Bloggfærslur mánaðarins, mars 2008
Ferðaplön
28.3.2008 | 06:20
Fyrir þá fjölmörgu sem eru að skipuleggja ferð til Namibíu í fyrirsjáanlegri framtíð, er hér veðurfarið eftir ólíkum árstímum http://www.bbc.co.uk/weather/world/city_guides/results.shtml?tt=TT000470
Fyrir tveimur dögum kólnaði umtalsvert, mér og drengjunum til gleði, en Davíð unir sér betur í hitanum en við hin. Nú er þetta alveg mátulegt fyrir okkar íslensku kroppa. Fyrir tveimur vikum fórum við á veitingastað, og þessar stórglæsilegu móttökustúlkur sem þar störfuðu, voru að gantast í drengjunum. Mér fannst þeir nú bara vera dúðaðir, enda var Stefán í langerma peysu og Óskar í síðum buxum. Þær spurðu hvort að það væri virkilega kaldara í Namibíu en á Íslandi - það hafði rignt þennan daginn og var hrollur í þeim. Davíð fullvissaði þær um það. Þær spurðu einnig hvort að drengjunum væri ekki kalt hérna. Við sögðum ekki. Svo spurði Davíð hvað þær héldu að hitinn væri hár og þær svöruðu, "örugglega ekki nema svona 35 stig!". Reyndar var hann kannski nær 25 gráðum, en við brostum út í annað og hugsuðum til suddans heima á Fróni.
Aftur að ferðaplönum, Stefán Jón hefur sett niður hugleiðingar fyrir væntanlega Afríkufara, á síðunni sinni Stefanjon.is, sem skemmtilegt er að skoða líka þegar heimsókn til Afríku "light" er á dagskránni. Sjá sér í lagi http://www.stefanjon.is/default.asp?pid=-1&id=46 Skoðið einnig http://www.namibian.org/ fyrir gistingu, og svo er netið náttúrulega fullt af gagnlegum upplýsingum.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 07:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Aðlögun
26.3.2008 | 19:49
Aðbúnaður á gistiheimilinu var hinn besti, hér eru drengirnir komnir í hitabeltið.
Við fórum með Óskar á spítalann í myndatöku og til bæklunarsérfræðings - sem er reyndar mun betri skoðun en hann fékk nokkurn tímann heima á Íslandi. Niðurstaðan var sú að hann átti að koma aftur til skoðunar, og fékk fatla, sem hann tók náttúrulega af sér við fyrsta tækifæri og notaði svo sem girðingu fyrir búfénað (s.s. úr plasti). Svo var líka hægt að nota hann sem ennisband.
Davíð fór svo í vinnuferð út á land á mánudeginum með Villa og Margréti frá aðalskrifstofunni. Ferðin sú átti að vera í viku, en var stytt vegna vatnavaxta og úrkomu í norðurhluta landsins. Villi bloggaði um ferðina, sjá færslu frá 9 mars á http://voneck.blogspot.com/
Við drengirnir eyddum því góðum stundum heima á gistiheimili. Það eru engar gangstéttir og því ekki hægt að fara í göngutúr niður í bæ eða til að skoða nágrennið. Til allrar lukku byrjaði Halli strax í eina skólanum sem hafði pláss handa honum, Windhoek International School. Hann er því miður nokkuð langt frá heimili okkar og skrifstofunni, en ekki var um margt að velja. Hann fór því í skólann á hverjum degi, og við þrenningin, Stefán, Óskar og ég eyddum gæðastundum saman. Þrátt fyrir að aðstaðan væri góð, þá var ekki mikið rými fyrir drengina að hreyfa sig. Við gátum skoðað skordýralíf sem við höfðum ekki kynnst áður, og moskítóflugurnar ásóttu mig, en létu sem betur fer drengina alveg vera.
Stefán í stuði á gistiheimilinu.
Sem betur fer kom Gulla eins og frelsandi engill og fór með okkur drengina út úr húsi. Ég gat því keypt í matinn og við fengum öll hina bestu tilbreytingu. Villi og Gulla eiga þriggja ára strák sem heitir Rúnar Atli og hann og Óskar eru orðnir hinir mestu mátar. Svo buðu Stefán Jón og Guðrún okkur í kveðjuhóf hjá sér og Gulla gaf okkur far. Strákarnir voru náttúrulega alveg á útopnu eftir innilokunina svo öllum varð nóg um hve orkumiklir blessaðir drengirnir voru.
Davíð kom svo heim á föstudagskvöld og eftir það komumst við út úr húsi að vild og allir voru voða ánægðir.
Ferðalagið
26.3.2008 | 19:02
Við flugum í gegnum London og heimalandið kvaddi okkur með viðeigandi snjókomu og kulda. Flugferðin til London gekk mjög vel og svo tók við nokkura tíma bið á Gatwick. Við fundum horn með leiktækjum þar sem drengirnir undu sér nokkuð vel, en allir voru fegnir þegar tími var kominn til að halda í næsta flug til Windhoek. Óskar tók eitt síðasta klifur á Bubba byggi bíl og datt af. Hann viðbeinsbrotnaði við fallið, en hann hafði einnig brotnað á síðasta ári svo að við vissum hvað klukkan sló. Flugferðin til Windhoek var viðburðalítil, Óskar fékk verkjalyf og allir sváfu mestan hluta ferðarinnar.
Sumir voru hressari en aðrir í vélinni.
Hér er sjúklingurinn í flugvélinni á leið til Windhoek.
Þegar til Windhoek var komið tók Villi umdæmisstjóri á móti okkur og þessu líka gífurlega magni af farangri sem okkur fylgdi. Við fórum á gistiheimili sem var bráðabirgðaheimili okkar fyrst um sinn.
Undirbúningur undir Namibíuferð
26.3.2008 | 15:01
Ekki var nú mikill fyrirvari fyrir flutningana til Namibíu og að mörgu að huga. Við fórum í sprautur, gengum frá húsinu, fórum í læknisskoðun, til Gulla tannlæknis og reyndum að hitta sem flesta til að kveðja með virktum. Svo kom auðvitað hún Gudda meistaraklippari og snyrti höfuðið á öllum fjölskyldumeðlimum til að við yrðum snyrtileg til höfuðsins í nýrri heimsálfu.
Nú eru allir orðnir flottir um hárið og spenntir fyrir að fara í flugvélina.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 15:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Nýtt blogg að fæðast
19.3.2008 | 07:19
Loksins, loksins
Nú erum við Halli búin að vera að skrá inn nýtt blogg til þess að gefa upplýsingar um fjölskylduna og lífið hér í Namibíu, eftir fjölda áskorana. Við fluttum frá Íslandi þann 29 febrúar og erum nú óðum að koma okkur fyrir.
Senn koma fleiri upplýsingar, kíkið einnig á bloggið hjá halla á haraldurbjarni.blog.is