Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda
Cape Cross
12.8.2008 | 13:21
Við keyrðum upp ströndina frá Swakopmund í Skeleton Coast þjóðgarðinum. Hér er algjör eyðimörk og engin byggð ef undan eru skildir örfáir bæir sem reyndar fara ört stækkandi. Hér er gert út á veiði af ströndinni, bæði til matar og sem skemmtun fyrir ferðafólk.
Fátækrahverfin eru gífurlega stór, enda flyst fólk þangað á hverjum degi til að leita tækifæra, þó að erfitt sé að skilja hvernig fólk á að ná að brauðfæða fjölskylduna í þessu berangurslega umhverfi.
Vegurinn frá Swakop til Cape Cross var ljómandi góður og víða hefur athafnafólk safnað steinum sem boðnir voru falir. Varningurinn var sýndur á tunnum við veginn og átti að skilja eftir pening eftir að kaupin höfðu farið fram.
Á Cape Cross er einhvert stærsta selalátur Namibíu og þarna er hægt að komast í návígi við selina til að skoða. Hér eru mikil læti og hræðilegur óþefur.
Hér má sjá drengina þrjá með selina í bakgrunni.
Það eru mikil afföll af selunum, en svart-baks sjakalar og brúnar hýenur gera mikinn usla. Um fjórðungur kópanna drepast á fyrsta árinu. Við sáum allnokkra sjakala en engar hýenur.
Selirnir eru þarna þúsundum saman, og takið einnig eftir hausunum sem eru í öldunum. Selurinn lifir á fiski sem mikið er af því að Benguela straumurinn liggur þarna upp eftir ströndinni. Namibíumenn nýta selinn og veiða hann frá apríl til nóvember þegar ferðafólk er ekki að góna á hann. Hann er býsna vel nýttur, feldurinn fer á markað í Evrópu, kynfærin á Asímarkað, kjötið til Taívan go afganginum er breytt í mjöl sem notað er í dýrafóður. Reyndar sagði einn þjóninn þar sem við gistum að kjötið væri notað í biltong, er þurrkað kjöt í pylsum sem allir hakka í sig hér. Það má kannski líkja því við harðfiskinn fyrir okkur Frónbúa, því krakkarnir koma með biltong í skólann sem nesti.
Staðurinn dregur nafn sitt af krossi sem fyrsti Evrópumaðurinn sem til Namibíu kom, reisti árið 1485 til heiðurs Jóns fyrsta Portúgalskóngi. Þýskur sjóari reif krossinn niður árið 1893 og fór með heim til Þýskalands. Þjóðverjar létu svo reisa eftirmynd strax árið eftir. Árið 1980 var krossinn svo endurnýjaður, sem stendur á sama stað og upprunalegi krossinn sem reistur var á 15. öld.
Hér stendur Halli svo við krossinn góða.
Um kvöldið gistum við í skála við Cape Cross sem var aldeilis frábær. Við vorum eiginlega hætt að telja hvað strákarnir fóru oft og blotnuðu í sjónum. Hér eru þeir að leika sér við sólarlagsbil.
Þegar maður er svona útúr, eins og í eyðimörkinni eða á ströndinni er næturhimininn ægifagur, enda engin ljós til að spilla fyrir útsýninu. Það er eins og maður detti inn í Vetrarbrautina. Við Davíð sátum og góndum til himins um kvöldið. Ég sá hvorki meira né minna en sjö stjörnuhröp og vona að óskirnar mínar rætist allar sem ein.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 14:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Stelpur á ströndu
11.8.2008 | 12:52
Við fórum á ströndina fyrir tveimur helgum. Þar var vitanlega leikið í sandinum. Þar sem strákarnir voru að leika kom hópur af stelpum sem voru að ljúka 10 bekk og voru í útskriftarferð. Þær léku sér í sjónum með strákunum og nokkrar myndir voru teknar í tilefni dagsins, enda voru þær æstar í myndatökur.
Hér er ein stúlknanna að passa Óskar.
Og hér er verið að leika í sjónum. Þó að þær eigi heima ekki svo langt frá ströndinni er líklegt að margar hafi ekki tækifæri til að sjá hann oft. Einhver þeirra bragðaði á hafinu til að athuga hvort það væri salt. Þær voru afskaplega sætar og indælar. Þegar ég var að dást að því hvað þær væru bráðfallegar og duglegar, kom Davíð með tölur um brottfall úr skóla, unglingaóléttu, eyðni og þar fram eftir götunum. Laglega þunglyndislegt það.
Stefáni fannst nóg um athyglina svo ég þurfti að halda á honum. Stelpurnar komu og klipu hann í kinnina, kysstu hann og snertu hár hans. Óskar ljómar heldur ekki beint af gleði þarna..
...og hér er hann kominn í baráttu um eignarrétt yfir sandfötunni eins og sjá má. Spurning dagsins er svo hvar er Halli á þessari mynd?
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 13:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sápukúlur
10.8.2008 | 14:06
Drengirnir blésu sápukúlur úti á verönd í gærmorgun, en Rósa frænka þeirra hafði sent þeim tilheyrandi áhöld til sápukúlugerðar frá Íslandi. Þá sendi hún einnig íslenskt nammi í pokum og drengirnir gæddu sér á hluta af því, en það var nammidagur í gær.
Hér eru myndir af strákunum á náttfötunum að blása í morgungolunni.
Við erum nú ekki búin að gera neitt markvert í dag, en hér er hálf tómlegt síðan að amman fór á fimmtudag. Davíð eldaði morgunverð, drengirnir fóru allir í bað í morgun og svo var farið í stórinnkaup í matvöruverslun og loks á veitingastað með góðu leiksvæði þar sem strákarnir fengu allir smá útrás. Nú eru Halli og Dabbi í bíói og við yngri kynslóðin erum hér heima við að dunda okkur. Erum að vinna að því að koma lestinni í gang, byggja teina og hlaða batteríin.
Hér er einn hress í Bubba byggi náttfötum í morgunsólinni.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 14:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Nýr skóli
6.8.2008 | 13:44
Síðasti dagurinn í leikskólanum hjá drengjunum var í gær. Þeir kvöddu einkaleikskóla litlu Windhoek með virktum. Hér er Óskar með leikskólamöppuna sína og kennaranum sínum, henni Kirsten.
Hér er Stefán með kennaranum sínum, henni Heidi.
Óskar var farinn að ná þýskunni, taldi eins og herforingi upp að tíu á þýsku en hikstaði hins vegar á talningunni þegar kom að því að beita íslenskunni. Eftir aðeins stutta dvöl hér spurði hann yfir kvöldmatnum - hvernig segir maður borða? Ég sagði, maður segir eat. Og barnið svaraði, nei, það heitir ESSEN. Þetta er ein af ástæðunum fyrir því að við flytjum þá yfir til alþjóðaskólans, en þar er enska vinnutungumálið og Stefán blandar síður saman þýsku, ensku, afrikans og Owambo og öllum þeim málum sem notuð voru í leikskólanum.
Í morgun mættum við svo öll í alþjóðaskólann, ég, drengirnir og amman sem einnig var viðstödd til að taka skólann út.
Hér er hersingin mætt, allir flottir með skólatöskurnar sínar. Óskari fannst það svo mikil upphefð að fara í sama skóla og Halli að hann átti erfitt með að sofna í gærkveldi.
Strákarnir fóru strax á fullt, hér er Óskar á hjóli.
Og Stefán fór að prófa sig áfram á trampólíni.
Brunabolti
5.8.2008 | 15:45
Nú segi ég blogghléi lokið. Mútta og Halli komu saman frá Íslandi við mikla lukku fjölskyldunnar. Við höfum verið önnum kafin við að ferðast og fara í skoðunarferðir og þess háttar. Ég set inn myndir frá því við tækifæri. Annars gengur lífið sinn vanagang, drengirnir þrír eru allir að byrja í alþjóðaskólanum á morgun. Um helgina var spiluð heil umferð í deildinni hans Halla og við fórum öll á völlinn. Davíð og Halli fóru rúmlega sjö þegar mæting var, en ég mætti aðeins seinna með allt liðið. Veðrið hefur tekið stakkaskiptum og er orðið fullkomið. Það var mjög gaman að horfa á leikina, þó að fjölskyldumeðlimir hafi verið mislíflegir. Stefán var ekki sáttur við hitann og gólaði svo að undirtók í öllum leikvöngunum. Okkur var ekki orðið um sel, því að fólk var farið að gefa okkur auga, líkt og við værum að pynda barnið. Óskar tók svo við þegar Stebbi tók sér pásu. Það hlýtur að vera góðs viti að börnin geti unnið svona vel saman. Davíð var svo elskulegur að bjóðast til að fara með þá heim, sem ég þáði með feginshug. Hér er herra gólmundur í stuði á vellinum. Hann er með íslandshúfu sem afi Bjarni og Erla gáfu honum frá Íslandi.
Halli spilaði með B liðinu því hann hefur ekki mætt á æfingar í sumar - hér er sko þýskur agi. Þeir lentu í fimmta sæti, og efstir af B liðunum. Svo var Halli líka varamaður með A liðinu og spilaði með þeim í undanúrslitum. Einn leikmaðurinn þar varð hálf slappur í sólinni.
Halli, sem er hér í B-liðs búningnum, var eins og eldhnöttur í framan og fékk vænt lag af sólarvörn. Móðirin gleymdist hins vegar, og ég brann ferlega. Var í þokkabót eins og pandabjörn í framan því að ég var með stór gleraugu allan daginn. Nú er þetta reyndar farið að skána og ég er orðin fallega brún, fyrir utan hálfgert sár á annarri kinninni. Maður passar sig vanalega mjög vel á sólinni, og heldur sig í skugga eða er með hatta og góða vörn. Enginn hafði séð eins fölan dreng og Halla þegar hann kom heim til Íslands frá Afríku.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 15:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Af kóki og kexi
23.7.2008 | 13:59
Hér á heimilinu er tiltölulega rólegt, að því undanskildu að Stefán er með mótþróa og vill ekki taka miðdegisblundinn sinn. Óskar sefur rótt og blítt og Davíð flaug í dagrenningu til Outapi í norður Namibíu á vegum vinnunnar. Mamma og Halli lögðu á svipuðum tíma af stað í ferðalagið frá Íslandi til Namibíu. Hér er mikil tilhlökkun að fá Halla heim og ömmuna í heimsókn í tvær vikur. Þau koma til landsins í fyrramálið.
Veðrið er orðið alveg frábært aftur, og svo virðist sem veturinn sé genginn um garð. Á kvöldin er aftur orðið sæmilega hlýtt og gott og hitinn yfir miðjan daginn er um 22 stig. Alveg mátulegt. Við höfum tekið þessari hlýnun fagnandi, en það er skrýtið til þess að hugsa að maður á efalaust eftir að sakna svalans þegar heitast verður í sumar.
Þegar við fórum um Omusati héraðið í ferðinni okkar, og í gegnum Outapi, fórum við Andrea í kjörbúð. Við útganginn situr öryggisvörður sem fer vandlega í gegnum allt í pokunum manns og merkir samviskusamlega við allar vörurnar, eina af annari, á strimlinum úr kassanum. Þetta er einnig víða gert í höfuðborginni, en þar er þó áberandi að hvíta fólkinu, sem er líklegra til að eiga peninga, er oftar hleypt í gegn athugasemdalaust. Oft er verið að leita á þeldökkum viðskiptavinum á leið út úr búðum. Búðarhnupl er nokkuð algengt, og einnig verður maður að hafa varann á því að maður rekst á það að búið er að opna pakka í búðunum, t.d. snakkpoka eða kexpakka þar sem einhver hefur verið að fá sér í svanginn inni í búðinni.
Vöruúrvalið af neysluvöru í þessari búð fyrir norðan var nú ekki mikið, en mest þó af vefnaðarvöru. Hjá drykkjunum var þó að finna sjálfa holdgervingu vestrænnar neyslumenningar, kók. Og það hálfs líters í glerflösku. Ég keypti flöskuna sérstaklega, ásamt kexi og snakki og fleiri drykkjum. Nú átti að taka heimildarmynd af kókneyslu í bílnum. Ég byrjaði á því að taka mynd af Halla með flöskuna, en það reyndist þrautin þyngri því það voru svo mikil hopp og læti í bílnum af því að við vorum að keyra holóttan vegarslóða. Þessi mynd kom best út eftir að margar tilraunir voru gerðar ...
..og svo tók ég fleiri myndir af bílstjóranum sem einnig fékk sér sopa
Fótboltastjörnur fæðast
20.7.2008 | 18:15
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 18:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Twyfelfountain
16.7.2008 | 13:15
Við keyrðum frá Opuwo niður til Twyfelfountain á einum degi. Þetta er í útjaðri Kunene héraðsins, en það er að stórum hluta illfært. Hér gefst ferðalöngum færi á að sjá villt dýr í eiginlegum heimkynnum sínum, þar sem þau ráfa frjáls um, en það eru ekki margir staðir í Afríku sem geta boðið upp á slíkt. Á flestum stöðum fara ferðalangar inn fyrir mörk þjóðgarða þegar skoða á villt dýralíf. Við sáum fjöldan allan af sebrahestum (sumir gætu hafa verið eyðimerkursebra, við vorum bara ekki nógu fróð til að þekkja þá í sundur), antílópum af öllum gerðum, strúta og svo sjakala. Stjórnun villts dýralífs þarna er mjög áhugaverð, en doktorinn getur sagt áhugasömum allt um það, þar sem hann gerði mastersrannsókn sína í auðlindafræði á þessum slóðum, einmitt um slíka stjórnun.
Við stoppuðum ekki oft á leiðinni, en hér eru Halli og Kári reyndar í stoppi við vegaskilti þar sem við snæddum nesti og gáfum ferðalangi líka í svanginn.
Landslagið breyttist mikið á leiðinni, er mjög myndrænt og opið og var oft glettilega líkt Íslandi, en maður hefur að sjálfsögðu tilhneygingu til að bera það saman við það sem maður þekkir best.
Við vorum mjög heppin en þegar við komum á áningarstað í Twyfelfountain, þá voru eyðimerkurfílar að fá sér að drekka við vatnsbólið. Þeir eru afbrigði af sléttufílum (African bush elephants), og þola þurrk sérstaklega vel. Ég las nú einhvers staðar að þeir væru líka eilítið stærri, og það þýðir væntanlega að þetta eru stærstu landdýr veraldar.
Þarna er ævintýralega fallegt.
Gististaðurinn var líka ævintýri líkastur, hér eru strákarnir að nýta síðustu geisla síðdegissólarinnar, og eru að skella sér út í sundlaugina.
Twyfelfountain þýðir ótryggur brunnur, en þarna er vatnsból sem þornaði upp yfir þurrkatímann. Staðurinn er þekktastur fyrir steinristur sem gerðar voru af San fólki fyrir um 5 til 20 þúsundum ára. San fólkið er eini hópurinn í Namibíu sem hefur stöðu frumbyggja í landinu, þrátt fyrir þann fjölda hópa sem nú byggja landið. Staðurinn er nú friðlýstur og er þetta líkt og að koma í risastórt safn sem er utandyra.
Steinristurnar segja ýmsar sögur, og hafa varðveist ótrúlega vel í allan þennan tíma. Þegar maður sér ummerki um þessa fornu menningu fer maður ósjálfrátt að velta fyrir sér stöðu San í namibísku samfélagi í dag, en þeir staða þeirra er mjög bágborin. Meira um það síðar.
Sumir höfðu nú meiri áhuga á að skoða smásteina og leika með þá en einhverjar æfagamlar myndir á steinum.
Þrátt fyrir að nú væri vetur var góður hiti þarna, enda er þetta eiginlega eins og ofn þarna í eyðimörkinni. Leiðsögukonan sagði okkur að hitinn færi yfir 50 stig á sumrin. Ég hygg að það væri nú aðeins of mikið fyrir viðkvæma Frónbúa.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 20:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Sveitaferð
13.7.2008 | 18:19
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 18:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Bakaradrengirnir
10.7.2008 | 14:50