Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2008

Braai á laugardegi

 

Dabbi braai meistari

 Við grilluðum upp á namibískan máta í hádeginu á laugardaginn var. Við erum komin á fætur svo snemma, þeir fyrstu kl. hálf sex, svo að morguninn verður ansi drjúgur. Við ákváðum því að skella á grillið í hádeginu í stað þess að geyma það til kvölds. Klukkan hálf tíu var því kveikt upp í viðnum, en úr honum eru gerð kol sem svo er grillað á, svo að þetta ferli tekur tímana tvo. Þetta heitir braai, sem kemur úr afrikaans, en hægt er að lesa um þetta allt saman á wikipedia, sjá http://en.wikipedia.org/wiki/Braai  

 

Hér er Dabbi braaier, grillmeistarinn að kveikja upp í kolunum.

 

 

   

Kjöt á grillinu

 Svo, tveimur tímum seinna er kjötið komið á grillið. Hér er dæmigert kjötmeti á grillinu. Þar ber fyrst að nefna porkbellies, sem fara mjög vel með bragðlaukana, en ekki eins vel með línurnar. Dabbi talaði mikið um porkbellies þegar hann kom frá Namibíu um árið, og nú er ég alveg jafn upprifin yfir þessu feitmeti. Svo eru náttúrulega boerewors, eða búapylsa, sem komu fyrst frá Hollandi fyrir 200 árum. Hér er negull og múskat áberandi í kryddinu, og einnig í þessum pylsum. Þær eru ljúffengar og renna vel niður í drengina. Svo eru einnig nokkrar góðar nautasteikur, þannig að allir finna eitthvað við sitt hæfi. 

 

 

Sest að snæðingi

 Kjötið kaupi ég hjá slátraranum á horninu, þar sem kjötið er afbragðsgott, en einnig ódýrt. Þetta kostaði allt saman um 700 kr. íslenskar.  

Svo var náttúrulega sest að snæðingi úti undir beru lofti. Stefán fékk þennan forláta barnastól um daginn sem hann situr í á myndinni.


Sumarsól

Nú er sumarið víst að skella á heima á Fróni. Hér er farið að kólna, þó að það hafi hlýnað aðeins núna eftir kalda viku. Nú virðist regntímabilinu vera lokið og himininn er heiður og blár. Nú verður ekki skýjað fyrr en regntímabilið nálgast aftur. Nú er veðráttan mjög góð hjá okkur.

Helgin er byrjuð hjá okkur og allir í afslöppun. Óskar horfir á Tinna í sjónvarpinu og Stefán er að gæða sér á snúð úr bakaríinu. Hér er mikið um bakkelsi og bakaríisgotterí. Berlínarbollurnar eru mjög vinsælar á heimilinu og eplaumslög einnig. Dabbi situr úti í sólinni og les eitthvert vitsmunalegt fóður fyrir sálina.

Ég kíki við og við á fréttir úr nágrenninu, þær eru nú oft með öðru sniði en heima:

http://www.namibian.com.na/2008/April/national/08FD3C6558.html

Það er mikið á blessuð börnin lagt þegar þau búa við kröpp kjör. Svo er nú áhyggjuefni að fótbolti er í krísu í Nabibíu, en þeir hafa ekki leikvang til að hafa heimaleiki í forkeppni að heimsmeistarakeppninni sem verður í Suður Afríku árið 2010. Þeir hafa heldur ekki fjármuni til að halda leikina í nágrannalöndunum, svo að þetta er snúið mál. Og svo voru einnig mótmæli gegn kínverjum og vopnflutningum þeirra. Það vantar víst tól til þróunar, en ekki stríðstól segja þeir. Um þetta og margt fleira er hægt að lesa í The Namibian.

Leia er að ganga frá og búast til heimferðar. Hún býr nokkuð frá og tekur leigubíl heim, en strætó í vinnuna á morgnana. Strætisvagnarnir eru oft troðnir á álagstímum, og Óskar fylltist áhuga þegar við vorum að fara í búðina um daginn og strætó fór hjá. Örugglega um 100 manns í honum. Óskari fannst tilvalið að skella sér þó að ég væri ekki alveg jafn áhugasöm. Svo þegar við vorum að koma út, var einn slíkur að renna út af stoppistöðinni og Óskar sagði með rósemd. "Jæja mamma, við erum víst búin að missa af stætó núna. Við verðum bara að taka hann seinna." Mér létti nú við að sjá hann hverfa. Við munum víst hafa nógan tíma til að plana strætóferð.

Svo af heimilismálum, mér urðu á þau leiðu mistök um daginn að kaupa einfaldan klósettpappír, við litla hrifningu. Ég streittist á móti þegar átti að kaupa nýjan sem væri tvöfaldur og mjúkur og hvítur eftir því, enda sparsöm og nýtin að eðlisfari. Það var ekki fyrr en Óskar sagði, eftir að móðir hans hafði skeint honum, "Hryllilefa eretta óþæfilett", að ég keypti aðra tegund sem hentaði betur botnum heimilisfólks.

Óskar er nefninlega mjög skýrmæltur og skýr í alla staði, segir err og ess með glans en honum hættir hins vegar til að setja "f" í stað "g" þegar hann talar. Hér kemur samtal úr baksætinu á milli Halla og Óskars frá Íslandi:

Ó: Hvar á amma heima?
H: Það heitir Sogavegur
Ó: Sofavefur?
H: Nei, Sogavegur
Ó: Já, Sofavefur
H: Sogavegur!!
Ó: É safði þa
H: SEGÐU SO-GA-VEG-UR
Ó: So-fa-vefur. Sofavefur!

Halli greyjið gafst upp. Annars er þetta bara gott nafn á götu, gæti verið tilvalið fyrir letihauga og svefnsjúklinga. Eða sólardýrkendur. Gleðilegt sumar.


Fótboltamót

Í gær fórum við fjölskyldan á fótboltamót með Halla, en það var spiluð heil umferð í deildinni hans. Það er gott að fá tilefni til að fara eitthvað út af heimilinu með skarann. Því var nesti pakkað niður í kælibox og við fórum á tveimur bílum. Ég keyrði litlu drengina og kom aðeins seinna en Halli og Dabbi og fór einnig fyrr heim til að þeir fengju að sofa heima í bólunum sínum.

Við sáum svo fótboltalið koma á staðinn úr fátækrahverfinu, en það var á ævagömlum mözdu pallbíl. Allt heila liðið var uppi á palli, 10 stykki strákar. Mótið var mjög skemmtilegt, en það er ekki jafn fjörugt á áhorfendapöllunum og á Íslandi. Á síðasta leik voru búar bakvið mig og afrikans er svo hljómlík íslenskunni að ég sneri mér margsinnis við til að athuga hvort að það væru Íslendingar mættir á svæðið. Svo er fólk bara í rólegheitum í skugganum og borðar nestið sitt og slappar af.

Hádegissólin er ansi sterk. Við bárum sólaráburð af kappi á Halla, en hann er samt smá brunninn í framan og á hnésbótunum þar sem sokkunum sleppti. Hér mættu líka lið utan af landi og af ólíkum uppruna. Þau voru því ákaflega ólík liðin, Halla lið sem að mestu er skipað krökkum af þýskum uppruna og margir glókollar eins og hann, og svo t.d. lið utan af landi og annað úr fátækrahverfunum. Maður var svo upptekinn að sjá um drengina að lítið var um myndatökur. Fer í það á næsta móti, en við erum strax farin að hlakka til að fara út á land að keppa. Það væri frábært að fanga stemninguna, en þeir eru nýbyrjaðir með krakkabolta og -deild hér.

Sumir eru líka betur búnir en aðrir, sum liðin eru í fínum búningum og önnur í áprentuðum stuttermabolum. Þeir eru lika ansi smávaxnir margir í þessum liðum, einn drengurinn var vart mikið stærri en Óskar, þó að hann væri trúlega 8 ára og bolurinn náttúrulega allt of stór, og þá voru fótboltskórnir einnig a.m.k. þremur númerum of stórir. Þeir eru dýrmætir og ganga frá einum til annars. Og leikgleðin er nú ekki síðri. Þetta lið sigraði einn af sínum leikjum og allt ætlaði um koll að keyra af fögnuði. Okkar menn, eða okkar krakkar öllu heldur stóðu sig vel (það er ein stelpa í A-liðinu) og enduðu í þriðja sæti.

Þetta var mjög gaman og allir, þó sérstaklega Halli, voru sólbrenndir og þreyttir eftir daginn. 

Glókollurinn á mótsstað

 Hér er glókollurinn Halli á mótsstað. 

 

 


Með öryggið á oddinn..

Nú er kominn tími fyrir nokkrar línur úr suðrinu. Hér er misskipting auðsins mikil og hluti af hvíta samfélaginu sem lifir eins og blóm í eggi í fínum húsum á meðan flestir eru í fátækrahverfum og búa í bárujárnskofum.

Húsin hér eru vel varin með þjófavarnarkerfum og gaddavír og rafmagnsgirðingum og fleiru. Eiginlega brynvarin. Og samt hef ég ekki lesið neitt um að hér séu innbrot algengari en gerist og gengur annars staðar. Hins vegar las ég að þessar gaddagirðingar hefðu tíðkast lengi í Suður Afríku og fyrst og fremst vegna áhrifa þaðan hefðu þær verið teknar upp hér í borginni. (verð að taka fram að þetta er reyndar svipað í öðrum borgum Afríku, svo að ég læt liggja milli hluta hvaðan þessi praktík kemur). Dabbi og Halli eru búnir að sprengja þrjá bolta á gaddavírnum sem er utanum garðinn okkar. Ekki er gaddavírinn alslæmur, því að hún Leia er skapandi þegar klemmurnar á þvottasnúrunum eru búnar, og þá hengir hún sokka og nærföt á gaddavírinn til að þurrka þau í sólinni.

Mörg heimili hafa líka varðhunda og um páskana þegar margir lögðust í ferðalög út úr bænum, þá var vart hægt að sofa fyrir hávaða því að hundarnir kölluðust á í samfelldri sinfóníu gelts um alla borg.

Við komum með barnabílstóla að heiman, enda ekki lögbundið að vera með börn í bílstólum, að mér skilst. Börn eru oft laus og liðug og jafnvel uppi á palli, en margir ferðast á pallbílum og með fjölda manns aftaná. Herdís Storgaard yrði í samfelldu áfalli ef hún væri hér í umferðinni. Meira um umferðina síðar..


Afmæli 9. apríl

Óskar átti afmæli í vikunni og það var mikill spenningur. Hann tók upp pakka um morguninn og fékk m.a. hjól frá mömmu og pabba. Stefán fékk líka lítið plasthjól og nú þeytast þeir um á tveimur hjólum og einum litlum plastbíl sem var tekinn með frá Íslandi. 

Halli hafði sérvalið bolta handa honum (svo reyndar sparkaði Dabbi honum óvart í gaddavírinn sem er á veggnum utan um lóðina okkar í gær og hann sprakk). Ég keypti batman köku sem fór á leikskólann, og svo tóku Óskar og Halli til nammi og dót í poka sem Óskar gaf krökkunum á deildinni sinni. Þau voru ákaflega hrifin af kökunni og svo var afmælisveisla þar sem allir fengu köku. Þau eru að læra um ávexti í leikskólanum þessa dagana og í tengslum við það var farið í ferð á ávaxta- og grænmetismarkaðinn þennan sama dag.

Leiktækin

Ömmurnar keyptu leiktæki í garðinn fyrir prinsana, sem hafa vakið mikla lukku.  

 

 

 

 

 

 

Blásið á kertin þrjú

  

Afmælisboðið hans Óskars

Um kvöldið vorum við með pitsupartý fyrir Rúnar Atla og c.o. sem komu færandi hendi og gáfu Óskari þennan forláta pleimóbíl, sem hann hafði svo með sér í rúmið um kvöldið.

Óskar fékk Barney (sem hann kallar afa Bjarna) afmælisköku.

 

 

 

 Afmælisbarnið hafði verið svo spennt að hann náði ekki að sofa miðdegis, og því sofnaði hann í sófanum áður en partýinu lauk. Hann vaknaði þó reyndar sprækur þegar hann átti að fara í rúmið og vildi fá að hitta Rúnar Atla vin sinn. Reyndar hafði hann einnig heimtað að bjóða Tindi vini sínum í afmælisboðið, en það reyndist ekki gjörlegt vegna fjarlægðar.

Sofandi í afmælisboði

 Hér er afmælisbarnið sofandi og Rúnar og Halli að látast.


Fjallaför í Epago

Við förum ætíð á fætur við fyrsta hanagal, sem er nú reyndar eins og á Íslandi, þökk sé þessum árrisulu drengjum. Hér hentar þetta reyndar vel, því að dagurinn er tekinn snemma og allt byrjar fyrr en heima. Það er ótrúlegt hverju má koma í verk þegar farið er á fætur um kl. 6. Í Epago fórum við í morgunmat, og svo í smá göngutúr. Það er lítil hæð við búgarðinn (eða má kannski kalla þetta fjall fyrst að enginn þekkir staðinn?). Við álpuðumst inn á göngustíg sem lá upp fjallið og vorum, takk fyrir búin að ganga upp og niður kl. 9 um morguninn.

Gróðurinn var okkur erfiður, enda tré með hina beittustu gadda sem við rifum okkur á vinstri og hægri. Ég bar Stefán og Davíð bar Óskar. Stebbi er ennþá með rispur á fótleggjunum eftir fjallaferðina. Svo var hitinn mun hærri en í Windhoek og við vorum bæði sveitt og þreytt þegar við náðum toppnum. Niðurgangan var álíka snúin og uppgangan enda farið að hitna meira. Það var gott að komast niður í hús til að fá sér kalda drykki.

Ég hafði séð fyrir mér að ég gæti gengið á fjöll hér í tugavís, en er nú farin að endurskoða þá drauma. Maður þyrfti að vera með sveðjur til að brytja niður gróður, eða þá halda sig á merktum stígum. Svo er nú ekki heldur þægilegt að ganga þegar hitinn fer mikið yfir 25 stig. Snákar eru til stðar og sumir eitraðir, en þeir eru hræddari við okkur mannfólkið en við við þá. Það er bara hættulegt ef maður stígur ofaná snák svo að maður verður aðeins að hafa hugann við það hvar maður stígur niður næst.

Útsýnið var hið besta af toppnum.Útsýni af fjallstoppi

 

 

 

 

 

 

 

Fjallgöngugarpar

Halli myndasmiður tekur mynd af fjölskyldunni á toppnum. Menn voru nú mishressir.


Epago búgarðurinn

Um síðustu helgi fórum við fjölskyldan á Epago búgarðinn sem er í tveggja og hálfs tíma keyrslu norður frá Windhoek. Það var mjög gaman að komast út úr bænum og fá smá tilbreytingu. Vegakerfið er mun betra en á Íslandi svo að það er lítið mál að keyra svona langt. Allt er grænt og fagurt, enda búið að rigna vel undanfarið. Svo standa termítabú hér og þar, á þriðja metra upp í loftið. 

Aðstaðan á búgarðinum var flott, hann stóð við uppþornaðan árfarveg, með glæsilegri sundlaug og aðstöðu úti. Það er Frakki sem á búgarðinn og Frakki og Þjóðverji sem reka hann, svo að maturinn var hinn besti. Í kring voru margir veiðibúgarðar, þar sem efalaust er frábært fyrir veiðimenn að koma. Þessir búgarðar hafa gífurlegt landflæmi undir sér, Epago er með 11 þúsund hektra, og það hefði tekið okkur um 3 til 4 klukkutíma að keyra alla landareignina á enda. Þeir eru með fíla, en þeir voru t.d. of langt í burtu til að við gætum séð þá.

Strákarnir á Epago

 Hér eru strákarnir að slappa af með svaladrykki.

 

 

 

 

 

 

 

Við fórum í safarí og vorum svo heppin að fyrsti jeppinn fylltist og við fengum einn útaf fyrir okkur. Áætlað var að safaríið tæki um 3 tíma, svo að við höfðum þann kost að snúa heim á leið þegar drengirnir væru orðnir óþolinmóðir. Við fórum síðdegis, og sáum fyrst blettatígra, og svo einnig vörtusvín, gíraffa, impala og oryx antílópur, og nashyrninga.

Blettatígur Epago

 

Gíraffi á Epago

 

 

 

 

 

 

 

 

Þegar við vorum búin að hossast í góðan tíma, var farið að rigna og við vorum ekki með þak yfir jeppanum. Þetta var farið að minna á góðan, íslenskan sudda. Við ráðfærðum okkur því við bílstjórann sem spurði hvort við vildum snúa við. Nashyrninga gætum við séð ef við keyrðum í 2 mínútur í viðbót. Við vorum sko til í það, en þetta reyndist afrískur tími, og voru 20 mínútur. Þetta var bara stemning, og svo stytti upp og var hið yndislegsta veður. Jeremy, bílstórinn galdraði svo fram hressingu, snakk, djús og bjór. Þegar við fórum út úr jeppanum fór Halli að fíflast og stökk inn í runna með Óskar á hælunum. Fjölskyldufaðirinn gólaði á eftir þeim, og var nett stressaður yfir að nashyrningar kæmu á hæla börnunum. (Ég held nú að ef einhver hætta hafi verið á ferðum, þá hafi það verið hrópin í Dabba, enda eru nashyrningar nánast blindir en eru með prýðisgóða heyrn og lyktarskyn). 

IMG_0598

Hér er mynd af Dabba sem er búinn að róast, enda Jeremy búinn að veita honum bjór. Nashyrningarnir eru í baksýn.

 

 

 

 

 

 

 

 

IMG_0610

Óskar í stuði eftir að hafa dælt í sig snakki og djúsi úti í afrískri náttúru.

 

 

 

 

 

 

Þetta var alveg yndislegt, enda vorum við alein þarna úti í náttúrunni og svo var sólin að setjast á bakaleiðinni.

Safarí

 

 


Leikskóladrengir

Eftir nokkra leit fundum við leikskóla stutt frá heimili okkar, sem gat tekið við báðum drengjunum. Þar er þýska reyndar vinnutungumálið, þó að einnig sé töluð einhver enska og jafnvel afrikans. Óskar var orðinn ákaflega spenntur og dansaði um með leikskólatöskuna sína. Stefán var ekki með hlutina alveg eins mikið á hreinu, en hreifst með gleðinni. Þá vakti mikla ánægju að fá að fara með nesti, eins og Halli hafði alltaf fengið að fara með í skólann á Íslandi og er það enn hápunkturinn á leikskólanum, að fá að borða nestið. Eitthvað fór nú að falla á leikskólann þegar þangað var komið, en báðir góluðu svo að heyrðist um allt hverfið. Þeir eru á sitt hvorri deildinni, en fá að leika sér saman eftir hádegismat. Drengirnir eru í vistun til klukkan 1 þegar ég sæki þá.
 
Aðstaðan er mjög góð, og sér leiksvæði fyrir litlu krakkana. Óskar fer vonandi að læra þýska frasa til að tjá sig við hin börnin.  Leiksvæðið er að mestu í skugga, og þegar ég kem að sækja prinsana eru þeir vanalega berfættir að leika sér í sandinum. Hitinn hækkar mikið um hádegisbilið og á þeim tíma er vanalega nóg fyrir krakkana að vera berfætt og í stuttbuxum og bol.

Hér eru myndir frá fyrsta leikskóldeginum, en þeir bræður tóku myndatökuna mjög alvarlega. Takið eftir grænu rennibrautinni, sem Óskar er í, í bakgrunni. Hún er alveg svakalega flott.

Fyrsti dagur í leikskólaLeikskóladrengirÍ fyrsta sinn á leikskólanum

Í Namibíu kaupir þú ekki Toyota handa sjálfum þér..

Bílakaupin gengu ekki þrautalaust fyrir sig. Við ákváðum að kaupa átta manna bíl, til að rýma alla fjölskyldunna, svo að hringurinn fyrir frúarbílinn þrengdist aðeins niður. Við skoðuðum Toyota bíl og svo eldri Mazda. Bílasalinn bar Toyota vel söguna, sagði að þeir reyndust vel í Namibíu, en það eina væri að þeir væru einnig vinsælir hjá bílaþjófum því að þeir væru sérstaklega góðir í endursölu. Hér myndirðu ekki kaupa Toyota handa sjálfum þér, heldur handa einhverjum öðrum!

Við vorum ekkert sérstaklega hrifin af henni heldur og vildum frekar festa kaup á möstunni (hvernig á eiginlega að skrifa þetta??). Dabbi var búinn að biðja bílasalann að halda henni til hádegis dag einn og við mættum rétt fyrir hádegi til að klára dæmið. Þá kom upp úr dúrnum að annar bílasali var búinn að selja bílinn og við vorum að vonum súr. Ekki voru kaupin alveg frágengin og kaupandinn mætti svo á svæðið og var ákaflega stressaður yfir þessu öllu saman. Hann hafði verið að safna peningum í heila viku og að frúin væri núna í bankanum að ná í restina, það gekk svo langt að hann kraup á kné og sagði við Dabba greyjið "please, please mister let me buy the car". Dabbi er náttúrulega þessi mjúki maður og datt ekki í hug að hrifsa draumabílinn af manngreyjinu sem hafði haft svo mikið fyrir þessu öllu. Við eftirlétum honum því bílinn.

Næstu viku hringdi Vilhelm bílasali hins vegar og enn var bílinn ekki seldur svo að okkur bauðst hann. Það tók viku að ganga frá kaupunum, interpol þurfti að athuga hvort að hann væri nokkuð stolinn (hann er innfluttur frá Singapore), þurfti að setja hann á númer og alls konar pappírsvinnu. Dabbi var náttúrulega á eftir Vilhelm bílasala að hraða ferlinu svo að ég gæti nú farið að nota bílinn. Þetta var afar stressandi fyrir aumingja Vilhelm, og endaði á því að karlgreyjið lamaðist í helmingnum í andlitinu. Læknirinn hans sagði að þetta væri bara stress og að hann þyrfti á hvíld að halda. Vonandi fær hann sér frí eftir að hafa selt blessaðan bílinn.


Endurvinnslan í gangi

Endurvinnslan var í fullum gangi þegar ég kom til baka frá því að skutla drengjunum á leikskólann í gærmorgun. Mánudagar eru rusladagar hjá okkur og á mánudagsmorgna setjum við tunnuna og ruslið út á gangstétt. Hér fara flöskur og dósir t.d. ekki í endurvinnslu, heldur er það einkaframtakið sem gildir.

Nú voru tveir, broshýrir og glaðir ungir menn sem veifuðu mér glaðlega er ég renndi í hlaðið á nýja fáknum mínum. Þeir voru vel búnir með bakpoka til að bera afraksturinn, og fóru vandlega í gegnum allt ruslið og gengu svo snyrtilega frá öllu aftur. Ég fékk smá samviskubit yfir að hafa ekkert bitastætt í ruslinu handa þessum duglegu piltum, en kannski verður eitthvað af viti handa þeim í tunnunni í framtíðinni.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband