Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2010

Gestir komnir óhultir úr öskuskýinu

Gestirnir okkar, Siva og Jói eru komin í hús og búin að þvælast hingað og þangað í nágrenni borgarinnar. Komu þeirra seinkaði bara um einn dag vegna ösku, og þykir það nú nokkuð gott. Þau eru að aðlagast vel, enda er veðrið svalt og lítil fluga. Siva leit vel út í morgun þar sem hún skeiðaði upp götuna með piparsprey í hendi í morgunskokkinu, og núna er parið niðri í bæ. Á morgun förum við öll í ferð til Kunene að skoða vatnsmál og þá niður til strandar, með Helgrindarströnd, en þá leið hef ég aldrei farið. Núna er ég að undirbúa brottför því að við verðum að vera tilbúin í fyrramálið.

Ég er búin að vera á hlaupum í morgun, koma drengjunum í skólann, kaupa inn fyrir heimilið, fara í frönskutíma, taka viðtal og fara með Óskar til læknis annan daginn í röð. Við hjónin erum nú byrjuð í frönskutímum til að dusta rykið af því tungumálinu. Það er bráðskemmtilegt, en kennarinn er frá Kongó. Ég var staðföst í þeim áætlunum mínum að byrja tungumálanám þegar ég flutti hingað, og svo eru tvö ár liðin áður en maður veit af, og frönskukunnáttan jafn slök og í byrjun. Nú á að bæta úr, enda eins gott því að Halli er að verða nokkuð sleipur í frönsku og þá er nú ágætt fyrir foreldrana að geta spjallað við hann með eilítilli reisn.

Í búðinni rakst ég á kunningjakonu mína sem er að fara að flytja til Mongólíu. Nú erum við búin að vera nógu lengi hér til að sjá á eftir fólki úr alþjóðasamfélaginu, en þessi hópur flytur á 2ja til 4ra ára fresti og vinnur gjarnan í ólíkum heimshlutum. Enda er hér bráðgaman í samkvæmum því að maður nær að kynnast fólki sem hefur búið á öllum útkjálkum alheimsins. Næstu vinahjón fara með sumrinu en þau flytja til Kaíró.

Halli er að gera þetta heljarinnar verkefni fyrir bekkjarsýningu í skólanum, en hann tekur fyrir Grænland, umhverfismál og endurvinnslu. Hann hefur verið vakinn og sofinn yfir verkefninu, enda þurfti hann að ljúka mestu nú áður en við förum í ferðalagið því að sýningin er daginn eftir að við komum til baka. Ég mun festa árangurinn á filmu. Ég hef einnig verið vakin og sofin yfir mínu verkefni, og því er slegist um tölvuna. Við vorum svo hagsýn að við endurnýjuðum bara eina tölvu af tveimur eftir að þeim var stolið, en við verðum reyndar að bæta úr því fljótlega. Ég set nú ekki inn færslur í rúma viku - óbyggðirnar kalla.


Glæpavaktin

Í hlaupunum var alltaf fastur liður að gefa stöðu mála af glæpum borgarinnar, á mánudagsmorgnum. Hér eru sífelld innbrot, enda er mikill viðbúnaður, alls staðar rimlar fyrir gluggum, gadda- og rafmagnsgirðinga, þjófavarnarkerfi og stundum vaktmenn. Ein vinkona mín var með einn slíkan, enda er eiginmaðurinn mikið að ferðast og hún ein heima með tvö stálpuð börn. Þegar hún var búin að koma að honum þrisvar þar sem hann var að nýta sér útisturtuna um miðja nótt, þá var vaktmanninum sagt upp. "Hvernig á hann að vera að handsama innbrotsþjófa, svona berrassaður og allur löðrandi í sápu?" Það eru kannski ekki margar góðar sturtur í fátækrahverfinu, svo að hann hefur verið glaður að nýta sér tækifærið og fá sér góðan þvott. 

Það eru margir sem að telja að öryggisfyrirtækin séu gjarnan veikasti hlekkurinn í öryggi borgaranna, þeir vakti húsin og viti staðhætti. Þetta fyrirtæki sem hafði sent gæslumanninn til vinkonu minnar hefur nú verið lagt niður, þar sem tveir starfsmenn skutu eigandann og drápu þegar hann var að koma með útborgunina fyrir mánuðinn til að borga út.

Önnur kona sem ég frétti af var orðin langþreytt á innbrotum, enda búið að brjótast þrisvar sinnum inn í húsið hennar á jafn mörgum vikum. Og eiginmaðurinn alltaf í burtu. Sú fór og fjárfesti í byssu. Gleymdi reyndar að fá kennslu í að skjóta. Og viti menn, þá var brotist inn um miðja nótt og hún réðst til atlögu við þjófinn sem átti fótum fjör að launa. Nú getur hún stolt sýnt gestum holur í veggjum eftir byssukúlur, sem eru reyndar ekki í neinu samræmi við för þjófsins. Maðurinn hennar gerði byssuna samstundis upptæka, og þakkaði reyndar fyrir að frúin hefði ekki verið betur þjálfuð því að hún hefði efalaust murkað líftóruna úr einhverjum ógæfumanni úr fátækrahverfinu þar sem hann var að flýja út garðinn.

Það er skeinuhætt að vera yfirmaður. Vinur okkar átti ekki í baráttu við innbrotsþjófa, heldur við undirmenn sína. Hann er yfir starfsemi alþjóðlegs námufyrirtækis í Namibíu sem stendur í leit að góðmálmum. Hann hafði tekið eftir að undirmennirnir voru fingralangir, og var farinn að skrá hvað hvarf og þess háttar til að safna gögnum til að geta skotið málinu til lögreglu. Undirmennirnir fengu hins vegar pata af þessu og vildu náttúrulega redda málum. Þeir stungu maríhjúana undir bílsætið hjá honum þegar hann var á leið til borgarinnar. Hann vissi ekkert hvaðan á sig stóð veðrið þegar floti lögreglumanna tók á móti honum á næsta lögreglustoppi (starfsmennirnir höfðu sumsé hringt í lögregluna til að vera vissir um að dótið myndi finnast). Honum var stungið í fangelsi, og var ansi brugðið, og lætur sé þó fátt fyrir brjósti brenna. Málinu er nú að ljúka með lítilli sekt.

Núna, núna!

Merkilegur þessi afríski tími. Ég botna hvorki upp né niður í honum. Línulaga, hringlaga, hvernig sem það er. Leja getur ekki skilið að það sé ekki góð hugmynd að ferðast 500 km. út úr borginni á sunnudegi, þegar hún á að vinna á mánudegi. Sunnudagur er sunnudagur og þá er frí. Enda er áætlanagerð víða ábótavant. Þið getið rétt ímyndað ykkur hvernig ástandið er á iðnaðarmönnum, sem hafa þetta einstæða tímaskyn sem iðnaðarmenn um allan heim deila, þegar svo afríski tíminn bætist þar ofaná.

Útkoman úr grunnskólaprófunum var hrikaleg, þrátt fyrir að vonir stæðu um að útkoman yrði örlítið skárri en í fyrra. Hún var sérstaklega slæm í Kavango héraði þar sem héraðsstjórinn kom í sjónvarpinu og var sérstaklega búinn að greina ástæðurnar. Það þyrfti að gera sérstakt átak í því að láta kennara, og svo líka nemendur mæta í skólann. Takið eftir að kennararnir koma fyrst. Sama vandamál er hér á háskólastigi. Kennararnir geta ekki mætt, og kenna margir afrískum tíma um.

Afrískur tími kemur einnig fram í talmálinu. Hér er aðeins öðruvísi skilningur á "núna". Það er ekki núna eins og við þekkjum. Ef þú ætlar að segja núna í Namibíu, þá segirðu frekar "núna, núna", eða "now, now". "Ég er að fara núna núna". Það þýðir frekar núna, ekki á eftir, ekki í kvöld, ekki á morgun, ekki seinna, ekki einhvern tímann.

Vinkona mín var að koma úr brúðkaupi nú rétt áðan. Mætti í kirkjuna á settum tíma og var að undra sig á hvað fáir væru mættir (hún er þýsk, svo að þið getið ímyndað ykkur andstæðurnar). Svo leið og beið í þrjár klukkustundir, og ekki var brúðurinn mætt. Brúðguminn var reyndar mættur á staðinn, svo að þetta mjakaðist allt í rétta átt. Vinkona mín hvarf frá vegna svengdar og ákvað frekar að fá sér hádegismat með eiginmanninum, sem hafði ætlað að fara til Evrópu en flugið hans frestaðist vegna eldgossins okkar. Brúðurinn var á leið til kirkju þegar vinkona mín var að fara frá kirkjunni.

Við höfum fylgst agndofa með fréttum frá Fróni. Á flugvelli einum í Bretlandi var tekið viðtal við önnur nýbökuð brúðhjón. Brúðirin hékk hágrátandi (hryllileg sjón, grátbólgin og vælandi, það hvarflaði að mér að manngarmurinn hlyti að vera með smá bakþanka) utan á eiginmanninum, en þau höfðu átt bókað flug til Mexíkó til að fara í brúðkaupsferð. Núna núna. Fólk er orðið svo vant því að nútímatæknin færi því allt sem það vill núna núna, og á bágt með að skilja að móðir Náttúra fari enn með völdin. Generation now, eins og segir í laginu góða. Þetta eru trúlega hinar öfgarnar við hinn afríska tíma. Á Íslandi var annað hljóð í fólki. "Þetta eru náttúruhamfarir og ekkert við því að gera". Það er ágætt að Íslendingar haldi enn tengslum við veruleikann. 


Mr. Sandman

Hér er ein góð af Halla eftir dune boarding í eyðimörkinni.mr_sandman.jpg

 


Óskar 5 ára!


Afmælispælingar

Nú er svalt því rigningin hellist yfir okkur. Stebbi, the rain man, fer út í rigninguna að sprella nakinn.

Óskar verður fimm ára á morgun. Í tilefni dagsins var taflið tekið fram og Óskar (með lítils háttar hjálp frá móðurinni) tefldi í fyrsta sinn við Halla bróður sinn. Það gekk vonum framar. Hann er mjög spenntur og er búinn að bjóða öllum bekkjarfélögum og vinum í afmælið sitt sem haldið verður á kaffihúsi á morgun.

Halli situr við heimavinnuna, sem sat á hakanum vegna taflmennsku í dag. Hann er að skrifa um umhverfistengd orð, eins og vermiculture (sem er reyndar allgjör snilld, ef einhver hefur áhuga).

Dabbi sprangar um húsið í afmælisgjöfinni sinni, en hann fékk trail running skó í afmælisgjöf (í nóvember). Nú loks voru einir til í hans stærð í borginni, en við höfum haft vakandi auga á lagernum í helstu íþróttaverslunum bæjarins. Þessir eiga eftir að koma að góðum notum, en við fórum einmitt í 10k utanvegaskokk í gærmorgun, og þá er gott að hafa viðeigandi skóbúnað. Svo er bara að reyna þá á íslenskum fjallastígum í sumar.

Afmælisgjafirnar fyrir morgundaginn eru allar komnar í hús. Við þurftum nánast áfallahjálp við að sjá verðið á leikföngunum í verslunum hér; hér er hægt að fjárfesta í einfaldri bílabraut fyrir um 60 þúsund kall, eða þá playmo kassa á 18 þús. Álagningin á vönduðum leikföngum er hrikaleg, maður þekkir þetta þó frá Íslandi, svo að áfallið gæti kannski verið enn meira. Ég hafði einmitt stungið upp á blokkflautu og skáksetti handa blessuðum prinsinum, og í kjölfarið sagði eiginmaðurinn að ég væri "sjúklega boring", svo að sem betur fær barnið eitthvað meira spennandi. Enda gróf ég upp skáksett í einhverju gömlu spilasetti, sem notast var við í dag.


Ferðamyndir


Týnd í óbyggðum

Gleðilega páska! Við erum komin heim úr suðurferðinni. Við vorum tvær nætur í Namib Rand friðlandinu í suðvesturhluta landsins, í Namib eyðimörkinni. Þar leigðum við gamalt bóndabýli á afskekktum stað, ásamt annarri fjölskyldu. Húsið var með rennandi vatni en ekki rafmagni, sem bara jók á sjarmann. Eins og alltaf úti í eyðimörk er stjörnuhimininn ótrúlegur, og svo var nánast fullt tungl, sem lýsir ótrúlega vel yfir nóttina. Þarna er ógnarfagurt en ógnarheitt líka yfir hádaginn. Við fórum í dune surfing, sem eru brettaferðir niður sandöldur. Það fór misvel í drengina, Óskar fékk fullt af sandi í augun og móðirin þeyttist með Stebba greyjið inn í þyrnirunna. Halli fann sig betur.Lestarstöð

Við fórum einnig í ökuferð í friðlandinu til að skoða okkur um. Á þriðja degi var svo farið í maraþon fjallgöngu með allt liðið, sem endaði með því að ég hljóp heim í hús að sækja bílinn, enda var hitinn að verða yfirþyrmandi. Svo tók við heljarinnar keyrsla niður í Fish River Canyon. Þetta er eitthvert strjálbýlasta svæði veraldar. Ef ég nota Dabba orð "bara ekkert að gerast... bara nákvæmlega ekki neitt". Í norðurhlutanum er maður gjarnan að keyra í gegnum þorp þar sem er mannlíf, en þarna var nú ekki mikið um það. Þessi lestarstöð sem er á myndinni er kannski lýsandi fyrir umhverfið, þarna liggja teinarnir í gegn en ekki mannhræðu að sjá svo langt sem augað eygir.

Við gistum í litlum kofa sem var byggður inn í bergið, ótrúlega flott hönnun. Þarna var sami rosalegi hitinn. Ég var einmitt að dást að því að hafa verið svo forsjál að pakka langerma peysum, buxum og svo náttúrulega flíspeysum. Við hefðum fengið hitaslag með það sama ef þær hefðu verið notaðar, en ég sá fyrir mér að við værum komin svo sunnarlega að það yrði hrollkalt. Svo var farið í fjallgöngu daginn eftir, farið að skoða gljúfrin og þá haldið í áttina að Windhoek.

 LostVið stoppuðum til að skoða quiver skóg og svo leiksvæði risanna, en þar eru ótrúlegar steinmyndanir. Okkur tókst að villast þar, og hér lauma ég inn einni mynd þar sem kemur svo innilega berlega í ljós hvað við erum villt, ég og Halli bæði gapandi í ólíkar áttir að reyna að finna leiðina til baka. Halli bjargaði deginum með því að klifra upp á steinstrýtu og fann þannig bílastæðið. Við vorum alveg komin á síðasta snúning með að komast í náttstað fyrir myrkur.

Það hafðist þó, en núna var gist í Kalahari eyðimörkinni. Þar er efalaust hægt að ráfa um í heila lífstíð og aldrei hitta neinn.  Við komum svo til Windhoek á páskadag þar sem strákarnir gæddu sér á litlum, íslenskum páskaeggjum sem Ágústa kom með færandi hendi frá Íslandi í síðustu viku. Ferðamyndir koma inn á síðuna fljótlega.

Helsta nýjungin í þessari ferð var að íslensku barnalögin og leikritin fengu að fjúka og í staðinn sá Halli um tónlistina. Þetta olli því að nú eru Óskar og Stefán að syngja búmm búmm pá og amma bí. Við erum sumsé öll komin með nýmóðins tónlist á heilann eftir þennan tíma. Mest með Black Eyed Peas.

Nú sitja Dabbi og Halli inni í stofu, þar sem Halli er að fara yfir vinsældalistana í tónlistarmyndböndunum með föður sínum:

Dabbi: heyrðu, já, þetta er hún Lady Gaga, hún er nú með mjög fjölbreytta og skemmtilega tónlist. Dálítið sniðug stelpan......... hvur fja.... ERLA?! Hefðurðu séð....
Móðirin kallandi frá skrifstofunni: Ha? Ertu að tala um myndböndin hjá Lady Gaga? Hvað þau sýna mikið hold? Blessaður vertu, foreldrar um allan heim eru að loka á þetta fyrir börnin.
Dabbi: Já, Halli, ég skipti um rás, ég held að þetta sé ekkert fyrir þig (Alicia Keys fer að hljóma í staðinn.. í smá stund.... svo heyri ég í Lady Gaga aftur)
Dabbi: Heyrðu, Halli, hún er nú bara ekki í neinu... og þarna er Beyoncé líka... já, hún er rosalega sæt... hva, hún Lady gúgú er bara alveg steikt, þetta er nú meira ruglið hjá henni... skemmtilegir þessir tónlistarmenn sem eru svona steiktir...


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband