Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda
Hérumbil flutt
1.12.2010 | 15:31
Við héldum upp á fullveldisdaginn með því að koma dótinu okkar út í flutningabíl og er nú húsið hálf tómt. Íslensku fánarnir fóru niður í kassa. Hér hefur verið hamast látlaust við pökkun og við þykjumst góð að hafa klárað verkefnið. Í gær kom flokkur manna að hjálpa okkur við að pakka inn, en við sáum þó um allt dót úr skápum og herbergjum, en þeir um stærri muni og skraut. Einn félaginn mætti of seint, ilmandi af víni, góðglaður og brosandi út að eyrum, og mjög skrautlega tenntur. Hann var lang hressastur á svæðinu, en hann kunni að lesa og skrifa og hélt utanum vöruskrána.
Við höfum alltaf lifað í þeirri trú að við værum svo óskaplega nægjusöm, en eitthvað er fallið á það núna, eftir að við sáum kassa eftir kassa fyllast af alveg bráðnauðsynlegu dóti sem við förum með til Íslands. Við skiljum þó alveg ótrúlegt magn eftir. Leja verður væntanlega með fullbúið barnaheimili þegar við förum, fullt af hjólum, leikföngum, fatnaði og húsgögnum. Davíð sem kann vel við að spara hafði í byrjun beðið mig um að "fara nú ekki alveg hamförum í að gefa dót", en sú rödd dó út fyrir löngu. Mínar áhyggjur snúast nú að mestu um að gámurinn skili sér ekki og allar mínar vettvangsnótur týnist þar með.
Maður er farinn að spá í hvers maður muni sakna þegar heim er komið. Kannski helst þessara hversdagslegu hluta. Um síðustu helgi fórum við niður í miðbæ, þar sem við sátum saman á bekk, gæddum okkur á ljúffengum ítölskum ís í hitanum og fylgdumst með mannlífinu. Þarna sigldu tvær berbrjósta Himastúlkur framhjá í stuttu leðurpilsunum sínum, makaðar leir. Þar voru einnig owambo tískudrósir í háum hælum og gallabuxum, með þrýstinn afturenda sem sveiflast til og frá hverju skrefi. Blaðasalarnir horfa viðurkenningaraugum á eftir þeim. Hereokona í hátíðarbúningi stoppaði hjá okkur og var að bisast við að festa eitt af undirpilsunum betur, áður en hún hélt ferð sinni áfram. San götustrákar hlupu framhjá með látum, og maður fann ramma reykjarlyktina af þeim. Tvær eldri, þýskar frúr, báðar með sérkennilegt fyrirferðamikið, rautt, litað hár, skröltu áfram á hælunum sínum og földu sig bakvið risavaxin sólgleraugu. Og inn á milli ráfa sveittir ferðamennirnir, uppdubbaðir í kakímúnderingar, opinmynntir yfir framandleikanum og óvissir hvert ferðinni skuli heitið. Sú blinda sat þolinmóð á sínum stað og beið eftir að einhver gaukaði að henni aur.
Stöðutaka frá Nam
13.11.2010 | 14:14
Kominn tími á smá stöðutöku héðan. Halli fór með vini sínum á býli úti í sveit og verður alla helgina. Við hin fórum í húsdýragarðinn í hádeginu að kveðja vinafjölskyldu sem er að flytja til Vancouver. Garðurinn er hinn skemmtilegasti með blöndu af villtum dýrum og húsdýrum.
Svo byrjaði loks að rigna í dag, og allir himinglaðir. "Ég elhssga rígníngúna!" veinaði Stefán á leiðinni heim þegar fyrstu droparnir skullu til jarðar og eldingarnar dönsuðu um himinhvolfið. Það hefur verið ansi heitt síðustu daga, og vonandi slær þetta eitthvað á hitann.
Pökkun er loksins hafin og fyrsti kassinn hefur verið fylltur. Leja fær mest af því dóti sem við skiljum eftir, en eitthvað gefum við á munaðarleysingjahæli líka. Lokaspretturinn er að hefjast í skólanum og Halli á fullu í prófum. Ég er að safna gögnum og taka síðustu viðtölin fyrir doktorsritgerðina mína. Svo þarf að selja bílinn, pakka og ganga frá ýmsu smálegu áður en við höldum heim á leið. Nóg að gera.
Ísland í fréttum
10.11.2010 | 19:03
Ég var að koma frá sjónvarpinu þar sem NBC, ríkisfréttastöðin var með frétt frá athöfn þar sem ICEIDA var að færa Kunene héraði 33 vatnsból. Fréttin byrjaði á glæsilegum prófíl Dabba og Franks borunarmanns (sem er galdrakarl á sviði vatnsmála) og fullt af sofandi Himbum undir ræðu vararáðherrans.
Svo kom Villi að þruma yfir þeim með að vera vakandi yfir sólarpanelunum, og kom mjög vel út í mynd. Loks kom ráðherrann og þá kom pólitíkin inn í þetta. Ísland var mært fyrir að veita þyrstum vatn og að vinna gegn fátækt í sveitahéruðum. Í horninu er ætíð tákmálsfréttaþulur fyrir heyrnarlausa og heyrnarskerta, eitthvað sem við höfum ekki náð að taka upp á Íslandi en Namibía og Botswana gera með sóma.
Á atöfninni voru headmen allra vatnsbólanna og þeir dönsuðu til að halda upp á atburðinn sem óðir væru í tvo til þrjá tíma. Ég var niðri í ráðuneyti í dag og allir voru himinglaðir með athöfnina.
Afmælisgjöfinni komið til skila
8.11.2010 | 14:23
Fyrir þremur árum, þegar ég fór í fyrstu norðurferðina mína hér í Namibíu, ferðuðumst við ásamt Andreu og Hadda, og drengjunum þeirra þremur, Kára, Hrafnkatli og Gunnari. Þar heimsóttum við skóla við landamæri Angóla, við Swartbooisdrift. Frásögn af ferð okkar þá, má sjá á blogginu mínu hér.
Andrea, þessi öðlingur, tók á móti framlögum þegar hún hélt upp á afmælið sitt, og gaf afraksturinn til skólans og krakkanna. Það var því vel við hæfi að við færum í skólann í þessari síðustu norðurferð okkar, þar sem við komum færandi hendi. Í Windhoek fórum við í ritfangaverslun og keyptum lifandis ósköpin ölll af ritföngum og kennslubókum. Í Oshakati drekkhlóðum við bílinn með matvöru, og m.a. 50 kg. af maizmjöli. Nú er komið að þeim árstíma að skólarnir eru búnir að klára matinn sem hið opinbera hefur gefið þeim fyrir árið, svo að hart er í búi.
Svo keyrðum við sömu leiðina frá Ruacana til Swartbooisdrift, og var vegurinn nú ólíkt betri en í fyrra sinnið. Náttúrufegurðin er gífurleg, en í þetta sinnið var þurrkatími og því ólíkt um að litast. Það hafa liðið 2 og hálft ár síðan síðast, en mörg andlitin voru kunnugleg í skólanum. Krakkarnir tóku síðan lagið fyrir okkur í þakkarskyni. Hér má sjá nokkrar myndir frá heimsókninni, krakkarnir voru svo ósköp ljúf og stillt þar sem þau stilltu sér stolt upp með gjafirnar. Hér eru nokkar myndir.
Halloween og fleira
31.10.2010 | 09:17
Á föstudag var halloween í skólanum og svo tvö partý um eftirmiðdaginn og kvöldið hjá Bandaríkjamönnunum og alþjóðaliðinu. Hér eru litlu gaurarnir á leiðinni í skólann.
Óskar var Drakúla og Stefán kóngulóarmaðurinn. Halli var fótboltamaður, sem þýddi bara að hann neitaði að klæða sig upp og var í sömu múnderingu og vanalega. Manchester United.
Myndin er tekin á símann minn og er örlítið móðukennd, sem eykur bara á mystíkina.
Nú eru flensurnar að ganga sem aldrei fyrr, og Halli var lasinn á föstudag, en herra Drakúla er búinn að taka vaktina núna. Þeir eru reyndar bara með hita og smá slappir, svo að þeir sleppa vonandi vel. 100 krakkar í skóla í norður Namibíu voru settir í sóttkví í skólanum vegna svínaflensu, sem er að skjóta sér niður hér og þar. Þau voru ferlega veik, en tvær hjúkkur voru hjá þeim að hlúa að þeim um helgina. Helmingurinn af krökkunum í blindraskólanum fékk einnig flensuna. Fólk er með sérstakar áhyggjur hér því að margir eru viðkvæmari en ella fyrir pestum og því er allra leiða leitað til að hefta útbreiðslu flensunnar.
Ég hef verið á fullu í rannsóknarvinnu í vikunni og skrifa vettvangsnótur sem enginn sé morgundagurinn, en ég sat m.a. áhugaverðan vinnufund á föstudaginn um skilvirkni þróunarsamvinnu. Nú fer að styttast í heimferð.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 09:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Etosha þjóðgarðurinn í síðasta sinn
20.10.2010 | 08:18
Við heimsóttum Etosha í norðurferðinni, sem verður væntanlega í síðasta sinnið, amk. meðan á veru okkar hér stendur. Nú er þurrkatími og dýrin flokkast saman á sléttunum og hópast að vatnsbólunum til að svala þorstanum, svo að það var mikið um að vera.
Hér eru nokkrar svipmyndir (nashyrningurinn var svo nálægt bílnum á tímabili að ég átti erfitt með að ná honum öllum inn á myndirnar).
Fyrir nokkru fórum við einnig að skoða matargjöf til blettatígra og hlébarða, en það var dálítið sérstakt því að við keyrðum í opnum safaríbílum inni í girðingunni hjá þeim. Okkur varð ekki um sel þegar hlébarðinn var rétt hjá okkur og við létum drengina vera alveg hljóða og sitja í miðjusætum þar sem við héldum fast um þá. Það var kannski eins gott því að hlaupafélagar okkar voru um helgina að segja mér sögu frá öðru vinafólki sínu sem einnig starfaði við þróunarsamvinnu. Hjónin fóru í safarí í Tansaníu með litla, þriggja ára drenginn sinn. Þau voru einnig í opnum safaríbíl, sem eru svo algengir. Svöng ljónynja kom, skoðaði bílinn en stökk svo upp, hrifsaði litla drenginn úr örmum foreldranna og tók hann í burtu. Eins og í veiðiferðum úti í náttúrunni, reyna ljónin að ráðast á þá minnstu í hópnum. Leiðsögumaðurinn var óvopnaður svo ekki var hægt að gera nokkurn skapaðan hlut. Ég var alveg miður mín eftir þessa sögu og þau fóru að lýsa hverrnig þeim leið þegar ljónynja kom að hringsóla um bílinn þeirra í Etosha og þau veinandi á börnin í aftursætinu að halda gluggunum nú í guðanna bænum lokuðum. Við sáum þónokkuð mörg ljón í Etosha, og trúlega eins gott að ég var ekki búin að heyra þessa hryllingssögu fyrir norðurferðina.
Og það eru ekki bara villidýrin sem eru hættuleg. Á leiðinni frá ströndinni um helgina stoppaði frú frá Windhoek á miðri leið, á nestisstoppi við veginn. Það vildi ekki betur til að hún varð fyrir árás geitunga og fékk ekki færri en 400 geitungabit. Hún endaði á spítala, og náði fyrir einhverja mildi að lifa þessi ósköp af. Þótti furðu sæta.
Snúin til baka af ströndu
19.10.2010 | 09:01
Við komum til baka af ströndinni í gær, eftir að hafa farið til Topnar fólksins hennar Katrínar, en ÞSSÍ styrkti byggingu leikskóla fyrir þennan hóp, sem Davíð fór að skoða. Topnar fólkið býr með árfarvegi Kuiseb árinnar, vestan Hvalaflóa og komu fulltrúar frá ráðuneyti kynja-, jafnréttis og velferðarmála barna með okkur. Þar hittum við höfðingjann, sem var bráðskýr karl og skartaði Gucci gleraugum. Hann gaf okkur Nara hnetur að smakka, sem er helsta uppistæðan í fæðu fólksins. Þær eru ljúffengar, með smjörlíku bragði.
Síðan var haldið í barnaskólann sem menntar um 280 börn og hittum við skólastjórann til að færa krökkunum fótbolta.
Á laugardaginn hlupum við hjónin paraþon. Eitthvað var nú tvísýnt um þátttöku vora, þar sem Dabbi hafði vikuna áður fengið flensu og ég fékk hana á mánudag. Þar sem hlaupaþjálfarinn er flutt til Þýskalands, gat Dabbi sannfært mig um að lulla þetta bara, svo að hann gæti nú farið sitt fyrsta hálfmaraþon. Hlaupaþjálfarinn leggur nefninlega strangt bann við hlaupum þegar maður hefur svo mikið sem lítilsháttar kvef, og býður fram sögur af alls kyns afreksfólki sem fær vírusa í líffæri og drepst eður lifir við örkuml. Þannig að ég sló til og hljóp í rólegheitum fyrst með þessari portúgölsku, en leiddist þófið og yfirgaf hana fljótlega. Var heilum átta mínútum á eftir upphaflegu hlaupaplani, og tók mér meira að segja lengri tíma en í fyrra, þrátt fyrir að hafa þjálfað nokkuð stíft.
En Dabbi minn fékk því að hlaupa og lauk rétt undir tveimur tímum, sem þykir nokkuð gott því að það var heilmikill mótvindur og aðstæður því fremur erfiðar. Hann var orðinn lúinn þegar hann kom í mark, enda gátum við hlegið hjartanlega að myndunum. Þar má sjá mig að skoppa með honum til að gefa drykki, og einnig uppáhalds hlaupafélaga mínum, honum Udo, sem var þarna að hlaupa sitt fyrsta maraþon. Hann lauk á 4 tímum og 5 mínútum, og myndi væntanlega fara létt með að komast undir 4 tíma markið ef hann fengi að hlaupa á jafnsléttu og án mótvinds. Þau portúgölsku voru ekki búin að jafna sig að fullu eftir Berlínarmaraþonið, en stóðu sig bæði með mikilli prýði.
Síðdegis var svo sigurhátíð í íbúðinni okkar, þar sem hlaupahópurinn kom saman til að halda upp á árangurinn, enda margir að hlaupa sitt fyrsta maraþon eða hálf maraþon.
Á ferð og flugi
15.10.2010 | 10:58
Maggi, Signý og Árni eru komin í flug til Joburg, og fara svo þaðan til Íslands. Þau eru búin að ferðast vítt og breitt og afar sæl.
Við fórum í viku ferð saman norður í land, þar sem Davíð var að heimsækja verkefni vítt og breitt. Hér er örlítið sýnishorn af myndum.
Þetta er algjört brotabrot enda frá miklu að segja og ótrúlegur fjöldi flottra mynda sem sitja eftir. Eins og áður sagði, þá komu Signý og Maggi hlaðin gjöfum handa fátækum, ásamt framlagi Andreu, sem við dreifðum um sveitir landsins af mikilli vandvirkni. Það skýrir boltana. Meira um það seinna.
Frá Íslandi fékk ég einnig senda bók eftir Yrsu Sigurðardóttur, til að skilja eftir í bókasafni bókaklúbbsins. Dabbi hefur tekið miklu ástfóstri við hana, og þótti því vel viðeigiandi að skilja ritverk eftir hana eftir í Afríku sem annan fulltrúa íslenskra rithöfunda. Hinn var Laxnes, en ég hef verið að lesa Brekkukotsannál á ensku, í ágætis þýðingu Magnúsar Magnússonar, kenndum við mastermind. Ég hafði ekki lesið hana síðan ég var unglingur og þótti ekki mikið til koma þá, ef ég man rétt. Núna var annað upp á teningnum, þó að hún væri nokkuð seinlesin. Ástæðan var sú að ég stóð mig að því að þýða brot úr henni aftur yfir á hið ylhýra í huganum og það tekur tíma, en lesningin er hins vegar alveg dýrðleg.
Við fjölskyldan stefnum nú niður á strönd þar sem við Dabbi hyggjumst hlaupa paraþon á morgun í Lucky Star maraþoninu.
Vinir og fjölskylda | Breytt 19.10.2010 kl. 10:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Norðrið kallar
2.10.2010 | 09:25
Maggi, Signý og Árni mættu á staðinn á miðvikudag, rétt tímanlega til að sjá fyrstu regndropana falla, loks fór að rigna eftir margra mánaða þurrk. Loftið er miklu hreinna og svo verður svo miklu léttara yfir mannlífinu þegar rigningarnar byrja. Maggi og co. lögðu svo af stað til Etosha um hádegisbilið í gær. Við erum að fara af stað í dag, en við förum saman í viku norðanferð. Hún verður væntanlega sú síðasta sem við fjölskyldan förum saman.
Þau komu hlaðin gjöfum frá Íslandi handa namibískum börnum í sveitinni og í fátækrahverfinu hér, frá gjafmildum aðilum að heiman. Nú stendur einnig til að afhenda gjafir frá Andreu til sveitaskólans í Swartbooisdrift, alveg við Angóla. Við fórum í vikunni að kaupa ritföng og skóladót, og svo kaupum við mat fyrir norðan líka.
Ég gef skýrslu þegar við snúum til baka úr ferðinni.
Velkomin, vinir til lands hinna hugrökku
28.9.2010 | 18:37
Á föstudaginn átti að hlaupa frá sjálfstæðisleikvanginum í Windhoek, sem endranær á föstudögum. Það vildi hins vegar svo til að þá var að fara í gang íþróttakeppni milli landa í sunnanverðri Afríku. Þarna var fjöldi íþróttafólks að mæta til leiks, frá Namibíu, Suður Afríku, Botswana og lítill, eiturhress hópur frá Lesotho. Liðið frá Zimbabwe ruglaði okkur dálítið í ríminu, en þau mættu á ryðgaðri rútu merktri Zambíu, en við komumst síðan að því frá hvaða landi þau voru. Íþróttafólkið söng og dansaði þegar gengið var inn á völlinn og ríkti mikil stemning. Hinn afríski, seiðandi söngur er alveg einstaklega heillandi.
Við hlupum því um hverfið í staðinn fyrir að fara á hlaupabrautirnar og komum rétt mátulega á opnunarhátíðina. Þessi frábæri kór söng fyrir alla. Fyrst kom einsöngvari sem kyrjaði: "Velkomin - við vonum að þið skemmtið ykkur vel" nokkrum sinnum. Svo hóf kórinn upp raust sína, og ég tók sönginn upp á símann minn. ... Namibía, Namibía, Namibía... verið velkomin, vinir til lands hinna hugrökku..
Smellið á myndina hér að neðan af hlaupafélögum okkar til að heyra sönginn, sem yljaði mér svo sannarlega um hjartarætur. Í bakgrunni má heyra fagnaðarlæti og þessi dillandi hróp sem einkenna þau.
Við þrjú vorum reyndar eina hvíta fólkið á svæðinu, fyrir utan einn fararstjóra. Síðan hófst íþróttakeppnin með 100m hlaupum. Okkur varð nú að orði að stúlkurnar væru ansi frjálslega vaxnar, svona miðað við afreksfólk í frjálsum. Kannski væru þær svona hrikalega sterkar í kastgreinum? En nokkrar af þessum frjálslegu röðuðu sér upp við startlínuna, og voru nú ekki mjög sterkar í hlaupunum. Sigurvegari í fyrsta riðli átti 14,5 sek og sigurvegari í öðrum riðli 13,9 sek (skv. óvísindalegum mælingum Udo). Þessar tvær voru langfyrstar, en þær sem ráku lestina hafa efalaust hlaupið á 20 sek hið minnsta. En allir skemmtu sér hið besta og mikil stemning meðal áhorfenda, sem sungu og dönsuðu af kappi.
Annað var hins vegar upp á teningnum hjá karlpeningnum, sem voru íþróttalega vaxnir frá toppi til táar, enda hljóp sigurvegarinn á 10,1 sek (aftur skv. óvísindalegum mælingum Udo). Ég var spennt að sjá karlahlaupin í millivegalengdum, en varð að drífa mig heim að undirbúa afmæli frumburðarins.