Bloggfærslur mánaðarins, júní 2008

Þjóðhátíðarheimsókn í skóla

Skóli 3Leiðsögumanninum leist svo vel á okkur að hann bauð okkur í óvænta heimsókn í skóla í nágrenninu, sem við þáðum með þökkum. Þarna skröltum við uppi á palli öll tíu í meira en hálftíma eftir hálfgerðri vegleysu. Við komum að skólahúsi sem hafði einu sinni verið kirkja og þar fyrir utan voru allir nemendurnir, sitjandi á klappstólum í sandinum. Skólinn var fyrir nemendur í fyrsta til fjórða bekk, en aldur nemendanna var mismunandi, allt upp í 15 ára aldur.

 

 

 

Skóli 2

Við heilsuðum upp á krakkana sem voru náttúrulega spennt að fá gesti. Það er örugglega ekki oft sem sex ljóshærðir strákar koma í skólaheimsókn þarna.

 

 

 

 

 

 

Skóli 1

 Himbakrakkarnir ganga í skóla með hinum, þó að skólagangan sé stundum rysjótt.

 

 

 

 

 

 

 

 


Skóli 4

Svo farið í kennslustund og við fengum að fylgjast með kennslu, en eina greinin sem kennd er á ensku er stærðfræði. Kennarinn var að fara yfir tvisvar sinnum töfluna með fjórða bekk. Halli var nokkuð imponeraður því að hann hélt í fyrstu að þau væru að fara í 12 sinnum töfluna (það var svo mikið kám á töflunni) og fannst þetta sko almennilegt. Það var mikill spenningur í bekknum og klappað ógurlega þegar einhver nemandanna kom með rétt svar.

 

 

 

Skóli 5

Það er erfitt að snúa að töflunni þegar það eru gestir frá Íslandi eru aftast í stofunni.

 

 

 

 

 

 

 

Skóli 6

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Skóli 7

Svo buðu þau upp á tónleika, nokkrir nemendur komu upp á svið og sungu og dönsuðu fyrir okkur. Drengurinn í bláu skyrtunni var með ótrúlega skæra og fallega rödd. Hann var forsöngvari sem syngur fyrst og svo svarar kórinn. Tær barnsröddin fyllti skólahúsið og hefur efalaust borist langt út um sveitina.

 

 

 

 


Skóli 8

Krakkarnir voru aðeins feimin í byrjun en dönsuðu síðan skemmtilega og slógu taktinn með fótunum. 

 

 

 

 

 

 

 

 

Skóli 9

Við ákváðum náttúrulega að reyna að gefa eitthvað til baka og fórum upp á svið. Ég er nú hrædd um að framlag okkar til tónlistargyðjunnar hafi nú ekki verið eins markvert eins og infæddu krakkanna. Við sungum um dagana og mánuðina, en allur skólinn hafði sungið um þá þegar við mættum fyrst á staðinn. Við höfðum einmitt fengið ágætis æfingu í að syngja um dagana, því að Gunnar hafði kyrjað þann söng af miklum krafti í ferðinni. Hann tók sér reyndar pásu þarna. Ég fór upp til að styðja drengina í söngnum, og sagði líka að við værum glöð að vera komin og að það væri þjóðhátíðardagurinn okkar í dag svo að í dag væru hátíðahöld hjá okkur. 

 


Skóli 10Við sungum lagið bara tvisvar og krakkarnir voru hálf hissa þegar við létum það bara nægja, því að krakkarnir höfðu sungið nokkuð lengi sjálf.

Svo skoðuðum við aðeins skólann, en á bakvið skólann var heljarinnar pottur á hlóðum með maísgrautinn mallandi. Það er mikilvægt fyrir skóla að bjóða upp á mat - sem reyndar samanstendur vanalega bara af maísgraut. Maturinn er hvati fyrir krakkana að mæta í skólann, og fyrir foreldrana að senda krakkana. Ef vel árar er sykri eða fitu bætt í grautinn. Krakkarnir elda sjálfir grautinn, og skiptast á að taka það verkefni að sér.

Svo gáfum við skólanum smá pening, og það var ákveðið að fara strax í næsta þorp að kaupa kex handa krökkunum til að halda upp á daginn. Kennarinn og elsti drengurinn, Michael að nafni, fóru í það verkefni.





Skóli 11
 
Kennarinn og Michael fengu far með okkur að næsta þorpi, Swartbooisdrift (sem var nú bara nokkrir kofar gerðir úr trjágreinum). Hér eru Óskar, Halli og Michael á leiðinni til baka.
 
Andrea tók allar þessar myndir því að myndavélin okkar bilaði kvöldið áður. Við sáum aðeins eftir því að hafa ekki tekið með okkur íslenska fána til að gefa skólanum líka, en Andrea gaf leiðsögumanninum fána þegar við komum heim á gististað til að færa skólanum við tækifæri. Kannski prýðir íslenski fáninn núna veggi skólans, hver veit?


Frá Kunene ánni

Kunene river 3Hér eru myndir frá Kunene ánni þar sem við gistum, en þarna er mjög fallegt. Dabbi er að slaka á niðri við ána.

Þarna var umtalsvert heitara en niðri í Windhoek enda við nánast komin eins norðarlega eins og mögulegt er innan Namibíu. 

Drengirnir gátu dundað sér við að skoða fjölbreytt skordýr og eðlur. Svo voru líka apar í trjánum sem vöktu lukku hjá yngri kynslóðinni. Minni hjá mér því að einn var að brölta uppi á þaki á húsinu okkar með hávaða og látum þegar ég var að reyna að sofna um kvöldið.

 

Kunene river 2

Þarna eru strákarnir með íslensku fánana á þjóðhátíðardaginn og við hin að spjalla saman eftir að hafa snætt ljúffengan morgunverð undir trjánum.

 

 

 

 

Kunene river 1

Hér er sólarlagið, hinu megin við ána er Angóla.


Til Himbanna

Nú fer ég að koma glefsum úr ferðasögunni á netið, en ég ætla að byrja á ferð til Himbanna sem við fórum á 17 júní. Þá höfðum við farið alveg upp til landamæra Angóla, til Kunene árinnar. Við ákváðum að heimsækja Himba frekar þarna uppfrá þar sem færri ferðamenn koma, heldur en í Opuwo. Himbarnir eru hópur sem hefur að miklu leyti haldið í gamla lífshætti, og er áhugavert að heimsækja. Þeir eru hirðingjar sem lifa í Kunene hérðaði í norður Namibíu. Kunene hérað, eða Kaokoland er stærra en Ísland og mikill hluti þess er mjög óaðgengilegur. Himbarnir rækta geitur og nautgripi á þessu svæði sem er mjög harðbýlt. Þeir færa sig um til að ná til beitarlands og eiga því hús á mörgum stöðum. Húsin geta verið margskonar, sumum er líkt við býflugnabú vegna þess hvernig þau eru í laginu, en önnur er gerð úr trjágreinum. Utan um þorpin er vanalega girðing og kallast þorpin homesteads.

 

Himbar 10

Himbarnir eru hvað þekktastir fyrir að konurnar smyrja sig með blöndu af litarefni (steinn eða jarðvegur, ochre), smjöri og plöntum á líkama sinn. Þetta gefur þeim fallega brúnan lit og þær fara aldrei í bað á lífsleiðinni, heldur bera á sig smyrslið á hverjum degi.

Við heimsóttum lítið þorp með tveimur fjölskyldum. Börnin voru þrjú, og var eitt þeirra enn á brjósti. 

 

 

 

Himbar 8

Hér er konan að mylja ochre fyrir litablönduna. Litinn sækja þeir yfir til Angóla, en þar þarf að grafa um 2 metra niður til að komast að litnum. Himbarnir ferðast frjálsir yfir landamærin milli Angóla og Namibíu enda eru einnig Himbar í Angóla. Þeir komu upphaflega til Namibíu frá Angóla.

Fólkið er afskaplega fallegt. Hefðirnar tengja fjölskyldurnar bæði við föður- og móðurættirnar, og gerir það að verkum að tengslanetið er víðtækara en meðal margra hópa. Það er líka talin ein af ástæðunum af hverju Himbarnir hafa lifað af í gegnum tíðina en þurrkar geta farið illa með bústofna þeirra. ÞSSÍ er m.a. að vinna með Himbunum við að bora eftir vatni. Nálægðin við Kunene ánna gerir það að verkum að vatnsskortur er ekki eins og á öðrum svæðum þar sem Himbarnir lifa.

 

 

 

 

Himbar 1

Konurnar eru ábyrgar fyrir mestri erfiðisvinnunni, að bera vatn, mjólka, elda, sjá um börnin o.s.frv. Karlarnir gæta nautgripanna og geitanna. Reyndar voru hundarnir bara úti með geitunum þennan dag að gæta þeirra. Þarna eru sjakalar sem geta verið skæðir, og svo eru krókódílar í ánni sem geta tekið geiturnar þegar þær fara niður að ánni að drekka.

 

 

 

 

 

 

 

Himbar 3

 

 

Halla fannst dálítið skrýtið að vera í kringum Himbakrakkana. 

 

 

 

 

 

 

 

 

Himbar 4

Eins og Haddi benti síðar á, í samhengi við hina dæmigerðu umræðu um villimenn í Afríku, þá fór sko ekki á milli mála hverjir voru villimennirnir hér. Litlu guttarnir þrír voru allir hressir og fundu sér allir eitthvað að gera. Gunnar nagaði geitaskít, sem var á jörðinni innan homestead á meðan Óskar var kominn lengst upp í tré. Stefán bætti um betur og réðst inn í annað húsið og harðneitaði að koma þaðan út. Eftir að hafa farið bónleiðina við drenginn þurfti ég að fara inn og sækja hann sjálf. 

 

  

 

Himbar 6

 

Óskar, Gunnar og Stefán að kanna nýjar slóðir með jafnaldra sínum úr hópi Himbanna.

 

 

 

 

 

 

Himbar 9

 

 

Hér er Óskar á leiðinni upp í tré. 

 

 

 

 

 

 

 

Ef litið er á kortið, þá virðist vera ansi freistandi að fara spottann upp að Epupa fossum, sem eiga að vera ægifagrir. Það tekur hins vegar þrjá daga að fara þessa 100 km. meðfram ánni, svo að Epupa fossar voru látnir bíða betri tíma. Hins vegar var mjög gaman að fara meðfram ánni að Kunene River Lodge, þar sem við gistum en þar var sólarlagið geysifallegt.

Leiðsögumaðurinn var alveg frábær, en móðir hans er Himbi og talaði hann tungumál þeirra. Hann var líka mjög hrifinn af okkur og bauð okkur því í heimsókn til skóla í nágrenninu, sem við þáðum með þökkum. Meira um það síðar.


Af líkkistum

Davíð fór á nokkuð sérstaka útskriftarathöfn í gær en þá var verið að útskrifa líkkistusmiði úr röðum San fólksins. Hún hafði farið fram á verkstæðinu, sem reyndist vera staðsett við hliðina á bensínstöð svo að allt var fullt af bensíngufum. Hann angaði allur af bensíni þegar ég hitti hann um hádegisbilið og var hálf eftir sig eftir að hafa andað þessu inn, en athöfnin tók rúma tvo tíma. Nemarnir voru 6 talsins - svo er maður að kvarta yfir lengdinni á útskriftarathöfnum í HÍ!

Athöfnin sjálf var skemmtileg, en kennarinn hafði rekist á götutónlistarmann niðri í miðbæ, sem hafði verið kippt með. Sá hann um undirleik og spilaði á gítar og jafnframt trommur og hristur. Nemendurnir sungu svo söguljóð um kennarann og þá dýrð að vera að útskrifast. Kennarinn hafði leyft öllum að búa hjá sér og fór svo með þá í ferð niður að strönd til að sjá hafið í fyrsta skipti. Útskriftarnemarnir voru ákaflega þakklátir og komu því til skila með söngnum.

Líkkistusmíði er mjög mikilvæg hér, en eyðni er ákaflega mikil í mörgum hópum hér og því mikil eftirspurn eftir líkkistum. Ekki er óalgengt að fólk þurfi að jarða ástvini í ruslapokum. Það er mikið afrek fyrir fólk úr jaðarhópum líkt og San fólkið er, að læra einhverja iðn og útskrifast, jafnvel þó að það sé bara eftir 8 vikna nám. Því er mikið haft við og mætti aðstoðarforsætisráðherrann á staðinn og hélt tölu í tilefni dagsins.

Þegar Davíð var búinn að skipta um skyrtu og jafna sig eftir gufurnar var hann nokkuð hress með athöfnina.


Fuglarnir flognir

Nú eru fuglarnir flognir norður á bóginn. Andrea, Haddi, Kári, Hrafnkell og Gunnar fóru í íslandsflugið í kvöld ásamt Halla.

Nú er dauflegt hjá okkur og við erum strax farin að sakna þessara góðu gesta, enda eru þetta búnar að vera frábærar tvær vikur. Eldri strákarnir, Kári, Hrafnkell og Halli sváfu allir í Halla herbergi og núna er ansi tómlegt að líta þangað inn. Hins vegar verður örugglega mikið fjör hjá Halla heima á Íslandi, en hann byrjar á Eyjamótinu og svo er náttúrulega að njóta samverunnar við vini og fjölskyldu.

Dagurinn var rólegur og góður, Óskar og Stefán fóru í leikskólann í morgun og við Andrea fórum í verslanir. Við snæddum svo sushi og rammíslenskan grjónagraut í hádeginu og seinni partinn keyrði Dabbi þau öll út á flugvöll.


Heim enn á ný

 

Sandur

Við héldum heim aftur í morgun eftir eyðimerkurferðina miklu. Við sváfum í tvær nætur og heimsóttum eyðimörkina í gær. Það var alveg frábært, hér er ein mynd af strákunum uppi á einni sandöldunni, en þær eru ófáar.

Bílaleigubílnum var skilað upp úr hádegi og Andrea og co. eyddu deginum niðri í bæ að skoða mannlífið og versla. Ég fór að pakka fyrir Halla, sem er að halda heim til Íslands með þeim.

Sögur úr ferðunum verða birtar við annað tækifæri.

 


Komin heim!

Við skriðum heim úr ferðinni okkar í gær við sólarlagsbil, fegin að hafa lagt alla þessa kílómetra að baki, sem eru rúmlega 2000 talsins. Allir stóðu sig ótrúlega vel í ferðinni, stórir sem smáir og ferðin gekk vel í alla staði. Við fórum alla leið upp að landamærum Angóla, skröltum þar meðfram Kunene ánni í jeppunum á vegum sem minntu á íslenska fjallavegi og fögnuðum 17 júní með viðeigandi hætti þar sem við snæddum morgunverð með útsýni yfir ána. 

17 júní

Andrea var auðvitað svo forsjál að koma með fána í tilefni dagsins. Ég læt eina mynd fylgja með, en verð svo að koma ferðasögunni að í bútum því að við sáum svo margt áhugavert að það er engan veginn hægt að koma því öllu að svona í snarheitum.

Við sáum og upplifðum ótrúlega hluti, vonandi kem ég einhverju hérna inn á bloggið fljótlega. Á morgun verður svo lagt aftur af stað í suðurátt þar sem við erum að fara að skoða Sossousvlei sem hefur að geyma hæstu sandöldur í heimi.

Nú er doktorinn úti á verönd með Andreu og Hadda að reyna að sannfæra þau um að ferð í næturklúbbana í fátækrahverfinu sé nauðsynleg upplifun í kvöld. Ég held að þau séu ekki á leiðinni á djammið en hins vegar er ætlunin að skoða aðeins borgina. Þau fóru á búgarð utan við borgina í dag með drengina þar sem villt dýr eru í aðlögun til að koma þeim út í náttúruna aftur.


Enn af þunguðum glæponum

Við Leja vorum að ræða glæpinn í færslunni á undan, en þarna var um að ræða hvíta konu sem gift er lögfræðingi, hvað þá annað.

Hún sagði mér líka þessa skondnu sögu af konu sem í fyrra hugðist stela kjúklingi úr stórmarkaði. Sú þóttist vera ólétt og stakk hráum kjúklingnum undir blússuna. Svo tók hún smáhluti sem hún ætlaði að borga fyrir við kassann. Þegar hún beið í röðinni við kassann vildi svo óheppilega til að það fór að leka safi og blóð úr kjúklingnum. Allir hlupu upp til handa og fóta og hringdu á sjúkrabíl, því þeir héldu að hún væri að missa legvatnið!


Sérstæð sakamál..

Nýjasta sakamálið hér er mjög áhugavert. Á föstudag gekk tölvupóstur eins og eldur í sinu milli fólks frá eiginmanni konu sem komin er 8 mánuði á leið og var rænt hér niðri í bæ, við eina verslunarmiðstöðina. Hann var að vara fólk við að vera þar á ferli og bað sérstaklega konur og börn að sýna aðgát. Frúin hafði í sakleysi sínu verið þarna á vappi þegar menn gripu hana og fóru með hana í burtu í bíl, og enginn hafði lyft litla putta til að aðstoða vesalings konuna. Svo létu þeir hana að hringja í ættingja til að fá borgað lausnargjald, ella yrði hún drepin. Móðir hennar kom með 30 þúsund krónur og var hún látin laus. Eiginmanninum var að vonum brugðið og sendi því út þennan varnaðarpóst til nokkurra, sem áframsendu hann svo. Fjölmiðlar fjölluðu einnig mikið um málið, því að svona alvarlegir glæpir eru fremur sjaldgæfir hér.

Ég hafði nú nokkrar áhyggjur af konugreyjinu, enda komin 8 mánuði á leið og hormónarnir örugglega á fullu, og ómögulegt að vita hvað gerist með barnið við að lenda í svona svaðilförum. Dabbi spekúleraði nú meira í afbrotamönnunum, hvað þeim gengi til, því að refsingar fyrir frelsissviptingu og mannrán eru vanalega mjög háar.

Við hefðum getað látið þessar spekúlasjónir vera, því að nú hefur komið upp úr kafinu að frúin ólétta var að skálda þetta allt saman. Hún hafði verið handtekin í verslun fyrir stuld, og kom í ljós að hún var einnig með þýfi úr annarri verslun. Hún var því sett í varðhald, en vildi ómögulega láta manninn sinn vita hvað hún hefði verið að brasa. Henni tókst því að múta lögreglumanninum sem var yfir rannsókn málsins, sem lét hana lausa og varð hún því að útvega sér pening til að fjármagna múturnar og það fljótt. Mín fór því og hringdi í móður sína til að redda lausnarfé og kom með þessa fínu sögu til eiginmannsins. Hún reiknaði hins vegar ekki með að hann færi að senda tölvupóst út um allar koppagrundir og að málið kæmist þannig til fjölmiðla.

Nú er framtíðin ekki mjög björt fyrir þessa verðandi móður. Í staðinn fyrir að eiga yfir höfði sér eingöngu ákærur fyrir búðarþjófnað, þá verður hún væntanlega einnig ákærð fyrir svik (enda kærði fjölskylda hennar mannránið til lögreglu og hún bar vitni í málinu), að hindra framgang réttvísinnar og að múta lögreglunni. Sömuleiðis er trúlegt að lögreglumaðurinn verði einnig ákærður fyrir mútuþægni. Þá hafa verslanirnar sem nefndar voru í sögu hennar, hótað að kæra hana líka fyrir að sverta orðspor þeirra og skaða viðskiptahagsmuni (enda var hálf borgin orðin logandi hrædd að fara að versla þarna vegna hættu á mannránum!)

Það er vitað að óléttar konur fá oft slæmar hugmyndir en ég held að þessi hljóti að vera hin allra versta sem ólétt kona hefur fengið fyrr eða síðar. Ekki nóg með það, þá hafði eiginmaðurinn ekki séð í gegnum þessa leikfléttu hennar þegar fjölmiðlar töluðu við hann í gær. Ég býst við að umhyggja hans fyrir frúnni hafi vikið fyrir einhverjum óæðri tilfinningum í kjölfarið.


Gaman úti í garði

Halli var með vin sinn í sleepover í nótt. Fyrst fóru þeir í afmæli hjá bekkjarfélaga sínum. Það var búningapartý og Halli fór sem draugur og vinur hans Erik sem kúreki. Ég málaði Halla í framan og hann var frekar ógeðslegur með blóðið lekandi úr enninu. Einhver bekkjarfélaginn var spurður, ertu kúreki? - Hann svaraði, nei, ég er fornleifafræðingur! - Hér er bara eitt bíó og vanalega bara ein barna- og unglingamynd sem sýnd er á hverjum tíma. Nú standa yfir sýningar á Indiana Jones, sem hefur vakið mikla lukku meðal bekkjarfélaga. Það er óvenjulegt að fræðigreinar séu settar á slíkan stall í dægurmenningu nútímans.

Svo var horft á mynd um kvöldið og kveikt upp í arninum og við átum grillaða sykurpúða af hjartans lyst.

Stebbi í stuði

Í morgun fór Davíð út á flugvöll að sækja íslenskan gest í tengslum við starfið og Óskar fékk að fara í bíltúr með honum. Á meðan Halli og Erik horfðu á morgunsjónvarpið vorum við Stefán úti í garði að sleikja morgunsólina.

 

Hér er litli prinsinn í morgunsólinni. Hann er í mikilli framför með að tala, er farinn að segja fullt af orðum, þó að erfitt geti reynst að skilja hann á stundum.  Hann er voða duglegur og gefur ekkert eftir í baráttunni innan heimilisins en getur gólað ógurlega, eins og oft er sagt að yngstu fjölskyldumeðlimirnir geri.

 

 

 

Stebbi í rólunum

Rólan og rennibrautin sem við keyptum vekja enn mikla lukku  hjá drengjunum. Síðan fórum við Halli og Erik á Indiana Jones sjálfan og skiluðum Erik svo til síns heima.

 

 

 

 

 

Í gær fórum við og keyptum skeljar í garðinn (eina undir og eina til að loka), til að geta gert sandkassa fyrir drengina. Davíð notaði tækifærið á meðan við vorum í bíói, og fyllti skelina af vatni svo að drengirnir gætu sullað í sólinni. 

 

Sull í garðinum

Hér eru drengirnir alsælir að sulla. Því miður sést það ekki á myndinni en ég tók mig til og klippti þá í fyrradag. Ég hafði verið að spá í að taka þá á hárgreiðslustofu, en ákvað að prófa sjálf. Ef illa tækist til, gæti ég alltaf snoðað þá báða. Vopnuð rakvélinni hans Dabba og gömlum eldhússkærum var lagt til atlögu. Ekki held ég nú að Gudda hefði verið ánægð með útfærsluna, en þeir líta þó betur út en áður. Það er í raun ekki svo erfitt að klippa hár á viðunandi hátt ef að viðfangið er til friðs og kyrrt, en því er ekki að heilsa á þessum bæ. Ég snyrti Óskar meira að segja aðeins til í gær, en það voru lokkar sem stóðu út í loftið hér og þar. Hann var hins vegar alsæll með klippinguna og sagðist bara líta út eins og prins.

Nú eigum við bara eftir að redda sandi í skelina, en það ætti ekki að vera erfitt í landi sem er að miklum hluta eyðimörk. 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband