Fjallaför í Epago

Við förum ætíð á fætur við fyrsta hanagal, sem er nú reyndar eins og á Íslandi, þökk sé þessum árrisulu drengjum. Hér hentar þetta reyndar vel, því að dagurinn er tekinn snemma og allt byrjar fyrr en heima. Það er ótrúlegt hverju má koma í verk þegar farið er á fætur um kl. 6. Í Epago fórum við í morgunmat, og svo í smá göngutúr. Það er lítil hæð við búgarðinn (eða má kannski kalla þetta fjall fyrst að enginn þekkir staðinn?). Við álpuðumst inn á göngustíg sem lá upp fjallið og vorum, takk fyrir búin að ganga upp og niður kl. 9 um morguninn.

Gróðurinn var okkur erfiður, enda tré með hina beittustu gadda sem við rifum okkur á vinstri og hægri. Ég bar Stefán og Davíð bar Óskar. Stebbi er ennþá með rispur á fótleggjunum eftir fjallaferðina. Svo var hitinn mun hærri en í Windhoek og við vorum bæði sveitt og þreytt þegar við náðum toppnum. Niðurgangan var álíka snúin og uppgangan enda farið að hitna meira. Það var gott að komast niður í hús til að fá sér kalda drykki.

Ég hafði séð fyrir mér að ég gæti gengið á fjöll hér í tugavís, en er nú farin að endurskoða þá drauma. Maður þyrfti að vera með sveðjur til að brytja niður gróður, eða þá halda sig á merktum stígum. Svo er nú ekki heldur þægilegt að ganga þegar hitinn fer mikið yfir 25 stig. Snákar eru til stðar og sumir eitraðir, en þeir eru hræddari við okkur mannfólkið en við við þá. Það er bara hættulegt ef maður stígur ofaná snák svo að maður verður aðeins að hafa hugann við það hvar maður stígur niður næst.

Útsýnið var hið besta af toppnum.Útsýni af fjallstoppi

 

 

 

 

 

 

 

Fjallgöngugarpar

Halli myndasmiður tekur mynd af fjölskyldunni á toppnum. Menn voru nú mishressir.


Epago búgarðurinn

Um síðustu helgi fórum við fjölskyldan á Epago búgarðinn sem er í tveggja og hálfs tíma keyrslu norður frá Windhoek. Það var mjög gaman að komast út úr bænum og fá smá tilbreytingu. Vegakerfið er mun betra en á Íslandi svo að það er lítið mál að keyra svona langt. Allt er grænt og fagurt, enda búið að rigna vel undanfarið. Svo standa termítabú hér og þar, á þriðja metra upp í loftið. 

Aðstaðan á búgarðinum var flott, hann stóð við uppþornaðan árfarveg, með glæsilegri sundlaug og aðstöðu úti. Það er Frakki sem á búgarðinn og Frakki og Þjóðverji sem reka hann, svo að maturinn var hinn besti. Í kring voru margir veiðibúgarðar, þar sem efalaust er frábært fyrir veiðimenn að koma. Þessir búgarðar hafa gífurlegt landflæmi undir sér, Epago er með 11 þúsund hektra, og það hefði tekið okkur um 3 til 4 klukkutíma að keyra alla landareignina á enda. Þeir eru með fíla, en þeir voru t.d. of langt í burtu til að við gætum séð þá.

Strákarnir á Epago

 Hér eru strákarnir að slappa af með svaladrykki.

 

 

 

 

 

 

 

Við fórum í safarí og vorum svo heppin að fyrsti jeppinn fylltist og við fengum einn útaf fyrir okkur. Áætlað var að safaríið tæki um 3 tíma, svo að við höfðum þann kost að snúa heim á leið þegar drengirnir væru orðnir óþolinmóðir. Við fórum síðdegis, og sáum fyrst blettatígra, og svo einnig vörtusvín, gíraffa, impala og oryx antílópur, og nashyrninga.

Blettatígur Epago

 

Gíraffi á Epago

 

 

 

 

 

 

 

 

Þegar við vorum búin að hossast í góðan tíma, var farið að rigna og við vorum ekki með þak yfir jeppanum. Þetta var farið að minna á góðan, íslenskan sudda. Við ráðfærðum okkur því við bílstjórann sem spurði hvort við vildum snúa við. Nashyrninga gætum við séð ef við keyrðum í 2 mínútur í viðbót. Við vorum sko til í það, en þetta reyndist afrískur tími, og voru 20 mínútur. Þetta var bara stemning, og svo stytti upp og var hið yndislegsta veður. Jeremy, bílstórinn galdraði svo fram hressingu, snakk, djús og bjór. Þegar við fórum út úr jeppanum fór Halli að fíflast og stökk inn í runna með Óskar á hælunum. Fjölskyldufaðirinn gólaði á eftir þeim, og var nett stressaður yfir að nashyrningar kæmu á hæla börnunum. (Ég held nú að ef einhver hætta hafi verið á ferðum, þá hafi það verið hrópin í Dabba, enda eru nashyrningar nánast blindir en eru með prýðisgóða heyrn og lyktarskyn). 

IMG_0598

Hér er mynd af Dabba sem er búinn að róast, enda Jeremy búinn að veita honum bjór. Nashyrningarnir eru í baksýn.

 

 

 

 

 

 

 

 

IMG_0610

Óskar í stuði eftir að hafa dælt í sig snakki og djúsi úti í afrískri náttúru.

 

 

 

 

 

 

Þetta var alveg yndislegt, enda vorum við alein þarna úti í náttúrunni og svo var sólin að setjast á bakaleiðinni.

Safarí

 

 


Leikskóladrengir

Eftir nokkra leit fundum við leikskóla stutt frá heimili okkar, sem gat tekið við báðum drengjunum. Þar er þýska reyndar vinnutungumálið, þó að einnig sé töluð einhver enska og jafnvel afrikans. Óskar var orðinn ákaflega spenntur og dansaði um með leikskólatöskuna sína. Stefán var ekki með hlutina alveg eins mikið á hreinu, en hreifst með gleðinni. Þá vakti mikla ánægju að fá að fara með nesti, eins og Halli hafði alltaf fengið að fara með í skólann á Íslandi og er það enn hápunkturinn á leikskólanum, að fá að borða nestið. Eitthvað fór nú að falla á leikskólann þegar þangað var komið, en báðir góluðu svo að heyrðist um allt hverfið. Þeir eru á sitt hvorri deildinni, en fá að leika sér saman eftir hádegismat. Drengirnir eru í vistun til klukkan 1 þegar ég sæki þá.
 
Aðstaðan er mjög góð, og sér leiksvæði fyrir litlu krakkana. Óskar fer vonandi að læra þýska frasa til að tjá sig við hin börnin.  Leiksvæðið er að mestu í skugga, og þegar ég kem að sækja prinsana eru þeir vanalega berfættir að leika sér í sandinum. Hitinn hækkar mikið um hádegisbilið og á þeim tíma er vanalega nóg fyrir krakkana að vera berfætt og í stuttbuxum og bol.

Hér eru myndir frá fyrsta leikskóldeginum, en þeir bræður tóku myndatökuna mjög alvarlega. Takið eftir grænu rennibrautinni, sem Óskar er í, í bakgrunni. Hún er alveg svakalega flott.

Fyrsti dagur í leikskólaLeikskóladrengirÍ fyrsta sinn á leikskólanum

Í Namibíu kaupir þú ekki Toyota handa sjálfum þér..

Bílakaupin gengu ekki þrautalaust fyrir sig. Við ákváðum að kaupa átta manna bíl, til að rýma alla fjölskyldunna, svo að hringurinn fyrir frúarbílinn þrengdist aðeins niður. Við skoðuðum Toyota bíl og svo eldri Mazda. Bílasalinn bar Toyota vel söguna, sagði að þeir reyndust vel í Namibíu, en það eina væri að þeir væru einnig vinsælir hjá bílaþjófum því að þeir væru sérstaklega góðir í endursölu. Hér myndirðu ekki kaupa Toyota handa sjálfum þér, heldur handa einhverjum öðrum!

Við vorum ekkert sérstaklega hrifin af henni heldur og vildum frekar festa kaup á möstunni (hvernig á eiginlega að skrifa þetta??). Dabbi var búinn að biðja bílasalann að halda henni til hádegis dag einn og við mættum rétt fyrir hádegi til að klára dæmið. Þá kom upp úr dúrnum að annar bílasali var búinn að selja bílinn og við vorum að vonum súr. Ekki voru kaupin alveg frágengin og kaupandinn mætti svo á svæðið og var ákaflega stressaður yfir þessu öllu saman. Hann hafði verið að safna peningum í heila viku og að frúin væri núna í bankanum að ná í restina, það gekk svo langt að hann kraup á kné og sagði við Dabba greyjið "please, please mister let me buy the car". Dabbi er náttúrulega þessi mjúki maður og datt ekki í hug að hrifsa draumabílinn af manngreyjinu sem hafði haft svo mikið fyrir þessu öllu. Við eftirlétum honum því bílinn.

Næstu viku hringdi Vilhelm bílasali hins vegar og enn var bílinn ekki seldur svo að okkur bauðst hann. Það tók viku að ganga frá kaupunum, interpol þurfti að athuga hvort að hann væri nokkuð stolinn (hann er innfluttur frá Singapore), þurfti að setja hann á númer og alls konar pappírsvinnu. Dabbi var náttúrulega á eftir Vilhelm bílasala að hraða ferlinu svo að ég gæti nú farið að nota bílinn. Þetta var afar stressandi fyrir aumingja Vilhelm, og endaði á því að karlgreyjið lamaðist í helmingnum í andlitinu. Læknirinn hans sagði að þetta væri bara stress og að hann þyrfti á hvíld að halda. Vonandi fær hann sér frí eftir að hafa selt blessaðan bílinn.


Endurvinnslan í gangi

Endurvinnslan var í fullum gangi þegar ég kom til baka frá því að skutla drengjunum á leikskólann í gærmorgun. Mánudagar eru rusladagar hjá okkur og á mánudagsmorgna setjum við tunnuna og ruslið út á gangstétt. Hér fara flöskur og dósir t.d. ekki í endurvinnslu, heldur er það einkaframtakið sem gildir.

Nú voru tveir, broshýrir og glaðir ungir menn sem veifuðu mér glaðlega er ég renndi í hlaðið á nýja fáknum mínum. Þeir voru vel búnir með bakpoka til að bera afraksturinn, og fóru vandlega í gegnum allt ruslið og gengu svo snyrtilega frá öllu aftur. Ég fékk smá samviskubit yfir að hafa ekkert bitastætt í ruslinu handa þessum duglegu piltum, en kannski verður eitthvað af viti handa þeim í tunnunni í framtíðinni.


Ferðaplön

Fyrir þá fjölmörgu sem eru að skipuleggja ferð til Namibíu í fyrirsjáanlegri framtíð, er hér veðurfarið eftir ólíkum árstímum http://www.bbc.co.uk/weather/world/city_guides/results.shtml?tt=TT000470

Fyrir tveimur dögum kólnaði umtalsvert, mér og drengjunum til gleði, en Davíð unir sér betur í hitanum en við hin. Nú er þetta alveg mátulegt fyrir okkar íslensku kroppa. Fyrir tveimur vikum fórum við á veitingastað, og þessar stórglæsilegu móttökustúlkur sem þar störfuðu, voru að gantast í drengjunum. Mér fannst þeir nú bara vera dúðaðir, enda var Stefán í langerma peysu og Óskar í síðum buxum. Þær spurðu hvort að það væri virkilega kaldara í Namibíu en á Íslandi - það hafði rignt þennan daginn og var hrollur í þeim. Davíð fullvissaði þær um það. Þær spurðu einnig hvort að drengjunum væri ekki kalt hérna. Við sögðum ekki. Svo spurði Davíð hvað þær héldu að hitinn væri hár og þær svöruðu, "örugglega ekki nema svona 35 stig!". Reyndar var hann kannski nær 25 gráðum, en við brostum út í annað og hugsuðum til suddans heima á Fróni.

Aftur að ferðaplönum, Stefán Jón hefur sett niður hugleiðingar fyrir væntanlega Afríkufara, á síðunni sinni Stefanjon.is, sem skemmtilegt er að skoða líka þegar heimsókn til Afríku "light" er á dagskránni. Sjá sér í lagi http://www.stefanjon.is/default.asp?pid=-1&id=46 Skoðið einnig http://www.namibian.org/ fyrir gistingu, og svo er netið náttúrulega fullt af gagnlegum upplýsingum.


Aðlögun

Aðbúnaður á gistiheimilinu var hinn besti, hér eru drengirnir komnir í hitabeltið.

Í hitabeltinu

Við fórum með Óskar á spítalann í myndatöku og til bæklunarsérfræðings - sem er reyndar mun  betri skoðun en hann fékk nokkurn tímann heima á Íslandi. Niðurstaðan var sú að hann átti að koma aftur til skoðunar, og fékk fatla, sem hann tók náttúrulega af sér við fyrsta tækifæri og notaði svo sem girðingu fyrir búfénað (s.s. úr plasti). Svo var líka hægt að nota hann sem ennisband.

Davíð fór svo í vinnuferð út á land á mánudeginum með Villa og Margréti frá aðalskrifstofunni. Ferðin sú átti að vera í viku, en var stytt vegna vatnavaxta og úrkomu í norðurhluta landsins. Villi bloggaði um ferðina, sjá færslu frá 9 mars á http://voneck.blogspot.com/

Við drengirnir eyddum því góðum stundum heima á gistiheimili. Það eru engar gangstéttir og því ekki hægt að fara í göngutúr niður í bæ eða til að skoða nágrennið. Til allrar lukku byrjaði Halli strax í eina skólanum sem hafði pláss handa honum, Windhoek International School. Hann er því miður nokkuð langt frá heimili okkar og skrifstofunni, en ekki var um margt að velja. Hann fór því í skólann á hverjum degi, og við þrenningin, Stefán, Óskar og ég eyddum gæðastundum saman. Þrátt fyrir að aðstaðan væri góð, þá var ekki mikið rými fyrir drengina að hreyfa sig. Við gátum skoðað skordýralíf sem við höfðum ekki kynnst áður, og moskítóflugurnar ásóttu mig, en létu sem betur fer drengina alveg vera.

 Stefán á gistiheimili  Stefán í stuði á gistiheimilinu.

Halli töffari Halli byrjaður í nýjum skóla.

Sem betur fer kom Gulla eins og frelsandi engill og fór með okkur drengina út úr húsi. Ég gat því keypt í matinn og við fengum öll hina bestu tilbreytingu. Villi og Gulla eiga þriggja ára strák sem heitir Rúnar Atli og hann og Óskar eru orðnir hinir mestu mátar. Svo buðu Stefán Jón og Guðrún okkur í kveðjuhóf hjá sér og Gulla gaf okkur far. Strákarnir voru náttúrulega alveg á útopnu eftir innilokunina svo öllum varð nóg um hve orkumiklir blessaðir drengirnir voru.

Davíð kom svo heim á föstudagskvöld og eftir það komumst við út úr húsi að vild og allir voru voða ánægðir.


Ferðalagið

Við flugum í gegnum London og heimalandið kvaddi okkur með viðeigandi snjókomu og kulda. Flugferðin til London gekk mjög vel og svo tók við nokkura tíma bið á Gatwick. Við fundum horn með leiktækjum þar sem drengirnir undu sér nokkuð vel, en allir voru fegnir þegar tími var kominn til að halda í næsta flug til Windhoek. Óskar tók eitt síðasta klifur á Bubba byggi bíl og datt af. Hann viðbeinsbrotnaði við fallið, en hann hafði einnig brotnað á síðasta ári svo að við vissum hvað klukkan sló. Flugferðin til Windhoek var viðburðalítil, Óskar fékk verkjalyf og allir sváfu mestan hluta ferðarinnar.

Stefán í flugvélinni Sumir voru hressari en aðrir í vélinni.

Óskar í flugvélinni Hér er sjúklingurinn í flugvélinni á leið til Windhoek.

Þegar til Windhoek var komið tók Villi umdæmisstjóri á móti okkur og þessu líka gífurlega magni af farangri sem okkur fylgdi. Við fórum á gistiheimili sem var bráðabirgðaheimili okkar fyrst um sinn.


Undirbúningur undir Namibíuferð

Ekki var nú mikill fyrirvari fyrir flutningana til Namibíu og að mörgu að huga. Við fórum í sprautur, gengum frá húsinu, fórum í læknisskoðun, til Gulla tannlæknis og reyndum að hitta sem flesta til að kveðja með virktum. Svo kom auðvitað hún Gudda meistaraklippari og snyrti höfuðið á öllum fjölskyldumeðlimum til að við yrðum snyrtileg til höfuðsins í nýrri heimsálfu.

Óskar í klippingu Hér er Óskar í klippingu

Stefán í klippingu... og Stefán

Allir tilbúnir Nú eru allir orðnir flottir um hárið og spenntir fyrir að fara í flugvélina.


Nýtt blogg að fæðast

Loksins, loksins

Nú erum við Halli búin að vera að skrá inn nýtt blogg til þess að gefa upplýsingar um fjölskylduna og lífið hér í Namibíu, eftir fjölda áskorana. Við fluttum frá Íslandi þann 29 febrúar og erum nú óðum að koma okkur fyrir.

Senn koma fleiri upplýsingar, kíkið einnig á bloggið hjá halla á haraldurbjarni.blog.is


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband