Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2008

Jólaboð


jólaboð 4
Á laugardaginn var hádegisjólaboð hjá skrifstofunni. Nú er sumarið að ganga í garð og flestir að fara í jólafrí. Namibísku skólarnir eru þegar komnir í frí, en alþjóðaskólinn er í styttra fríi því að aðalfríið hjá þeim er yfir namibíska veturinn. Jólafríið byrjar eftir næstu viku hjá þeim.
 
Jólasveinninn kom og færði börnunum þessar fínu jólagjafir. Stefán er mjög spenntur fyrir jólasveininum og finnur hann í öllum auglýsingum og skreytingum og veinar "ólaveinninn!!" Hann var því mjög ánægður að sjá sveinka mæta á svæðið. Hér eru strákarnir spenntir að bíða eftir pakka með hinum krökkunum.



jólaboð 5
Hér er svo Stefán kominn með sinn pakka í hendurnar. Rúnar Atli vinur þeirra stendur þarna hjá þeim.












jólaboð 2
 Sveinki var í þessum fínu gúmmístígvélum í hitanum.
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
jólaboð 3
 Jújúú
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
jolaboð
Hér er hluti fjölskyldunnar, Katrín starfsnemi er þarna í bakgrunni.
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
jólaboð 6
Hér hefur verið sest að borðum og allir búnir að setja upp kórónur fyrir partýið.
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
  
jólaboð 7
Svo eru hér þrár íðilfagrar og frábærar stúlkur. Þær eru Katrín, starfsneminn hjá ICEIDA, en hennar starfstímabil er nú á enda. Svo er Lizette sem er verkefnisstjóri yfir verkefni sem styður við heyrnarlausa í Namibíu. María, sem er hér í hefðbundnum Nama kjól, er fjármálafulltrúi á skrifstofunni.

Árbítur og selbítur

 

International breakfast 1 Á föstudaginn var haldinn international breakfast hjá bekknum þeirra Óskars og Stefáns. Við deildum gestgjafahlutverkinu með einni móðurinni frá Namibíu. Við buðum m.a. upp á graflax með sósu (laxinn var reyndar frá Noregi, en góður samt) og ávaxtasalat sem var eins og broddgöltur, með haus og gadda með fullt af ávöxtum. Nú er uppskera af melónu og það hafa verið svo mikið af ávaxtaflugum á þeim að Suður Afríka hefur ekki viljað taka við melónum frá Namibíu, svo að þær eru allar seldar á heimamarkaði. Ekki verður þverfótað fyrir melónum í búðum, vatnsmelónum er t.d. raðað á gólfin svo að erfitt er að komast um með innkaupakerrurnar. 

 

 

 

 

 international breakfast

Hér eru strákarnir að prófa nýjan höfuðbúnað eftir árbítinn. 

Það er nóg að gera í félagslífinu, en þegar ég kom fyrst hugðist ég finna mér gott áhugamál og horfði vongóð til þess að læra að fljúga. Hér er ekki ský á himni mánuðum saman, svo ég komst að þeirri niðurstöðu að það myndi henta mér vel að læra að fljúga hér, amk. myndi ég sjá ef ég væri að fara að klessa á. Dabbi tók bara vel í þetta, en gaf nú reyndar ekki mikið út á hvort að hann myndi treysta sér upp í vél með mér. Svo var þessu nú frestað eins og gengur og ég kíkti aðeins út í flugskóla með Jónda þegar hann var hér. Hann taldi mér trú um að það væri bara bull og vitleysa að læra að fljúga hér, allt aðrir staðlar en í Evrópu svo að ég fengi ekki að stíga upp í vél þar. Svo væri maður eiginlega fljótari í ferðum keyrandi heldur en fljúgandi, svo að ég hætti snarlega við. Dabbi var manna fegnastur, enda höfðu átta einkavélar hrapað hér á tveimur mánuðum, svo að tölfræðin var manni nú ekki í hag. Veit ekki nema að viðhaldinu sé ábótavant.

Svo er nú ágætt að ég fór ekki út í að stunda brimbretti. Nú í vikunni voru tveir brimbrettagaurar að stunda íþrótt sína við Cape Cross, og hvað haldið þið, nema að kolvitlaus urta réðst á annan þeirra og var rétt við að murka lífið úr honum þegar félaginn kom honum til hjálpar. Hún réðst á hann líka og þeir náðu við illan leik í land, en hún réðst á þá alveg þangað til að þeir höfðu fast land undir fótum. Það er þekkt að hákarlar ráðast á brimbrettafólk, en ekki selir. Hún beit þá mjög illa í höfuð, hendur og fætur. Beit part af eyra af. Þeir voru nú voða umburðalyndir þegar tekið var viðtal við þá og sögðu að þetta hefði bara verið einn morðóður einstaklingur af fjöldanum, það væri ekki hægt að dæma seli yfirleitt eftir þessu. Svo var verið að álykta að urtan hefði verið utan við sig af skelfingu eftir selaslátrun frá 15 nóvember en þá lauk veiðitímabilinu með blóðbaði. Spurning hvort hægt sé að dæma mannskepnuna eftir þessu?

Ég held mig því við þá öruggu og heilsusamlegu iðju að lyfta lóðum í ræktinni. Þetta er orðið hluti af fjölskyldulífinu en við hjónin förum saman á föstudagseftirmiðdögum og öll fjölskyldan á sunnudögum þar sem Óskar og Stefán eru í barnapössuninni og Halli í þreki með móður sinni. Ræktin getur verið dálítið skrautleg. Hér eru lakkskór mjög vinsælir, enda mjög praktísk kaup þegar maður á bara eitt par. Á tónleikum um daginn var aðalsöngvarinn t.d. klæddur í rapparalegan fatnað og mjög skæsí.... og í lakkskóm. Rósa systir var ekki að komast yfir þetta. Hún ætti að sjá kappana í ræktinni sem hoppa sprækir um í íþróttasokkum og lakkskónum góðu. Mér finnst það mjög heimilislegt.


Vatn, vatn, vatn

 

Vatn 2

Ég hef sýnt ykkur myndir úr sveitinni þar sem lífið hjá konum og börnum snýst um vatnsburð og fólk gangandi langar vegalengdir með vatnsdunka og ílát. Hér í borginni er lífið einfaldara. Vatnið er drykkjarhæft úr krönum, en við leggjum reyndar ekki í það með okkar viðkvæmu, íslensku maga. Við fáum því senda heim 5 gallona vatnsdunka fyrir 400 kr. sem við tengjum við kæli.

Á myndunum eru strákarnir léttklæddir að svala þorstanum við dunkinn góða.

 

 

Vatn 1 Nú er farið að hitna aðeins og hitinn vel yfir 30 stig í herbergjunum þegar við erum að fara í bólið á kvöldin.  (Strákarnir eiga þessar forlátu klukkur sem eru með hitamæli) Strákarnir taka þessu nú bara vel, en við eldri kynslóðin og Halli eigum erfiðara með að sofna, en loftkælingin í herberginu okkar er biluð. Við Halli vorum að metast um í hvoru svefnherberginu væri heitara, og Halli var sigri hrósandi í gærkveldi þar sem hann hafði fengið blóðnasir þegar hann var kominn í bólið og kenndi hitanum alfarið um. Þarna var komin beinhörð sönnun um að herbergið hans væri það heitasta í húsinu og það varð fátt um svör hjá mér. Nú bíð ég spennt eftir að viðgerðarmenn komi að kíkja á kælinguna og við höfum þá alltaf þann kost að færa Halla inn til okkar.

Mér finnst reyndar ósköp notalegt að hafa góðan hita. Nú er spáð rigningu og þá mun kólna lítisháttar aftur. Moskótóflugurnar eru komnar aftur og maður er alltaf með bit hér og þar, en ekkert sem hrjáir um of.


Tatamm, jólin eru að koma..

Bara að láta ykkur vita að jólin eru að koma hérna megin á jarðarkringlunni líka. Fyrir ca. tveimur vikum horfði Halli ráðvilltur á starfsfólk í bókabúð setja upp jólaskrautið, og spurði hvort að þetta væri ekki dálítið snemmt? -Kannski er líka erfitt að tengja sig við jólin þegar það er 35 stiga hiti úti. Í gær þegar ég fór í hverfisverslunina, skartaði allt starfsfólkið jólasveinahúfum í hitanum. Steininn tók svo úr í morgun þegar ég fór í stórverslun og Boney M hljómaði í kerfinu. Þarna ráfaði ég um að leita að frosnum rækjum: "..dashing through the snow, in a one horse open sleigh trallalallalalaltrlalalalalaaa..."

Já, dýrtíðin..

Ég var að skoða okursíðuna og hryllti mig yfir hvað allt verð er að hækka á Íslandi. Hér tekur maður aðeins eftir því, en verðið er yfirleitt mun þolanlegra hér. Heima er þetta nánast glæpsamlegt. Sem leiðir mig að öðrum punkti.

Davíð fékk fyrir rukkun í heimabankann sem hann kannaðist ekki við, frá innheimtufyrirtækinu Borgun ehf. Kom í ljós að hann hafði tekið lán í Elko fyrir sjónvarpi upp á 300 þús. krónur. Sem hann hafði auðvitað ekki gert því að hann var þegar fluttur til Afríku. Það sem er kannski merkilegast í þessu er að það kom í hlut Dabba að sanna að hann hefði ekki tekið lánið, en ekki fyrirtækjanna að sýna fram á að þau hefðu verið að misnota kennitölu sárasaklaus manns sem bjó erlendis. Pabbi hans Dabba setti ómældar vinnustundir í málið sem og Dabbi héðan frá Namibíu. Pabbi hans Dabba þurfti sumsé að fara til lögreglunnar til að kæra málið. Þá var gaga aflað, og þegar samningurinn var skoðaður kom í ljós að hann var óundirskrifaður (hefði kannski ekki verið eðlilegt í byrjun að kíkja á samninginn, þ.e. af annað hvort Elko eða Borgun, þegar látið var vita af þessu í byrjun??).Eftir langt stapp kom í ljós að einhver hafði gefið kennitöluna hans Dabba upp þegar viðkomandi var að ganga frá lánasamningi og sagðist svo þurfa að skreppa út í bíl að ná í veskið sitt þegar hann átti að framvísa skilríkjum. Samningurinn var hins vegar engu að síður sendur til Borgunar, óundirskrifaður, og sendur í innheimtu um hæl. Þetta eru nú viðskiptahættir til fyrirmyndar, en sýnir kannski ágætlega hversu auðvelt var að fá lán á Íslandi!

Aftur að verðlaginu. Um daginn var 750 ml. flaska af ágætis hvítvíni frá Suður Afríku á tilboði á 150 kr. Hvað kostar svo hálfs líters kók á Íslandi?

Hér er, geri ég ráð fyrir, mikil eftirspurn eftir ódýrasta kjötinu af því að það eru svo margir fátækir. Þetta veldur því að kjöt er nokkuð undarlega verðlagt. Það sem annars staðar er ódýrasta kjötið, eins og súpukjöt, er á 450 kr. kg. Síðan er kjötið sem vanalega er mjög dýrt eins og nauta sirloin og fillet bara á 700 kr. kg. Það er sumsé mjög lítill verðmunur á milli ódýrasta og dýrasta kjötsins. Verð á kjötvöru hefur einnig verið að hækka undanfarið. Leja á kjötsög og vann sér m.a. inn pening með því að saga kjöt og skrokka fyrir fólk. Nú segir hún að kjötið sé orðið svo dýrt að enginn eigi kjöt til að láta saga fyrir sig.

Svo verður nú að taka fram að margar vörur eru afspyrnu dýrar hér, og gefa Íslandi ekkert eftir. Þetta eru munaðarvörur og leikföng, svo eitthvað sé nefnt.


Húsdýragarðurinn


Húsdýragarður2
Um daginn fór skólinn með bekkinn þeirra Óskars og Stefáns í húsdýragarðinn í Windhoek og foreldrar fengu að fljóta með. Þeir fengu m.a. að sjá geitur og hesta, strúta, apa og kanínur. Þeir fengu að gefa geitunum, en flest börnin klifruðu óttaslegin upp um foreldra og fóstur. Blessaðir drengirnir mínir hófu strax baráttu við að ná í köggla til að gefa geitunum. Ég hélt að Stefán myndi steypa sér niður í fóðurfötuna þar sem hann var að stympast við hyrnta geit. Svo hurfu þeir í geitahópinn þar sem önnur barátta byrjaði, milli geitanna, að ná sér í góðgæti. Þeir voru óttalausir með öllu, og mjög sveitalegir þarna meðal dýranna, eins og þeir eiga kannski ættir til. 
 
 
 

Húsdýragarður1
Þetta fór annars vel, Stefán var við það að troðast undir á einum tímapunkti en móðir hans kom til bjargar og hann steypti sér strax út í hópinn á ný.
 
Ég var sjálf sveitt að passa að þeir færu sér ekki að voða og náði því ekki að taka margar myndir. Einn apinn náði taki á hárlubbanum á ungri dömu og var ekki á því að sleppa þó að hún gólaði svo undir tók í öllu. Ég var síðan dauðhrædd við strútana, enda eru þeir engin smásmíði. Strákanir fengu hins vegar að gefa þeim og höfðu gaman af, á meðan ég sá fyrir mér blóðuga fingur og illskeyttar árásir af öllu tagi frá þessum ferlíkjum.
 
Svo var borðað nesti og krakkarnir voru máluð í framan og fengu að leika sér í leiktækjunum. Á meðan sátum við mæðurnar í skugga undir tré og ræddum landsins gögn og nauðsynjar. Hér er ákveðin kynjaskipting, þar sem konurnar sjá fyrst og fremst um börnin, þó að þetta sé alþjóðlegur hópur. Nú fljótlega bjóða foreldrar leikskólakennurunum í morgunverðarboð, en hér er sumsé mæðrunum bara boðið  og tekið fram að karlarnir eigi að vera heima að passa börnin. Það er áhugavert að sjá hvernig kynjahlutverkin birtast í þessu, en við komumst að þeirri niðurstöðu að boðið hefði nú væntanlega ekki verið bundið við kyn heima á Íslandi.

Hér er sungið og dansað


Dans 2
Halli og Dabbi fóru á mótttökuathöfn í Rundu þar sem svona vel var tekið á móti þeim. Þetta er Kavango fólk, en þarna eru fimm ættbálkar sem við kunnum ekki að gera greinarmun á.

Rundu er sunnan Kavango árinnar, en norðan hennar er Angóla. Hér er því margt fólk sem hefur komið frá Angóla enda geisaði borgarastyrjöld þar í 27 ár. 
 
 
 
 
 
 

Dans 3
Við sátum eitt kvöldið með útsýni yfir ána og nutum útsýnisins, sem var geysifallegt. Allir nema umhverfisfræðingurinn sem horfði með vanþóknun á þessar fáu trjáhríslur sem voru Namibíu megin (það er mjög þéttbýlt sunnan megin) og sagði að þetta væri klassískt dæmi um skógareyðingu dauðans. Við Íslendingar höfum kannski bara svona góðan smekk fyrir berangurslegu landslagi því mér fannst þetta óskaplega fallegt.
 
 
 
 
 
 
dans
Hér eru flottir trommuleikarar, en Dabbi átti afmæli í gær og við gáfum honum afríska trommu til að hann gæti djammað smá fyrir sjálfan sig og fjölskylduna. Hann fékk líka braai bók, svo að þetta eru mjög praktískar gjafir sem við eigum öll eftir að njóta góðs af.
 
Í síðustu viku fór að rigna, öllum til undrunar. Veðrið kólnaði heilmikið og svo voru skúrir við og við, og stundum hellirigndi. Eina nóttina rigndi látlaust. Nú eru skýin farin á brottu, ekki er hnoðri á himni og hitinn aftur kominn upp í ca 35 gráður sem er mjög indælt. Húsið hitnar yfir daginn svo að það eru 30 gráður í svefnherbergjunum þegar við erum að fara í bólið, sem er dálítið heitara en við eigum að venjast, svo að vifturnar koma að góðum notum.
 
 

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband