitaði að koma þaðan út. Eftir að hafa farið bónleiðina við drenginn þurfti ég að fara inn og sækja hann sjálf. 

 

  

 

Himbar 6

 

Óskar, Gunnar og Stefán að kanna nýjar slóðir með jafnaldra sínum úr hópi Himbanna.

 

 

 

 

 

 

Himbar 9

 

 

Hér er Óskar á leiðinni upp í tré. 

 

 

 

 

 

 

 

Ef litið er á kortið, þá virðist vera ansi freistandi að fara spottann upp að Epupa fossum, sem eiga að vera ægifagrir. Það tekur hins vegar þrjá daga að fara þessa 100 km. meðfram ánni, svo að Epupa fossar voru látnir bíða betri tíma. Hins vegar var mjög gaman að fara meðfram ánni að Kunene River Lodge, þar sem við gistum en þar var sólarlagið geysifallegt.

Leiðsögumaðurinn var alveg frábær, en móðir hans er Himbi og talaði hann tungumál þeirra. Hann var líka mjög hrifinn af okkur og bauð okkur því í heimsókn til skóla í nágrenninu, sem við þáðum með þökkum. Meira um það síðar.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband