Aðlögun
26.3.2008 | 19:49
Aðbúnaður á gistiheimilinu var hinn besti, hér eru drengirnir komnir í hitabeltið.
Við fórum með Óskar á spítalann í myndatöku og til bæklunarsérfræðings - sem er reyndar mun betri skoðun en hann fékk nokkurn tímann heima á Íslandi. Niðurstaðan var sú að hann átti að koma aftur til skoðunar, og fékk fatla, sem hann tók náttúrulega af sér við fyrsta tækifæri og notaði svo sem girðingu fyrir búfénað (s.s. úr plasti). Svo var líka hægt að nota hann sem ennisband.
Davíð fór svo í vinnuferð út á land á mánudeginum með Villa og Margréti frá aðalskrifstofunni. Ferðin sú átti að vera í viku, en var stytt vegna vatnavaxta og úrkomu í norðurhluta landsins. Villi bloggaði um ferðina, sjá færslu frá 9 mars á http://voneck.blogspot.com/
Við drengirnir eyddum því góðum stundum heima á gistiheimili. Það eru engar gangstéttir og því ekki hægt að fara í göngutúr niður í bæ eða til að skoða nágrennið. Til allrar lukku byrjaði Halli strax í eina skólanum sem hafði pláss handa honum, Windhoek International School. Hann er því miður nokkuð langt frá heimili okkar og skrifstofunni, en ekki var um margt að velja. Hann fór því í skólann á hverjum degi, og við þrenningin, Stefán, Óskar og ég eyddum gæðastundum saman. Þrátt fyrir að aðstaðan væri góð, þá var ekki mikið rými fyrir drengina að hreyfa sig. Við gátum skoðað skordýralíf sem við höfðum ekki kynnst áður, og moskítóflugurnar ásóttu mig, en létu sem betur fer drengina alveg vera.
Stefán í stuði á gistiheimilinu.
Sem betur fer kom Gulla eins og frelsandi engill og fór með okkur drengina út úr húsi. Ég gat því keypt í matinn og við fengum öll hina bestu tilbreytingu. Villi og Gulla eiga þriggja ára strák sem heitir Rúnar Atli og hann og Óskar eru orðnir hinir mestu mátar. Svo buðu Stefán Jón og Guðrún okkur í kveðjuhóf hjá sér og Gulla gaf okkur far. Strákarnir voru náttúrulega alveg á útopnu eftir innilokunina svo öllum varð nóg um hve orkumiklir blessaðir drengirnir voru.
Davíð kom svo heim á föstudagskvöld og eftir það komumst við út úr húsi að vild og allir voru voða ánægðir.
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Facebook
Athugasemdir
Fráhábært að þú sért farin að blogga kerling. Það gerir mig hreinlega hamingjusama að vita að ég á von á að fá að heyra meira frá hinum framandi slóðum. Er stödd í Barcelona og Bjarki og Kolla biðja að heilsa.
Ég vil líka fá að heyra hvernig líkamsræktanrprógrammið gengur, mataræðið og allt hitt.
Áfram Erla
Harpa skarpa
Harpa skarpa og drengirnir (IP-tala skráð) 27.3.2008 kl. 21:05
Gaman að lesa bloggið. Viðburðaríkur tími hjá ykkur síðan þið mættuð á svæðið. Verður gaman að fylgjast með blogginu næstu vikur og mánuði. Bið að heilsa öllum.
Einar internasjonal
Einar (IP-tala skráð) 5.4.2008 kl. 21:10
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.