Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2008

Staðurinn þar sem allir vilja búa


Borgin 3

Stærsta fátækrahverfið í Windhoek heitir Katutura, sem útleggst á Herero sem staðurinn þar sem enginn vill búa. Á tímum kynþáttaaðskilnaðarstefnunnar var svörtum gert að flytjast í hverfi út fyrir borgina, sem þeir nefndu Katutura. Nú, á tímum pólítísks rétttrúnaðar íhuga yfirvöld að breyta nafninu í Matutura - staðurinn þar sem allir vilja búa. Íbúarnir eru skiljanlega hrifnir af nafninu og það er í raun kannski réttnefni að vissu leyti því að til borgarinnar og Katutura flykkist á hverjum degi fjöldi fólks til að leita að atvinnu og nýjum tækifærum. Það sorglega er að hér eru lítil tækifæri, gífurlegt atvinnuleysi og þeir sem fá mestu tækifærin eru þeir sem hafa mestu reynsluna. 

 

 

Borgin 4

Byggðin teygir sig sífellt lengra í norðurátt þar sem nýjir bárujárnskofar rísa. Kofarnir eru gjarnan hin mestu hreysi, ískaldir á vetrum og kæfandi heitir á sumrum. Hér er mikið um þjófnaði og hægt er að sjá að fólk geymir hluti ofan á kofaþökunum. Um nætur heyra íbúarnir ef einhver óboðinn gestur laumar sér upp á þak, og svo er auðvelt að hafa auga með eigunum yfir daginn. Sniðug lausn.

 

 

 

 

Borgin 2

Hér búa um 160 þúsund manns. Hverfið er orðið of mannmargt fyrir skólana sem eru til staðar og því hafa tjöld verið sett upp til skólahalds. Krakkarnir eru allir snyrtilegir í skólabúningum, eins og í öðrum skólum landsins. Himinbláir útikamrar stinga hins vegar í augun.

 

 

 

 

 

Borgin 1

Hverfið er einn suðupottur menningarhópa og mikið að sjá og skoða. Lífið gengur sinn vanagang, hér eru tveir stubbar að baða sig í morgunsárið, berrassaðir í þvottabala.

 

 

 

 

 

 

borgin 9

Hér er aðstaðan hjá professional hárskera...

 

 

 

 

 

 

 

Borgin 5

og hér er viðgerðarþjónusta fyrir bifreiðar.

 

 

 

 

 

 

 

Borgin 7

Markaðurinn er að undirbúa sig undir líflegan dag, þarna voru mánaðarmót, en þegar fólk fær útborgað um mánaðarmót, þá er líf í tuskunum á markaðinum. 

 

 

 

 

 

 

Borgin 8

Grillið er þegar komið í gang á markaðinum. Nammi namm.

 

 

 

 

 

 

 


Ólympíuleikar og fleira úr daglega lífinu

Halli fór í skólann í morgun eftir að hafa verið heima í viku í flensu. Loksins þegar hann var orðinn hitalaus og átti að fara aftur, ældi hann vinstri og hægri um nóttina, svo að ekkert varð af því að hann fór þá. Það vill svo skemmtilega til að það eru teppi á gólfunum í svefnherbergjunum, svo að þrif standa enn yfir. Þegar Óskar fékk gubbupesti stuttu eftir að við komum, var það þó enn verra því að þegar það er heitt eru maurarnir svo viðbragðsfljótir að maður á í mesta basli með að ná subbinu upp áður en maurarnir eru komnir í gúmmelaðið. Ég segi bara eins og amma, ojsembarasta.

Ég hef ekki verið heldur fullkomlega hress núna síðustu tvo dagana, svo við mæðginin höfum tekið því rólega saman og m.a. horft þónokkuð á sjónvarpið. Ólympíuleikarnir hafa aðeins sett mark sitt á heimilið, og það er eins og alltaf, að manni finnst allt þetta afreksfólk taka þessu svo létt, amk. lítur það þannig út á skjánum. Ég stóð sjálfa mig að því í gær, eftir að hafa horft á frábæra íþróttakonu frá Ástralíu vinna þríþraut kvenna, að spekúlera í af hverju maður hefði bara ekki farið að æfa þríþraut, þetta væri svo asskoti skemmtileg íþróttagrein. Eftirá að hyggja er það náttúrulega alveg út í hött því að ég er og hef ætíð verið afspyrnuléleg að hjóla og er í þokkabót einnig slök í sundi. Svo kemur róður á skjáinn og maður er með sömu spekúlasjónir þar, þó að maður hafi ekki beint slegið í gegn í þau skipti sem maður fór í róður í den tid.  Það eru ekki þessar hefðbundnu íþróttagreinar sem eru að slá í gegn hér á heimilinu. Við erum helst búin að fylgjast spennt með dýfingum annars vegar og borðtennis hins vegar (og stóru strákarnir náttúrulega með þessu dæmigerða, strandblaki kvenna).  Borðtennisinn hefur kannski átt sérstöku brautargengi að fagna því að við höfum fjárfest í borðtennisborði sem við settum upp úti í garði. Þetta er mjög skemmtilegt sport, en Halla fer mjög ört fram og við hjónin keppum nánast á hverjum degi. Við erum nú kannski ekki alveg búin að ná varnartaktíkinni sem Kóreustúlkurnar á ólympíuleikunum búa yfir, en það er hins vegar gaman að fylgjast með svona góðum spilurum. Nú er Davíð farinn í fjögurra daga vinnuferð út á land og við Halli erum búin að plana æfingabúðir allan tímann því svo á að taka Dabba í bakaríið þegar hann kemur til baka. (Kannski get ég þá farið að láta mig dreyma um brautargengi Halla á ólympíuleikum í staðinn fyrir sjálfa mig... hahaha).

Leja er bara hress, en ákvað í morgun að fara að koma fyrr í vinnuna, sérstaklega til að taka annan strætó, en þessi sem hún hefur verið að taka hefur verið einn og hálfan tíma á leiðinni. Þar að auki keyrði hann á blaðasala í morgun sem að klesstist upp að framrúðinni og allir í sjokki. Enginn vissi hvort að hann var lífs eða liðinn þegar rútan fékk leyfi hjá lögreglunni til að halda rúntinum áfram.

Annars er allt við það sama, Stefán er með þreifingar í gangi varðandi það að sleppa því að ganga með bleyju. Það verða mikil tímamót og lýkur þá þriggja og hálfs árs stanslausum bleyjuskiptingum á þessu heimili (nb. Óskar var enn á bleyju þegar Stefán fæddist).  Nú er Stefán líka að ná þroska til að taka þátt í leikjum með bróður sínum, okkur foreldrunum til mikillar ánægju. 

Það eru ótrúlega margir sem spyrja hvort að yngri bræðurnir séu tvíburar. Mér finnst það skrýtið því að stærðarmunurinn er þónokkur og svo er Stefán dekkri yfirlitum með grænu augun sín, og Óskar svo ljós með himinblá augu. Maður á sjálfur erfitt með að greina á milli þeldökks fólks, þó að það komi nú smám saman. Ég sá það fyrir mér í byrjun að það yrði algjör hörmung ef ég ætti að benda á þeldökkkan sakborning í uppröðun eftir að hafa orðið vitni að smáglæp. Ég gæti eins átt að lýsa bílategund (ekki lit, ég yrði afbragðsgóð í því), eða þekkja hross. Ég man líka eftir þessu í Asíu, mér fannst allir líta eins út. Dabbi bara hló að mér og gat, eftir að hafa búið í ár í Tælandi, með léttum leik greint hvaðan fólk var. Ég yrði reyndar örugglega áræðanlegra vitni nú en fyrst þegar ég kom til Afríku.


Áframhaldandi afmæli

afmali strakar i spari

Svo var haldið pizzupartý um eftirmiðdaginn, hér eru litlu drengirnir komnir í sparifötin sín. Þeir eru óskaplega sakleysislegir og rólegir að sjá.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

afmali blasa koku

Afmælisbarnið að blása á afmæliskökuna sína, sem skartaði stubbunum. 

 

Ég pantaði afmæliskökur, tvær talsins, eina fyrir afmælispartýið og eina fyrir leikskólann. Á hvora um sig átti að skrifa Stefán 2 years. Það varð hins vegar einhver misskilningur og á aðra kökuna var ekkert skrifað og á hina var skrifað Sam 2.  Stúlkan hafði sumsé spurt hvaða nafn ætti að setja á seinni kökuna og ég hafði sagt, its the same child!! Þetta kemur ekki að sök en olli kátínu þegar ég kom með kökurnar í hús.

 

afmali vatnsbraut

Hér eru strákarnir að leika sér að vatnsbrautinni sem amma Magga gaf þeim. Takið eftir þessum frábæru sundgleraugum sem Óskar fékk. Það fengust ekki bleik, eins og hann hafði beðið um, svo að hann fékk rósrauð gleraugu í staðinn.


Afmæli!!


afmæli3
Yngstu fjölskyldumeðlimirnir eldast eins og við hin, en Stefán á tveggja ára afmæli í dag. Það var mikið um dýrðir í morgun þegar pakkarnir voru opnaðir. Hér er afmælisbarnið í Bubba byggir náttfötunum sínum, að lesa nýja Bubba byggir bók sem hann fékk frá ömmu sinni. 









afmæli1
Óskar að skoða dýrðina, en Stefán frékk kranabíl frá Rósu frænku sinni og fjölskyldunni hennar. Óskar fékk líka pakka, en hann hafði óskað sér um daginn að fá bleik sundgleraugu og það var ekki hægt annað er að verða við svo skemmtilegri bón.
 
 
 
 
 
 
 
 
 
afmæli2
Hér er Halli að spara sinn pakka. Hann fékk dót til að veiða og safna fiðrildum og skordýrum. Halli hefur verið með flensu alla vikuna og er enn með hita, þó að hann sé farinn að hressast og er kominn með lyf eftir að hafa hitt lækni í gær.
 
Nú er hálf kalt, svo að við erum ekki mikið úti í morgunsárið. Mér var hálf kalt í nótt, því að það hafði snarkólnað eftir ágætis hita undanfarið. Ef maður kíkir á spána fer þetta nú batnandi því að í nótt átti hitinn að vera 3 stig, og eftir tvo daga að hækka upp í 16 stig yfir nóttina, og að sama skapi að fara upp í 27 stig yfir daginn. Það verður alveg mátulegur hiti.
 
 
 
afmæli4
Hér er Óskar að baksa við pakka. Svo eldaði Davíð morgunverð á meðan ég setti saman vatnsbraut sem Stefán fékk frá ömmu Möggu.  Við sötruðum ferskan appelsínusafa með engifer með morgunverðinum, en safapressan var eina heimilistækið sem við tókum með okkur frá Íslandi. Hún hefur nýst vel. Við sungum afmælissönginn yfir morgunverðinum og Stefán hló og brosti út að eyrum með munninn fullan af hrærðum eggjum.
 
Síðan fengu strákarnir að nasla íslenskt nammi sem þeir höfðu fengið frá Inguló og Valdísi og núna eru þeir að horfa saman á mynd sem Stefán fékk frá afa Bjarna og Erlu. 
 
Um eftirmiðdaginn verður pizzubökunarpartý með íslenskum stíl. 

Í fótsport risaeðla

Risaeðluspor 1Frá ströndinni lá leiðin upp í land og við fórum að skoða risaeðluspor sem eru um 200 milljón ára gömul. Sporin setti risaeðla í leir við vatn, sem síðar steingerðist, svo að sporin eru vel sýnileg í dag.

Þetta er hinn fínasti göngutúr sem við komumst í eftir að hafa rætt við staðarhaldara. Mútta lagði fyrst í hann, enda efalaust best okkar í þýsku. Hún var nú ekki leiknari en svo að karlinn var orðinn urrandi vitlaus og Dabbi fór út að blíðka hann og fékk greinargóða leiðarlýsingu á enskuskotinni þýsku. Við gátum því lagt í gönguna.

 

 

Risaeðluspor

Leiðin var greið. Hér er karlpeningurinn ásamt mömmu.

 

 

 

 

 

 

 

Risaeðluspor 2

Og hér er Óskar að framkvæma rannsókn á fyrirbærinu. Þó að þónokkuð hafi fundist af risaeðlubeinum og steingervingum í heiminum, þá er mun sjaldgæfara að sjá ummerki um þær eins og hér blöstu við. Sporin voru mun minni en maður hafði búist við, ég hélt einhvern veginn að maður myndi finna gífurlegar skálar sem maður gæti lagt sig flatan í, en sporin voru frekar á stærð við mannsspor.

 

 

 

 

Risaeðluspor 4

 Stefán á leiðinni til baka, en það var gott að geta teygt úr sér eftir nokkuð langa keyrslu.


Cape Cross

 

strönd1

Við keyrðum upp ströndina frá Swakopmund í Skeleton Coast þjóðgarðinum. Hér er algjör eyðimörk og engin byggð ef undan eru skildir örfáir bæir sem reyndar fara ört stækkandi. Hér er gert út á veiði af ströndinni, bæði til matar og sem skemmtun fyrir ferðafólk.

Fátækrahverfin eru gífurlega stór, enda flyst fólk þangað á hverjum degi til að leita tækifæra, þó að erfitt sé að skilja hvernig fólk á að ná að brauðfæða fjölskylduna í þessu berangurslega umhverfi. 

 

 

 

Cape cross 7

Vegurinn frá Swakop til Cape Cross var ljómandi góður og víða hefur athafnafólk safnað steinum sem boðnir voru falir. Varningurinn var sýndur á tunnum við veginn og átti að skilja eftir pening eftir að kaupin höfðu farið fram.

 

 

 

 

 

cape cross 2

Á Cape Cross er einhvert stærsta selalátur Namibíu og þarna er hægt að komast í návígi við selina til að skoða. Hér eru mikil læti og hræðilegur óþefur.

 

 

 

 

 

 

Cape cross 1

Hér má sjá drengina þrjá með selina í bakgrunni.

Það eru mikil afföll af selunum, en svart-baks sjakalar og brúnar hýenur gera mikinn usla. Um fjórðungur kópanna drepast á fyrsta árinu. Við sáum allnokkra sjakala en engar hýenur.

 

 

 

 

Cape cross 3

Selirnir eru þarna þúsundum saman, og takið einnig eftir hausunum sem eru í öldunum. Selurinn lifir á fiski sem mikið er af því að Benguela straumurinn liggur þarna upp eftir ströndinni. Namibíumenn nýta selinn og veiða hann frá apríl til nóvember þegar ferðafólk er ekki að góna á hann. Hann er býsna vel nýttur, feldurinn fer á markað í Evrópu, kynfærin á Asímarkað, kjötið til Taívan go afganginum er breytt í mjöl sem notað er í dýrafóður. Reyndar sagði einn þjóninn þar sem við gistum að kjötið væri notað í biltong, er þurrkað kjöt í pylsum sem allir hakka í sig hér. Það má kannski líkja því við harðfiskinn fyrir okkur Frónbúa, því krakkarnir koma með biltong í skólann sem nesti.

 

 

Cape cross 4

Staðurinn dregur nafn sitt af krossi sem fyrsti Evrópumaðurinn sem til Namibíu kom, reisti árið 1485 til heiðurs Jóns fyrsta Portúgalskóngi. Þýskur sjóari reif krossinn niður árið 1893 og fór með heim til Þýskalands. Þjóðverjar létu svo reisa eftirmynd strax árið eftir. Árið 1980 var krossinn svo endurnýjaður, sem stendur á sama stað og upprunalegi krossinn sem reistur var á 15. öld.

 

 

 

 

 

 

 

Cape cross 5

Hér stendur Halli svo við krossinn góða.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Cape cross 6

Um kvöldið gistum við í skála við Cape Cross sem var aldeilis frábær. Við vorum eiginlega hætt að telja hvað strákarnir fóru oft og blotnuðu í sjónum. Hér eru þeir að leika sér við sólarlagsbil. 

 

Þegar maður er svona útúr, eins og í eyðimörkinni eða á ströndinni er næturhimininn ægifagur, enda engin ljós til að spilla fyrir útsýninu. Það er eins og maður detti inn í Vetrarbrautina. Við Davíð sátum og góndum til himins um kvöldið. Ég sá hvorki meira né minna en sjö stjörnuhröp og vona að óskirnar mínar rætist allar sem ein.


Stelpur á ströndu

 

hendur 4

Við fórum á ströndina fyrir tveimur helgum. Þar var vitanlega leikið í sandinum. Þar sem strákarnir voru að leika kom hópur af stelpum sem voru að ljúka 10 bekk og voru í útskriftarferð. Þær léku sér í sjónum með strákunum og nokkrar myndir voru teknar í tilefni dagsins, enda voru þær æstar í myndatökur. 

Hér er ein stúlknanna að passa Óskar. 

 

 

 

  

hendur 3

Og hér er verið að leika í sjónum. Þó að þær eigi heima ekki svo langt frá ströndinni er líklegt að margar hafi ekki tækifæri til að sjá hann oft. Einhver þeirra bragðaði á hafinu til að athuga hvort það væri salt. Þær voru afskaplega sætar og indælar. Þegar ég var að dást að því hvað þær væru bráðfallegar og duglegar, kom Davíð með tölur um brottfall úr skóla, unglingaóléttu, eyðni og þar fram eftir götunum. Laglega þunglyndislegt það.

 

 

 

hendur 1

Stefáni fannst nóg um athyglina svo ég þurfti að halda á honum. Stelpurnar komu og klipu hann í kinnina, kysstu hann og snertu hár hans. Óskar ljómar heldur ekki beint af gleði þarna..

 

 

 

 

 

hendur 2

...og hér er hann kominn í baráttu um eignarrétt yfir sandfötunni eins og sjá má. Spurning dagsins er svo hvar er Halli á þessari mynd? 


Sápukúlur

 

Bubbles 3

Drengirnir blésu sápukúlur úti á verönd í gærmorgun, en Rósa frænka þeirra hafði sent þeim tilheyrandi áhöld til sápukúlugerðar frá Íslandi. Þá sendi hún einnig íslenskt nammi í pokum og drengirnir gæddu sér á hluta af því, en það var nammidagur í gær.

Hér eru myndir af strákunum á náttfötunum að blása í morgungolunni.

 

 

 

 

 

 

Bubbles 2

 

Við erum nú ekki búin að gera neitt markvert í dag, en hér er hálf tómlegt síðan að amman fór á fimmtudag. Davíð eldaði morgunverð, drengirnir fóru allir í bað í morgun og svo var farið í stórinnkaup í matvöruverslun og loks á veitingastað með góðu leiksvæði þar sem strákarnir fengu allir smá útrás. Nú eru Halli og Dabbi í bíói og við yngri kynslóðin erum hér heima við að dunda okkur. Erum að vinna að því að koma lestinni í gang, byggja teina og hlaða batteríin. 

 

 

Bubbles 1

Hér er einn hress í Bubba byggi náttfötum í morgunsólinni.


Nýr skóli

Klein Windhoek Kindergarten 1Síðasti dagurinn í leikskólanum hjá drengjunum var í gær. Þeir kvöddu einkaleikskóla litlu Windhoek með virktum. Hér er Óskar með leikskólamöppuna sína og kennaranum sínum, henni Kirsten.

 

 

 

 

 

 

 

 

Klein Windhoek Kindergarten 2

Hér er Stefán með kennaranum sínum, henni Heidi.

 

 

Óskar var farinn að ná þýskunni, taldi eins og herforingi upp að tíu á þýsku en hikstaði hins vegar á talningunni þegar kom að því að beita íslenskunni. Eftir aðeins stutta dvöl hér spurði hann yfir kvöldmatnum - hvernig segir maður borða? Ég sagði, maður segir eat. Og barnið svaraði, nei, það heitir ESSEN. Þetta er ein af ástæðunum fyrir því að við flytjum þá yfir til alþjóðaskólans, en þar er enska vinnutungumálið og Stefán blandar síður saman þýsku, ensku, afrikans og Owambo og öllum þeim málum sem notuð voru í leikskólanum. 

Í morgun mættum við svo öll í alþjóðaskólann, ég, drengirnir og amman sem einnig var viðstödd til að taka skólann út.

 

WIS 1

Hér er hersingin mætt, allir flottir með skólatöskurnar sínar. Óskari fannst það svo mikil upphefð að fara í sama skóla og Halli að hann átti erfitt með að sofna í gærkveldi.

 

 

 

 

 

 

WIS 2

Strákarnir fóru strax á fullt, hér er Óskar á hjóli.

 

 

 

 

 

 

 

WIS 3

Og Stefán fór að prófa sig áfram á trampólíni.

 


Brunabolti

Nú segi ég blogghléi lokið. Mútta og Halli komu saman frá Íslandi við mikla lukku fjölskyldunnar. Við höfum verið önnum kafin við að ferðast og fara í skoðunarferðir og þess háttar. Ég set inn myndir frá því við tækifæri. Annars gengur lífið sinn vanagang, drengirnir þrír eru allir að byrja í alþjóðaskólanum á morgun. Um helgina var spiluð heil umferð í deildinni hans Halla og við fórum öll á völlinn. Davíð og Halli fóru rúmlega sjö þegar mæting var, en ég mætti aðeins seinna með allt liðið. Veðrið hefur tekið stakkaskiptum og er orðið fullkomið. Það var mjög gaman að horfa á leikina, þó að fjölskyldumeðlimir hafi verið mislíflegir. Stefán var ekki sáttur við hitann og gólaði svo að undirtók í öllum leikvöngunum. Okkur var ekki orðið um sel, því að fólk var farið að gefa okkur auga, líkt og við værum að pynda barnið. Óskar tók svo við þegar Stebbi tók sér pásu. Það hlýtur að vera góðs viti að börnin geti unnið svona vel saman. Davíð var svo elskulegur að bjóðast til að fara með þá heim, sem ég þáði með feginshug. Hér er herra gólmundur í stuði á vellinum. Hann er með íslandshúfu sem afi Bjarni og Erla gáfu honum frá Íslandi.

ramblers

 

Halli spilaði með B liðinu því hann hefur ekki mætt á æfingar í sumar - hér er sko þýskur agi. Þeir lentu í fimmta sæti, og efstir af B liðunum. Svo var Halli líka varamaður með A liðinu og spilaði með þeim í undanúrslitum. Einn leikmaðurinn þar varð hálf slappur í sólinni.

 

 

 

 

ramblers 2

Halli, sem er hér í B-liðs búningnum, var eins og eldhnöttur í framan og fékk vænt lag af sólarvörn. Móðirin gleymdist hins vegar, og ég brann ferlega. Var í þokkabót eins og pandabjörn í framan því að ég var með stór gleraugu allan daginn. Nú er þetta reyndar farið að skána og ég er orðin fallega brún, fyrir utan hálfgert sár á annarri kinninni. Maður passar sig vanalega mjög vel á sólinni, og heldur sig í skugga eða er með hatta og góða vörn. Enginn hafði séð eins fölan dreng og Halla þegar hann kom heim til Íslands frá Afríku. 

 

 

 

ramblers 4
Hér er Halli með A liðinu, þjálfurunum og liðinu sem vann þessa umferð deildarinnar.












ramblers 3
Á þessari mynd er hann í marki að leika við einhverja félaga.



Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband