Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Vettvangsferð til Omaheke héraðs

Við Björn Páll fórum í vettvangsferð til Gobabis í Omaheke héraði um daginn þar sem ég ræddi við fólk á skrifstofu vatnsmála, heimsótti skrifstofu úti í sveit og skoðaði að auki eitt vatnsból. Við fórum með yfirmanni þeirrar deilda starfsmanna sem starfa með fólkinu að vatnsmálum. Sá var bráðskemmtilegur og dældi upp úr sér fróðleik á meðan við keyrðum út í sveit. Hann er Herero, sem halda búfénað. Hann var óskaplega ánægður að ég skyldi vera úr sveit. Svoleiðis fólk hlyti að skilja hvað skepnur væru mikilvægar, svo að við sameinuðumst í kærleik okkar til búfénaðar og bárum saman búskaparhætti milli Namibíu og Íslands. Hann hafði margt skemmtilegt fram að færa.

"Sko, Oshiwambo fólkið, það er ekki eins þróað og við Herero. Við erum með nautgripina okkar, við elskum nautgripina okkar. Og við virðum konur. Ekki eins og Oshiwambo, sem lætur konurnar gera alla vinnuna. Þannig að við erum miklu þróaðri en þeir." Það kom upp úr kafinu að Herero með sjálfsvirðingu á að eiga amk. einn nautgrip fyrir hvert ár sem hann lifir, þannig að fimmtugur maður á að eiga amk. fimmtíu nautgripi. Ekkert minnst á konur núna. Eftir að hafa ýtt á hann, sagði hann mér að hann ætti um 90 nautgripi. "Ég verð að fara að slátra, það er heldur ekki gott að eiga of mikið. Betra að eiga peninga í bankanum sem fólk veit ekki um, þá er maður ekki að sýnast um of." Þetta er efalítið dæmi um stjórnun náttúruauðlindar af hefðasamfélaginu, þar sem menning takmarkar ofnýtingu auðlinda; ef fólk safnar ekki búfénaði (sem er merki um stöðu þína í samfélaginu) út í hið óendanlega, þá getur allt samfélagið nýtt vatn og beitarland í sameiningu. Kynslóð eftir kynslóð.

Í héraðinu eru einnig semfélög og hópar San fólks, eða búskmanna. Gæslumaður vatnbólsins sem við heimsóttum var einmitt San, sem brosti út að eyrum svo að skein í brúnar tennurnar, þegar ég sýndi honum myndirnar sem ég var búin að taka af honum. Konan á myndunum er formaður vatnsnefndar. Þau voru mjög ánægð að fá að svara spurningum, og stolt af vinnunni sinni. Ég spurði vin minn frá vatnsmálaskrifstofunni spurninga, hann talaði við konuna á Herero, og hún spurði svo gæslumanninn á San tungumáli. Hér koma svo myndirnar.


Myndir og fleira

Ég eyddi öllum gærdeginum á vinnufundum um niðurgreiðslur í vatnsgeiranum í Namibíu með fólki úr geiranum. Mjög áhugavert. Á meðan gerðist það markvert að Óskar var sendur til skólastjórans. Eiginlega skrýtið að hann hafi ekki verið tekinn fyrr á beinið í skólanum.

Vettvangsvinnan fyrir doktorsverkefnið er á rífandi siglingu hjá mér, í næstu viku fer ég að vinna með Evrópusambandinu og svo í vettvangsferð norður til Rundu á slóðir verkefna Lux-Development vikuna þar á eftir. Síðan verður haldið heim til Íslands í frí.

Talandi um frí, hér koma nokkrar myndir frá Swakopmund frá maí í ferðinni með Sivu og Jóa. Myndir frá Kunene og Fílabeinsströndinni eiga enn eftir að rata á síðuna, það er í hægri vinnslu.


Ágætis búðarferð

Ég stóð við hraðbankann í gær þegar vaktaskipti stóðu yfir hjá öryggisvörðunum. Annar veifaði myndarlegri haglabyssu framan í mig, og var að stympast með hana í gríni við félaga sinn sem var að koma á vakt. "Þú verður að taka hana, hún er góð þessi.." Ég horfði til himins og hugsaði hverjar líkurnar væru að hún væri óhlaðin. Engar. Líkurnar á að þessir félagar myndu skjóta mig óvart í hausinn. Verulegar. En þeir voru fjörugir og glaðir, svo að ég brosti eins og morgusólin til þeirra.

Hraðbankinn er við verslunarkjarnann Eros sem er mjög nálægt heimili okkar (nafnið minnir mig reyndar óljóst á einhver dónablöð). Þar er slátrari, kaffihús, vídeóleiga, apótek, blómabúð, innrömmun, djúsbúð (ávaxta), djúsbúð (ekki ávaxta), banki og verslun. Framkvæmdir hafa átt sér stað, svo að allt er að verða óskaplega snyrtilegt og flott. Búðin hefur líka staðið í framkvæmdum, þar er verið að skipta um allt gólfefni, en verið er að setja ægilega fínar nýmóðins flísar á gólfið. Þeir hafa ekki haft fyrir því að loka búðinni. Rekkunum hefur verið ýtt hingað og þangað, svo að viðskiptavinir þurfa að troða sér á milli til að finna vörur. Þær eru vanalega með þykku ryki og óhreinindum.

Iðnaðarmennirnir voru með slípurokk fyrir ofan dyrnar, svo að neistum rigndi yfir mann þegar gengið var inn. Og þessi indæla lykt sem fylgir. Nú voru komnir nokkrir skurðir í mitt gólfið, þar sem vinnumenn stóðu upp að mitti og hjuggu af miklum móð með hökum (það eru reyndar alltaf nokkrir aðrir að horfa á þegar einhver er að vinna). Á nokkrum stöðum var búið að setja blikkplanka yfir skurðina þar sem maður gat farið með innkaupakerrurnar yfir.

Ég var skítug og úfin þegar ég kom heim eftir að hafa skroppið í búðina. Kom sigri hrósandi með mjólkurflösku sem var brún af ryki, en hafði svo ekki fundið helminginn af því sem ég hugðist kaupa því að þeir eru alltaf að færa hluti til og frá, og enginn leikur að leita að hlutum. Ég var amk. ekki með brunasár eftir neistana, og hafði heldur ekki verið skotin í hausinn með haglabyssu. Þetta var ágætis búðarferð.


Auglýsingar fyrir HM

Og nú að léttari málum... stemningin magnast, Maradonna fær boðlegt klósett til að gera sínar þarfir í, og fyrirtækin hlakka til að fá aukin viðskipti. Þau eru komin með skemmtilegar auglýsingar í imbann. Þessi er í uppáhaldi hjá stóru strákunum mínum - en eins og forsetinn segir, þá eiga allir að vera góðir við gestina:


HM í Suður-Afríku að skella á

Nú er kominn taugatitringur í alla hérna megin á jarðarkringlunni. Niðurtalning á HM er í fullum gangi, og mikið spáð og spekúlerað. Margir hafa áhyggjur af öryggismálum, og sérstakt öryggislið hefur t.d. verið þjálfað til að sjá um enska stuðningsmannaliðið, því að sögn sýna þeir hegðun sem fólk í Suður-Afríku skilur hvorki upp né niður í, og því þarf öryggisliðið að fá sérstaka þjálfun. Það er hið besta mál. Jacob Zuma forseti hefur ítrekað beðið landsmenn um að sýna sínar bestu hliðar á meðan á keppninni stendur.

Þetta kemur í kjölfar morðsins á Eugene Terreblanche í byrjun apríl, sem var hvítur öfga hægrimaður og alræmdur kynþáttahatari. Hann stofnaði Afrikaner Resistance Movement (AWB), eða frelsishreyfingu Afrikaaner, sem vildi færa landið aftur í hendur Búa.

Ungliðahreyfing stjórnarflokksins ANC (African National Congress) var fyrir dómstólum bannað að nota baráttusöng sinn úr frelsisbaráttunni, "kill the boer" eða "kill the farmer" (boer er hollenska orðið fyrir bónda, og vísar einnig til fólks af hollenskum uppruna, eða fólks sem talar afrikaans). Vinnumenn Terreblanche hjuggu hann til bana með sveðjum þegar hann fékk sér síðdegisblund. Hann var persónugervingur hinna hvítu bænda, og margir sem töldu að baráttusöngurinn hefði fengið vinnufólkið til að taka upp sveðjurnar.

Staða hvítra hefur einnig nokkuð verið í kastljósinu, og margir sem færa fyrir því rök að kynþáttastefna haldi áfram í Suður Afríku, nú á kostnað hvíta minnihlutans sem er af hollensku bergi brotið, búanna, eða Afrikaaners. Fyrir áhugasama, þá er hér stutt heimildamynd um hvernig fátækrahverfin eru að fyllast af hvíta fólkinu sem áður var í opinberum störfum.

  

Ekki er staðan betri fyrir hvíta bændur. Fyrir nokkrum árum rannsakaði hollenskur blaðamaður stöðuna fyrir hvíta bændur í Suður Afríku, og lýsti þeim sem hópi í útrýmingarhættu, þar sem 264 af hverjum 100.000 væru myrtir, sem væri hæsta hlutfall í heiminum. Eins og víðar, hefur hugtakið hljótt þjóðarmorð verið notað yfir þessa atburði.

Ein vinkona Dabba á systur sem hefur átt býli í Suður-Afríku. Þau eru nú að gefa búskap upp á bátinn og flytja í burtu. Ástæðan er sú að vopnað lið hefur þrisvar sinnum ráðist á býlið. Þessir hópar svartra eru þungvopnaðir og skjóta á hvað sem fyrir verður. Bændurnir eru jafnframt þungvopnaðir og svo kemur hreinlega til skotbardaga eins og í bíómyndunum. Allir þurfa að grípa til vopna. Hún sagðist ekki geta boðið börnunum upp á slíka barnæsku, að þurfa að grípa til byssunnar og skjóta út um stofugluggann, til að halda lífi.

Hér er myndband sem sýnir nokkra baráttusöngva svartra, þ.m.t. sönginn fræga, úr jarðaför, alveg í lokin.

Því er ekki nema von að suður-afrísk stjórnvöld séu með áhyggjur. Nú er verið að rannsaka tölvupóst sem hefur að ganga á milli manna, þar sem hver svartur er hvattur til að drepa amk. 10 hvíta á meðan á keppninni stendur (ég hef þetta nú bara úr útvarpinu og sel ekki dýrara en ég keypti). Og það eru ekki bara innanbúðarmál sem angra stjórnvöld, því að fregnir hafa borist af áætlunum um hryðjuverk, og hafa bandarísk stjórnvöld nú varað sitt fólk við að fara á leikana.

Nú er bara að bíða og sjá hvort að allt fari ekki friðsamlega fram.


Merkilegur morgundagur

Morgundagurinn virðist ætla að verða merkisdagur.

Þá verða kosningar, en við hjónin erum búin að senda okkar atkvæði heim til Íslands í gegnum sendiráðið okkar. Svo er Evróvision, og við leitum á náðir Villa og Gullu með stóra skjáinn til að fylgjast með atburðum líðandi stundar.

Svo er Comrades hlaupið líka á morgun. Vinafólk okkar tekur þátt þar, en þetta er 89 km. hlaup í Suður Afríku. Allir hlauparar sem taka sig alvarlega, verða að taka þátt. Fyrst er Two Oceans ultramaraþonið (hugsunin er að hlaupa milli tveggja úthafa, þó að það sé kannski ekki alveg raunin), og svo fer fólk í Comrades í framhaldi af því. Áhugasamir geta krækt sér í æfingaprógramm á síðunni þeirra, það er hægt að byrja að æfa í júní fyrir hlaupið að ári.

Ég er loks komin af stað aftur, fór í ræktina síðdegis með Dabba en hóf daginn úti á hlaupabrautum, sem var alveg  fyrirtak. Frjálsíþróttaliðið namibíska er einmitt að æfa rétt á eftir okkur, en það er sérdeilis hressandi að fá svona eiturspræka hlaupara á brautirnar líka. Meðan ég man - ég er komin með varaáætlun fyrir eftirlaunaárin, ætla að skrifa bók sem heitir "10 mánuðir til að koma fitubollu 10 km. á 45 mín." Með svona grípandi titil og eigin reynslu í þokkabót, reikna ég með því að þetta verði hin besta metsölubók og ég geti sest í helgan stein í vellystingum.


Skálkaskjól

Maður spekúlerar stundum í hvernig sé að vera eftirlýstur glæpamaður. Jafnvel íslenskur. Hvert á að flýja arm réttvísinnar þegar maður á nóga peninga? -Í bíómyndunum eiga glæponarnir oft ánægjulegt ævikvöld í Brasilíu, sem ku vera hinn besti staður til að búa á við góð efni. Ísland er hins vegar nýbúið að framselja til Brasilíu forhertan glæpamann. Er ekki hægt að búast við því að Brasilía geri hið sama fyrir íslensk stjórnvöld? Einhvert annað þyrftu íslenskir glæponar að fara. Kannski til Namibíu?

Einhver kunnasti hvítflibbaglæpon heims notar Namibíu sem skálkaskjól. Ein kunningjakona mín hér er eiginkona hans, en hann náði þeim stórmerka árangri að velta Osama Bin Laden úr sessi sem efsta manni á lista alríkislögreglunnar yfir eftirsóttustu glæpamenn í Bandaríkjunum. Hann hefur reyndar klifrað niður listann síðan (svo eru þeir reyndar með sér lista fyrir hvítflibbaglæpi), en er engu að síður mjög þekkt nafn. Sá er ísraelskur sem kom undan gífurlegum fjárhæðum áður en til hans náðist. Hann flúði heim  til Ísrael. Framsalssamningur er í gildi milli Ísrael og Bandaríkjanna og því getur hann ekki þrifist þar. Þá kom hann til Namibíu með fjölskyldunni, en namibísk stjórnvöld neita að framselja hann til þeirra bandarísku, sem eru ekki par hrifin. Hann verður að halda sig innan landsins, en gefur reglulega fé til hinna fátækari, eins og með styrktarsjóði fyrir námsmenn í tækni og vísindum. Hann er líka með fyrirtæki hér, og byggir ódýrt húsnæði handa hinum tekjuminni.

Hér er gott veðurfar, flest nútíma þægindi og sveigjanleg stjórnvöld. Hins vegar hygg ég að það verði frekar einhæft að eyða öllu lífinu hér. Það er hægt að ferðast hér innanlands í nokkur ár, en það verður dálítil lumma þegar til lengdar lætur. Hins vegar er auðvelt að koma krökkunum til mennta og dunda sér við ólík verkefni, og efalaust betra en að eyða ævikvöldinu í bandarísku alríkisfangelsi. Það þarf bara að gera svona meðogámóti lista ef að staðan kemur upp. Amk er Namibía betri kostur en margir aðrir staðir á jarðarkringlunni.


Evró og fleira

Stefán er orðinn öllu betri, hálft andlitið á honum varð stokkbólgið, en nú er farið að draga úr. Það er helst Dabbi sem upplifir hörmungar, því við erum enn að fá reikninga fyrir herlegheitunum. Það er aldrei hressandi fyrir Dabba að fá reikninga. Ég er hins vegar að spá í að setja skurðstofu á laggirnar, það hlýtur að vera ákaflega ábatasamt.

Halli kom sæll en þreyttur heim úr ferðinni sinni. Búinn að skríða hálfnakinn úti í náttúrunni, makaður í felulitum. Í gær var svo enn eitt skólafríið - Afríkudagurinn. Halli hóf daginn á að baka lummur í morgunmat handa öllu liðinu af miklum myndarskap. Við fórum svo öll út úr bænum með einni vinafjölskyldu og krakkafjölda, á búgarð sem er í klukkutíma fjarlægð, þar sem er fjöldi leiktækja fyrir krakka. M.a. er boðið upp á bowling, sem Óskar segir að sé awsome.

Við hjónin horfðum á undankeppni evróvision í gærkvöldi, ég svaf reyndar í gegnum mest og náði rétt að rífa mig upp fyrir íslensku keppendurna. Óskar og Stefán eru í vaktavinnu við að vekja okkkur foreldrana, og náðu þeim fyrirtaksárangri að koma sprækir upp í rúm til okkar klukkan fjögur í býtið. Halli var dottinn útaf og kominn í bólið. Hann er allra mesti stuðboltinn á evróvision, svo að það var frekar dauft yfir okkur, þó að Stebbi kæmi einnig að styðja Ísland. Eiginlega var skemmtilegast þegar portúgölsku keppendurnir komust áfram því að kynnarnir á portúgölsku rásinni sem við horfðum á, voru svo óskaplega hamingjusamir. Ég vona að Halli nái að rífa þetta upp á keppniskvöldið.

Morguninn hófum við hjónin á hæðahlaupum, í nöprum kulda. Nú er vetur konungur að hefja innreið sína hér og nú dugar ekkert annað en langerma klæðnaður í morgunhlaupunum. Meirihluti hópsins er úr leik vegna kvefs, hálsbólgu og meiðsla. Veturkoman hefur auðsjáanlega víðar áhrif en á Íslandi.


Sár og tár

Halli fór í gær með nesti og nýja skó í survival camp sem standa yfir helgina. Í framtíðinni mun trúlega hann byggja sér hreiður niðri í garði, lifa nakinn en málaður í felulitunum með leir úr náttúrunni, og veiða sér til matar þar og elda sjálfur við opinn eld. Kannski getur hann þá drepið hund nágrannanna fyrir Dabba, sem er lítill gaur sem er að gera alla vitlausa með gelti, en þó sérstaklega Dabba. Kvikindið verður alveg brjálað ef Dabbi er nokkuð á stjái úti við. Halli hefur margsinnis boðist til að skjóta hann með loftbyssu, en pabbi hans afþakkað pent. Loftbyssur eru vinsæl leikföng hjá krökkunum hér, en Halli hefur ekki náð að kría slíkt út úr foreldrunum, þrátt fyrir að við sjáum nú að þetta gæti nýst ágætlega. Erik vinur hans á eina, og skaut hann Halla í rassinn við mikla lukku.

Björn Páll tók rútuna til Maun í gærmorgun, með nesti en enga nýja skó. Hann fékk allra hæstu einkunn sem gestur hjá Dabba sem sagði; það er bara ekkert vesen á honum, já, bara nákvæmlega ekkert. Í Dabbalandi þykir þetta framúrskarandi.

Við Davíð erum því orðin eins og evrópsk vísitölufjölskylda og fórum með litlu gaurana tvo á kaffihús í morgun þar sem er skemmtilegt leiksvæði, til að leyfa þeim aðeins að hreyfa sig og leika. Ekki vildi betur til en að Stebbi gekk aftur á bak niður af stalli, þar sem hann hafði verið að ýta bróður sínum í rólu. Skall með andlitið í múrstein og fékk gat fyrir neðan neðri vörina. Blæddi ótæpilega.

spitali_993081.jpg

Við æddum með hann á slysó, enda var sárið hrikalegt innan í munninum, en mun betra að utan. Fyrir eitthvað kraftaverk sluppu allar tennur og kjálkinn. Læknarnir tóku ekki annað í mál en að svæfa hann til að púsla þessu saman, og er ég því búin að eyða deginum niðri á spítala. Nú er sjúklingurinn kominn heim með merki um hendina sem á stendur "master Davidson", fjögur spor utantil og sjö innan til. Hér er mynd af honum þar sem hann reynir meira að segja að kreista fram bros fyrir ykkur, með smá tár á hvarmi. Læknarnir voru alveg frábærir og Stebbi stóð sig eins og hetja.

Nú eru verkjalyfin sumsé farin að virka, sem er nokkuð áhugavert. Hann er kominn með sólgleraugu af mér, elti Óskar um allt hús (móðirin rak lestina hrópandi: almáttugur, Stebbi, þú ert lasinn, viltu gjöra svo vel að setjast niður og slappa af!), hrakti hann upp í hjónarúm og barði hann svo eins og harðfisk. Óskar er búinn að lofa að vera góður við bróður sinn og tekur því barsmíðunum eins og fyrirmyndar píslarvottur. Stefán er kannski aðeins eins og elsti bróðirinn sem verður alveg kolvitlaus af verkjalyfjum? Ég sé aldeilis fram á áhugaverða tíma, annað hvort verður hann vælandi af verkjum eða trylltur út um allt hús.


Stöðuskýrsla frá Nam

Siva og Jói kvöddu Afríku í gær og eru amk. komin til London, sem er léttir, því að það er ekki auðvelt að skipuleggja ferðalög nú um stundir með ösku, verkföllum og tilheyrandi. Það var því hálf tómlegt við kvöldverðarborðið hjá okkur í gærkvöldi og engin gúrka spiluð.

Björn Páll stefnir til Botswana á föstudag með rútu, en hann ákvað að fara landleiðina til Kenya í stað þess að taka flug frá Jóhannesarborg. Hann nær þá að sjá eitthvað af Botswana, Mósambik, Zimbabwe, Malavíu og Tansaníu á leiðinni til baka.

Hann kom með mér til Omaheke í vettvangsferð á mánudaginn, en hefur annars verið í afslöppun hér hjá okkur í borginni.

Hlaupin hófust aftur í morgun eftir tveggja vikna pásu, með léttu 10k utanvegaskokki í frábæru umhverfi.  Halli er að fara í survival camp um helgina til að læra um namibíska náttúru og fá smá stuð með jafnöldrum sínum. Við hin tökum því rólega hér heima við, en flest frí hér í landi lenda í maímánuði og eru bara tveir skóladagar í næstu viku hjá strákunum

Svo styttist í heimferðina sem allir eru farnir að hlakka til.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband