Bloggfærslur mánaðarins, mars 2009

Ormur í auga

Hann Haraldur getur nú verið alveg sérlega óheppinn. Hver var annars bitinn af kónguló hér um daginn? Drengirnir eru enn í fríi, en skólinn byrjar á morgun. Hann var í fótbolta hér úti í garði í morgun þegar Erik félagi hans kom inn og sagði: Halli has a worm in his eye!  Og mikið rétt, á eftir honum kom Halli ráfandi með hendina fyrir öðru auganu. Og í því var þessi laglegi ormur, sem ég veiddi upp og er drengurinn heill eftir.

Hvernig fær fólk svo orm upp í augað? Halli segir: sko, ég var að labba úti í garði og þá var þar kústur sem var með ormi á, en ég labbaði á kústinn, hann fór í hausinn á mér og ormurinn skaust upp í augað á mér! Geri aðrir betur. Við vorum einu sinni í gönguferð á Vestfjörðum þegar hann hrasaði í grösugri hlíð og allt í einu fer að fossblæða úr nefinu á barninu. Við vissum ekkert hvaðan á okkur stóð veðrið. Kom svo í ljós að það hafði stungist strá upp í nefið á honum í fallinu, sem stakkst á kaf og við drógum svo út hægt og rólega.

Davíð hafði einmitt lýst yfir smá áhyggjum þegar Halli var kominn með bretti í sjónum. Hann yrði örugglega fyrir árás sela. Mér fannst það nú ólíklegt, enda eru árasir sela nú ekki algengar (sjá fyrri færslu um árás sela), en Davíð benti á það, að ef einhver yrði svo óheppinn að verða fyrir árás frá sel, þá væri Halli greyjið ekki ólíklegur kandídat. Ég held ég sé að verða sammála honum. Óheppinn, eða óheppinn?


Fjórhjólaferð í sandinum

fjorhjol 1

Við skelltum okkur í fjórhjólaferð í Namib eyðimörkinni, rétt við Swakopmund. Hér eru hjólakapparnir með leiðsögumanni.

fjorhjol 3

Litlu drengirnir fengu að sjálfsögðu að fljóta með, og skemmtu sér hið besta.

fjorhjol 2

Hér eru svo ferðalangarnir í pásu frá keyrslunni.

 

 

 

 

fjorhjol 4

 

 

Ég byrjaði ferðina með Óskar og tók svo Stefán á hjólið mitt á leiðinni til baka. Hann var orðinn hálf syfjaður á þessari keyrslu og var farinn að sitja eins og móturhjólakappakstursmaður, með höfuðið á bensíntanknum og fæturna aftur á sæti. Honum tókst þó ekki að sofna, enda mikill hristingur.

Dabbi Swakop 060

 

 

 

 

 

Svo þegar við tókum pásu ráfaði Stefán út í eyðimörkina, þið sjáið ef til vill að hann stefnir í stóra holu, sem þrælerfitt var svo að koma honum upp úr. En það hafðist að lokum.


Guavauppskeran komin í hús

Guava2

Nú er guavatréð í garðinum okkar komið með tugi eða jafnvel hundruði aldina sem allir eru sólgnir í. Ávaxtaflugur, ávaxtabjöllur og fuglar gæða sér á uppskerunni, en Leja er þó afkastamest. Strákarnir eru í fríi í skólanum og því hjálpuðu Stefán og Óskar mér við að tína aldin og koma þeim í poka sem Leja tekur svo með sér heim. Hún fór með tvo fulla höldupoka heim í gær og nú eru þrír í viðbót tilbúnir handa henni. Hér er Stefán við tréð góða.
Guava 1

Það getur verið hættulegt að aðstoða við ávaxtatínslu, sérstaklega ef maður er berfættur við starfið. Hér er fullt af göddum sem eru varasamir og Óskar steig á einn þeirra svo blæddi úr fætinum. Hann var nú ekki mjög glaður.
Guava 3Guava er ávöxtur sem kemur upprunalega frá Suður Ameríku, en er mikið ræktaður í Suðurhluta Afríku, enda á loftslagið auðsjáanlega vel við hann. Hann er ávaxta auðugastur af C vítamíni og orkuríkur og því ekki nema von að fólkið í fátækrahverfinu kunni vel að meta hann. Herjum bandamanna var gefinn guavasafi að drekka og innrásarherinn frá Íslandi í Namibíu (lesist við fjölskyldan) drakk óhemju magn af guavadjúsi hér í byrjun dvalar en litlu strákarnir eru ennþá mjög hrifnir af því.

Hér má svo sjá hluta uppskerunnar.

Við dunduðum okkur við þetta í morgun, blésum sápukúlur og lékum okkur í sandinum í garðinum. Halli lærði smá í íslensku kennslubókunum sínum sem hann hafði tekið með sér að heiman, en við höfum nú ekki verið dugleg að nota þær undanfarið. Svo fór ég með hann í klippingu, en hann var kominn með laglegan hvítan lubba á hausinn sem fékk að fjúka í morgun. Ég reikna með því að hann birti mynd af nýju klippingunni á heimasíðunni sinni sem áhugasamir geta skoðað.

Nú hefur heimferð til Íslands verið ákveðin 19 júní, og ekki seinna vænna því að Óskar tilkynnti mér það þar sem hann sat í sófanum í gærmorgun að hann vildi fara í Stuðlasel til afa og í heita pottinn. Enda held ég að hann hafi ruglast smá þegar við keyrðum Hrein út á flugvöll í fyrradag, hann ljómaði allur og hélt að hann væri loksins að fara í flugvélina heim til Íslands. Það verður nú að bíða smá, enda er hann farinn að skipuleggja 4 ára afmælið sitt sem er í sjónmáli, svo nóg er að gera.


Á þeytingi

Við erum komin heim úr viku túr til Kunene. Ferðin gekk vel í alla staði þó að margir kílómetrar hefðu verið lagðir að baki, en það eru litlir 750 km. upp til Opuwo þar sem við vorum mestan tímann. Veðrið var heldur kaldara í borginni, en það er amk. hætt að rigna og ekki skýhnoðra að sjá á himni.

Við erum aðeins búin að rétta úr okkur í millitíðinni, náðum að setja í vél og náðum að skila skattaframtalinu á sléttum 12 mínútum, enda ekki neinar viðbótarupplýsingar til að setja inn. Hefði efalaust tekið styttri tíma ef tölvutengingin væri aðeins hraðari.

Núna höldum svo á safaríbúgarð þar sem við náum hádegisverði í dag og svo getur Hreinn farið í safarí vinstri og hægri með ólíkum kandídötum. Síðan verður haldið þaðan niður á strönd á morgun. Set inn línur þegar við erum komin til baka. 


Sullumbull

Sull 1

 

Þegar við vorum í Swakopmund fórum við í gögnutúr í sólinni og hér má sjá Swakop ána, sem vanalega er ekkert vatn í, en núna líður hún áfram í rólegheitum. Ekki hefur rignt meira í 80 ár, og nú eru komin flóð uppi í Owambolandi. Þá er alltaf hætta á kóleru, og svo grasserar malarían náttúrulega. Einhvert túristaskinn missti jeppann sinn í á, því að það fossaði fram vatn akkúrat þegar hann var að fara yfir einhverja sprænuna, og hreif jeppann með sér.

Sull 2

 Hér erum við drengirnir að dáðst að náttúrufegurðinni.

Sull 3

Svo þurfti náttúrulega að prófa hvað vatnið var indælt. Hér er útkoman hjá Stebba greyjinu sem flaug náttúrulega strax á hausinn á hálum árbakkanum. 

Sull 5

Hinir tveir voru ekki alveg eins ósáttir við þetta, og enduðu í drulluslag með félögum sínum. Hér eru Halli og Óskar.

Annars er nú ekki mikið að frétta héðan. Flóðhestur drap mann uppi í Okawango á föstudag, og fór ansi illa með hann, en þetta eru skaðræðisskepnur. Mætti bara í býtið í bakgarðinn hjá honum, svo að manngarmurinn fór út að athuga hvaða þrusk væri við húsið hans. Hesturinn var svo skotinn og sýnt í sjónvarpinu þegar þorpsbúar voru að skera hann niður, það var ansi keimlíkt því þegar hvalur er skorinn niður, enda eru þetta heljarinnar ferlíki með þykkt lag af fitu undir þykkri húðinni.

Svo er Hreinsi að koma á fimmtudag, og við bíðum spennt. Við förum þá öll í viku ferðalag upp í Epupa sýslu, alveg í norðvesturhluta landsins. Þar getum við skoðað þróunarverkefni, Epupa fallst og fengið að kynnast óbyggðunum af eigin raun. Vona bara að rigningin eigi ekki eftir að reynast farartálmi.


Kóngulóarmennirnir

KóngulóarmennDísa frænka og Palli, þessi er sérstaklega tekin fyrir ykkur!

Hér eru kóngulóarmennirnir okkar tveir í búningunum sínum, báðir mjög ánægðir með sig.

Svo er nú einn kóngulóarmaður í viðbót á heimilinu, en Halli var bitinn um síðustu helgi og er búinn að vera að berjast við þessi rokna bit síðan þá. Hann er með myndir á blogginu sínu á haraldurbjarni.blog.is. Ekki fyrir viðkvæma.


Sól og sumar á ströndinni

Strond 3

Nú hefur rignt nánast linnulaust síðan við komum aftur til borgarinnar, svo að við vorum glöð að hafa fengið sól í kroppinn úti við strönd. Það hefur ekki rignt svona mikið í manna minnum, þó að það hafi rignt mikið á regntímanum í fyrra, þá slær þessi öll met.

Aftur að ferðalaginu. Við fórum að sjálfsögðu á ströndina líka. Stefán varð svo glaður að hann hoppaði og skoppaði út um allt eins og kýr að vori. Strond 1



Sumir aðrir voru ekki alveg eins fjörugir, en Davíð og Jan fengu sér báðir fegrunarblund í sandinum og sváfu heillengi.

Strond 4Hér eru yngri drengirnir, erfiðara er að ná mynd af Halla, sem er gjarnan kominn hálfa leið á haf út. Reyndar er aðgrunnt, svo að gott er fyrir krakka að leika sér í öldunum. Yngri drengirnir eru í sundgöllum, eins og flestir krakkar hér, enda eru þeir hentugir því þeir veita góða vörn gegn sólinni. Strond 2

Strond 5

Hundarnir hafa jafn gaman að því að leika sér á ströndinni og mannfólkið.


Helgarferð til Swakopmund

Santiago, strákurinn hennar Leju hélt upp á 4. ára afmælið sitt um helgina, og var það í fyrsta skipti sem haldið var upp á afmælið hans. Ég bakaði þessa heljarinnar nammiköku sem Leja tók með sér heim um hádegisbilið. Svo héldum við af stað til Swakopmund, enda komin með nóg af rigningunni hér í borginni.

Swakop 1Út við ströndina var hlýtt og gott. Við fórum með hollensku vinafólki okkar sem á tvo stráka á aldur við Halla og Óskar, og gistum á skemmtilegu gistiheimili við Swakop ána, um 20 km. frá bænum. Ótrúlega barnvænt, enda gott að vera í eyðimörkinni sem er einn alsherjar sandkassi.

Það var smá vatn í ánni, aldrei þessu vant, sem er þurr mestan tíma ársins. Jan hin hollenski tók daginn snemma og var búinn að festa jeppann sinn klukkan hálf átta í drullu og geri aðrir betur. Við keyrðum svo saman upp eftir ánni, þar sem er geysifallegt. Hér er Jan að skoða hvar best er að keyra yfir.

Swakop 2Við áðum undir tré á leiðinni, og hér eru Óskar og félagi hans Rueben að klifra í trénu.

 

 

 

 

 

Swakop 3Stefán tók sig líka vel út í auðninni. Þeir Namibíumenn kalla þetta tungllandslag, enda líkist þetta eilítið því sem við þekkjum frá Öskjusvæðinu.

Swakop 5

Og hér eru þeir feðgar. Eins og sést kannski er orðið sæmilega heitt, enda sólin nánast beint yfir höfðum okkar.

 

 

 

 

 

Swakop 6
Svo skelltum við okkur í fjallgöngu, og þá er vissara að hafa vatn við höndina.

p>

Swakop 8 

Svo voru tveir hundar með í för, sem var orðið ansi heitt af hlaupunum.

 

 

 

 

 

 

 

Swakop 7

Hér má sjá ganga liggja þvert í gegnum fjöllin.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband