Bloggfærslur mánaðarins, október 2010

Halloween og fleira

Á föstudag var halloween í skólanum og svo tvö partý um eftirmiðdaginn og kvöldið hjá Bandaríkjamönnunum og alþjóðaliðinu. Hér eru litlu gaurarnir á leiðinni í skólann.
IMG_0160Óskar var Drakúla og Stefán kóngulóarmaðurinn. Halli var fótboltamaður, sem þýddi bara að hann neitaði að klæða sig upp og var í sömu múnderingu og vanalega. Manchester United.

Myndin er tekin á símann minn og er örlítið móðukennd, sem eykur bara á mystíkina.

Nú eru flensurnar að ganga sem aldrei fyrr, og Halli var lasinn á föstudag, en herra Drakúla er búinn að taka vaktina núna. Þeir eru reyndar bara með hita og smá slappir, svo að þeir sleppa vonandi vel. 100 krakkar í skóla í norður Namibíu voru settir í sóttkví í skólanum vegna svínaflensu, sem er að skjóta sér niður hér og þar. Þau voru ferlega veik, en tvær hjúkkur voru hjá þeim að hlúa að þeim um helgina. Helmingurinn af krökkunum í blindraskólanum fékk einnig flensuna. Fólk er með sérstakar áhyggjur hér því að margir eru viðkvæmari en ella fyrir pestum og því er allra leiða leitað til að hefta útbreiðslu flensunnar.

Ég hef verið á fullu í rannsóknarvinnu í vikunni og skrifa vettvangsnótur sem enginn sé morgundagurinn, en ég sat m.a. áhugaverðan vinnufund á föstudaginn um skilvirkni þróunarsamvinnu. Nú fer að styttast í heimferð.


Etosha þjóðgarðurinn í síðasta sinn

Við heimsóttum Etosha í norðurferðinni, sem verður væntanlega í síðasta sinnið, amk. meðan á veru okkar hér stendur. Nú er þurrkatími og dýrin flokkast saman á sléttunum og hópast að vatnsbólunum til að svala þorstanum, svo að það var mikið um að vera.

Hér eru nokkrar svipmyndir (nashyrningurinn var svo nálægt bílnum á tímabili að ég átti erfitt með að ná honum öllum inn á myndirnar).

 

Fyrir nokkru fórum við einnig að skoða matargjöf til blettatígra og hlébarða, en það var dálítið sérstakt því að við keyrðum í opnum safaríbílum inni í girðingunni hjá þeim. Okkur varð ekki um sel þegar hlébarðinn var rétt hjá okkur og við létum drengina vera alveg hljóða og sitja í miðjusætum þar sem við héldum fast um þá. Það var kannski eins gott því að hlaupafélagar okkar voru um helgina að segja mér sögu frá öðru vinafólki sínu sem einnig starfaði við þróunarsamvinnu. Hjónin fóru í safarí í Tansaníu með litla, þriggja ára drenginn sinn. Þau voru einnig í opnum safaríbíl, sem eru svo algengir. Svöng ljónynja kom, skoðaði bílinn en stökk svo upp, hrifsaði litla drenginn úr örmum foreldranna og tók hann í burtu. Eins og í veiðiferðum úti í náttúrunni, reyna ljónin að ráðast á þá minnstu í hópnum. Leiðsögumaðurinn var óvopnaður svo ekki var hægt að gera nokkurn skapaðan hlut. Ég var alveg miður mín eftir þessa sögu og þau fóru að lýsa hverrnig þeim leið þegar ljónynja kom að hringsóla um bílinn þeirra í Etosha og þau veinandi á börnin í aftursætinu að halda gluggunum nú í guðanna bænum lokuðum. Við sáum þónokkuð mörg ljón í Etosha, og trúlega eins gott að ég var ekki búin að heyra þessa hryllingssögu fyrir norðurferðina.

Og það eru ekki bara villidýrin sem eru hættuleg. Á leiðinni frá ströndinni um helgina stoppaði frú frá Windhoek á miðri leið, á nestisstoppi við veginn. Það vildi ekki betur til að hún varð fyrir árás geitunga og fékk ekki færri en 400 geitungabit. Hún endaði á spítala, og náði fyrir einhverja mildi að lifa þessi ósköp af. Þótti furðu sæta.


Snúin til baka af ströndu

Við komum til baka af ströndinni í gær, eftir að hafa farið til Topnar fólksins hennar Katrínar, en ÞSSÍ styrkti byggingu leikskóla fyrir þennan hóp, sem Davíð fór að skoða. Topnar fólkið býr með árfarvegi Kuiseb árinnar, vestan Hvalaflóa og komu fulltrúar frá ráðuneyti kynja-, jafnréttis og velferðarmála  barna með okkur. Þar hittum við höfðingjann, sem var bráðskýr karl og skartaði Gucci gleraugum. Hann gaf okkur Nara hnetur að smakka, sem er helsta uppistæðan í fæðu fólksins. Þær eru ljúffengar, með smjörlíku bragði.

Síðan var haldið í barnaskólann sem menntar um 280 börn og hittum við skólastjórann til að færa krökkunum fótbolta.

Á laugardaginn hlupum við hjónin paraþon. Eitthvað var nú tvísýnt um þátttöku vora, þar sem Dabbi hafði vikuna áður fengið flensu og ég fékk hana á mánudag. Þar sem hlaupaþjálfarinn er flutt til Þýskalands, gat Dabbi sannfært mig um að lulla þetta bara, svo að hann gæti nú farið sitt fyrsta hálfmaraþon. Hlaupaþjálfarinn leggur nefninlega strangt bann við hlaupum þegar maður hefur svo mikið sem lítilsháttar kvef, og býður fram sögur af alls kyns afreksfólki sem fær vírusa í líffæri og drepst eður lifir við örkuml. Þannig að ég sló til og hljóp í rólegheitum fyrst með þessari portúgölsku, en leiddist þófið og yfirgaf hana fljótlega. Var heilum átta mínútum á eftir upphaflegu hlaupaplani, og tók mér meira að segja lengri tíma en í fyrra, þrátt fyrir að hafa þjálfað nokkuð stíft.

En Dabbi minn fékk því að hlaupa og lauk rétt undir tveimur tímum, sem þykir nokkuð gott því að það var heilmikill mótvindur og aðstæður því fremur erfiðar. Hann var orðinn lúinn þegar hann kom í mark, enda gátum við hlegið hjartanlega að myndunum. Þar má sjá mig að skoppa með honum til að gefa drykki, og einnig uppáhalds hlaupafélaga mínum, honum Udo, sem var þarna að hlaupa sitt fyrsta maraþon. Hann lauk á 4 tímum og 5 mínútum, og myndi væntanlega fara létt með að komast undir 4 tíma markið ef hann fengi að hlaupa á jafnsléttu og án mótvinds. Þau portúgölsku voru ekki búin að jafna sig að fullu eftir Berlínarmaraþonið, en stóðu sig bæði með mikilli prýði.

 

Síðdegis var svo sigurhátíð í íbúðinni okkar, þar sem hlaupahópurinn kom saman til að halda upp á árangurinn, enda margir að hlaupa sitt fyrsta maraþon eða hálf maraþon.


Á ferð og flugi

Maggi, Signý og Árni eru komin í flug til Joburg, og fara svo þaðan til Íslands. Þau eru búin að ferðast vítt og breitt og afar sæl. 

Við fórum í viku ferð saman norður í land, þar sem Davíð var að heimsækja verkefni vítt og breitt. Hér er örlítið sýnishorn af myndum.

Þetta er algjört brotabrot enda frá miklu að segja og ótrúlegur fjöldi flottra mynda sem sitja eftir. Eins og áður sagði, þá komu Signý og Maggi hlaðin gjöfum handa fátækum, ásamt framlagi Andreu, sem við dreifðum um sveitir landsins af mikilli vandvirkni. Það skýrir boltana. Meira um það seinna.

Frá Íslandi fékk ég einnig senda bók eftir Yrsu Sigurðardóttur, til að skilja eftir í bókasafni bókaklúbbsins. Dabbi hefur tekið miklu ástfóstri við hana, og þótti því vel viðeigiandi að skilja ritverk eftir hana eftir í Afríku sem annan fulltrúa íslenskra rithöfunda. Hinn var Laxnes, en ég hef verið að lesa Brekkukotsannál á ensku, í ágætis þýðingu Magnúsar Magnússonar, kenndum við mastermind. Ég hafði ekki lesið hana síðan ég var unglingur og þótti ekki mikið til koma þá, ef ég man rétt. Núna var annað upp á teningnum, þó að hún væri nokkuð seinlesin. Ástæðan var sú að ég stóð mig að því að þýða brot úr henni aftur yfir á hið ylhýra í huganum og það tekur tíma, en lesningin er hins vegar alveg dýrðleg.

Við fjölskyldan stefnum nú niður á strönd þar sem við Dabbi hyggjumst hlaupa paraþon á morgun í Lucky Star maraþoninu.


Norðrið kallar

Maggi, Signý og Árni mættu á staðinn á miðvikudag, rétt tímanlega til að sjá fyrstu regndropana falla, loks fór að rigna eftir margra mánaða þurrk. Loftið er miklu hreinna og svo verður svo miklu léttara yfir mannlífinu þegar rigningarnar byrja. Maggi og co. lögðu svo af stað til Etosha um hádegisbilið í gær. Við erum að fara af stað í dag, en við förum saman í viku norðanferð. Hún verður væntanlega sú síðasta sem við fjölskyldan förum saman.

Þau komu hlaðin gjöfum frá Íslandi handa namibískum börnum í sveitinni og í fátækrahverfinu hér, frá gjafmildum aðilum að heiman. Nú stendur einnig til að afhenda gjafir frá Andreu til sveitaskólans í Swartbooisdrift, alveg við Angóla. Við fórum í vikunni að kaupa ritföng og skóladót, og svo kaupum við mat fyrir norðan líka.

Ég gef skýrslu þegar við snúum til baka úr ferðinni.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband