Laugardagsmorgunn
17.5.2008 | 16:20
Nú er laugardagur og Dabbi fór út í búð í morgun og keypti nýbakað brauð fyrir okkur í morgunmat. Svo fórum við öll í fyrsta skipti á laugardagsmarkaðinn, þar sem við keyptum ákaflega ljúffengan, heimagerðan ost og ólvívur. Í framtíðinni getum við keypt þar grænmeti og annað ljúfmeti fyrir heimilið. Svo keypti heimilsfaðirinn sólblómablómvönd handa elskunni sinni á 70 kall, sem var reyndar orðinn hálf laslegur þegar heim var komið. Hann prýðir samt matarborðið úti núna. Svo fjárfestum við í kubbakassa handa litlu drengjunum sem er heimagerður, með stafi og tölustafi og þessháttar og hægt að snúa kubbunum og raða saman í orð og reikningsdæmi. Hann kostaði 1000 kall. Davíð hélt að hann væri gerður á einhverju sambýli en strákurinn sem var að selja hann hafði reyndar gert hann sjálfur. Þetta er mjög sjarmerandi leikfang sem við erum öll ánægð með, og kemur sér efalaust vel við lestrarkennslu í náinni framtíð.
Svo var farin ferð í leikfangaverslun og allir drengirnir fengu dót, lego og baðdót. Við tókum nú ekki of mikið með okkur frá Íslandi, en getum kannski fengið sent með ferðalöngum sem leggja leið sína hingað til okkar.
Eftir að hafa stússast í smá framkvæmdum hér innan húss, og litlu drengirnir farnir að sofa, fórum við þrjú í vist og Haraldur vann eins og hans er vani. Nú sitjum við hjónin hér úti í sólinni og bíðum eftir að litlu drengirnir vakni.
Leja missti barnapössunina sína síðustu helgi. Vinkona hennar sem hafði passað Santiago, fjögurra ára son hennar, var barin illa af eiginmanni sínum, og m.a. reif hann m.a. úr henni eyrnarlokk í gegnum eyrað. Sú hafði áður haft langt, flott hár og hafði svo fengið sér ofurstutta hárgreiðslu til að hann gæti ekki dregið hana á hárinu. Eftir þessa uppákomu ákvað hún að skilja við manninn sinn og flytja til systur sinnar. Leja var eyðilögð, en heimilsofbeldi er mjög algengt hér. Við höfðum nú rætt um að það væri bara hollt fyrir Santiago að fara á leikskóla, en hún hafði ekki haft efni á því. Hann byrjaði á föstudag og við borgum leikskólagjöldin. Við vorum búin að ræða að gera það hvort eð er, en þau eru 1850 kr. á mánuði. Manni finnst það nú bara vera skítur á priki á íslenskan standard, en það er heilmikið fyrir fólk sem varla hefur til hnífs og skeiðar.
Við vorum einmitt að ræða fjármálin hennar í vikunni og hún sagðist vera ákveðin í því að kaupa líftryggingu handa fjölskyldunni þegar hún hefði meira svigrúm, c.a. eftir svona þrjá mánuði. Hún á líka strák sem heitir Lionel og er 21 árs gamall. Hún orðaði það svo sérkennilega: Hvernig á ég að borga fyrir kistuna og svona ef að Lionel deyr? - Maður er ekki vanur því að foreldrar séu að spá í dauðdaga barns sem er bara 21 árs gamall. Hér er veruleikinn annar en heima á Fróni og það er áhugavert að fá innsýn inn í líf fólks, enda finnst mér mjög gaman að spjalla við hana, Hún er ótrúlega dugleg og er mjög glöð að fá vinnu eftir tæplega fimm ára atvinnuleysi. Enginn er glaðari en ég yfir því samt. Nú var verksmiðja að loka sem rekin var af malasíumönnum og um 5000 enn eru atvinnulausir og upplitið er dauft yfir heimamönnum.
Nú eru dregirnir vaknaðir og ég verð að þjóta.
Af kóngulóm og kvikindum
15.5.2008 | 18:40
Kuka í ræktinni
13.5.2008 | 11:24
Strandlífið í Swakopmund
6.5.2008 | 19:43
Vinir og fjölskylda | Breytt 7.5.2008 kl. 07:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Labbitúr í Dan Viljoen
1.5.2008 | 19:25
Nú er löng helgi framundan hjá okkur. Strákarnir eru í fríi frá skóla og leikskóla frá fimmtudegi fram á þriðjudag. Í morgun skruppum við aðeins út fyrir borgina til að fá okkur labbitúr í náttúrunni. Við settum sólhattana, sólarvörnina, djús og snakk í bakpokann og héldum í Dan Viljoen game park. Hann er um 20 km. fyrir utan borgina.
Þar fórum við í göngutúr um uppþornaðan árfarveg, hér eru strákarnir að taka pásu frá göngunni.
Svo tókum við náttúrulega nestispásu líka, drukkum djúsið og fengum okkur kex og snakk.
Síðan fórum við í bíltúr um svæðið og sáum apa, gíraffa, springboek og wildebeest sem starði furðu lostið á ferðalangana frá Íslandi. Svæðið er stutt frá borginni og á stöku stað er hið besta útsýni yfir borgina eins og sjá má ef rýnt er vel í myndina.
Að lokum stoppuðum við á útivistarsvæðinu þar sem fyrirtaks aðstaða er til að borða nesti, grilla og fyrir börnin að teygja aðeins úr sér. Þarna er Stefán að prófa hvað borðin eru traust.
Á morgun ætlum við að halda niður á strönd og vera tvo daga í Swakopmund. Allir hlakka mikið til að sjá sjóinn og fá að dýfa tánum í Atlantshafið.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 19:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Braai á laugardegi
28.4.2008 | 12:45
Við grilluðum upp á namibískan máta í hádeginu á laugardaginn var. Við erum komin á fætur svo snemma, þeir fyrstu kl. hálf sex, svo að morguninn verður ansi drjúgur. Við ákváðum því að skella á grillið í hádeginu í stað þess að geyma það til kvölds. Klukkan hálf tíu var því kveikt upp í viðnum, en úr honum eru gerð kol sem svo er grillað á, svo að þetta ferli tekur tímana tvo. Þetta heitir braai, sem kemur úr afrikaans, en hægt er að lesa um þetta allt saman á wikipedia, sjá http://en.wikipedia.org/wiki/Braai
Hér er Dabbi braaier, grillmeistarinn að kveikja upp í kolunum.
Svo, tveimur tímum seinna er kjötið komið á grillið. Hér er dæmigert kjötmeti á grillinu. Þar ber fyrst að nefna porkbellies, sem fara mjög vel með bragðlaukana, en ekki eins vel með línurnar. Dabbi talaði mikið um porkbellies þegar hann kom frá Namibíu um árið, og nú er ég alveg jafn upprifin yfir þessu feitmeti. Svo eru náttúrulega boerewors, eða búapylsa, sem komu fyrst frá Hollandi fyrir 200 árum. Hér er negull og múskat áberandi í kryddinu, og einnig í þessum pylsum. Þær eru ljúffengar og renna vel niður í drengina. Svo eru einnig nokkrar góðar nautasteikur, þannig að allir finna eitthvað við sitt hæfi.
Kjötið kaupi ég hjá slátraranum á horninu, þar sem kjötið er afbragðsgott, en einnig ódýrt. Þetta kostaði allt saman um 700 kr. íslenskar.
Svo var náttúrulega sest að snæðingi úti undir beru lofti. Stefán fékk þennan forláta barnastól um daginn sem hann situr í á myndinni.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 12:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Sumarsól
25.4.2008 | 15:14
Nú er sumarið víst að skella á heima á Fróni. Hér er farið að kólna, þó að það hafi hlýnað aðeins núna eftir kalda viku. Nú virðist regntímabilinu vera lokið og himininn er heiður og blár. Nú verður ekki skýjað fyrr en regntímabilið nálgast aftur. Nú er veðráttan mjög góð hjá okkur.
Helgin er byrjuð hjá okkur og allir í afslöppun. Óskar horfir á Tinna í sjónvarpinu og Stefán er að gæða sér á snúð úr bakaríinu. Hér er mikið um bakkelsi og bakaríisgotterí. Berlínarbollurnar eru mjög vinsælar á heimilinu og eplaumslög einnig. Dabbi situr úti í sólinni og les eitthvert vitsmunalegt fóður fyrir sálina.
Ég kíki við og við á fréttir úr nágrenninu, þær eru nú oft með öðru sniði en heima:
http://www.namibian.com.na/2008/April/national/08FD3C6558.html
Það er mikið á blessuð börnin lagt þegar þau búa við kröpp kjör. Svo er nú áhyggjuefni að fótbolti er í krísu í Nabibíu, en þeir hafa ekki leikvang til að hafa heimaleiki í forkeppni að heimsmeistarakeppninni sem verður í Suður Afríku árið 2010. Þeir hafa heldur ekki fjármuni til að halda leikina í nágrannalöndunum, svo að þetta er snúið mál. Og svo voru einnig mótmæli gegn kínverjum og vopnflutningum þeirra. Það vantar víst tól til þróunar, en ekki stríðstól segja þeir. Um þetta og margt fleira er hægt að lesa í The Namibian.
Leia er að ganga frá og búast til heimferðar. Hún býr nokkuð frá og tekur leigubíl heim, en strætó í vinnuna á morgnana. Strætisvagnarnir eru oft troðnir á álagstímum, og Óskar fylltist áhuga þegar við vorum að fara í búðina um daginn og strætó fór hjá. Örugglega um 100 manns í honum. Óskari fannst tilvalið að skella sér þó að ég væri ekki alveg jafn áhugasöm. Svo þegar við vorum að koma út, var einn slíkur að renna út af stoppistöðinni og Óskar sagði með rósemd. "Jæja mamma, við erum víst búin að missa af stætó núna. Við verðum bara að taka hann seinna." Mér létti nú við að sjá hann hverfa. Við munum víst hafa nógan tíma til að plana strætóferð.
Svo af heimilismálum, mér urðu á þau leiðu mistök um daginn að kaupa einfaldan klósettpappír, við litla hrifningu. Ég streittist á móti þegar átti að kaupa nýjan sem væri tvöfaldur og mjúkur og hvítur eftir því, enda sparsöm og nýtin að eðlisfari. Það var ekki fyrr en Óskar sagði, eftir að móðir hans hafði skeint honum, "Hryllilefa eretta óþæfilett", að ég keypti aðra tegund sem hentaði betur botnum heimilisfólks.
Óskar er nefninlega mjög skýrmæltur og skýr í alla staði, segir err og ess með glans en honum hættir hins vegar til að setja "f" í stað "g" þegar hann talar. Hér kemur samtal úr baksætinu á milli Halla og Óskars frá Íslandi:
Ó: Hvar á amma heima?
H: Það heitir Sogavegur
Ó: Sofavefur?
H: Nei, Sogavegur
Ó: Já, Sofavefur
H: Sogavegur!!
Ó: É safði þa
H: SEGÐU SO-GA-VEG-UR
Ó: So-fa-vefur. Sofavefur!
Halli greyjið gafst upp. Annars er þetta bara gott nafn á götu, gæti verið tilvalið fyrir letihauga og svefnsjúklinga. Eða sólardýrkendur. Gleðilegt sumar.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 15:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Fótboltamót
20.4.2008 | 16:33
Í gær fórum við fjölskyldan á fótboltamót með Halla, en það var spiluð heil umferð í deildinni hans. Það er gott að fá tilefni til að fara eitthvað út af heimilinu með skarann. Því var nesti pakkað niður í kælibox og við fórum á tveimur bílum. Ég keyrði litlu drengina og kom aðeins seinna en Halli og Dabbi og fór einnig fyrr heim til að þeir fengju að sofa heima í bólunum sínum.
Við sáum svo fótboltalið koma á staðinn úr fátækrahverfinu, en það var á ævagömlum mözdu pallbíl. Allt heila liðið var uppi á palli, 10 stykki strákar. Mótið var mjög skemmtilegt, en það er ekki jafn fjörugt á áhorfendapöllunum og á Íslandi. Á síðasta leik voru búar bakvið mig og afrikans er svo hljómlík íslenskunni að ég sneri mér margsinnis við til að athuga hvort að það væru Íslendingar mættir á svæðið. Svo er fólk bara í rólegheitum í skugganum og borðar nestið sitt og slappar af.
Hádegissólin er ansi sterk. Við bárum sólaráburð af kappi á Halla, en hann er samt smá brunninn í framan og á hnésbótunum þar sem sokkunum sleppti. Hér mættu líka lið utan af landi og af ólíkum uppruna. Þau voru því ákaflega ólík liðin, Halla lið sem að mestu er skipað krökkum af þýskum uppruna og margir glókollar eins og hann, og svo t.d. lið utan af landi og annað úr fátækrahverfunum. Maður var svo upptekinn að sjá um drengina að lítið var um myndatökur. Fer í það á næsta móti, en við erum strax farin að hlakka til að fara út á land að keppa. Það væri frábært að fanga stemninguna, en þeir eru nýbyrjaðir með krakkabolta og -deild hér.
Sumir eru líka betur búnir en aðrir, sum liðin eru í fínum búningum og önnur í áprentuðum stuttermabolum. Þeir eru lika ansi smávaxnir margir í þessum liðum, einn drengurinn var vart mikið stærri en Óskar, þó að hann væri trúlega 8 ára og bolurinn náttúrulega allt of stór, og þá voru fótboltskórnir einnig a.m.k. þremur númerum of stórir. Þeir eru dýrmætir og ganga frá einum til annars. Og leikgleðin er nú ekki síðri. Þetta lið sigraði einn af sínum leikjum og allt ætlaði um koll að keyra af fögnuði. Okkar menn, eða okkar krakkar öllu heldur stóðu sig vel (það er ein stelpa í A-liðinu) og enduðu í þriðja sæti.
Þetta var mjög gaman og allir, þó sérstaklega Halli, voru sólbrenndir og þreyttir eftir daginn.
Hér er glókollurinn Halli á mótsstað.
Vinir og fjölskylda | Breytt 23.4.2008 kl. 18:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Með öryggið á oddinn..
16.4.2008 | 07:22
Nú er kominn tími fyrir nokkrar línur úr suðrinu. Hér er misskipting auðsins mikil og hluti af hvíta samfélaginu sem lifir eins og blóm í eggi í fínum húsum á meðan flestir eru í fátækrahverfum og búa í bárujárnskofum.
Húsin hér eru vel varin með þjófavarnarkerfum og gaddavír og rafmagnsgirðingum og fleiru. Eiginlega brynvarin. Og samt hef ég ekki lesið neitt um að hér séu innbrot algengari en gerist og gengur annars staðar. Hins vegar las ég að þessar gaddagirðingar hefðu tíðkast lengi í Suður Afríku og fyrst og fremst vegna áhrifa þaðan hefðu þær verið teknar upp hér í borginni. (verð að taka fram að þetta er reyndar svipað í öðrum borgum Afríku, svo að ég læt liggja milli hluta hvaðan þessi praktík kemur). Dabbi og Halli eru búnir að sprengja þrjá bolta á gaddavírnum sem er utanum garðinn okkar. Ekki er gaddavírinn alslæmur, því að hún Leia er skapandi þegar klemmurnar á þvottasnúrunum eru búnar, og þá hengir hún sokka og nærföt á gaddavírinn til að þurrka þau í sólinni.
Mörg heimili hafa líka varðhunda og um páskana þegar margir lögðust í ferðalög út úr bænum, þá var vart hægt að sofa fyrir hávaða því að hundarnir kölluðust á í samfelldri sinfóníu gelts um alla borg.
Við komum með barnabílstóla að heiman, enda ekki lögbundið að vera með börn í bílstólum, að mér skilst. Börn eru oft laus og liðug og jafnvel uppi á palli, en margir ferðast á pallbílum og með fjölda manns aftaná. Herdís Storgaard yrði í samfelldu áfalli ef hún væri hér í umferðinni. Meira um umferðina síðar..
Afmæli 9. apríl
13.4.2008 | 08:19
Óskar átti afmæli í vikunni og það var mikill spenningur. Hann tók upp pakka um morguninn og fékk m.a. hjól frá mömmu og pabba. Stefán fékk líka lítið plasthjól og nú þeytast þeir um á tveimur hjólum og einum litlum plastbíl sem var tekinn með frá Íslandi.
Halli hafði sérvalið bolta handa honum (svo reyndar sparkaði Dabbi honum óvart í gaddavírinn sem er á veggnum utan um lóðina okkar í gær og hann sprakk). Ég keypti batman köku sem fór á leikskólann, og svo tóku Óskar og Halli til nammi og dót í poka sem Óskar gaf krökkunum á deildinni sinni. Þau voru ákaflega hrifin af kökunni og svo var afmælisveisla þar sem allir fengu köku. Þau eru að læra um ávexti í leikskólanum þessa dagana og í tengslum við það var farið í ferð á ávaxta- og grænmetismarkaðinn þennan sama dag.
Ömmurnar keyptu leiktæki í garðinn fyrir prinsana, sem hafa vakið mikla lukku.
Um kvöldið vorum við með pitsupartý fyrir Rúnar Atla og c.o. sem komu færandi hendi og gáfu Óskari þennan forláta pleimóbíl, sem hann hafði svo með sér í rúmið um kvöldið.
Óskar fékk Barney (sem hann kallar afa Bjarna) afmælisköku.
Afmælisbarnið hafði verið svo spennt að hann náði ekki að sofa miðdegis, og því sofnaði hann í sófanum áður en partýinu lauk. Hann vaknaði þó reyndar sprækur þegar hann átti að fara í rúmið og vildi fá að hitta Rúnar Atla vin sinn. Reyndar hafði hann einnig heimtað að bjóða Tindi vini sínum í afmælisboðið, en það reyndist ekki gjörlegt vegna fjarlægðar.
Hér er afmælisbarnið sofandi og Rúnar og Halli að látast.