Árbítur og selbítur

 

International breakfast 1 Á föstudaginn var haldinn international breakfast hjá bekknum þeirra Óskars og Stefáns. Við deildum gestgjafahlutverkinu með einni móðurinni frá Namibíu. Við buðum m.a. upp á graflax með sósu (laxinn var reyndar frá Noregi, en góður samt) og ávaxtasalat sem var eins og broddgöltur, með haus og gadda með fullt af ávöxtum. Nú er uppskera af melónu og það hafa verið svo mikið af ávaxtaflugum á þeim að Suður Afríka hefur ekki viljað taka við melónum frá Namibíu, svo að þær eru allar seldar á heimamarkaði. Ekki verður þverfótað fyrir melónum í búðum, vatnsmelónum er t.d. raðað á gólfin svo að erfitt er að komast um með innkaupakerrurnar. 

 

 

 

 

 international breakfast

Hér eru strákarnir að prófa nýjan höfuðbúnað eftir árbítinn. 

Það er nóg að gera í félagslífinu, en þegar ég kom fyrst hugðist ég finna mér gott áhugamál og horfði vongóð til þess að læra að fljúga. Hér er ekki ský á himni mánuðum saman, svo ég komst að þeirri niðurstöðu að það myndi henta mér vel að læra að fljúga hér, amk. myndi ég sjá ef ég væri að fara að klessa á. Dabbi tók bara vel í þetta, en gaf nú reyndar ekki mikið út á hvort að hann myndi treysta sér upp í vél með mér. Svo var þessu nú frestað eins og gengur og ég kíkti aðeins út í flugskóla með Jónda þegar hann var hér. Hann taldi mér trú um að það væri bara bull og vitleysa að læra að fljúga hér, allt aðrir staðlar en í Evrópu svo að ég fengi ekki að stíga upp í vél þar. Svo væri maður eiginlega fljótari í ferðum keyrandi heldur en fljúgandi, svo að ég hætti snarlega við. Dabbi var manna fegnastur, enda höfðu átta einkavélar hrapað hér á tveimur mánuðum, svo að tölfræðin var manni nú ekki í hag. Veit ekki nema að viðhaldinu sé ábótavant.

Svo er nú ágætt að ég fór ekki út í að stunda brimbretti. Nú í vikunni voru tveir brimbrettagaurar að stunda íþrótt sína við Cape Cross, og hvað haldið þið, nema að kolvitlaus urta réðst á annan þeirra og var rétt við að murka lífið úr honum þegar félaginn kom honum til hjálpar. Hún réðst á hann líka og þeir náðu við illan leik í land, en hún réðst á þá alveg þangað til að þeir höfðu fast land undir fótum. Það er þekkt að hákarlar ráðast á brimbrettafólk, en ekki selir. Hún beit þá mjög illa í höfuð, hendur og fætur. Beit part af eyra af. Þeir voru nú voða umburðalyndir þegar tekið var viðtal við þá og sögðu að þetta hefði bara verið einn morðóður einstaklingur af fjöldanum, það væri ekki hægt að dæma seli yfirleitt eftir þessu. Svo var verið að álykta að urtan hefði verið utan við sig af skelfingu eftir selaslátrun frá 15 nóvember en þá lauk veiðitímabilinu með blóðbaði. Spurning hvort hægt sé að dæma mannskepnuna eftir þessu?

Ég held mig því við þá öruggu og heilsusamlegu iðju að lyfta lóðum í ræktinni. Þetta er orðið hluti af fjölskyldulífinu en við hjónin förum saman á föstudagseftirmiðdögum og öll fjölskyldan á sunnudögum þar sem Óskar og Stefán eru í barnapössuninni og Halli í þreki með móður sinni. Ræktin getur verið dálítið skrautleg. Hér eru lakkskór mjög vinsælir, enda mjög praktísk kaup þegar maður á bara eitt par. Á tónleikum um daginn var aðalsöngvarinn t.d. klæddur í rapparalegan fatnað og mjög skæsí.... og í lakkskóm. Rósa systir var ekki að komast yfir þetta. Hún ætti að sjá kappana í ræktinni sem hoppa sprækir um í íþróttasokkum og lakkskónum góðu. Mér finnst það mjög heimilislegt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Frábært þetta með lakkskóna. Á auðvelt með að sjá þetta fyrir mér.

Með hitt, hvað er að því að sitja heima og sauma út? Verður ekki étin af brjáluðu sjáfarspenndýri eða hrapar af himni ofan... mér líst ekkert á þessar hugdettur.

Rósa Rut (IP-tala skráð) 27.11.2008 kl. 07:52

2 identicon


Já, Rósa, enda sérðu það að maður er að eldast, núna eru þetta bara hudettur, en maður framkvæmir þær ekki...! Ætlaði að geyma útsauminn þangað til að ég er orðin enn rosknari, en kannski verður það bara þrautalendingin? Maður hefur reyndar nóg að gera, svo að leitin að tómstundagamni mun bíða þangað til drengirnir eru orðnir eldri og þurfa minna á manni að halda.

Erla perla (IP-tala skráð) 27.11.2008 kl. 09:07

3 identicon

Fegin er ég að þú hætti við flugið, við viljum hafa þig heila á húfi þarna í útlandinu. Erum við virkilega komnar á þann aldur að við þurfum að finna okkur sérstakt tómstundagaman? Mér finnst það hljóma eins og ég sé að verða gömul og ég sem hélt að ég væri rétt að skríða út úr MA . Gaman að fylgjast með ykkur þarna í Afríku.

Bestu kveðjur Lóla bóla

Lóla (IP-tala skráð) 27.11.2008 kl. 15:08

4 identicon

úff Erla, flug á gamals aldri, lakkskór í ræktinni finnst mér betri hugmynd.  Þú ættir að innleiða þetta á frónið þegar þið komið aftur til Íslands,  "konur í lakkskóm" gæti verið nafnið á leikfimisnámskeiðinu og viti menn konur yfir 35 ára sem vilja blingbling myndu streyma að.  Æðislega myndin af litla gaur með "ástralíuhattinn"

Brynja (IP-tala skráð) 28.11.2008 kl. 06:32

5 identicon

Mikið er nú gaman að lesa bloggið þitt hef lítið kíkt á blogg undan farið þar sem á síðasta mánuði er ég búin að skila hátt 10 verkefnum og finnst bara alveg nóg. Er núna komin í upplestrarfrí en tek fyrsta prófið á föstudaginn eftir viku. Er svo búin 16 des og krossa mig að allt gangi vel. Knús yfir til Afríku

Þórdís Arnardóttir (IP-tala skráð) 28.11.2008 kl. 22:26

6 identicon

Ji hvað Óskar er orðinn líkur þér - fékk bara flashback aftur til Varmahlíðaráranna þegar ég sá þessa mynd af honum. Svo sætur :) Já þú hefur alltaf verið orkubolti Erla en ég er ánægð með að þú leysir orkuna aðallega úr læðingi í ræktinni, við uppeldið á drengjunum og svo í doktorsnáminu en ekki í háloftunum eða öldum hafsins.

Linda (IP-tala skráð) 29.11.2008 kl. 09:58

7 identicon

Almáttugur, hvað það er alltaf gaman að lesa kommentin frá ykkur, stúlkur mínar. Þetta er eins við höfum verið að skríða inn í tíma í menntó (var ekki annars oft meira kjaftað inni í tíma en utan?)

Erla perla (IP-tala skráð) 30.11.2008 kl. 15:21

8 identicon

Hvurslags er þetta - hrikalega eruð þið orðnar gamlar mar........auðvitað áttu að láta gamla drauma rætast - og skítt með Evrópskar reglur í fluginu - þú færð þó að prófa að fljúga sjálf - finnur bara áreiðanlegustu flugvélina (ert nú ekki lengi að því ef ég þekki þig rétt) og dembir þér í þetta stelpa!!!  Hvað varðar brimbrettin getur varla verið að hákarlar og selir séu útum allt - er það??? 

Ég treysti á að fá ævintýralega upplifun þegar ég kem út til ykkar (fer alveg að vinna í lottó)........ ;o)

Ása Dóra (IP-tala skráð) 9.12.2008 kl. 01:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband