Bloggfærslur mánaðarins, október 2008

Vegamerkingar


Umferðarmerki
Já, ég sagði að vegakerfið væri betra í þróunarlandinu Namibíu en á Íslandi. Reyndar má til sanns vegar færa að undirlagið er vanalega ekki mikið mál hér, sandur, sandur og aftur sandur. Vegamerkingar eru einnig vanalega mjög góðar. Sumu má þó ofgera. Ég tók þessa mynd einu sinni er við vorum á leið út úr borginni.
 
Þú mátt sumsé keyra á 60... nei, á 100, nei á 30, nei á 80..
 
Við þurftum nú ekki mikið að spá í þessu þá enda mikil umferð og biðröð.




Popa fossar


Popa falls 2
Popa fossar í Kavango ánni eru einn þeirra staða sem ferðafólk heimsækir, þó að flúðarnar séu nú ekki til að missa vatn yfir. Svæðið hentar einnig fyrir gönguferðir og fuglaskoðun.
 
Hér stendur Óskar við dýrðina. 













Popa Falls 1Það var heitt og eins gott að drekka vel.
 
Við fórum að flúðunum austan megin, því að þaðan er betra útsýni yfir ánna. Maður þarf að keyra nokkurn spotta meðfram girðingu við endurhæfingarstöð fyrir fanga. Þar rækta þeir lifandis ósköp og framleiða nóg af matvælum fyrir öll fangelsi Namibíu. Kannski þeir fái mest grænmetisfæði, fangarnir.
 
Ef vel er að gætt, má sjá að Óskar er í plastsandölum, sem er vinsælasti skófatnaðurinn hér um slóðir og háir sem lágir státa af slíkum sandölum af öllum stærðum og litum. 

Hjátrú..

Það eru mörg vandamálin hér í Afríku sem við eigum ekki að venjast í Evrópu (ehemm, já álfan er ákafleg víðfem og því skal varast alhæfingar, hér með er gerður fyrirvari varðandi það). Hjátrú og töfralæknar er gott dæmi, sem virkar kannski sjarmerandi svona úr fjarlægð, líkt og álfarnir okkar og huldufólkið heima á Fróni. Hér er þó ekki eins meinleysisleg hjátrú. Margir trúa því t.d. að þeir geti læknast af eyðni ef þeir hafa mök við hreina mey. Af þessum sökum kemur fyrir að mjög ungum stúlkubörnum er nauðgað.

Forseti Gambíu er kominn af ætt grasalækna og er mjög stoltur af því, eins og gefur að skilja. Hann tilkynnti í vor að hann væri búinn að finna lækningu við eyðni, sem væri leynileg blanda sjö jurta. Sjúkir flykktust til hans til að fá bót sinna meina, en vestrænir læknar sögðu að ekkert benti hins vegar til að lyfið hefði læknismátt. Kona ein sem starfaði hjá Sameinuðu Þjóðunum í Gambíu við þróunarverkefni á sviði eyðni, lýsti yfir efasemdum um að slíkar yfirlýsingar væru heppilegar fyrir baráttuna gegn eyðni í landinu, því að þetta gæti leitt til óábyrgs kynlífs. Henni var vísað úr landi.

Nú eru mikil læti í Tansaníu, þar sem albínóar hafa verið ofsóttir. Ég verð reyndar að segja að það eru ótrúlega margir albínóar hér. Við vorum að koma utan af landi um daginn og sáum í fjarlægð einhvern hvítan bíða á strætóstoppistöð. Dabbi sagði strax að viðkomandi væri albínói, en ekki hvítur, því að hvítan mann væri aldrei að sjá á strætóstoppi í Windhoek. Þegar nær dró kom í ljós að hann hafði rétt fyrir sér með það. En nóg um það og aftur til Tansaníu. Þar er jafnvel trúað að blóð þeirra hafi lækningamátt og fólk myrt. 11 ára stúlka, albínói, var nú nýverið dregin út af heimili sínu í skjóli nætur, hárið skorið af henni og fæturnir höggnir af við hné og hún svo myrt. Nú eru réttindasamtök um heim allan, m.a. alþjóðasamtök albínóa, að heimta að yfirvöld taki í taumana. Einhverjir hafa verið handteknir, en helsta spurningin er hvort að það sé möguegt að tryggja réttindi þessa hóps til framtíðar og að breyta hjátrú sem getur mögulega átt sér langa sögu.


Þorpsheimsóknir


Village visit 5
Í Rundu fengum við að fara með í þorpsheimsóknin þar sem ætlunin var að fá innsýn inn í stöðu og líf heyrnarlausra barna. Hópnum var skipt upp í tvennt og var svo haldið í þorp þar sem fjölskyldur með heyrnarlaus börn bjuggu.
 
Fyrri fjölskyldan sem við heimsóttum átti heima í Rundu, og hér situr teymið undir tré að tala við móðurina, með hjálp túlks. Með í heimsókninni, auk ICEIDA, voru einnig fulltrúar frá menntamálaráðuneyti Namibíu, félagi heyrnarlausra og frá frjálsum félagasamtökum sem vinna með heyrnarlausum í héraðinu. 
Litli gaurinn sem situr þarna eins og ljós á stól er fjögurra ára og er heyrnarlaus.
 
 
Village visit 4
Drengurinn notar ekkert táknmál og hefur því lítil sem engin samskipti við heiminn. Feðurnir yfirgefa gjarnan mæðurnar þegar kemur í ljós að börnin eiga við einhverja fötlun að stríða og því er staða þeirra oft enn erfiðari. Svo var í þessu tilfelli en eins og þið takið eftir var húsið þeirra hins vegar mjög veglegt.
 
Drengirnir mínir voru nú ekkert að velta sér upp úr slíkum vandamálum, heldur fóru að leika sér við krakkana í hverfinu, sem komu og voru forvitnir að sjá hvaða gestir væru komnir. Reyndar voru nokkrir fullorðnir einnig forvitnir og héngu utan á girðingunni til að fylgjast með því sem fram fór.



Village visit 3

Hér eru strákarnir komnir í góðan félagsskap.












Village visit 6
Krakkarnir vilja gjarnan láta taka myndir af sér, og elska að skoða þær í myndavélinni eftirá.












Village visit
Seinni heimsóknin var í þorp fyrir utan Rundu, enda sjáið þið strákofana í baksýn. Fundarstaðurinn er klassískur, undir tré. Hér er 11 ára, heyrnarlaus stúlka, en þau nota heimatilbúið táknmál sem er reyndar ótrúlega þróað.
 
Hér er lífið ekki létt, og svo sannarlega ekki þegar fólk á við fötlun að stríða því að erfitt er að fá viðeigandi stuðning, bæði frá hinu opinbera og frá samfélaginu. Þessi stúlka er hins vegar heppin að því leyti að fjölskylda hennar er góð við hana og leitar allra leiða til að greiða götu hennar.
 
Víða býr fólk í hreysum í Namibíu, en gjarnan er fólk vel búið og hreint. Hér virðist fátæktin hins vegar vera ívið meiri því að fólk gengur í götóttum fötum og margir eru óhreinir. Namibía er oft kölluð Africa light, og er þá verið að vísa til þess að þú sért ekki kominn í hjarta Afríku, heldur í vestræna útgáfu af álfunni. Ég hygg að sú tilvísun sé réttmæt fyrir þá fjölmörgu sem koma til Windhoek, ferðast í fína leigujeppanum sínum, eða í loftkældri rútu, gista á lúxushótelum úti á landi með her þjóna og fara svo heim með mynd af gíraffa í farteskinu. Þó að skoðanaferðir í fátækrahverfið séu vinsælar, ná fæstir hins vegar að upplifa og skilja hve lífskjör fólks eru bág víða á landsbyggðinni. Hér er erfitt að skilja Africa light.

Gíraffi... namminamminamm

Namibía er paradís ferðamannsins, og ekki síst þeirra sem eru sjálfstæðir og geta keyrt sjálfir - því keyrslan er mikil. Landið er átta sinnum stærra en Ísland, en vegakerfið hins vegar mun betra, svo að það er ekkert mál fyrir ferðaþyrsta gesti. Eitt er það sem vefst fyrir fólki, og það er að fá grænmetisfæði. Ef einhver pantar salat, bíður þjónustufólkið eftir því að maður panti einhvern mat, þ.e. kjötmetið. Enda eru hér fyrirtaks þýskir slátrarar og kjötvinnslumenn. Það á nú vel við helstu kjötætu heimilisins, hann Óskar. Heima á Íslandi vildi hann helst spranga um á nærbuxunum með skinku í annari. Hér getur hann gert betur og sprangar um nakinn með skinku í annari og salami í hinni.

Oskar

Svo er hann mjög hugmyndaríkur þegar kemur að því að panta á veitingahúsum. Hér er nefninlega hægt að fá kjöt af öllum tegundum, villisvín, krókódíl, strút og antílópur af öllum stærðum og gerðum. Óskar vill hins vegar endilega borða gíraffa, en hann hefur ekki verið á borðum þar sem hann er ekki veiddur til matar, eða er ekki trophy animal, eins og þeir segja. 

Drengurinn hefur reyndar eitthvað til síns máls því að gíraffakjöt ku vera ákaflega ljúffengt. Ein sem vinnur með Davíð vann einu sinni á búgarði þar sem gíraffi var drepinn af einhverjum ástæðum. Hún þáði með þökkum að fá gíraffakjöt þegar henni var boðið það. Í hennar hlut kom svo lærið, sem reyndist vera einhver 70 kíló, hvorki meira né minna. Þið getið rétt ímyndað ykkur að frystirinn fylltist og vel það.

Annars er lífið bara ljúft hér, ég hóf daginn með því að rölta 5 km. í býtið til styrktar rannsóknum á brjóstakrabbameini og Erik vinur hans Halla er í gistingu í nótt. Við erum svo búin að vera úti í garði að una okkur við leiki og borðtennis. Veðrið er mjög ljúft og það eru komin ský á himininn, til tilbreytingar. Stefán varð furðu lostinn þegar hann sá þau í fyrradag og benti til himins eins og þarna væru geimför frá öðrum hnöttum, enda hefur ekki sést skýhnoðri á himni svo mánuðum skiptir.


Mahango

Kavango 5

Friðlýsta svæðið Mahango liggur við munn Caprivi héraðsins í austur Namibíu, meðfram Kavango ánni og niður að landamærum Botswana. Þarna er mjög fallegt og margbreytilegt dýralíf sem skemmtilegt er að skoða. Maður fer í safaríferð með leiðsögumanni, eða keyrir í eigin bíl. Sá ferðamáti hentar okkur nú betur, enda verða drengirnir stundum óþolinmóðir og hávaðasamir í safarí, svo að við nutum þess að fara í gegnum garðinn sjálf á bílnum. Fórum reyndar tvisvar, einu sinni um hádegisbilið og svo aftur síðdegis, enda er þetta ekki mikil keyrsla þar sem við gistum rétt fyrir utan garðinn.

 

 

Kavango 6

Þarna eru bavíanabörn að leika sér að gömlu röri, en mikill fjöldi apa var þarna, sem og antílópur. Margar þeirra er ekki að finna annars staðar í Namibíu.

Halli var með dýrabók sem Rósa og Jóndi gáfu okkur, og því var léttur leikur að þekkja allar tegundir dýra sem við sáum.

 

Og svo eru náttúrulega fílarnir, sem maður fær að sjá í milku návígi 

 

Kavango 4

Við vorum akkúrat að keyra þarna á veginum þegar fílarnir komu þrammandi í gegnum kjarrið, ég leit beint í andlitið á þeim fyrsta (munið, það er vinstri umferð!). Maður er nú ekkert að doka við, heldur forðar sér í burtu og fylgist svo með þeim þramma áfram á leið sinni að svala þorstanum í ánni. Kannski fá þeir sér bað líka.

Við vorum svo heppin að sjá stóra hjörð af buffalóum, um 50 dýr sem héldu sig í flæðunum við ána. Þetta var í fyrsta skipti sem við sjáum buffaló í Afríku.

 

 

Kavango 2

 

Gistingin okkar var við árbakka Kavango árinnar, þar sem bæði eru flóðhestar og krókódílar. Þar er eins gott að passa sig.

 

 

 

 

 

Kavango 3

Strákarnir nutu lífsins í hitabeltinu. Hér er malaría allt árið um kring og við tökum öll malaríulyf, enda ekki svo oft sem við förum inn á þau svæði. Lyfin fara bara vel í mannskapinn og nú orðið er auðvelt að koma þeim niður. Svo eru líka gerðar aðrar ráðstafanir, við sofum stundum undir netum, allir eru spreyjaðir með moskitóvörn hátt og lágt, við brennum kol, höfum fælu í herberginu og auk þess er eitrað við hurðir og glugga þar sem þessi kvikindi sleppa inn. Mikil vinna? -Kannski, en ég man líka hvað það var mikil vinna heima að koma öllum í kuldagallana, vettlingana, stívélin...  

 

 

 

Kavango 9Hér tekur bara öðruvísi vinna við. Reyndar er lífið orðið ljúft því að strákarnir ganga bara í stuttbuxum og bol, berfættir í sandölum.

 

Hér situr Stefán á kajak á árbakkanum. 


Bátsferð á Kavango ánni


Kavango river 5
Við fórum bátsferð á Kavango ánni. Hér eru náttúruunnendurnir að og safaríferðalangarnir að rannsaka umhverfið.
















Kavango river 6Flóðhestarnir eru flottir þar sem þeir mara í vatninu.













Kavango river 2
Áin er lífæð fyrir samfélagið en fólkið veiðir í ánni, drekkur vatnið og hér eru guttar að baða sig í kvöldbirtunni. 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 

Kavango river 1
Sólsetrið er heldur ekki af verri endanum.
 

Aftur í Windhoek

 

bílferð

Eins og athugulir lesendur hafa tekið eftir, þá erum við komin heim til Windhoek. Við ákváðum að keyra alla leiðina heim frá vestur Caprivi í gær, í stað þess að gista á leiðinni og lögðum að baki yfir 900 km. á einum degi. Stemningin í bílnum var bara góð, eins og sjá má.

Það var hins vegar mjög gott að komast í eigið ból og allir fegnir að komast á áfangastað.

 

 

 

 

 

 

Strákofar

Okavango héraðið í vesturhluta Caprivi (eða Kavango, kallað það jöfnum höndum) er sárafátækt en húsin eru flott. Hér eru strákofar af öllum stærðum og margir listilega gerðir (smellið á myndina til að sjá húsin almennilega). Umhverfið minnir fyrst aðeins á söguna um grísina þrjá, en flest húsin eru úr stráum, nokkur úr leir en aðeins örfá úr múrsteinum.

Við fórum í nágrannabæinn Divundu þegar ljóst var að ekki var hægt að nota íslensku kreditkortin, og að símasamband var að auki ótryggt, svo að ekki var tryggt að við gætum notað namibísku debitkortin til að nota innistæðuna okkar þar til að borga gistinguna. Í bænum var ein bensínstöð, stórmarkaður (sem var eins og heildsölumarkaður fyrir búðirnar í sveitunum). Svo voru bara strákofar út um allt. 

Kavango

Vonin var að finna hraðbanka, en svo var nú ekki. Svo komst símasamband á eftir nokkra bið og við gátum borgað fyrir okkur og haldið heim á leið.

Hér er vatnsból, en mikið af vinnunni gengur út á það að bera vatn heim í hús, svo að krakkar og konur eru sífellt að bera vatn. Aldrei sjást karlmenn að bera vatn. Hér eru einmitt krakkar í bakgrunninum að koma að sækja vatn í brunninn.

Færslur úr ferðinni koma á næstu dögum, en hér í Windhoek er orðið ágætlega heitt, um 35 gráður í skugga og við höfum okkur hæg um hádaginn. Spiluðum Hornafjarðarmanna í dag við Halla á meðan strákarnir sváfu á spil frá kvenfélaginu Baugi í Grímsey. Þær verða glaðar að heyra hvað hróður þeirra berst víða.

 


Hvar varst þú þegar íslenska ríkið riðaði til falls?

Flóðhestar

Í morgunsárið á fimmtudaginn horfðum við hjónin á flóðhestana mara í Kavango ánni þegar bandarískir kunningjar okkar í næsta tjaldi kölluðu á okkur. Þau höfðu með sér ferðaútvarp og náðu BBC fréttum. "Ísland er í fréttum, það er að koma aftur.." - Við drifum okkur til að ná fréttunum. Og viti menn. Fyrstir í fréttum var landinn. Búið að þjóðnýta þriðja bankann og landið rambar á barmi gjaldþrots. Konan horfði vorkunnaraugum á okkur og fræddi Dabba á því að þróunarstarfsmenn væru alltaf fyrstir til að fara. "Annars þarftu ekki að hafa neinar áhyggjur, með doktorsgráðu og svona". Svo spurðu þau "hvernig í ósköpunum getur heilt land orðið gjaldþrota??" -Það er hægt að ropa einhverju upp úr sér um smæð hagkerfa, aðgang að lánum, skuldbindingar og fjárfestingar .... ehemm... það verður nú annars fátt um svör.

Nú þarf maður sem Íslendingur á erlendri grundu ekki bara að standa fyrir svörum um hvalveiðar og lundaát, heldur einnig fyrir fjármálakreppu á heimsvísu. Þegar við náðum heim var Ísland ennþá fyrst í heimsfréttunum og svo virtist sem kreppan ætti allar sínar rætur á skerinu. Allir virtust vera búnir að gleyma því að það eru bankar að fara á hausinn um allan heim. Reyndar er hlýlegt að fá kjarngóðan, íslenskan hreim á skjáinn, en hlýjan náði nú ekki mikið lengra en það. Á leiðinni heim fórum við að hugsa til íslenskra ferðalanga sem eru að þvælast bara með kortin að vopni og íslenska námsmenn erlendis, en þeir eru í erfiðri stöðu þegar gjaldeyriskreppan er svo alvarleg. Nú væri gott að fá Tom Jones eða Elton John til að hughreysta landann, þeir félagar hafa nú glatt bankageirann áður á góðri stundu.


Að drepa eða steindrepa..

Gestirnir eru horfnir heim á Frón og voru nokkuð brattir. Voru búnir að sjá, fyrir utan fjölskylduna, kvikindi af öllum stærðum og gerðum. Bæði spendýr, mannfólk og lindýr. Jóndi fann sporðdreka á koddanum sínum eitt kvöldið og hélt að hann væri útsaumaður í koddann. Ekki var það nú. Eftir það voru sængurföt skoðuð vandlega. Ég kom svo inn í herbergið þegar Rósa var nýbúin að eitra fyrir kónguló sem hafði sloppið undir rúm. Það ilmar vel, skordýraeitrið. Svo vel að ég hélt að hún væri búin að fá sér nýtt ilmvatn. Á úðabrúsanum stendur "kills insects dead". Ég spekúlera stundum í hvernig er hægt að drepa án þess að viðfangið verði dautt á eftir. Á þvottaefni með sótthreinsiefni stendur einnig "kills all germs dead"...

Heimsóknin var vel tímasett því að ég fékk félagsskap þegar Davíð var í tveimur vinnuferðum úti á landi. Í gær fórum við Halli svo á bílnum mínum niður á strönd því að Halli tók þátt í fótboltamóti í dag. Því miður gleymdist myndavélin heima, en Halli segir vonandi frá þessu á blogginu sínu. Það var kalt niður á strönd, en samt tókst mér að brenna í framan, venju samkvæmt. Davíð kom svo úr vinnuferðinni síðdegis á föstudaginn og við Halli snerum aftur seinni partinn í dag, laugardag. Þetta er 3 og hálfur tími í keyrslu svo að maður verður lúinn. Svo erum við öll að fara til norð-austur Namibíu á morgun og það verða 7 tímar í bílnum með alla hersinguna. Það verður fróðlegt að sjá hvernig það gengur. Við ætlum að fara í þjóðgarð og skoða okkur um í Okavango, segi svo meira frá því seinna.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband