Húsdýragarðurinn


Húsdýragarður2
Um daginn fór skólinn með bekkinn þeirra Óskars og Stefáns í húsdýragarðinn í Windhoek og foreldrar fengu að fljóta með. Þeir fengu m.a. að sjá geitur og hesta, strúta, apa og kanínur. Þeir fengu að gefa geitunum, en flest börnin klifruðu óttaslegin upp um foreldra og fóstur. Blessaðir drengirnir mínir hófu strax baráttu við að ná í köggla til að gefa geitunum. Ég hélt að Stefán myndi steypa sér niður í fóðurfötuna þar sem hann var að stympast við hyrnta geit. Svo hurfu þeir í geitahópinn þar sem önnur barátta byrjaði, milli geitanna, að ná sér í góðgæti. Þeir voru óttalausir með öllu, og mjög sveitalegir þarna meðal dýranna, eins og þeir eiga kannski ættir til. 
 
 
 

Húsdýragarður1
Þetta fór annars vel, Stefán var við það að troðast undir á einum tímapunkti en móðir hans kom til bjargar og hann steypti sér strax út í hópinn á ný.
 
Ég var sjálf sveitt að passa að þeir færu sér ekki að voða og náði því ekki að taka margar myndir. Einn apinn náði taki á hárlubbanum á ungri dömu og var ekki á því að sleppa þó að hún gólaði svo undir tók í öllu. Ég var síðan dauðhrædd við strútana, enda eru þeir engin smásmíði. Strákanir fengu hins vegar að gefa þeim og höfðu gaman af, á meðan ég sá fyrir mér blóðuga fingur og illskeyttar árásir af öllu tagi frá þessum ferlíkjum.
 
Svo var borðað nesti og krakkarnir voru máluð í framan og fengu að leika sér í leiktækjunum. Á meðan sátum við mæðurnar í skugga undir tré og ræddum landsins gögn og nauðsynjar. Hér er ákveðin kynjaskipting, þar sem konurnar sjá fyrst og fremst um börnin, þó að þetta sé alþjóðlegur hópur. Nú fljótlega bjóða foreldrar leikskólakennurunum í morgunverðarboð, en hér er sumsé mæðrunum bara boðið  og tekið fram að karlarnir eigi að vera heima að passa börnin. Það er áhugavert að sjá hvernig kynjahlutverkin birtast í þessu, en við komumst að þeirri niðurstöðu að boðið hefði nú væntanlega ekki verið bundið við kyn heima á Íslandi.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband