Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda
Hjá laganna vörðum
26.1.2009 | 13:04
Þegar Leja kom á miðvikudagsmorguninn hafði hún lesið frétt í blaðinu sem skýrði frá því að tveir menn hefðu verið handteknir í Windhoek og að þeir hefðu haft 6 fartölvur í fórum sínum. Þetta varð til þess að ég fór á stúfana, og naut dyggrar aðstoðar Rudiger bílstjóra. Við fórum á lögreglustöðvar til þess að kanna hvort að tölvurnar hefðu nokkuð komið í leitirnar. Við byrjuðum á að fara í miðbæjarstöðina. Geymsla fyrir muni var í sérhúsnæði aðeins fyrir aftan lögreglustöðina. Það var líkt og maður væri að koma inn í gamla geymslu fyrir varahluti í bifreiðar, en þarna var draslinu haugað upp á hillur, og allt virtist vera rykfallið. Var af ýmsu að taka, gömul hjól, hjólbarðar, hátalarar og svona má lengi telja. Allt virtist vera komið vel til ára sinna. Ég var svo uppnumin yfir þessu öllu að ég tók ekki eftir því að byrjun að ég stóð ofaná þessari myndarlegu sveðju. Þarna hefði mátt kalla til bókasafnsfræðing til að flokka dótið almennilega. Ekki voru tölvurnar okkar þarna, og reyndar ekki neinar tölvur yfirleitt.
Næst lá leiðin í lögreglustöðina í Katutura, fátækrahverfinu. Þar var nú þröng á þingi, fjöldi manns sem var í varðhaldi í móttökunni. Allt upp í 5 manns handjárnaðir saman og svo starfsfólk lögreglu innanum að taka skýrslur og sinna skriffinnsku. Geymslan reyndist vera niðri í kjallara svo að leiðin lá framhjá gæsluvarðhaldsklefunum. Það var nú ekki skemmtileg sjón og enn verra fyrir lyktarskynið því að úr klefunum kom megn óþefur. Í kjallarageymslunni sat vörður sem stytti sér stundir við að horfa á stolið sjónvarp og var mjög hjálplegur þegar við komum og trufluðum þessa iðju hans. Þarna var enn meira úrval af dóti, og meira að segja heill kassi af sveðjum. Þarna voru einnig nokkrar tölvur, en okkar tölvur var hvergi að sjá. Við skildum þó eftir símanúmer ef þær myndu koma í leitirnar.
Að lokum fórum við á lögreglustöð í Wanaheda, litlu hverfi útaf Katutura. Þar hittum við fyrir mjög frjálslega vaxna lögreglukonu sem var einstaklega þreytt. Hún blaðaði dauflega í skráningarbók og reyndi að skilja hvernig málið lá eftir að við höfðum farið í gegnum þetta með henni:
.. svo það var brotist inn hjá ykkur núna á síðasta laugardag?
-já, það er rétt
..og svo var málið kært til lögreglu á sunnudag?
-já, það er rétt
..og hvaða sunnudag var það svo?
-??!??
Nóg var af vopnum sem gerð höfðu verið upptæk, en engar tölvur svo að við fórum heim tómhent, en reynslunni ríkari. Það má amk. draga þann lærdóm af þessari ferð að maður eigi fyrir alla muni að forðast að lenda í haldi lögreglunnar í Windhoek.
Óhefðbundin þróunaraðstoð og hefðbundin þróunarsamvinna
22.1.2009 | 17:35
Já, það er örugglega margt mjög jákvætt sem kemur út úr því að vera rændur svona. Maður getur litið á þetta sem óhefðbundna þróunaraðstoð. Nú eru kannski einhverjir uppi í Angóla sem geta þrautnýtt tölvurnar okkar, annar sem lærir íslensku með hjálp stafakarlanna, myndavélin heldur áfram að taka fjölskyldumyndir þarna uppfrá, samskipti stórbatna með svona fínum símum og einhver tekur kannski upp á því að hlaupa eftir að hafa fengið hlaupaúrið í hendurnar (verst að leiðbeiningabæklingurinn og púlsmælirinn fylgdu ekki með). Veit hins vegar ekki hvaða gagn litli Calvin gerir annað en að mæla tímann, sem er nú oft á tíðum mjög afstæður hér, allir vísa til Africa time, en ég útskýri það nú kannski betur seinna.
Svo urðum við nú hissa í dag. Nágranni okkar einn hringdi bjöllunni og kom færandi hendi. Hafði þá ekki verið brotist inn hjá honum í nótt og hann fór sjálfur að leita að þýfinu. Við búum eiginlega í Öskjuhlíðinni, í hlíðum góðrar hæðar sem er yfir miðbænum og efst tróna vatnstankar. Þessi nágranni okkar var betur inn í málum en við og betur inn í málum en lögreglan. Hann fór að leita að dótinu sínu í hlíðinni, þar sem eru gróður og göngustígar (sem enginn þorir að nota nema ég og mamma og Halli) og þarna hafa glæponar hreiðrað um sig. Nágranninn hafði sumsé fundið tölvuna sína sem stolið hafði verið, og hafði verið geymd í steyptu röri til að skýla fyrir rigningunni. Lögreglan fer nefninlega rúnt þegar innbrot hafa átt sér stað og innbrotsþjófar fela því stundum þýfið og sækja það seinna. Ég hugsaði með eftirsjá til tölvanna okkar, en þær voru á bak og burt. Hins vegar var innihald peningaveskis Dabba þarna eins og það lagði sig, og fékk hann því til baka ökuskírteini, aðgangskort að vinnunni, namibískt kennikort og svo öll kredit og debitkortin sín (en þeim var öllum búið að loka).
Svo þurfti nágranninn að fara að laga aftur rafmagnsgirðinguna sem er í kringum húsið hans, en hann var að vonum glaður að hafa endurheimt tölvuna sína. Síðan á laugardag hefur fólk náttúrulega dælt í okkur linnulaust sögum um innbrot og glæpi af öllu tagi.
En aftur að þróuninni. Hér er svo umfjöllun um hefðbundnari þróunarsamvinnu sem Davíð er að vinna við, en þeir voru að hefja fullorðinsfræðslu fyrir heyrnarlausa í Namibíu: http://www.iceida.is/frettir/nr/979
Óboðnir gestir
19.1.2009 | 19:05
Við erum búin að læra heilmikið um öryggismál á undanförnum dögum enda var brotist inn í húsið okkar á laugardagsnóttina á meðan við sváfum blítt og rótt. Tölvurnar okkar voru báðar teknar og myndavélin líka, svo að ég mun þá væntanlega ekki deila með ykkur myndum úr síðasta ferðalagi. Nú er kannski einhver í Katutura læra að lesa með því að hlusta á stafakarlana (sem voru í annarri tölvunni). Reyndar eru tölvurnar trúlega orðnar tómar og á leiðinni upp til Angóla í endursölu.
Við uppgötvuðum stuldinn á sunnudagsmorguninn þegar við vorum að gera okkur klár í ræktina. Rimlar fyrir gestaherberginu/skrifstofunni höfðu verið sagaðir í sundur og farið inn um glugga. Öryggisfyrirtækið sendi fulltrúa og svo kom lögreglan og gerði þessa fínu skýrslu.
í lögregluskýrslunni stóð orðrétt... and certainly I did not give anyone permission to break into my home and take my belongings... Dabbi var náttúrulega hjartanlega sammála þessu snilldarlega orðuðu skýrslu og skrifaði undir án nokkurs fyrirvara.
Þjófarnir tóku líka lyklasett og aðgang að öryggiskerfinu svo að í gærkveldi sat öryggisvörður hér úti í bílskúr sem maulaði þennan meinholla kvöldmat sem hann fékk frá okkur, ofnbakaðan fisk, hýðishrísgrjón og salat. Trúlega ekki oft sem þeir fá svona hollustu í kvöldmat. Þessi vaktaði húsið okkar fyrir glæponum með lyklavöld.
Svo skiptum við um alla lása í dag og síðan kom öryggissérfræðingur til að gera tillögur til að gera húsið öruggara. Sá bar skambyssu í belti og fræddi okkur á því að hann hefði tvisvar lent í skotbardaga, en að hann hefði haft allt of lítið af skotfærum. Nú væri hann farinn að vera með tvö magasín og svo box með 50 skotum til vara. Það er gott að hafa varann á, ekki satt? Svo væri þetta aukna ofbeldi eiginlega allt Suður Afríku að kenna því að glæponar horfðu á fréttaþætti þar sem fjallað væri um nýjar brellur sem notaðar eru í glæpabransanum í Suður Afríku (og víst er að af nógu er að taka þar), og þetta smitaðist allt saman hingað. Og jafnvel frá Botswana. (Þetta er reyndar ágætis tilbreyting, því flestir kenna Simbabwe um allt sem aflaga fer. Auknir glæpir - glæponar sem koma frá Simbabwe. Atvinnuleysi - svo margt fólk sem kemur frá Simbabwe. Sjúkdómar .. o.sfrv.)
Annars erum við orðin vön eftir að það var brotist inn í húsið okkar heima á Íslandi, svo við tökum þessu nokkuð létt. Reyndar verður að segjast að namibísku þjófarnir voru mun háttvísari að því leyti að þeir voru ekki að rústa neinu, heldur tóku bara nokkra vel valda hluti og hurfu svo á brott án þess að hrófla við neinu öðru.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 19:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Pizzupartý
10.1.2009 | 12:12
Vinur Halla var í næturheimsókn og við höfðum pizzupartý í gær þar sem strákarnir bjuggu allir til sínar eigin pizzur. Hér er heimild frá pizzugerðinni, sem gekk í alla staði mjög vel.
Svo horfðum við á Eragon um kvöldið, en Halli fékk tvö fyrstu bindin í jólagjöf, svo að ég las þær bækur yfir jólin.
Hér eru félagarnir, Halli og Erik með pizzurnar sínar. Þeir veiddu litla kónguló í garðinum sem þeir eru vissir um að sé baby tarantula. Hún er komin í dollu, með skordýrum sér til ætis og var á matarborðinu hjá okkur í gær. Þeir hyggjast taka hana með sér í skólann á mánudaginn til að sýna bekknum, og þá er kannski hægt að fá áræðanlega greiningu á kvikindinu.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 12:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Jólin og gestir á brottu
8.1.2009 | 16:19
Við fylgdum gestunum á flugvöllinn í gær eftir góða dvöl sem hefði vel mátt vera aðeins lengri. Jólatréð var tekið niður á þrettándann, ekki síst vegna þess að Óskar fór í Indiana Jones leik með bróður sínum og snaraði tréð, veti því um koll og dró allgóðan spöl við talsverða hrifningu frá eldri bróður sínum. Þá var kominn tími til að koma því niður í kassa.
Nú er hversdagslífið byrjað, drengirnir eru komnir í skólann og Óskar og Halli eyddu öllum eftirmiðdeginum í lærdóm, en Halli er að fara í frönskupróf á morgun. Hann er núna að dunda sér við að taka próf í brotareikningi, sem þau eru byrjuð á í skólanum. Hann lærði undirstöðuatriði vistfræði í fyrra, en hefur samt komist að þeirri niðurstöðu að heimurinn yrði betri ef að moskítóflugur væru ekki til. Umhverfisfræðingurinn hefur komist að sömu niðurstöðu um vespur og æddi um allt með eiturbrúsa í báðum höndum eftir að við komum úr ferðalagi. Hann eyddi nokkrum búum, og einu sem var orðið allstórt á þessari viku, undir skyggninu okkar, við veröndina. Ástæðan fyrir þessari herferð Dabba er að hann var sjálfur bitinn úti í garði (af rauðri vespu) og mun ekki sofa rótt fyrr en kvikindin eru alfarin úr næsta nágrenni. Búin eru eitruð, skafin burtu og/eða brennd.
Hér er minnsti prinsinn í miðdegiskaffi.
Óskar er búinn að ákveða að verða geimfari þegar hann verður stór, en telur vissara að Stefán verði eftir heima í geimferðunum því að hann geti kannski fiktað í stjórntækjunum. Ég held að það sé mjög skynsamleg ákvörðun, amk. þangað til að við sjáum hvort að tækjafíknin hjá Stefáni muni dala eitthvað.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 16:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Markaðsferð til Okahandja
5.1.2009 | 06:41
Farin var markaðsferð til Okahandja á laugardaginn þar sem heimilisfólk og gestir versluðu á handverskmarkaðinum þar. Við fengum okkur fyrst hádegismat á veitingastað með rúmgóðu leiksvæði fyrir drengina. Halli var fjarri góðu gamni en hann fór í heimsókn til vinar síns á meðan við vorum út úr bænum. Okahandja er bær sem er í 40 mín. keyrslu norður af Windhoek og er miðstöð sölu handverks í Namibíu.
Veitinga- og gististaðir hafa margskonar gæludýr. Það eru hundar og kettir, en svo eru líka páfuglar eða zebra en hér var glæsileg skjaldbaka sem rölti að borðinu til okkar til að fá að snæða með okkur.
Það var svo mikið að gera á markaðinum sjálfum (ekki síst hlaupa á eftir drengjunum sem vilja allt skoða og snerta) að ég tók ekki myndir þar.
Við keyptum þennan glæsilega krókódíl til að hafa úti í garði, drengjunum til mikillar kátínu, enda eru þeir mjög hrifnir af krókódílum. Þessi er viður í gegn, níðþungur og útskorinn. Mest af útskornum munum kemur frá Kavango héraðinu og Caprivi, enda er þar hitabeltisloftslag með regnskógi. (Umhverfisfræðingurinn benti nú á að þetta væri m.a. orsök gróðureyðingarinnar sem hann var að býsnast yfir í Kavango þegar við vorum þar). Mikið af munum eru listilega skornir út.
Einnig er boðið upp á mikið úrval af körfum, en hjarta körfugerðarinnar er í Owambolandi, svo þær eru líka fluttar að norðan. Við keyptum þessar tvær sem nú prýða svefnherbergisvegginn okkar.
Ég keypti einnig óróa úr bananalaufum af dansandi konum, og svo þessar málmeðlur sem nú skríða upp veggina hjá okkur.
Jólaflandur
3.1.2009 | 06:57
Í síðustu ferð fórum við til Twyfelfountain og skoðuðum steinaristur San fólksins. Hitinn var ekkert yfirþyrmandi, bara þægilegur.
Hér eru ferðafélagarnir ásamt leiðsögustúlku að slappa af.
Strákarnir tóku sig vel út á meðal æfagamalla ristna.
Við vorum tvær nætur í skálanum að Twyfelfountain (aldrei þessu vant!). Við höfðum því tíma til að skoða okkur aðeins um á svæðinu. Við fórum að skoða Burnt Mountain og pípuorgelið, sem er óskaplega fallegt stuðlaberg sem á nú vel við okkur Íslendingana.
Nú er hásumar og þar að auki búið að rigna aðeins svo að skordýralífið er með því líflegasta. Þessi glæsilegi sporðdreki var á baðherbergisgólfinu okkar um morguninn. Davíð, sem hefur tröllatrú á eitri, spreyjaði hann vinstri og hægri. Næst þegar að var gáð var kvikindið þó ekki dautt, heldur farinn á flakk, og fannst hann undir handklæði sem lá á gólfinu.
Hann var sprelllifandi, og endaði sína sögu í klósettinu.
Nýtt ár gengur í garð
1.1.2009 | 12:39
Nú er nýtt ár runnið upp. Við komum úr ferðalagi seinni partinn í gær og hamborgarhryggurinn strax settur í suðu.
Við dreyptum á freyðivíni og Halli og strákarnir fengu áfengislaust. Hér eru feðgarnir að skjóta tappa úr flösku.
Við vorum með partýbombur sem í voru kórónur, smádót og málshættir sem enginn skildi. Stefán tók smá snúning með íslenska fánann í tilefni dagsins.
Óskar fékk skæri í bombunni sinni. Í bakgrunni er heimahannað og heimasaumað hús sem þeir fengu í jólagjöf frá Valdísi ömmu og fengu að taka upp á aðfangadagsmorgun til að stytta biðina.
Við vorum öll lúin eftir ferðina og fórum frekar snemma í bólið. Hér er bannað að skjóta upp flugeldum en það var sýning niðri í bæ sem maður heyrði óminn af þegar maður var að svífa inn í draumaheiminn.
Nýársdagur hefur verið rólegur. Við Dabbi fórum í ræktina í morgun á meðan Bjarni og Erla pössuðu strákana. Núna erum við búin að borða og flestir eru að taka eftirmiðdagsblund.
Gleðilegt nýtt ár, allir!
Á fyrsta degi jóla..
27.12.2008 | 08:21
Á jóladag var íslenska hangikjötið snætt, en það var að sjálfsögðu skagfirskur eðalframhryggur sem var ljómandi ljúffengur. Í stað jólaölsins drukku hinir fullorðnu guinnes bjór í fanta orange, sem kom bara vel út í hitanum.
Stefán kunni vel að meta hangikjötið góða.
Svo erum við búin að taka því rólega, Halli hélt jólatónleika á nýja hljómborðið sem við keyptum um daginn. Þegar við fórum í jólapartý, var hljómborð á heimilinu og Halli settist við það svo sætur og fínn og hóf að spila óðinn til gleðinnar. Sektarkenndin steyptist yfir foreldrana, sem óðara fóru í næstu verslun og keyptu þetta dýrindis (já, það var sko dýrt) hljómborð svo að tónlistarmenntun barnsins gæti haldið áfram. Við rákumst svo á hjón sem búa í gesthúsinu á eigninni við hliðina á okkur. Þau eru prófessorar í rannsóknarleyfi hér og hún er prófessor í tónlist, svo að það er möguleiki að við getum fengið hana til að gefa Halla tilsögn næstu mánuði. Sjáum til með það.
Halli fékk hafsjó af bókum í jólagjöf og við hin njótum góðs af. Ég er t.d. að lesa drekasöguna Eragon meðan Halli nýtur þess enn að lesa Harry Potter en hann fékk sjöundu og síðustu bókina í jólagjöf.
Í gær hélt letilífið enn áfram, nema að við fórum í ræktina og svo út að borða. Í dag erum við að fara í fimm daga ferðalag, svo það mun ekki heyrast frá okkur fyrr en eftir áramót. Við erum að fara til Etosha og svo förum við væntanlega til petrified forest (Andrea og co., við látum ykkur vita af hverju við misstum þegar við villtumst í ferðinni okkar!). Gleðilegt nýtt ár!
Jólahald var með hefðbundnum hætti í Windhoek
26.12.2008 | 19:58
Jólahald var með hefðbundnum hætti í Windhoek, amk. á okkar heimili. Jólatréð kom vel út þegar allir pakkarnir voru komnir undir hann en gestirnir komu hlaðnir góðum gjöfum frá ættingjunum á Íslandi. Glugginn var skreyttur með hvítu spreyi til að koma smá snjóstemningu inn á heimilið, en það er kannski dálítið erfitt með pálmatré í bakgrunninum.
Aðfangadagur var góður, Halli var að leika með vini sínum og fór í bíó, litlu drengirnir sváfu vært eftir hádegi til að safna kröftum fyrir kvöldið. Við Davíð fórum í eftirmiðdagsdrykk til kunningja okkar (eplacider og namibískur bjór undir stráþaki) á meðan Halli svamlaði um í lauginni þeirra með vini sínum. Ég held að Halli hafi sagt að þetta væri einmitt "perfekt" aðfangadagur!
Hér er öndin komin á matborðið og Erla og Bjarni tilbúin að hefja borðhald.
Við mæðginin að sporðrenna öndinni. Það er alveg frábært að geta borðað svona úti undir beru lofti í yndislegu umhverfi.
Drengirnir og jólatréð hvíta (n.b. að einhver hafði tekið það úr sambandi kvöldið áður þannig að það var í talsverðu stuði).
Eftir borðhald las Bjarni jólaguðspjallið fyrir okkur hin. Eftir lesturinn var hátíðleg þögn sem Stefán rauf með því að segja: Nú, auðvitað!
Stefán fékk vélmenni frá foreldrunum, ég er í bakgrunni með þennan fína safaríhatt að setja saman bílabraut sem Óskar fékk frá langömmu sinni.
Óskar fór í föt sem hann fékk frá ömmu Möggu og stillti einnig upp legói frá afa Bjarna og Erlu. Það voru allir komnir í nýjar múnderingar þegar leið á kvöldið. Það tók marga tíma að taka upp pakkana og við tókum pásu um mitt kvöld til að fara út og fá okkur heimatilbúna ísinn.
Þegar ég sagði Óskari að jólin væru alveg að koma og að hann þyrfti því að koma í fínni fötin, þá hljóp hann út að glugga til að vera viss um að sjá þegar jólin sjálf kæmu til okkar. Svo þegar jólin voru komin, þá var hann hálf skrýtinn og hélt að ég væri að reyna að plata hann því að hann hafði staðið góða vakt við gluggann. Hann varð svo bara sáttur og um kvöldið sofnaði hann með plastgrís í fanginu sem var sparibaukur sem Rósa systir og fjölskylda höfðu gefið honum. Það er gott að setja sparnað í öndvegi á þessum krepputímum.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 20:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)