Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2010

Stöðutaka frá Nam

Kominn tími á smá stöðutöku héðan. Halli fór með vini sínum á býli úti í sveit og verður alla helgina. Við hin fórum í húsdýragarðinn í hádeginu að kveðja vinafjölskyldu sem er að flytja til Vancouver. Garðurinn er hinn skemmtilegasti með blöndu af villtum dýrum og húsdýrum.

Svo byrjaði loks að rigna í dag, og allir himinglaðir. "Ég elhssga rígníngúna!" veinaði Stefán á leiðinni heim þegar fyrstu droparnir skullu til jarðar og eldingarnar dönsuðu um himinhvolfið. Það hefur verið ansi heitt síðustu daga, og vonandi slær þetta eitthvað á hitann.

Pökkun er loksins hafin og fyrsti kassinn hefur verið fylltur. Leja fær mest af því dóti sem við skiljum eftir, en eitthvað gefum við á munaðarleysingjahæli líka. Lokaspretturinn er að hefjast í skólanum og Halli á fullu í prófum. Ég er að safna gögnum og taka síðustu viðtölin fyrir doktorsritgerðina mína. Svo þarf að selja bílinn, pakka og ganga frá ýmsu smálegu áður en við höldum heim á leið. Nóg að gera.


Ísland í fréttum

Ég var að koma frá sjónvarpinu þar sem NBC, ríkisfréttastöðin var með frétt frá athöfn þar sem ICEIDA var að færa Kunene héraði 33 vatnsból. Fréttin byrjaði á glæsilegum prófíl Dabba og Franks borunarmanns (sem er galdrakarl á sviði vatnsmála) og fullt af sofandi Himbum undir ræðu vararáðherrans.

Svo kom Villi að þruma yfir þeim með að vera vakandi yfir sólarpanelunum, og kom mjög vel út í mynd. Loks kom ráðherrann og þá kom pólitíkin inn í þetta. Ísland var mært fyrir að veita þyrstum vatn og að vinna gegn fátækt í sveitahéruðum. Í horninu er ætíð tákmálsfréttaþulur fyrir heyrnarlausa og heyrnarskerta, eitthvað sem við höfum ekki náð að taka upp á Íslandi en Namibía og Botswana gera með sóma.

Á atöfninni voru headmen allra vatnsbólanna og þeir dönsuðu til að halda upp á atburðinn sem óðir væru í tvo til þrjá tíma. Ég var niðri í ráðuneyti í dag og allir voru himinglaðir með athöfnina.


Afmælisgjöfinni komið til skila

Fyrir þremur árum, þegar ég fór í fyrstu norðurferðina mína hér í Namibíu, ferðuðumst við ásamt Andreu og Hadda, og drengjunum þeirra þremur, Kára, Hrafnkatli og Gunnari. Þar heimsóttum við skóla við landamæri Angóla, við Swartbooisdrift. Frásögn af ferð okkar þá, má sjá á blogginu mínu hér.

Andrea, þessi öðlingur, tók á móti framlögum þegar hún hélt upp á afmælið sitt, og gaf afraksturinn til skólans og krakkanna. Það var því vel við hæfi að við færum í skólann í þessari síðustu norðurferð okkar, þar sem við komum færandi hendi. Í Windhoek fórum við í ritfangaverslun og keyptum lifandis ósköpin ölll af ritföngum og kennslubókum. Í Oshakati drekkhlóðum við bílinn með matvöru, og m.a. 50 kg. af maizmjöli. Nú er komið að þeim árstíma að skólarnir eru búnir að klára matinn sem hið opinbera hefur gefið þeim fyrir árið, svo að hart er í búi. 

Svo keyrðum við sömu leiðina frá Ruacana til Swartbooisdrift, og var vegurinn nú ólíkt betri en í fyrra sinnið. Náttúrufegurðin er gífurleg, en í þetta sinnið var þurrkatími og því ólíkt um að litast. Það hafa liðið 2 og hálft ár síðan síðast, en mörg andlitin voru kunnugleg í skólanum. Krakkarnir tóku síðan lagið fyrir okkur í þakkarskyni. Hér má sjá nokkrar myndir frá heimsókninni, krakkarnir voru svo ósköp ljúf og stillt þar sem þau stilltu sér stolt upp með gjafirnar. Hér eru nokkar myndir.

 

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband