Sérstæð sakamál..

Nýjasta sakamálið hér er mjög áhugavert. Á föstudag gekk tölvupóstur eins og eldur í sinu milli fólks frá eiginmanni konu sem komin er 8 mánuði á leið og var rænt hér niðri í bæ, við eina verslunarmiðstöðina. Hann var að vara fólk við að vera þar á ferli og bað sérstaklega konur og börn að sýna aðgát. Frúin hafði í sakleysi sínu verið þarna á vappi þegar menn gripu hana og fóru með hana í burtu í bíl, og enginn hafði lyft litla putta til að aðstoða vesalings konuna. Svo létu þeir hana að hringja í ættingja til að fá borgað lausnargjald, ella yrði hún drepin. Móðir hennar kom með 30 þúsund krónur og var hún látin laus. Eiginmanninum var að vonum brugðið og sendi því út þennan varnaðarpóst til nokkurra, sem áframsendu hann svo. Fjölmiðlar fjölluðu einnig mikið um málið, því að svona alvarlegir glæpir eru fremur sjaldgæfir hér.

Ég hafði nú nokkrar áhyggjur af konugreyjinu, enda komin 8 mánuði á leið og hormónarnir örugglega á fullu, og ómögulegt að vita hvað gerist með barnið við að lenda í svona svaðilförum. Dabbi spekúleraði nú meira í afbrotamönnunum, hvað þeim gengi til, því að refsingar fyrir frelsissviptingu og mannrán eru vanalega mjög háar.

Við hefðum getað látið þessar spekúlasjónir vera, því að nú hefur komið upp úr kafinu að frúin ólétta var að skálda þetta allt saman. Hún hafði verið handtekin í verslun fyrir stuld, og kom í ljós að hún var einnig með þýfi úr annarri verslun. Hún var því sett í varðhald, en vildi ómögulega láta manninn sinn vita hvað hún hefði verið að brasa. Henni tókst því að múta lögreglumanninum sem var yfir rannsókn málsins, sem lét hana lausa og varð hún því að útvega sér pening til að fjármagna múturnar og það fljótt. Mín fór því og hringdi í móður sína til að redda lausnarfé og kom með þessa fínu sögu til eiginmannsins. Hún reiknaði hins vegar ekki með að hann færi að senda tölvupóst út um allar koppagrundir og að málið kæmist þannig til fjölmiðla.

Nú er framtíðin ekki mjög björt fyrir þessa verðandi móður. Í staðinn fyrir að eiga yfir höfði sér eingöngu ákærur fyrir búðarþjófnað, þá verður hún væntanlega einnig ákærð fyrir svik (enda kærði fjölskylda hennar mannránið til lögreglu og hún bar vitni í málinu), að hindra framgang réttvísinnar og að múta lögreglunni. Sömuleiðis er trúlegt að lögreglumaðurinn verði einnig ákærður fyrir mútuþægni. Þá hafa verslanirnar sem nefndar voru í sögu hennar, hótað að kæra hana líka fyrir að sverta orðspor þeirra og skaða viðskiptahagsmuni (enda var hálf borgin orðin logandi hrædd að fara að versla þarna vegna hættu á mannránum!)

Það er vitað að óléttar konur fá oft slæmar hugmyndir en ég held að þessi hljóti að vera hin allra versta sem ólétt kona hefur fengið fyrr eða síðar. Ekki nóg með það, þá hafði eiginmaðurinn ekki séð í gegnum þessa leikfléttu hennar þegar fjölmiðlar töluðu við hann í gær. Ég býst við að umhyggja hans fyrir frúnni hafi vikið fyrir einhverjum óæðri tilfinningum í kjölfarið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Er þetta ekki svona: "Neyðin kennir naktri konu að spinna"? Má skilja "spinna" á tvo vegu jafnvel í þessu tilfelli.

Skemmtilegt blogg sem þú heldur úti - ég kem reglulega og les um ævintýri ykkar og daglegt líf.

Systa (IP-tala skráð) 9.6.2008 kl. 19:49

2 Smámynd: Erla Hlín Hjálmarsdóttir

Gaman að heyra frá þér, Systa!

Ég held að það þurfi ansi gott ímyndunarafl til að spinna eitthvað þessu líkt upp, þetta líkist frekar reyfara en raunveruleikanum. Ég er búin að ákveða að koma 'clean' fram við Dabba næst þegar ég verð handtekin.

Erla Hlín Hjálmarsdóttir, 11.6.2008 kl. 10:41

3 identicon

Þetta er ótrúleg saga!

Skemmtileg síða hjá þér væna mín, það er svo gaman að upplifa svona ævintýri í gegnum aðra - lýsir reyndar bæði leti og heygulshætti af minni hálfu - en takk fyrir að nenna að leyfa manni að fylgjast með:)

Knús til allra!

Siva (IP-tala skráð) 12.6.2008 kl. 17:21

4 identicon

Ha ha dásamleg saga.

Linda (IP-tala skráð) 13.6.2008 kl. 09:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband