Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2009

Máninn hátt á himni skín

 Ag 008 
Máninn hátt á himni skín, og gott betur en það, því að hann kemst ekki öllu hærra. Hann er í hvirfli, beint fyrir ofan hausinn á manni. Ég hafði lesið sem ung stelpa ferðabók frá Mexíkó sem mig minnir að hafi heitið Undir Mexíkómána, og framan á bókinni var undarlegur máni. Allt öðruvísi en heima á Íslandi. Þetta fannst mér afar skrýtið. Í dag hætti ég heldur ekki að undra mig á mánanum hér. Stundum eins og broskall, lítil, hlægjandi rönd á himninum og stundum á furðulegustu stöðum. Eins og núna. Hann er hálfur og vel það. Myndin sýnir nú kannski ekki vel hvað hann er fagur, en hann virðist oft innan seilingar, og reyndar helst ef maður er í rökkrinu inni í eyðimörk.

Til að gefa ykkur smá mótsagnir, og að rífa ykkur uppúr tunglhugleiðingum þá læt ég fylgja mynd af skemmtilegu skorkvikindi sem var á húsinu okkar um daginn. Frábær afurð móður náttúru.

Ag 002

Annars erum við  búin að eyða megninu af deginum í áströlsku grilli með viðeigandi maraþonáti. Góður sunnudagur.

 


Um hitt og þetta

Þýskaland 3Það hefur verið tíðindalítið héðan að sunnan. Ég leyfi ykkur hins vegar að sjá nokkrar myndir frá veru okkar í Þýskalandi þar sem við stoppuðum í þrjá daga á leiðinni til baka til Afríku, enda var flugið með eindæmum óhagstætt. Við tókum bílaleigubíl frá Frankfurt og vorum í Moseldalnum þar sem er yndislegt að vera. Sigldum, skoðuðum kastala, átum þýskar pylsur og snitsel (hvað er nýtt, þetta er svosem líka í miklu magni hér í Namibíu) og fórum í skemmtigarð.

Þýskaland 4Eins og sjá má skemmtu sér allir hið besta.
Þýskaland 2

Þýskaland















 

Það er alltaf töluverð áskorun að ná góðri mynd af drengjunum þremur í einu.

Nú er alþjóðaliðið flest komið til borgarinnar og við búin að vera í boðum og að hitta fólk vinstri og hægri. Fórum í hið besta afmælispartý hjá Rúnari Atla í morgun, svo er síðdegisboð á eftir og annað á morgun. Það er bara hið besta mál. Halli kann vel við sig í nýja bekknum sínum, og litlu drengirnir dafna einnig vel í skólanum. Nú eru allir farnir að hlakka til að fá Möggu Dísu frænku til okkar, sem kemur í septemberlok og ætlar að vera fram yfir áramót.
Við erum einnig búin að vera önnum kafin að skipuleggja ferð til Zimbabwe og Botswana með Magga frænda, Signýju og Árna Frey í byrjun október. Það er að mörgu að huga, en nú er planið að taka á sig lokamynd. Þetta er háferðamannatími, ekki síst í Botswana, og því getur verið erfitt að finna gistingu með litlum fyrirvara. Annars sinni ég náminu, hleyp með hlaupahópnum mínum og lyfti lóðum þess á milli af kappi í ræktinni.

Hlaupahópurinn samanstendur af fimm kjarnakonum, og er mjög alþjóðlega samsettur; ein íslensk, ein portúgölsk, ein amerísk, ein Afrikaans og ein þýsk/namibísk. Sú er gömul, alþjóðleg keppniskona í fimmþraut (ehemm, þónokkuð yngri en ég, sem þýðir væntanlega að ég sé komin af keppnisaldri - skrambinn) og ein er að æfa undir þríþaut. Hinar reyna bara að þrauka eins og gengur. Við verðum að hlaupa í hóp öryggisins vegna, enda líkamsárásir algengar og stundum sleppa varðhundar út úr görðunum, og því er piparsprey alltaf með í för. Svo geta verið snákar í grasinu við vegina, og mér til mikils ama frétti ég að við yrðum einnig að vara okkur á bavíönum, en þeir geta verið mannskæðir enda bæði sterkir og með hrikalegar tennur. Er ekki alveg búin að gera upp við mig hvort ég myndi beita úðanum eða leggja á flótta. Ákveð það bara þegar þar að kemur.


Afmæli hjá Stebbaling

Stefán Orri varð þriggja ára í gær og þá var náttúrulega haldin veisla.

Stefán afmæliStrákarnir skreyttu nammiköku um morguninn, og afmælisbarnið var enn í náttfötunum.


Stefán afmæli 2Erik og Kaja systir hans komu, og Villi og Gulla, börn og gestir. 

 

 

Hér er nammikakan komin á borðið.

Stefán afmæli 3




 

Stefán afmæli 4

 

 

 

 

 

 

Afmælisbarnið að blása á kertin.

Stefán afmæli 5

 

 

 

 

Góðir gestir.


Enn á lífi..

Af okkur er helst að frétta að við erum öll á lífi þrátt fyrir að ekkert hafi heyrst frá okkur í nokkurn tíma. Netið hefur mikið til verið niðri og því lítið um samskipti.

Nú er aðeins farið að hitna hjá okkur, og er það vel. Við hjónin horfðum á þætti um kvenspæjarastofu númer eitt, þar sem margt minnir á Namibíu. Enda líkist aðalleikkonan Leju okkar mikið, enda eru báðar með "hefðbundinn" vöxt og trúlega báðar af sama hópi, Tswana fólkinu. Það er minnsti þjóðernishópurinn hér í Namibíu, eru kallaðir Batswana í Botswana, og eru að sjálfsögðu mun meira afgerandi þar. Leja kemur frá Suður Afríku eins og svo margir Tswana í Namibíu. Nú finnst okkur mun auðveldara að þekkja þá frá, en Leja segir bara: ohh, it is the man who is the same color as I..

Í byrjun var ósköp erfitt að þekkja fólk í sundur eftir þjóðernishópum, en það kemur svona smá saman. Jafnvel Leja á erfitt með það, en hún var mjög óörugg eftir innbrotið og kennir Owambo fólki um alla glæpi. Einn morguninn þurfti hún að bíða um stund fyrir utan húsið, á götunni. Hún vildi ekki bíða þar, heldur fór að næstu götu sem er fjölfarnari og horfði þar tortryggin á vegfarendur. Eftirá sagði hún: ohh, so many bad people going by. And if someone attacks me, how can I recognize these Owambo people, they all look the same!!

Það var eins og talað út úr mínu hjarta, en gott að vita til þess að innfæddir eigi líka í erfiðleikum með að þekkja fólk í sundur. Margir hvítir virðast reyndar setja þeldökka alla í sama hóp, en þegar ég var að koma úr gamla leikskóla strákanna, var stressuð móðir á leiðinni inn með barnið sitt. Hún útskýrði fyrir mér að "þetta fólk" (og benti á leiðinni áskakandi á tvo vinnumenn sem voru handan götunnar að rölta í vinnuna) hefði stolið tölvunni hannar úr bílnum í fyrradag. Ég horfði náttúrulega agndofa á þessa glæpona röltandi í rólegheitum, þangað til að ég áttaði mig á að hún átti við að einhver þeldökkur hefði stolið tölvunni og hún vildi ekki skilja bílinn eftir eftirlitslausan meðan hún færi með barnið inn, en ekki að nákvæmlega þessir tveir hefðu þar verið að verki.  

Drengirnir eru byrjaðir í skólanum, og nú er Halli kominn í year 6 og þar sem hann hoppaði yfir einn bekk. Í dag eyddi hann öllum deginum í heimalærdóminn og hugsar með eftirsjá til letilífsins í year 4.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband