Lagt íann

Við erum nú að undirbúa brottför suður á bóginn. Við verðum tvær nætur í þjóðgarði í suðvesturhlutanum og förum svo til Fish River Canyon. Komum til baka á páskadag.

Í gær fór ég í fátækrahverfið að finna hana Maureen the miracle, ásamt Liz sem er búin að heimsækja þau reglulega. Nú var meira við haft þar sem ég var með í för. Heimilisfaðirinn var búinn að dubba sig upp í rauðu spariskyrtuna sína, móðirin einnig uppáklædd og Maureen komin með þessa rosalega flottu hárgreiðslu. Þau búa í kofa, þar sem 6 fullorðnir og 9 börn búa saman. Inni var mjög fínt, og eftir faðmlög og læti sátum við og spjölluðum. Það voru einnig margir úti í garði að fylgjast með heimsókninni. Þau tilheyra damarahópnum (sem tala þetta skemmtilega tungumál með smellunum) og hópshöfðinginn kom einnig og kynnti sig. Þau hafa auðsjáanlega sama fyrirkomulag og í þorpunum, þar sem eldri herramaður er höfðinginn. Ég var kölluð læknirinn, því að það er augljóst að kona sem hefur þá hæfileika að koma fólki til lífs hlýtur að vera doktor. Amk. er gaman að fá slíka heiðursnafnbót.

Ég gaf Maureen föt og svo fjölskyldunni smá peninga. Þau biðja fyrir mér í staðinn. Það eru mjög góð skipti. Þau ætla einnig að biðja fyrir Liz, sem er að flytja til Bandaríkjanna á sunnudaginn. Faðirinn sagði einbeittur, að þau ætluðu sérstaklega að biðja fyrir fjölskyldunni á meðan flugvélin væri í loftinu, það væri sérstaklega mikil þörf á því. Ég samsinnti því náttúrulega. Hvernig ættu flugvélar að haldast uppi í lofti ef ekki fyrir mátt bænarinnar? Reyndar hefur sá máttur reynst óskaplega vel undanfarið, því að samfélagið hefur legið á bæn síðan Maureen lenti í óhappinu. Það er ótrúlegt að sjá þessa fallegu stelpu svona líflega og komna vel til heilsu. Bænin hlýtur að hafa hjálpað vel til þar.


Komin í boltann

Hér koma nokkrar myndir, fyrst af afmælisfagnaði húsmóðurinnar þar sem drengirnir gæða sér á köku ásamt Leju og Ingrid, sem vinnur í leikskólanum hjá Stefáni.

Halli var svo á fótboltamóti síðustu dagana, og lenti liðið í öðru sæti. Davíð var fjarri góðu gamni, en hann kemur heim úr fjögurra daga vinnuferð norður í land, seinni partinn í dag.bolti_i_mars_1.jpgbolti_i_mars_2.jpgbolti_i_mars_3.jpgbolti_i_mars_4_975176.jpg


Lyfjaglaði læknirinn

Ég er búin að liggja flöt með einhvern magavírus síðustu daga. Eftir því sem maður verður veikari, finnur maður í huganum nýja sjúkdómsgreiningu, þetta byrjar frekar rólega og vindur svo upp á sig; gubbupestin (sem Óskar var með í síðustu viku) - taugaveiki - kólera - malaría - lifrarbólga (eftir munn-við-munn aðferðina og útrunnar bólusetningar) - einhver hræðilegur óþekktur sjúkdómur sem ég náði í eftir spítalaheimsóknina með allt dauðvona fólkið þar.... (Munið  að maður hefur rökhugsunina ekki alveg í lagi, og því hafa einkenni ekkert með greininguna að gera). Ekki bætti úr skák að eftir hræðilega nótt og erfiðan dag fór ég að horfa á þáttinn um lækninn House.  Þar er fólk gjarnan sett inn á spítala með minniháttar einkenni, sem margfaldast næstu sólahringana og þarf svo ítrekað að ganga í gegnum vítishvalir áður en lækning er fundin, nema hvað sumir deyja.  Ekki er hollt fyrir sjúkt fólk að horfa á slíkt.

Þetta bjargaðist nú allt hjá mér því að ég fór til lyfjaglaða læknisins okkar, sem er rauðhærður nörd sem er af þýsku bergi brotinn. Hann sérlega áhugasamur um allt sem íslenskt er, og finnst íslenskan t.d. vera sérstaklega heillandi. Íslendingar tali líka svo mörg tungumál. Ég jánka því með semingi, því að hann tjáir sig jöfnum höndum á afrikaans, þýsku og ensku, auk fleiri tungumála sem ég kann ekki að nefna. Hann gaf mér býsnin öll af lyfjum, auk þess að reka sprautu í mjöðmina á mér sem rak alla ógleði út á hafsauga. Setti mig reyndar líka í hlaupa- og líkamsræktarbann í heila viku, en ég var svo veik að ég var ekki viss um að geta hvort eð er hreyft mig nokkuð framar í lífinu, svo að ég var ekkert of miður mín vegna þess. Hann var náttúrulega mjög hrifinn af því að hafa eldgos á eyjunni okkar í alþjóðafréttunum.

Dóttir vinkonu okkar fékk einnig magapest þegar hún fór heim til Portúgal síðast. Ohhh, þessir vestrænu læknar.. sagði vinkona mín. Þeir eru svo hamingjusamir að fá ný tilfelli og sérstaklega fólk sem kemur frá Afríku að þeir hreinlega titruðu af spenningi. Greindu hana undireins með kóleru og settu í sóttkví. Ég þurfti að fara sjálf inn á deildina og segja þeim að taka sér tak, og tók hana svo bara með mér heim.

Kraftaverkabarnið vaknað

hospital.jpg

Þá er kraftaverkabarnið hún Maureen loks vöknuð til lífsins. Hér er hún í sjúkrabeðinu. Hún var í dag flutt af Central Hospital yfir í spítalann í fátækrahverfinu Katutura. Ég fór með vinkonu minni, þeirri sem er að flytja til Ameríku, henni Liz, í heimsókn. Það fer nú ekki mjög gott orðspor af spítalanum. Þegar við komum, kom í ljós að lyfturnar voru bilaðar, en ég sagði nú huggandi við Liz, sem með léleg hné, stór um sig og komin af léttasta skeiði, að sem betur fer væri stúlkan í stofu 5A, sem myndi væntanlega þýða að hún væri á fyrstu hæð. Það kom reyndar í ljós að hún var á deild 5A, sem þýddi náttúrulega fimmta hæð. Ég var viss um að ég þyrfti að beita skyndihjálpinni á grey Liz þar sem hún var að burðast upp alla stigana. Það léttist ekkert á henni brúnin þótt að ég lýsti yfir að þetta væri hin besta æfing fyrir hjartað og meinhollt fyrir alla. Hún varð hins vegar hin kátasta þegar við fundum Maureen, því að hún er orðin hin sprækasta. Er farin að borða og drekka sjálf, talar smá, en er samt veikburða. 

hospital_1.jpg

Við fundum einnig pabba hennar fyrir utan spítalann þar sem hann var að koma í heimsókn með fjölskyldunni. Þarna eru þau við rúmið, allir uppáklæddir að koma úr kirkjunni. Þar er mikið búið að vera við bænahöld, enda fólk strangtrúað. Maureen er yngsta barnið af fimm, en þau hafa þegar misst tvö, annað nú nýlega úr eyðni (sem var jú uppkomið svo að það kallast nú vart barn lengur). Það er mikið búið að mæða á fjölskyldunni síðustu vikuna, því að það var mjög tvísýnt með Maureen, en nú virðist hún vera á batavegi og öllum er létt. Pabbinn faðmaði mig óskaplega og brosti útundir eyru, með sínu tannlausa brosi.

hospital_2.jpgLoks er mynd af okkur vinkonunum og kraftaverkabarninu. Mér var nú starsýnt á þessa fallegu stelpu, sem var svona lífleg, og svipaði ekkert til líflausa kroppsins sem við vorum að fiska upp úr lauginni fyrir rúmri viku síðan. Hún hvíslaði reyndar til skýringar í dag, að laugin hefði verið djúp. Ég hugsaði bara með mér að hún var ekki feig, blessuð stúlkan.


Hitt og þetta

Nú eru allir komnir í langt frí í skólanum, alveg fram yfir páska. Við fórum í skólann á fimmtudaginn að fá vitnisburð og sjá verk drengjanna. Það þarf ekki að taka fram að allir drengirnir ganga á vatni, nema kannski Halli í art, sem veður í háls. Hann og myndlistarkennarinn eiga sumsé ekki í mjög ástríku sambandi. Ég skammaði hana nú reyndar duglega, enda setti kerlingin límmiða á myndir hjá flestum krökkunum, sem á stóð "I don't like this piece of art", meira að segja hjá leikskólakrökkunum. Ekki beint jákvætt og uppbyggjandi.

Við höfðum haft hug á að ferðast, en Davíð fer í vinnuferð í næstu viku sem brýtur fríið upp. Við höfum hins vegar tækifæri til að leggjast út vikuna þar á eftir og ætlum að fara suður á bóginn, alla leið til Fish River Canyon sem er alveg við landamæri Suður Afríku. Næst stærsta gil veraldar.

Svo hefur lasleiki verið að angra okkur, Halli var fyrst lasinn og svo Óskar og ég með einhverja lympu. Sofnaði, aldrei þessu vant, fyrir framan sjónvarpið í gærkvöldi. Davíð var svo hugulsamur að hann "leyfði" mér að sofa. Það var opið út á verönd og ég vaknaði upp af værum blundi, öll útbitin af moskítóflugum, og viðþolslaus af kláða. Hitinn hefur verið yfir 30 stig undanfarið og mikið af flugu.

Stúlkan sem drukknaði og dó, en hætti svo við, heitir Maureen. Hún var dögum saman í öndunarvél og var haldið sofandi. Nú er hún loksins komin úr öndunarvél, en er enn á gjörgæsludeild. Þaðan verður hún væntanlega flutt á morgun eða hinn, en þeir búast við að henni verði haldið á spítalanum í tvær vikur enn. Hún ku vera farin að tala og vera hin sprækasta, en engar áreiðanlegar fregnir herma hvort að hún hefur hlotið varanlegan skaða af atvikinu. Ég fer í heimsókn á spítalann á morgun og er spennt að sjá hvernig henni líður.

Nú er Óskar að leika sér í lego, Stefán er að læra stærðfræði og Halli tók að sér það metnaðarfulla verkefni að útskýra mínus fyrir drengnum. Gangi honum vel.

Leja stendur alltaf í einhverjum stórræðum. Á fimmtudaginn fékk hún útburðarpappíra, þar sem átti að henda henni út á miðvikudag komandi. Fékk sumsé minna en viku frest. Ég fór í að kanna málið með henni á föstudag, tala við lögfræðing og svo fyrirtækið. Það er að hluta til í eigu hins opinbera. Skrifstofan var full af fólki úr fátækrahverfinu, sem allt var að reyna að semja um frest, en undanfarið hefur mikið verið um útburð. Leja skildi ekkert í þessu öllu saman. Reyndar viðurkenndi hún að hún á að borga N$ 1500 á mánuði, en hefur eiginlega bara látið duga að borga N$ 1000. Nema í þarsíðasta mánuði þegar hún ákvað að kaupa frekar legstein fyrir leiði pabba síns sem lést fyrir nokkrum árum, og þá ákvað hún að sleppa bara að borga af húsinu. Og svo borgaði hún rosa lítið áður en hún byrjaði að vinna hér, eiginlega bara ekki neitt. Við björgum þessu fyrir horn fyrir hana, en hún þarf að borga N$4000 fyrir miðvikudag. Konan við hliðina á henni í röðinni átti að borga N$5000 til að komast hjá útburði.

Ég gaf Dabba þá forspá að það yrði mikið um innbrot um helgina. Hann horfði á mig opinmynntur, hélt helst að ég sæi það fyrir að borgin yrði full af hústökufólki. Nei, ekki var það nú mín meining, heldur að nú væru margir sem þyrftu á lausafé að halda og það ekki seinna en strax. Þá aukast glæpir því að fólk grípur til örþrifaráða.

Nú er stærðfræðikennslunni lokið og kennarinn hefur lýst því yfir að nemandinn sé of ungur fyrir frádrátt. Of flókið.


Skyndihjálpin hans Kalla kemur að góðum notum

Gærdagurinn var merkisdagur. Ég er búin að vinna mikið við tölvuna undanfarið og hafði fengið í illilega bakið. Ég var því að brölta í býtið að bryðja viðeigandi lyf. Ég ákvað samt að skella mér út að hlaupa og var komin á götuna klukkan 6, í myrkri, með góðum hlaupafélögum. Við hlupum 20 kílómetra, og þónokkuð á fjallastígum. Við nutum sólarupprásarinnar við Avis stíflu, þar sem náttúran skartaði sínu fegursta. Bakið var miklu betra eftir fyrsta klukkutímann, svo að ég var hamingjusöm að hafa drifið mig.

Síðdegis fórum við svo í kveðjupartý fyrir vini okkar sem eru að flytja til Bandaríkjanna eftir áratuga veru í Afríku. Þar var mannmargt, og aragrúi krakka út um allt. Við Davíð skiptumst á að fylgjast með drengjunum okkar þegar þeir voru í lauginni, sem var vinsælasta leiksvæðið fyrir börnin. Davíð var úti á plani og afrekaði það að kenna Óskari að hjóla án hjálpardekkja, á meðan ég var inni í húsaporti að horfa á Stefán í lauginni. Þá hrópaði einn litlu strákanna á hjálp, en tvær unglingsstelpur lágu á botninum á lauginni þar sem hún var dýpst. Gestgjafinn er fyrrverandi landgönguliði og við hlupum bæði á eiturhraða að lauginni. Hann stakk sér niður eftir annarri stúlkunni, sem lá lífvana á botninum. Ég tók á móti henni uppi á bakkanum.

Ekki var nú staðan góð. Hún var hætt að anda, enginn hjartsláttur og lungun full af vatni og ælu. Augun galopin störðu stjörf út í loftið. Við hófum strax lífgunartilraunir. Ég hef stundum spekúlerað hvernig á að blása lofti í mann sem er með lungun full af vökva. Núna veit ég allt um það. Ég blés í hana, og eftir góða stund kom annar sem var þjálfaður sjúkraflutningamaður, og sá um hjartahnoð á meðan ég blés. Að lokum fór hjartsláttur af stað aftur og hún fór að anda veikum mætti. Kaldur líkaminn varð fljótlega heitur, en hún hvorki hreyfði sig, né sýndi viðbrögð við áreiti. Svo komu sjúkrabílar úr öllum áttum, en það varð uppi svo mikill fótur og fit að fólk hringdi á þrjú neyðarfyrirtæki.

Ekki fannst mér nú sjúkraflutningamennirnir hafa hraðar hendur. Hún var mjög lág í súrefni og með veikan, hraðan púls. Þeir gáfu henni loks súrefni og svo var hún flutt á spítala. Ég myndi nú seint kallast svartsýn mannvera, en ég var nú ekki mjög bjartsýn fyrir hönd blessaðrar stúlkunnar.

Á meðan þessu öllu stóð var annað par að sinna hinni stúlkunni sem tók fljótlega við sér og var farin að hósta og hreyfa sig sjálf. Sú verður útskrifuð af spítala á morgun en stúlkan sem við vorum að sinna er enn á gjörgærsludeild, enda var enn mikill vökvi í lungunum. Það er því ekki enn útséð með hvernig fer með hana. Hún hafði dottið í laugina og vinkonan farið á eftir til að bjarga henni. Báðar ósyndar. Þær eru báðar namibískar, en krakkar hér kunna almennt ekki að synda. Enda drukkna ófá börn í flóðum, og jafnvel í grunnum pollum.

Margir gestirnir voru hálf volandi af sjokki. Slysin eru fljót að gerast, foreldrarnir eru náttúrulega að fylgjast með börnunum, en maður er ekkert að fylgjast með svona stálpuðum krökkum, ég hafði sjálf bara augun á Stefáni.

Það er gott að hafa tekið skyndihjálparnámskeið hér til forna (lesist í níunda bekk). Kalli leikfimiskennari yrði væntanlega kátur að vita að eitthvað af kennslunni hefur síast svona vel inn. Svo skrýtið sem það er, þá man ég hreinlega allt sem var kennt þá.

Dabbi gerir grín að mér og segir að ef ég fái einhvern tímann doktorsgráðuna mína geti ég ekki unnið við tölvu vegna bakverkja, heldur verði ég að gerast einkaþjálfari eða kannski sundlaugarvörður. Ég geti þá kallað mig Dr. Dauða, vegna sérstakra hæfileika til að koma fólki til lífs.


Bíó

Við fjölskyldan skruppum í bíó í dag. Hér í landi eru tvö bíóhús, eitt í höfuðborginni og svo annað niðri á ströndu. Nonni frændi spurði Dabba um daginn hvort að við hefðum séð Avatar í þrívídd. Við hlógum mikið að því. Það koma alls konar uppákomur upp í bíóferðum og ég hef núorðið öðlast mikla virðingu fyrir sýningastjórum. Hér er myndin kannski ekki í fókus, flöktandi, eða kemur ekki. Um daginn var hún hálf útaf tjaldinu. Áhorfendur litu hver á annan í allnokkurn tíma, þar til að einn blótaði á afrikaans og fór fram að láta vita.  Við Halli fórum um daginn og þá var það ég sem gafst upp til að biðja um að myndin yrði sett í fókus.

Þetta er jú Afríka og fólk þarf að ganga í gegnum alls konar vesen sem ekki þekkist heima á Íslandi. Ein vinkona mín er að byggja. Húsið átti að vera orðið tilbúið í desember síðastliðnum. Svo núna í mars. Núna er hún að horfa til desember aftur, ári eftir upphaflegu áætlunina. Byggingaverktakinn er skúrkur. "Maður sér í gegnum fingur sér með smá byggingaefni hér og þar" sagði vinkonan, en svo var vinurinn farinn að rukka fleiri glugga en voru á húsinu og þess háttar. Steininn tók þó úr þegar framkvæmdir höfðu verið óvenju hægar í nokkrar vikur. Þá hafði byggingavöruverslunin samband, þar sem vörur voru keyptar, en verktakinn fékk borgað fyrir allt saman. Hann hafði hins vegar skrifað allar vörurnar hjá þeim beint, og samt þegið borgun fyrir. Vinkonan er að missa alla von um að húsið verði nokkurn tímann tilbúið.


Komin á íþróttasíðurnar

Þetta er alveg bráðmerkilegt en ég er búin að finna það út af eigin raun að það eru margir sem lesa íþróttasíðurnar í staðarblöðunum. Ég er að verða nokkuð fræg, fékk nafnbirtingu í The Namibian og reyndar líka Namibia sport. Ég náði sumsé þriðja sætinu í kvennaflokki. Reyndar er nafnið ekki stafað rétt, en það skiptir nú ekki öllu. Nú þarf ég bara að bæta mig um stuttar 8 mínútur, og þá er þetta komið. Get farið að hala inn gullin.

Rössing styrkti hlaupið, en það er í eigu Rio Tinto. Umhverfisfræðingurinn fékk hland fyrir hjartað þegar hann sá öll Rio Tinto skiltin. Ég hélt að hann þyrfti poka til að anda í. Nú á ég bæði bol og húfu með merki þeirra, sem ég get sett upp við góð tækifæri ef ég vil koma Dabba úr andlegu jafnvægi.


Myndmál af ströndu


Rauð og sæl af ströndinni

Hér með tilkynnist að við fjölskyldan erum komin af ströndinni, öll rauð og sælleg. Það er svo mikið mistur að maður misreiknar hvað sólin er sterk og við öll dálítið brunnin. Ströndin var yndisleg, við leigðum gott hús alveg við stöndina á Lönguströnd.

Svo hlupum við stöllurnar á laugardagsmorguninn, ég og sú portúgalska. Dabbi var heima að gæta barnanna. Kökurnar hans Halla hrifu mjög vel sem kolvetnishleðsla, ef til vill getur hann markaðssett þær sem slíkar í framtíðinni. Það voru margir að hlaupa, flestir í maraþoni en nokkrir ræflar fóru 10K. Ég bölvaði nú slitnum sólunum á skónum til að byrja með en það var hálfgerð þoka í morgunsárið og ég rann til í hverju skrefi á votu malbikinu. Ég kláraði á 45:58 (Inga, þetta var fyrir þig, og mjög strategíst að fara svona rétt undir mínútuna) og Carla á 53:06. Við tókum þetta frekar létt og það verður að segjast að það er mikill munur að hlaupa svona við sjávarmál eftir æfingar hérna uppfrá.

Myndir birtast þegar ég er búin að hlaða þeim inn á tölvuna.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband