Nafnið skapar manninn, eða hvað?
19.2.2010 | 06:10
Ég var niðri í ráðuneyti í gær að spjalla við mann og útskýra fyrir honum íslensku mannanafnahefðirnar. Honum fannst þetta alveg fyrirtak en jafnframt undarlegt að við hefðum þrjú fjölskyldunöfn í fjölskyldunni. Eitthvað af Owambofólkinu hefur svipaða hefð, svo að þetta kemur Namibíumönnum ekkert spánskt fyrir sjónir. Þessi umræða kom einnig upp í kvennaboði sem ég sótti eitt kvöldið í vikunni. Þar koma saman konur, baktala eiginmennina, spila hópspil og eta og drekka (nema náttúrulega ég sem er í vínbindindi og sú ólétta). Vegna þessarar óléttu var mikið talað um barneignir, og svo nafngiftir.
Tvær eru giftar mönnum af Owambo ættbálki. Önnur er bresk og hin er bandarísk. Hjá Owambo ræður afinn nafninu á barninu, foreldrarnir fá ekkert um það ráðið. Þetta er dálítið snúið fyrir vestrænar konur.
Fyrst fengum við söguna hjá þessari bresku. Eftir 20 tíma hríðir án verkjalyfja hvíslar eiginmaðurinn að henni (og hefur væntanlega haldið að hún myndi deyja) að hún fái bara alveg sjálf að ráða nafninu á barninu. Og svo kom barnið í heiminn og fékk drengurinn viðráðanlegt nafn.
Sú bandaríska hins vegar fæddi sitt barn og var stuttu síðar stödd í París þegar hún fær hringingu frá eiginmanninum.
Hann: elskan, ertu búin að heyra hvað drengurinn okkar á að heita?
Hún: nei, hvað?
Hann: N"#$$%#$&%&&/%"!#$$%& (ég get hvorki með neinu móti munað nafnið né skrifað það)
Hún: ha??? Heyrðu, þú verður bara að stafa það fyrir mig, sendu mér það í tölvupósti.
Hann: ehhh, umm.... ég veit ekki alveg.... heyrðu, ég verð að spyrja mömmu. Mamma, mamma! Hvernig skrifarðu...
Við hlógum að þessu vel og lengi, en sú breska hvað mest. Loksins gat hún stunið upp, þetta er einmitt nafnið sem minn strákur átti að fá!
Kemur nú umbeðin skýrsla af sölumanninum. Salan gekk svona glimrandi vel í gær. Halli sagði að Alex hefði nú verið betri sölumaður, ég er svona more like a business man. Þetta hefur hann væntanlega frá föður sínum, móðirin hefur nú smá sölugen í sér. Reyndar heyrðum við líka sögur af honum þar sem hann var að skamma Alex fyrir að halda sér ekki að verki. Hvaðan koma þau gen eiginlega? Krakkarnir voru með ótrúlegt úrval af vörum, allt frá baðsalti til gjafakorta, almanaka, póstkorta, taskna til leikfanga. Allt gekk vel.
Við erum að fara niður á strönd á eftir. Ég er með kvíðahnút í maganum eftir að þjálfarinn gaf mér hraðatölur, mér líður eins og ég sé aftur komin í barnaskóla að fara í landafræðipróf. Hún er reyndar fjarri góðu gamni, er á vetrarólympíleikunum í Vancouver. Ég er búin að vera að leita að nýjum hlaupaskóm, en þeir gömlu eru margrifnir um sólann og flatir eins og pönnukökur. Í stærstu búðinni var nokkuð úrval af hlaupaskóm fyrir konur. Í stærðinni 40,5 til 43. Ég sagði ásakandi við sölumanninn að þeir fengju bara afganga og rusl frá Suður Afríku. Þetta væri jú fyrir tröllvaxnar konur. Hann varð mjög sár, þvertekur fyrir þetta og segir að Angólamennirnir kaupi allt upp. Allt Angóla að kenna.
Í þessum aðstæðum hugsa ég alltaf til Villa sem segir bara huggandi, þú ert nú í Afríku, Erla mín. Ég hleyp bara á þeim gömlu, sumir hlaupa jú berfættir, svo að ég er nú ekkert of góð fyrir þetta.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 06:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Kolvetnishleðsla - kökuát
18.2.2010 | 05:43
Ég hef trúlega tekið kolvetnishleðsluna aðeins of alvarlega. Ég er að fara að hlaupa 10K niðri á strönd á laugardaginn. Markaðsdagurinn hjá Halla er í dag, og þeir enduðu á að selja smákökur eftir ótalmargar hugmyndir. Ég endaði náttúrulega á að baka megnið af þeim, og þá verður að smakka. Mér finnst líkaminn vera orðinn fullur af sykri, ég held að kolvetnishleðslunni hafi því aðeins verið ofgert.
Hér er Halli með vöruna sína, sem er komin í fallegar gjafaumbúðir. Svipurinn er ögn undarlegur, en ég gaf fyrirmæli um að brosa því að hann var svo alvarlegur að hann leit út fyrir að vera með ösku af látnum ættingja í boxinu. Þetta varð svo útkoman. Kökurnar heita Halex cookies (Halli og Alex eru að vinna þetta saman), og slagorðið er Dare live without it. Ég kíki væntanlega á þá í verslunarmiðstöðinni í dag til að sjá hvernig þeim gengur við að selja vöruna.
Litlu drengirnir eru að læra um áttir og hluti sem hjálpa okkur að rata. Óskar er að þjálfa bróður sinn í morgunsárið fyrir show and tell, en Stefán er að fara með heimskort. Óskar útbjó kort af herberginu sínu.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 06:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Ferð á hárgreiðslustofuna
17.2.2010 | 13:50
Hárgreiðslumeistarinn er þýsk og heitir Melanie. Er með djúp og ótrúlega blá augu. Kannski afkomandi þýskra nýlenduherra. Eða þýskra flóttamanna frá fyrra stríði. Hún er með flott hár eins og flestar klippikonur. Hún talar ekki mikla ensku. Sagði með heillandi brosi þegar ég sat fyrst í stólnum hjá henni; ahh, æ nó zjust ze ræght eerkutt for jú. Verí poppula in Zermaní, jaa. Fyrir hugskotsjónum mér svifu myndir af þýsku stúlkunum hér, sem fá hræðilega kynlausa, stutta klippingu frá unglingsaldri sem er svo púkkað upp á með fjólubláum eða bleikum lit hér og þar. Mér leist ekki á það. En klippinguna fékk ég og var hæstánægð.
Nú horfði hún hugsandi á mig, leit á kortið mitt og sagði að ég hefði síðast komið í september. Ég, játaði full sektarkenndar og skömmustuleg að hafa líka slitna enda. Fyrir íslenska klippara er það eins og að játa sig seka um mannsmorð, á meðan Melanie dáist að því hvað ég held lengi út. Hún hyggur efalaust að ég sé svona aðhaldssöm og leyfi mér bara tvær klippingar á ári, og kinkar stolt kolli yfir mér eins og ég hafi rétt lokið við að vinna listdans á skautum á Ólympíuleikunum. Aðhaldssemi finnst Þjóðverjunum vera hin mesta dyggð. Það er þó ekki ástæðan (spyrjið bara Dabba ef þið viljið fá ítarlega útlistun á minni sparsemi og vöntun þar á). Ég hef ekki þolinmæði til að hanga á hárgreiðslustofun eða snyrtistofum. Það sem aðrar konur kalla dekur, finnst mér vera hálfgerð pína. Þessir staðir eru fullir að svokölluðum kvennablöðum sem er mannskemmandi lesning. Það kemur þó ekki í veg fyrir að ég blaði í gegnum þessar bókmenntir og ég finn mig vanalega fara að spá í hvað þessi iðnaður velti miklu á ári...hmm... hvað eru margar konur í vestrænum samfélögum - hvað les hver meðalkona mörg blöð á mánuði - hvað mikið af þvælu kemst inn í hausinn á fólki hvort verður þetta eða tóbak bannað á undan ... er enginn The Economist hérna?
Síðast fann ég Mens health, sem ég fann út að væri þó ögn skárri lesning. Hvernig á að fullnægja konum er hægt að byrja að stunda jaðarsport eftir fertugt hvernig á að ná sixpack á sex vikum? Það liggur í augum uppi að þetta er þó öllu skárra en kvennablöðin. Ef ég hefði haldið mig við fjölmiðlafræðina hefði ég kannski getað eytt svosem þremur árum til að greina hvernig kvennablöðin viðhalda firringu og heilaþvo konur. Þetta hefði verið líkt og þriggja ára, stanslaus, sársaukafull heimsókn á hárgreiðslustofu.
Núna var ég sniðug og tók með mér bók úr klúbbnum. Hún reyndist vera um 33 ára konu sem er þunglynd, finnst hún vera orðin gömul og búin að missa af lífinu. Ég horfi á sjálfa mig í speglinum, í óaðlaðandi sloppi og man nú að ég var búin að sverja að fara aldrei í klippingu nema að hafa málað mig rækilega áður til að fá ekki sjokk þegar ég liti í spegilinn. Stórt moskítóbit er að spretta út á hálsinum. Það er gott að maður hneygist ekki til þunglyndis.
Nú segir Melanie; ahh, zis is ze geomatrikaal eerkutt, jaa og byrjaði að skipta höfðinu á mér í þríhyrninga af þýskri nákvæmni. Svo er litunin. Ég afþakka handanudd. Svo er beðið undir einhverjum þurrkskermi. Sú þunglynda í bókinni er að ná sér á strik. Klukkan í skerminum bylur svo skart að ég held að einhver hafi skotið mig með aftökustíl í hnakkann. Þvottur. Konan rífur í hnakkahárin en ég kveinka mér ekki, vil bara að þessu fari að ljúka. Ég afþakka höfuðnudd. Hárblástur tekur heila eilífð. Ég kíki á klukkuna og hugsa til hins tékkneska sundþjálfara strákanna. Sá er vaxinn eins og naut og með aflitaða burstaklippingu. Hann kvartar sáran yfir þýsku mæðrunum; þær kvarta ef maður tekur ekki amk fimm mínútur í að þurrka hárið á börnunum eftir sund. Líka á strákunum. Og þeir eru með broddaklippingu! Það er 30 stiga hiti, og þær segja að blessuð börnin verði veik!
Við sameinumst í aðdáun á hörku fólks af norðurhjara þar sem enginn þurrkar á sér hárið og þá er líka hægt að sjúga það eins og íspinna þegar maður kemur út í frostið eftir sundferðir.
Loks er þessu aflokið. Melanie sest niður með mér alvarleg í bragði, horfir með þessum bláu augum sínum sorgmædd inn í mín, og klappar róandi á hendur mér. Ég hugsa að hún sé komin með krabbamein og verði fallin frá þegar ég ætla að koma í klippingu næst. Sem betur fer var það ekki; hún hafði hækkað verðskrána.
Niðurstaða dagsins er að hárið segir margt um fólk; aflituð burstaklipping segir að þú sért frá fyrrverandi austantjaldslandi, broddaklipping að þú ert þýskur, lítill strákur, stutt kvenklipping með bleikum lokkum segir að þú sért þýskur kvenmaður, fönkuð og flott að viðkomandi er hárgreiðsludama og litlir strákar með úfinn hárlubba eru örugglega sárlega vanræktir. Hvað segir annars glæný, geómatrísk klipping um kvenfólk?
Vinir og fjölskylda | Breytt 18.2.2010 kl. 05:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Áramót og fleira
13.2.2010 | 08:18
Laugardagsmorgnar eru oftast rólegir. Dabbi er í ræktinni og Halli var í sleepover hjá vini sínum. Í kvöld kemur Leja að passa strákana, Erik er í sleepover hér og við hjónin förum í Valentínusarteiti á vegum skólans. Ég er í foreldraráði svo að Dabbi neyddist til að fara. Búinn að leita margra leiða til að komast hjá því, en allt kom fyrir ekki.
Ég set nú inn nokkrar myndir frá áramótunum, ekki seinna vænna. Við fórum í áramótateiti hjá vinum okkar síðdegis og um kvöldið fengum við góða gesti frá Malawi; Stefán Kristmannsson og fjölskyldu.
Að vera eða vera ekki.... feitur
11.2.2010 | 14:39
Ég fór í bókaklúbb í morgun. Nytsemi hans helgast helst af því að hér er takmarkað úrval bóka í búðunum. Ég varð ákaflega ánægð þegar mér var boðið að taka þátt, enda er slegist um að vera með. Þessi söfnuður virkar líkt og bókasafn, þar sem sífellt fleiri bókum er safnað saman, og þegar meðlimir flytja burtu, taka þeir "sínar" bækur með. Og hér eru einmitt bækur sem maður er ekki að lesa á hverjum degi; margar um Afríku, frá Afríku, eða eftir afríska höfunda. Ég fékk mér stafla af bókum fyrir jólin, en ekki varð nú mikið úr lestri. Kannski get ég eitthvað bætt úr núna, en námið tekur tíma. Ég rétt náði að garfast í gegnum leyndarlíf býflugna fyrir daginn í dag. Dabbi fær nú tvær Stieg Larsson til lestrar, enda búinn með Yrsu sína sem hann fékk í jólagjöf.
Lunganum af gærdeginum var eytt úti á íþróttaleikvangi þar sem Halli og félagar hans úr skólanum voru að keppa á small schools athletics. Liðið var ekki fjölmennt, en þau stóðu sig með mikilli prýði, krakkarnir. Margir komust á verðlaunapall. Halli varð í þriðja sæti í langstökki og boðhlaupssveitin varð í öðru sæti, en þetta voru greinarnar sem hann keppti í þetta árið. Myndavélin var með í för, en batteríislaus, svo ekki varð neitt úr myndatökum. Ég stóð vaktina í tímatökum fyrir hlaupin, og grillaðist úti í sólinni.
Nú mallar gimbrarkjöt á eldavélinni fyrir kjöt og karrý í kvöld. Ég keypti þennan heljarinnar fjölskyldupakka af kjöti úti í búð áðan. Kjöt af lambi og veturgömlu er ákaflega ljúffengt hér og ekkert síðra því íslenska. Leja fær fituna og síðustykkin. Hún er alveg vitlaus í fituna en hana saxar hún í litla bita og sýður, svo er maukinu smurt ofan á brauð. Verður væntanlega svipað og hamsarnir okkar heima. Ekki beint uppskrift fyrir danska kúrinn, eða hvað? Leja er nokkuð sver um sig, og er alltaf að stækka (þetta styður fituflakkskenninguna hennar Kristínar Ástríðar). Enda varð sveitakonunni henni móður minni að orði þegar hún hitti Leju, eftir að hafa heyrt hvursu óskapar hungur hún hefði áður liðið: "ég get ekki skilið að þessi kona hafi nokkurn tímann liðið skort"
Reyndar las ég í einhverju ritinu að það lítur út fyrir að næstu hörmungar sem ríði yfir Afríku verði sykursýki 2, en nýrík, svört hástétt færist inn í neysluvenjur svipaðar þeim sem eru á Vesturlöndum með skyndibitafæði og tilheyrandi offitu. Hér takast reyndar á mótsagnarkennd gildi varðandi líkamsvöxt. Annars vegar á kvenfólk að vera mjótt eins og vestrænar fyrirsætur, og hins vegar með "hefðbundinn" vöxt. Horað fólk er litið hornauga, enda stundum gert ráð fyrir að fólk sé langt leitt af eyðni. Ein ráðskonan sem ég þekki hefur verið að grennast mikið og ég alltaf að hrósa henni fyrir hvað hún líti vel út. Ekki tekur hún því vel, hún segir með angist "ég skil ekkert í þessu, ég reyni og reyni að fitna aftur, en ekkert gengur. Ég borða fullt og reyni að hreyfa mig sem minnst, en samt er ég að mjókka!"
Hver er svona þunnur?
8.2.2010 | 18:42
Þegar veðurfræðingar hér í landi fullyrtu að ekki myndi rigna meira þetta árið, fagnaði ég í laumi. En ég var ein um það, því allir vilja blessað regnið. Og það skipti svosem ekki miklu máli, því að um leið og veðurfræðingarnir hér spá einhverju, þá gengur það sjaldnast eftir. Í nótt fór að rigna af fullum krafti, með þrumum og eldingum.
Nú hefur pálmi hér úti í garði komið sér upp risavaxinni strýtu, sem blómstrar væntanlega fljótlega. Þetta hefur gerst á örfáum dögum og vekur mikla furðu hjá Davíð, en restin af fjölskyldunni lætur sér fátt um finnast. Ef ég verð í stuði á morgun tek ég mynd af fyrirbærinu. Ef heldur áfram sem horfir geta drengirnir klifrað til himins eins og Jói.
Annars gengur lífið sinn vanagang, ég fór út að hlaupa í morgun í dásamlegu morgunloftinu, fullu af raka. Helgin var viðburðalítil, við fórum í morgunverðarboð, ég í naktrakvennateiti og strákarnir í bíó. Óskar les enn linnulaust og Stefán syngur og dansar. Allt við það sama. Enskan og íslenskan halda áfram að blandast fagurlega saman.
Halli: Mamma, það er einn strákur í bekknum mínum sem er svona sjúklega þunnur..
Móðirin: Ha, hvað segirðu, var hann þunnur í skólanum??
Halli: Já, you know, so thin. Hann passaði í þennan pínkulitla japanska búning sem kennarinn kom með fyrir alþjóðadaginn..
Ísland, skjótaðu, plís, skjótaðu...
5.2.2010 | 09:16
Allt er í góðu hér, við fórum í matarboð á matarboð ofan um síðustu helgi og sáum svo bronsleikinn á EM hjá Villa og Gullu á stórum skjá. Hér eru mínir menn hins vegar að horfa á síðsta leikinn í riðlakeppninni, þar sem Óskar varð niðursokkinn í leikinn og hrópaði Ísland, skjótaðu, plís, skjótaðu!!
Halli er að fara að keppa á frjálsíþróttamóti í næstu viku og ég hef verið niðri í skóla að þjálfa krakkana sem eru að fara til keppni. Það er gaman að fá að hlaupa grind og boðhlaup og þess háttar.
Nú stendur yfir undirbúningur fyrir alþjóðadaginn í skólanum. Þessi dagur er einn af aðaldögunum, þar sem gestum er boðið til skólans og haldið er upp á alþjóðlegan fjölbreytileika skólans. Hver bekkur velur sér land og kynnir það og býður upp á afþreygingu og veitingar í anda landsins. Leikskólinn er Madeira, og býður upp á leiki og mat þaðan. Halla bekkur, year 6, er Japan og verður boðið upp á sushi, borðtennis, tölvuleiki og karókí. Year 7 valdi Ísland!! Við verðum þeim innan handar við undirbúninginn, og það verður spennandi að sjá hvað þau hafa í huga. Krakkarnir eru alltaf svo skapandi, og ég hlakka til að sjá afraksturinn.
Frá toppi til táar
26.1.2010 | 14:47
Ég fór að klifra í morgun og tók myndavélina með. Maður er reyndar frekar upptekinn þegar klifrið er í gangi, svo að afrakstur dagsins var ekki mikill í myndum talið. Annar afrakstur er að ég get vart hreyft fingurna þrautalaust.
Eins og sjá má eru klettarnir hrikalegir, en henta vel til klifurs. Við Davíð ræddum þetta og ég taldi helstu hættuna vera þá að klifurfélaginn fengi hjartaáfall og væri einhvers staðar uppi í háloftunum á meðan. Reyndar gæti ég trúlega náð honum niður á tiltölulega auðveldan hátt svo að það væri kannski ekki svo mikil hætta eftir allt. Dabbi var fljótur að sjá fyrir sér aðrar aðstæður; að sá gamli fengi áfall þegar ég væri í hæstu hæðum og hann að styðja mig frá jörðinni. "Ég hef engan áhuga á að burðast með þig lamaða frá toppi til táar", komst hann að orði. Hann er sumsé ekki alveg sáttur við klifrið.
Er ekki freistandi að hendast þarna upp?
Myndatökur og fleira
25.1.2010 | 18:33
Ekki mikið að frétta af daglegu lífi hjá okkur. Dabbi segir að borgin sé að fyllast af Angólafólki, og ég held reyndar að það sé rétt hjá honum. Alls staðar er töluð portúgalska þegar maður er í bænum. Þetta er efnað fólk sem kemur niðureftir til að versla. Og það verslar sko. Heilu kerrurnar af fatnaði og dóti. Gott fyrir efnahaginn hér, en það eru fáar búðir þarna uppfrá.
Halli er útskrifaður af markaðsfræðideild skólans, búinn að framkvæma þrjár markaðskannanir og getur sagt ykkur allt um markaðinn. Óskar bara reiknar og reiknar þessa dagana. Alveg ágætt.
Nú eru að koma myndatökur fyrir árbókina í skólanum. Bekkjarsystir hans Óskars fór í klippileik og snoðaði af sér toppinn, mjög flott. Stefán er með laglegt glóðarauga eftir að hafa hlaupið á vegg hér heima. Sá verður flottur í bókinni. Hann hefur nýlega uppgötvað fjörkálfinn í sér og er hættur að vera þessi rólyndispiltur, er sumsé kominn í takt við afganginn af fjölskyldunni. Hann er orðinn orðinn yfirlýst partýdýr fjölskyldunnar. Hann er með geislaspilara inni hjá sér og hefur spilað Latabæ linnulaust og sungið með fullum rómi. Nú er hann kominn með suður ameríska djassaða tónlist, sem er af diski sem vinkona mín gaf mér í jólagjöf, og dansar linnulaust með miklum látum við hana. Hann heimtar líka tónlist á leiðinni heim frá skólanum á degi hverjum. Alltaf partý hjá honum. Hvaðan koma þessi gen eiginlega?
Ég er að verða eins og miðaldra, kvenkyns útgáfa af karate kid, farin að grípa moskítóflugur á flugi. Eini munurinn á mér og karatedrengnum er að hann notaði matarprjóna en ég nota guðsgafflana. Þetta skilar alveg ágætis árangri. Miklu færri bit.Vinir og fjölskylda | Breytt 26.1.2010 kl. 05:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Smá frá Zim og Botswana
21.1.2010 | 15:47
Eftir ferðina til Zimbabwe og Botswana stóðu einhverjar 6000 myndir, en Maggi stóð myndavaktina. Ég fregnaði að það væru allt að 400 myndir af sama fuglinum, en sel það ekki dýrara en ég keypti. Ég sé ekki að ég geti nokkurn tíma grafið mig í gegnum það allt til að flokka og sortera. Kannski ef ég verð komin með nóg af krítískum kenningum og velferðarhagfræði.
En myndirnar eru góðar, og algjörir gimsteinar innan um. Ég skelli hins vegar inn núna mannlífsmyndum, mest af okkur fjölskyldunni til að sýna hvað við vorum í góðri stemningu. Við leigðum rútu og komumst öll þar inn, með nóg pláss fyrir farangur. Dabbi gerðist rútubílstjóri og svo var keyrt og keyrt.
Við byrjuðum á að fara til Grootfountain, svo Mahango, áfram upp Caprivi, í gegnum Katima Mulimo, Botswana og til Victoria Falls í Zimbabwe. Allt gekk eins og í sögu. Það var reyndar komið rökkur þegar við komumst loks yfir landamærin til Zimbabwe. Þá vorum við stoppuð af úniformuðum manni. Engin umferð og engin ljós, bara vegur sem lá í gegnum þjóðgarð. Signý átti stórafmæli og var viss um að sjá ekki það næsta. Ég var nú eiginlega á því líka.
Signý: uss, Dabbi, keyrðu bara áfram, vertu ekkert að stoppa
Dabbi rútubílstjóri: ha, ég fer ekki að byrja á því að keyra niður lögreglumann (skrúfar niður rúðuna)
Löggumann: do you have anything from the bush?
Dabbi rútumann: from the bush??? No, we just want to get to our hotel
Þarna lauk þeim samskiptum. Hann var sumsé að hafa eftirlit með veiðiþjófum, en mikill skortur hefur verið í landinu, og gnægð fæðu að fá úr þjóðgörðunum. Svo að Dabbi drap engann, og við sigldum í gegnum myrkrið og sungum afmælissönginn. Daginn eftir voru Viktoríufossar skoðaðir og farið í booze crouse svo fóru nokkrir útvaldir í raftsiglingu á Zambesi ánni daginn eftir það. Ég hugðist fara en fékk magakveisu (mér finnst líklegast að Dabbi hafi byrlað mér ólyfjan því að hann fékk mitt pláss á bátnum) og í kjölfarið lyf hjá Signýju. Hún kom með ágætan lyfjaskáp og ætti að taka Signýju með í allar svona ferðir.
Þá var farið niður til Chobe þjóðgarðsins í Botswana og í gegnum Nata að Makadikadi saltpönnunni. Þá til Maun þar sem við flugum yfir Okavango Delta og loks heim til Windhoek. Þetta voru 10 dagar í allt, og 3300 km. keyrsla, eða hér um bil.
Eina sem skyggði á ferðina hjá Dabba var að hann var aftur stöðvaður af löggumann, nú í Botswana og fyrir of hraða keyrslu. Þeir eru víst voða mikið í þessu (við höfum komist að því á okkar ferðum að ef að Lonely Planet varar við einhverju, þá gerist það nánast undantekningalaust). Það var svo skemmtileg tilviljun að við hittum þarna vini okkar sem höfðu verið stoppaðir líka. Þau voru á 140 km. hraða, en Dabbi átti ekkert í það, var bara á 80. Enda var pinni undir bensíngjöfinni sem tryggði að hann stundaði engan ofsaakstur á afrískum vegum. Hann er hins vegar ekki ennþá búinn að jafna sig á að hafa þurft að borga sekt fyrir hraðakstur í Botswana.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 15:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)