Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Afríska enskan

Viðtölin fyrir ritgerðina mína eru stundum dálítið skrautleg, en maður verður að laga sig að aðstæðum og færa sig lítilsháttar nær þessari dýrðlegu afrísku ensku. Heilu samtölin geta átt sér stað sem samanstanda af mmmmm, og ehhhh. Í gær var ég t.d. að hringja út á land til að fá viðtal í næstu viku:

Ég: Can I maybe dalk with you next week when I am in the north, maybe on Tuesay morning, or maybe Friday morning?
Viðm: Dunno. Maybe here. Maybe there.
Ég: Mmmmmm. Maybe you in Windhoek then? Maybe not?
Viðm: Mmmmm. Maybe. Dunno.
Ég: When you know?
Viðm: Maybe domorrow.
Ég: Maybe I call domorrow. Then you know?
Viðm: Yes, yes, yes. Maybe know then. You call.
Ég: Yes, yes, yes, I call domorrow.


Af árstíðum og eldi

Það er mistur yfir borginni, en í nágrenninu eru skógareldar sem eru óvenju lífsseigir. Gróðurinn er þurr, en hér hefur ekki rignt síðan í apríl. Hins vegar er gróðurinn gisinn og lítill matur fyrir eld, svo að eldar slokkna vanalega af sjálfu sér eftir stuttan tíma, svo að þetta er óvenjulegt. Afleiðingin er hins vegar sú að mistur hangir yfir borginni og við sólarupprás hékk sólin blóðlituð yfir sjóndeildarhringnum, eins og hún væri á leiðinni niður en ekki upp. Í morgunhlaupinu stóðum við og horfðum á reykjarbólstrana teygja sig til himins, rétt sunnan borgarinnar. Um eftirmiðdaginn á leiðinni heim úr skólanum var eins og fína forsetahöllin væri orðin kolaofn gubbandi reykjarbólstrum upp í loftið. Fjalllendið bakvið höllina verður með öðru sniði næst þegar við hlaupum þá leið. 

Þjóðverjarnir greina veðurfarið niður í öreindir. Þeir hafa reynst óskeikulir til þessa. Spáin var sú að eitt kuldakast væri eftir þangað til að sumarið gengi endanlega í garð. Það gekk eftir. Í síðustu viku stóðu litlu drengirnir úti á plani í morgunsárið og horfðu á hvernig andardrátturinn varð að gufu. Þetta þótti þeim merkilegt og stóðu gapandi og skríkjandi þess á milli. Þeir verða glaðir á Íslandi. Nú er þó aðeins farið að hlýna svo að kuldakastinu er væntanlega að ljúka. Sumarið fer því að ganga í garð með hlýnandi veðri.

Annað er það helst í fréttum að portúgalska hlaupavinkona mín, sem hafði skráð sig í Berlínmaraþonið, hafði hlotið meiðsl í vor og gat því ekkert æft af ráði. Hún er búin að jafna sig og skokkaði með okkur 18K um daginn, sem var það lengsta sem hún hafði hlaupið og hugðist hlaupa hluta leiðarinnar í maraþoninu fyrst að hún væri nú skráð, en eiginmaður hennar er að hlaupa líka. Við ræddum náttúrulega hvort að hægt væri að skröltast heilt maraþon án almennilegrar úthaldsþjálfunar. Hún sannaði að það er vissulega hægt og lauk sínu fyrsta maraþoni með stíl um helgina.

Fyrstu önninni er að ljúka í skólanum og nú erum við að undirbúa norðurferð, sem verður væntanlega okkar síðasta. Það verður gaman að kveðja norðurhéruðin áður en við höldum heim til Íslands. Við eigum von á góðum gestum frá Íslandi en Maggi, Signý og Árni eru væntanleg í vikunni til að ferðast með okkur.


Gamla Ródesía, nýja Zimbabwe

Ég skokkaði í morgun með vinkonu minni sem skilgreinir sig sem Ródesíumann. Hún ólst upp í Ródesíu, og flúði þaðan árið 1981 með fjölskyldu sinni, stuttu eftir sjálfstæði landsins. Yfirvöld gerðu upptæk vegabréfin þeirra, en foreldrarnir eru báðir fatlaðir. Þau tróðu sem mestu af sínu hafurtaski inn í fjölskyldubílinn og keyrðu suður á bóginn til Suður Afríku, sem þá var stjórnað af hvítum undir aðskilnaðarstefnu. Þar fengu þau hæli sem flóttamenn og síðar vegabréf. Hún er með fyrirtaks menntun, og er um þessar mundir að ljúka mastersgráðu í barnasálfræði. Hún stjórnaði leikskóladeildinni hjá Stefáni og Óskari þegar þeir komu til Alþjóðaskólans  með einstakri fagmennsku. Í Ródesíu gekk hún í almenningsskóla, en skólakerfið þar var fyrirtak og einnig nokkuð fram yfir sjálfstæði.

Menntakerfið í Zimbabwe hafði orð á sér að vera eitthvert það besta í sunnanverðri Afríku. Hér er oft sagt að ef að Zimbabwe eigi eftir að ná sér á strik, eigi heilbrigðiskerfið í Namibíu eftir að falla eins og spilaborg, því að það byggist að miklu leyti á hæfu vinnuafli frá Zimbabwe. Zambía hafi tekið duglegum hvítum bændum opnum örmum, sem kunnu búskaparhætti, og í kjölfarið hafi landbúnaðarframleiðsla þar stóraukist.

Hvort sem að þetta mat á heilbrigðiskerfinu hér á við rök að styðjast eður ei, þá má finna hér mikið af hæfu fólki sem hefur flúið frá Zimbabwe. Ég spjallaði við nýjan þjálfara í ræktinni í vikunni, sem er einmitt þaðan. Hann flúði fyrir þremur árum, en er hámenntaður í íþrótta- og þjálfunarfræðum. Í þessi þrjú ár hefur hann unnið í Suður Afríku, en segist nú vera smátt og smátt að færa sig heim á leið, kominn hálfa leið, núna til Windhoek. Svo taka við tvö ár hér í borg og þá á að sjá til hvort að ástandið hefur eitthvað batnað heima fyrir.

Ekki vildi vinur okkar sem eyddi viku í Harare núna um daginn gera mikið úr því að ástandið væri eitthvað að batna í Zim. Reyndar starfar hann fyrir peningaþvættisskrifstofu Sameinuðu Þjóðanna og hefur nú ekki mjög bjarta sýn fyrir hönd Afríku. Það má hins vegar efalaust færa fyrir því sterk rök að þarna hafi einhver mesta "afþróun" eða samfélagslegt niðurrif átt sér stað í veraldarsögunni. Samkeppnin er reyndar nokkuð hörð í Afríku. Annað kunningjafólk okkar var lengi í Zim rétt eftir sjálfstæði, en þá kepptust Vesturlönd um að koma þróunarfjármagni inn í landið.

Ég er að lesa mjög áhugaverða bók um þessa atburði sem alveg má mæla með. House of Stone eftir Christinu Lamb er tilvalin lesning fyrir þá sem hafa áhuga á nútímasögu Zimbabwe.


Með gleði í hjarta

Magga Dísa gaf Davíð þessa fínu hlaupagræju í jólapakkann, en það var hlaupahúfa til að skýla fyrir sólinni. Mikið þarfaþing. Ég greip hana með þegar ég var að fara í klettaklifur í haust (íslenskt vor sumsé) og var komin upp hálfan klettavegg vegg þegar ég uppgötvaði að ég var með hana á hausnum og henti henni þá inn í runna á jörðu niðri. Það vildi ekki betur til en að bavíanarnir náðu henni á undan mér og þar með var hún horfin. Ég vogaði mér reyndar ekki að segja Dabba frá hvarfinu fyrr en eftir nokkurn tíma, til auka ekki enn frekar ímgust hans á klifrinu.

Dabbi var líka gjafmildur við frúna og gaf mér þetta forláta hlaupaúr, sem segir mér upp á hár hversu hratt ég er að skottast um stíga og götur borgarinnar. Þetta er ákaflega hjartfólgin eign. Frá föstudegi hvarf það á dularfullan hátt. Eftir mikla leit hér heima fór ég að rekja allar gjörðir helgarinnar og föstudags. Mundi að ég hafði farið í portúgölsku hverfisbúðina og lagt úrið á borðið. Fór áðan, og viti menn, hafði ég ekki gleymt úrinu þar, en þeir geymt það samviskusamlega. Við apparatið vorum því sameinuð á ný.


Ekki var það síðra að fótboltaskórnir hans Halla (sem eru hans hjartfólgnasta eign) sem hurfu í skólanum, var síðar skilað til rétts eiganda. Hlutir eiga það til að hverfa í skólanum, svo að við vorum nú ekki vongóð. Nú hefur trú okkar á heiðarleika og skilvísi verið endurnýjuð og við Halli bæði með gleði í hjarta.


Hlaupið í Afríku

Ég las áhugaverða grein í suður-afrísku tímariti um daginn um hvað þarf að varast þegar hlaupið er í Afríku. Það var mikið til í þessu. Hér þarf að huga að nokkrum þáttum þegar farið er út að hlaupa. Húfa til að skýla fyrir sólinni. Sólarvörn númer 40 hið minnsta. Húðkrabbamein er mjög algengt hér. Gleraugu til að skýla fyrir sólinni, en svona sterk sól eyðileggur augun til langframa. Piparúði til að verjast hundum og vondum köllum. Vatn á heitum dögum og í lengri hlaup. Svo þarf að verjast dýrum af öllu tagi, þ.m.t. skordýrum og guðsgróðrinum.

Í greininni var einmitt réttilega bent á að þegar farið er í fjallahlaup, þá væri gott að hafa einhvern vanan aðstæðum með sér. Í utanvegahlaupinu okkar um daginn fór fremst traustasti hlaupafélagi minn, sem er rétt sextugur karl sem er að æfa fyrir maraþon þessa dagana. Hann er hálf heyrnarlaus, svo það er fínt að hafa hann fremst því ekkert er hægt að spjalla við hann. Ég lem hann við og við til að taka bjöllur af bolnum hans, sem að bíta og geta borið með sér leiðindaflensu. Hann gefur viðvaranir við og við. Það sem helst angrar er gróðurinn, sem er þakinn þyrnum. Aftast heyri ég Dabba bölva... hvur fja.. neihh, nýji hlaupabolurinn minn... hann fer í tætlur... djö.. Erla, þú ert að gera mig blindann hérna.. þessi helv.. tré hér, í hvaða hæð eru þessar greinar eiginlega .. þetta er hannað fyrir dverga þessi sverð á þessum trjám... hvurslags gaddaflækjur eru þetta.. lappirnar á mér eru allar þaktar í þessu helv..

Hafið þetta í huga þegar hlaupin eru utanvegahlaup í Afríku.


I am from Namibia, and also from Iceland!

Í búðinni áðan spurði afgreiðslukonan okkur hvaðan við værum. Stefán svaraði "from Namibia and also from Iceland!". Hún varð að vonum ákaflega hrifin af honum. Hann hefur jú búið lengstum hér úti, svo að það verða viðbrigði fyrir hann að flytja heim á Frón. Það voru margir sem tóku okkur fagnandi þegar við snerum aftur eftir frí. Öryggisvörðurinn hjá búðinni okkar sem ég spjalla stundum við, með byssuna um herðarnar, greip hendurnar á mér og hrópaði "how are you my sister!!! It has been a long, long time!!"

Hér gengur lífið sinn vanagang. Halli er að læra marga nýja hluti í unglingadeildinni og getur uppfrætt áhugasama um controlled variables, dependent variables og independent variables í tilraunum. Skólinn er nokkuð strangur og krakkarnir fá refsistig ef þau fara útaf beinu brautinni, sem að lokum leiðir til brottrekstrar úr skóla. Einn bekkjarfélaginn var úrræðagóður í gær og klippti skálmarnar af buxunum sínum, því að hann á að koma í stuttbuxum í leikfimi. Það leið yfir aðra í science lab þar sem hún andaði að sér framandi gufum.

Við fórum niður í bæ í morgun að spóka okkur. Miðbærinn er aðlaðandi og við átum ís í grænum garði þar sem strákarnir léku sér í leiktækjum. Nú er vor í lofti og veðrið yndislegt. Engar flugur ennþá. Garðinn má sjá frá skrifstofunni hans Davíðs. Þegar ég heimsótti skrifstofuna í vikunni var þar Okavango fólk að sýna dansa og berja trumbur, sem var skemmtilegt að sjá. Annan daginn var þar predikari rammfalskur að baula bærnir og sálma í hátalarakerfi, við undirspil frá kasettutæki. Allan liðlangan daginn. Davíð var að vonum ekki eins ánægður með það.

Ex pattarnir, eða alþjóðaliðið úr vinahópnum okkar er að tvístrast út um allar koppagrundir. Argentínufólkið er að fara til Úrúgvæ, hlaupaþjálfarinn er flutt til Þýskalands, Brasilíumennirnir til Mongólíu, Portúgalarnir til Egyptalands og Pólverjarnir til Kanda. Og þá er ekki allt upptalið. Þegar maður er búinn að búa einhvers staðar í yfir tvö ár, þá sér maður þessa flutninga. Flestir eru á hverjum stað í tvö til þrjú ár. Þá er flutt aftur. Eins er með okkur, en margir sem að vilja halda í okkur. Leja á þó væntanlega eftir að sjá mest eftir okkur. Við höfum unnið í því að tryggja henni góða afkomu þegar við förum, en hún hefur kosið að koma á fót barnaheimili. Hún er þegar farin að vinna í undirbúningi þess, og mun fá stuðning frá okkur, leikföng, bækur og fleira, til að gera fyrirtækið rekstrarvænlegt.

Í þessum undirbúningi fór hún að ná í sand fyrir garðinn sinn, fyrir leiksvæði fyrir börnin. Hann var að finna í nálægum árfarvegi og fékk hún félaga sinn með pallbíl til að aðstoða sig. Þegar hlassið var komið á pallinn, birtist lögreglan. Í þessu landi er svo lítið af mörgu. En ekki sandi hins vegar. Við erum með þúsundir ferkílómetra á þúsundir ofan af sandi hér. Hún var þá sektuð fyrir að stela eign hins opinbera. Þetta fannst okkur vera nokkuð öfugsnúið. Hún þarf að mæta fyrir rétt í janúar til að borga 150 dollara. Ef hinn pólski félagi minn hefur eitthvað til síns máls, þá verða málsskjöl væntanlega týnd í janúar. Hann var ranglega handtekinn fyrir að vera með fíkniefni (sjá fyrri færslu). Hann var í dómshúsinu í tvo daga og fylgdist með. Flest málin voru felld niður því að gögn voru týnd, enda haldast saksóknarar sjaldnast í starfinu lengi og skjalastjórnun væntanlega verulega ábótavant.


Komin heim/að heiman

Við erum komin aftur til Windhoek eftir heljarinnar ferðalag. Í Frankfurt var tekið á móti okkur með gleði, en þar voru komin Rósa og Jóndi sem fóru svo með okkur niður í miðbæ á meðan beðið var eftir vélinni til Windhoek. Halli hafði eitthvað blendnar tilfinningar að yfirgefa Ísland, en litlu drengirnir líta á Von Eckenbrecher strasse númer sjö sem sitt heimili, enda búnir að eyða stórum hluta síns stutta lífs hér.

Það er áhugavert að koma til Íslands þegar maður eyðir megninu af árinu erlendis og margt sem rifjast upp, og annað sem kemur á óvart. Hvergi í veröldinni er jafn miklu af hillurými matvöruverslana eytt undir sælgæti. Það tekur miklu meira pláss en grænmetið og ávextirnir. Heilu og hálfu gangarnir eru undirlagðir af sætindum af öllu tagi. Það er reyndar ljúft, íslenska nammið. Sest svo beint á mjaðmirnar. Þegar það gerist á Íslandi fær maður "þú ert að blása út, kona" eða "hryllilega ertu að fitna". Íslendingar verða nefninlega seint sakaðir um að skafa utanaf hlutunum. Hérna úti er hins vegar bara uppi vinningsstaða. Þegar maður er í léttingi, þá hrósa vestrænu vinkonurnar og segja hvað maður líti óskaplega vel út. Þegar maður er búinn að bæta á sig, klípa þessar afrísku í stækkandi kinnar og segja að maður sé mun fegurri, "allt annað að sjá þig".

Það verður að viðurkennast að Ísland er frámunalega yndislegt yfir sumarið, björtu næturnar, náttúran (já og Skagafjörðurinn auðvitað), fjölskyldan og vinirnir (þó við höfum nú ekki náð að hitta alla). Og ég er ekki frá því að Dabbi hafi rétt fyrir sér með að öllu léttara hafi verið yfir öllu mannlífinu yfirleitt, en áður. Nú eru þó bara 4-5 mánuðir áður en við pökkum saman hér fyrir fullt og allt.

Skólinn byrjaði með glans á fimmtudag. Óskar er byrjaður í fyrsta bekk og er með ástralskan kennara. Hann fór í fyrsta frönskutímann sinn og man ekki neitt eftir honum. Veit ekki alveg hvort það lofar góðu eða ekki. Stefán er í efsta stigi leikskólans með kennara frá Mauritius. Núna syngur hann af fullum krafti frumsamið lag um Íslandsfána og hleypur með tvo hring um húsið. Halli er byrjaður í unglingadeild og er með her af ólíkum kennurum. Hann kom heim í gær með þetta heljarinnar súkkulaðistykki sem hann fékk í verðlaun fyrir að standa sig best í keppni í hugarreikningi. Það er jú verulega öðruvísi hvatakerfið hér en heima. Krakkarnir þurftu að skila fullt af heimavinnu sem var sett fyrir yfir sumarið.

Davíð dreif sig strax í vinnuna, og biðu fullt af verkefnum eftir honum. Ég er að sortera gögn og koma tæknimálunum í farveg hjá mér, áður en gagnasöfnun byrjar aftur á mánudag. Við fórum í ræktina og svo var hlaupahópurinn endurlífgaður. Það var hress hópur sem hittist úti á hlaupabrautum í gær. Nú stefna flestallir á hálfmaraþon niðri á strönd um miðjan október, þ.m.t. Dabbi og ykkar einlæg.

Við þekkjum orðið fleiri í Kringlunni hér í Windhoek en í Kringlunni í Reykjavík, og það var gaman að hitta vinina. Sú sem var efalaust glöðust yfir endurkomu okkar var hún Leja, en hún lifir að mestu á afgöngum frá okkur, og það munar miklu þegar engin svoleiðis búbót er fyrir heimilið. Hún sigldi sæl niður götuna, eftir vinnu á miðvikudag með troðinn höldupoka af mat handa sér og stráknum sínum.


Pakki pakk

Þjóðhátíðardagurinn fór í undirbúning fyrir ferð okkar heim til Íslands.

Ég fór í þriggja daga vinnuferð upp til Rundu í norðaustur Namibíu í vikunni, sem gekk svona glimrandi vel fyrir mína vinnu. Ég talaði við fólk í opinbera geiranum og í þróunarsamvinnu innan vatnsgeirans. Tók m.a. þátt í námskeiði til að þjálfa fólk í samfélögunum til að greiða úr vandamálum tengdum vatnsverkefnum á eigin forsendum. Þetta var bráðskemmtilegt, því þátttakendur voru svo skapandi, mótuðu leikþætti til að setja á svið ólík vandamál sem þau þekkja af eigin raun og hvernig mátti nota ólíka leiðtogahæfileika til að leysa úr vandamálunum. 

"Þær tvær eru konur að koma að sækja vatn. Þessi er umsjónarmaður brunnsins. Þessir tveir eru kúasmalar. Þessi er eigandi barsins."

Svo hófst leikþátturinn. Vandamálið var að kúasmalarnir tóku allt vatnið frá konunum, og að umsjónarmaðurinn var latur og hékk á barnum. Eigandi barsins var alveg vitlaus þegar átti að ná umsjónarmanninum út að brunni til að opna fyrir vatn - fólk ætti ekki að taka frá honum besta viðskiptavininn, hvernig ætti hann þá að eiga til hnífs og skeiðar. Við hlógum okkur öll máttlaus, þó að mestu væri talað á Kavango máli og túlkunin upp og ofan. Lausnin fólst í að umsjónarmaðurinn ætti ekki endilega að hætta að drekka áfengi, heldur mætti hann bara drekka á kvöldin og tryggja að allir fengju réttlátan aðgang að vatni á daginn. Þau voru mikið fyrir málamiðlanir, þetta var trúlega mjög raunhæf lausn. Allir héldu sínu og réttlæti tryggt.

Eins og gerist ætíð þegar ég bregð mér frá búi, þá var Halli veikur, og er búinn að vera frá skóla í viku. Það er amk. heppilegt að HM er í gangi svo að hann getur fylgst vel með.  Við fórum enn og aftur til læknis í dag sem var með mikinn áhuga á genum Íslendinga, eins og fleiri. Hann fræddi okkur einnig á því að yfirstandandi rannsókn sýnir einhverjar tilteknar vændiskonur í Naíróbí geta ekki smitast af eyðni. Það sé trúlega genetískt. Verst er að þær eru drepnar af glæponum eins og fleiri í þessari starfsgrein, vísindamönnunum til mikils ama. Þeir gera ekki greinarmun á milli góðra gena og slæmra.

Skólanum er að ljúka, og allar einkunnir komnar í hús. Stefán gerði þessa fínu mynd sem átti að endurspegla sjálfið, þar sem mátti sjá hann vera að læra heima og bræður hans voða sætir að hjálpa honum af því að hann er svo lítill. Aðspurður sagði Stefán hins vegar að þetta væru kindur og gerði pabba sinn þar með alveg ruglaðan.
Halli greindi heildarniðurstöðurnar og telur að Óskar standi sig best akademískt, þá hann sjálfur og loks Stefán. Hegðurnarlega sé staðan hins vegar þveröfug, Stefán standi upp úr, þá Halli og Óskar reki lestina. Hann er með ágætis greiningarhæfileika, drengurinn.

Við höldum heim til Íslands á morgun, pökkun er í fullum gangi.


Enn af lokaverkefnum

Stefán var að flytja sitt lokaverkefni í skólanum í morgun, um fíla. Fór með þessa heljarinnar fílahárkollu og tjáði sig fyrir framan bekkinn um þessi göfugu dýr (þau eru með show and tell í hverri viku). Óskar gerir sitt á föstudag, en hans bekkur á að skrifa sögu og flytja hana með handbrúðum, sem allir eru búnir að útbúa heima og skila inn.

Þemað er sirkus. Óskar er búinn að gera uppkast að sögunni sinni sem varð eiginlega hálf ruglingsleg og endaði illa. Hans brúða er trúður, en við bökuðum andlitið úr trölladeigi og límdum sleif á hana, skreytt skyrta utanum. Svona er sagan:

Once upon a time there was a little clown. He caught an animal, a lion, from the forest. The lion tamer in the circus let him jump through a fiery hula hoop. The small clown made funny things in the circus. He had balloons and a big flower. The lion bid the clown.

Þegar þarna var komið sögu fannst móðurinni að sagan væri að taka á sig óæskilega mynd, svo að við ákváðum að vinna þetta frekar í vikunni. Við Dabbi fórum svo í afmælisboð um helgina, Halli á grímuball í skólanum og loks héldum við matarboð. Við verðum að nýta tímann vel, þar sem að við erum að halda heim innan skamms. Hér eru síðan nokkrar myndir sem við tókum á sýningunni og útskriftinni hans Halla um daginn:


Lokaverkefni Halla

Hér er mynd frá sýningunni hans Halla, sem var lokaverkefni hans úr barnaskólanum. Svo færist hann yfir í gagnfræðiskólann á næsta ári. Davíð er myndatökumaðurinn og má einnig sjá Óskari bregða fyrir með mikinn hörmungarsvip, en hann var eitthvað slappur þennan dag. Hér kemur svo dýrðin:
From 2010-05-06 WIS exhibition May 2010

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband