Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Á þeytingi

Við erum komin heim úr viku túr til Kunene. Ferðin gekk vel í alla staði þó að margir kílómetrar hefðu verið lagðir að baki, en það eru litlir 750 km. upp til Opuwo þar sem við vorum mestan tímann. Veðrið var heldur kaldara í borginni, en það er amk. hætt að rigna og ekki skýhnoðra að sjá á himni.

Við erum aðeins búin að rétta úr okkur í millitíðinni, náðum að setja í vél og náðum að skila skattaframtalinu á sléttum 12 mínútum, enda ekki neinar viðbótarupplýsingar til að setja inn. Hefði efalaust tekið styttri tíma ef tölvutengingin væri aðeins hraðari.

Núna höldum svo á safaríbúgarð þar sem við náum hádegisverði í dag og svo getur Hreinn farið í safarí vinstri og hægri með ólíkum kandídötum. Síðan verður haldið þaðan niður á strönd á morgun. Set inn línur þegar við erum komin til baka. 


Sullumbull

Sull 1

 

Þegar við vorum í Swakopmund fórum við í gögnutúr í sólinni og hér má sjá Swakop ána, sem vanalega er ekkert vatn í, en núna líður hún áfram í rólegheitum. Ekki hefur rignt meira í 80 ár, og nú eru komin flóð uppi í Owambolandi. Þá er alltaf hætta á kóleru, og svo grasserar malarían náttúrulega. Einhvert túristaskinn missti jeppann sinn í á, því að það fossaði fram vatn akkúrat þegar hann var að fara yfir einhverja sprænuna, og hreif jeppann með sér.

Sull 2

 Hér erum við drengirnir að dáðst að náttúrufegurðinni.

Sull 3

Svo þurfti náttúrulega að prófa hvað vatnið var indælt. Hér er útkoman hjá Stebba greyjinu sem flaug náttúrulega strax á hausinn á hálum árbakkanum. 

Sull 5

Hinir tveir voru ekki alveg eins ósáttir við þetta, og enduðu í drulluslag með félögum sínum. Hér eru Halli og Óskar.

Annars er nú ekki mikið að frétta héðan. Flóðhestur drap mann uppi í Okawango á föstudag, og fór ansi illa með hann, en þetta eru skaðræðisskepnur. Mætti bara í býtið í bakgarðinn hjá honum, svo að manngarmurinn fór út að athuga hvaða þrusk væri við húsið hans. Hesturinn var svo skotinn og sýnt í sjónvarpinu þegar þorpsbúar voru að skera hann niður, það var ansi keimlíkt því þegar hvalur er skorinn niður, enda eru þetta heljarinnar ferlíki með þykkt lag af fitu undir þykkri húðinni.

Svo er Hreinsi að koma á fimmtudag, og við bíðum spennt. Við förum þá öll í viku ferðalag upp í Epupa sýslu, alveg í norðvesturhluta landsins. Þar getum við skoðað þróunarverkefni, Epupa fallst og fengið að kynnast óbyggðunum af eigin raun. Vona bara að rigningin eigi ekki eftir að reynast farartálmi.


Kóngulóarmennirnir

KóngulóarmennDísa frænka og Palli, þessi er sérstaklega tekin fyrir ykkur!

Hér eru kóngulóarmennirnir okkar tveir í búningunum sínum, báðir mjög ánægðir með sig.

Svo er nú einn kóngulóarmaður í viðbót á heimilinu, en Halli var bitinn um síðustu helgi og er búinn að vera að berjast við þessi rokna bit síðan þá. Hann er með myndir á blogginu sínu á haraldurbjarni.blog.is. Ekki fyrir viðkvæma.


Sól og sumar á ströndinni

Strond 3

Nú hefur rignt nánast linnulaust síðan við komum aftur til borgarinnar, svo að við vorum glöð að hafa fengið sól í kroppinn úti við strönd. Það hefur ekki rignt svona mikið í manna minnum, þó að það hafi rignt mikið á regntímanum í fyrra, þá slær þessi öll met.

Aftur að ferðalaginu. Við fórum að sjálfsögðu á ströndina líka. Stefán varð svo glaður að hann hoppaði og skoppaði út um allt eins og kýr að vori. Strond 1



Sumir aðrir voru ekki alveg eins fjörugir, en Davíð og Jan fengu sér báðir fegrunarblund í sandinum og sváfu heillengi.

Strond 4Hér eru yngri drengirnir, erfiðara er að ná mynd af Halla, sem er gjarnan kominn hálfa leið á haf út. Reyndar er aðgrunnt, svo að gott er fyrir krakka að leika sér í öldunum. Yngri drengirnir eru í sundgöllum, eins og flestir krakkar hér, enda eru þeir hentugir því þeir veita góða vörn gegn sólinni. Strond 2

Strond 5

Hundarnir hafa jafn gaman að því að leika sér á ströndinni og mannfólkið.


Helgarferð til Swakopmund

Santiago, strákurinn hennar Leju hélt upp á 4. ára afmælið sitt um helgina, og var það í fyrsta skipti sem haldið var upp á afmælið hans. Ég bakaði þessa heljarinnar nammiköku sem Leja tók með sér heim um hádegisbilið. Svo héldum við af stað til Swakopmund, enda komin með nóg af rigningunni hér í borginni.

Swakop 1Út við ströndina var hlýtt og gott. Við fórum með hollensku vinafólki okkar sem á tvo stráka á aldur við Halla og Óskar, og gistum á skemmtilegu gistiheimili við Swakop ána, um 20 km. frá bænum. Ótrúlega barnvænt, enda gott að vera í eyðimörkinni sem er einn alsherjar sandkassi.

Það var smá vatn í ánni, aldrei þessu vant, sem er þurr mestan tíma ársins. Jan hin hollenski tók daginn snemma og var búinn að festa jeppann sinn klukkan hálf átta í drullu og geri aðrir betur. Við keyrðum svo saman upp eftir ánni, þar sem er geysifallegt. Hér er Jan að skoða hvar best er að keyra yfir.

Swakop 2Við áðum undir tré á leiðinni, og hér eru Óskar og félagi hans Rueben að klifra í trénu.

 

 

 

 

 

Swakop 3Stefán tók sig líka vel út í auðninni. Þeir Namibíumenn kalla þetta tungllandslag, enda líkist þetta eilítið því sem við þekkjum frá Öskjusvæðinu.

Swakop 5

Og hér eru þeir feðgar. Eins og sést kannski er orðið sæmilega heitt, enda sólin nánast beint yfir höfðum okkar.

 

 

 

 

 

Swakop 6
Svo skelltum við okkur í fjallgöngu, og þá er vissara að hafa vatn við höndina.

p>

Swakop 8 

Svo voru tveir hundar með í för, sem var orðið ansi heitt af hlaupunum.

 

 

 

 

 

 

 

Swakop 7

Hér má sjá ganga liggja þvert í gegnum fjöllin.


Gatan mín

Ég tók mér pásu frá lestri í morgun til að skreppa út í búð til að kaupa nauðsynjar. Þetta blasti við mér, við enda götunnar okkar.Regn 1

 

 

 

 

 

 

 

Það hefur rignt mikið síðustu vikur. Jafnvel búarnir, sem kvörtuðu sem sárast yfir að það rigndi ekki, eru nú farnir að kvarta yfir að það rigni of mikið.

Jarðvegurinn er gjarnan leirkenndur tekur illa við vatninu og því myndast þessi fljót eins og þetta í götunni okkar. Í gær var rigning, og ég skellti mér yfir, þrátt fyrir að malbikið væri farið að flagna af. Í dag er hæpið að fara nokkuð.Regn 4

 

 

 

 

 

 

 

 


Héðan kemur vatnið, sem getur komið langan veg. Í fátækrahverfinu skolaði bíl í burtu eina nóttina, sem lagt hafði verið í lægð. Fólk má einnig passa sig þegar það fer í útilegu því að oft er tjaldað í árfarvegum, og svo kemur fyrirvaralaust vatnsflaumur sem hrífur allt og alla með sér. Kannski rignir ekki einu sinni í nágrenninu, heldur einhvers staðar langt í burtu. Það er margt sem má varast.Regn 3

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Þarna steypist vatnsflaumurinn niðureftir.Regn 2

 

 

 

 

 

 

 

 


Fyrir kunnuga má upplýsa að þetta eru gatnamót Von Eckenbrecher st. og Nelson Mandela. Ég varð að sjálfsögðu að snúa til baka og leggja leið mína í aðra verslun


Bolla, bolla

bolla1Haldið var upp á bolludaginn í Windhoek, en reyndar á sunnudaginn. Og hér fást líka St. Dalfour gæðasultur, alveg eins og heima.

bolla4Við Halli bökuðum þessar gómsætu vatnsdeigsbollur, sem við snæddum svo úti á palli með rjóma, sultu og ekta súkkulaði. Drukkum svo kakó með rjóma með.

bolla2Stefán kunni vel að meta veitingarnar.

bolla3Allir urðu vel klístraðir, eins og vera ber.

Við erum komin með nýja myndavél í stað þeirrar sem stolið var svo að nú fara væntanlega að birtast aftur myndir úr daglega lífinu á blogginu mínu.


Dance your spik away

Það er alltaf gaman á hlaupabrettinu í ræktinni. Í dag fór náunginn á brettinu við hliðina að dansa af innlifun á brettinu, og í huga mér komu myndir frá Owambolandi þar sem fólk var að dansa við vegabrúnina, á meðan það var að rölta á milli staða. Mjög skemmtilegt. Annar bætti svo um betur og fór í svona opnum sandölum með bandi á milli tánna á brettið og stóð sig bara nokkuð vel, a.mk. komst hann óskaddaður frá hlaupunum. Ég sem á í erfiðleikum með að keyra bílinn minn í slíkum sandölum, þó að æfingin skapi meistarann í því sem fleiru.

Heimilisleg símaskrá

Eitt af því fyrsta sem ég gerði þegar til Namibíu var komið, var að glugga í símaskrána. Hún er nú mjög heimilisleg, rétt eins og íslenska símaskráin okkar, og er heilar 584 síður fyrir landið allt. Hér búa um 2 milljónir manna, en margir eru fátækir og því er símaeign ekki eins víðtæk og á Vesturlöndum. Hins vegar hefur farsímaeign aukist mikið, en það eru margir sem telja að farsímavæðing muni skipta miklu máli fyrir samskipti í þróunarlöndum í náinni framtíð, þar sem þau geti sleppt landlínulögnum og þeim kostnaði sem þeim er samfara.

Namibíska símaskráin er hin merkilegasta og er þar m.a. að finna leiðbeiningar um hvernig eigi að hringja erlendis, og þ.a.m. til Íslands. Eru þar nokkrir bæir listaðir og má þar m.a. finna Flatyri, Hverageroi, Kaflavik, Sucoavik og Reykyavik. Stafsetningin hefur eitthvað skolast til, en það kemur vonandi ekki að sök ef einhver fær áhuga fyrir að hringja til eyjunnar uppi í norðurhafi.


Íþróttaafrek

Við erum orðin nettengd á ný, þó að ný tölva sé reyndar ekki komin í hús ennþá.

Við höfum verið virk í dag, vorum með hádegisverðarboð fyrir bandaríska vini okkar og svo fór ég í barnaafmæli með litlu guttana síðdegis á meðan Halli og Dabbi skelltu sér í ræktina. Aragrúi barna mætti í boðið, og örugglega mikill hluti spænska samfélagsins í borginni. Allt fór friðsamlega fram, þó að Stefáni hafi reyndar tekist að prófa rafmagnsgirðinguna, en til að gera það þurfti hann að troða sér bakvið runna þar sem hann fann spennandi víra. Hann virðist hafa sloppið óskemmdur á líkama, en hann var hvekktur, enda geta þessar rafmagnsgirðingar verið ansi varhugaverðar. Þeir voru alsælir eftir boðið enda var búin að vera mikil tilhlökkun, búið að föndra kort og skreyta pakka í marga daga.

Á fimmtudaginn fór svo fram frjálsíþróttakeppni á fyrrum þjóðarleikvangi þeirra Namibíumanna, milli fimm skóla borgarinnar. Lítill hópur keppenda úr alþjóðaskólanum mætti til leiks. Hver mátti að hámarki keppa í þremur greinum, og Halli tók þátt í 100 m. hlaupi, hástökki og 4x100 m. boðhlaupi.

Okkar fólk hafði nú ekki mikla þjálfun, en það var gaman að hlusta á áhyggjur keppenda fyrir keppnina, því sumir höfðu einu sinni prófað sína keppnisgrein og aldrei við keppnisaðstæður. Allir höfðu þó gaman af.

ÍþróttakeppniÞetta er glæsilegur hópur keppenda.

Íþróttakeppni 2

Haraldur var frekar taugaóstyrkur í 100 metrunum, sem var fyrsta keppnisgreinin hans, hér er hann á fullum spretti og endaði í 4. sæti. Það gekk hins vegar vel í hástökkinu þar sem hann náði öðru sæti.

DSC04422

Það var mikil stemning á leikvanginum og mikil spenna fyrir boðhlaupin sem voru síðustu keppnisgreinarnar. Okkar sveit hljóp glæsilega en eftir þrjá spretti drengja undir 10 ára voru þrjár hlaupasveitir hnífjafnar, en Halli tók lokasprettinn fyrir alþjóðaskólann. Allt ætlaði um koll að keyra á leikvanginum þegar hann rauk áfram og tryggði sveitinni glæstan sigur. Hér er hann á fullum spretti að nálgast endamarkið. Síðustu þrír hlaupararnir komu reyndar ekki inn á myndina, ég setti bara myndavélina upp í loft og smellti af því það voru svo mikil læti (smella á myndina til að fá hana stærri).

Íþróttakeppni 4Sigurreifur Haraldur

Þetta var eini sigur alþjóðaskólans í keppninni og er Halli því orðinn íþróttahetja skólans. Næst eru milliriðlar þar sem keppendur í fyrsta og öðru sæti etja kappi við sigurvegara annarra skóla og eftir það er landskeppni, svo að það eru spennandi tímar framundan í íþróttamálum.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband