Af líkkistum

Davíð fór á nokkuð sérstaka útskriftarathöfn í gær en þá var verið að útskrifa líkkistusmiði úr röðum San fólksins. Hún hafði farið fram á verkstæðinu, sem reyndist vera staðsett við hliðina á bensínstöð svo að allt var fullt af bensíngufum. Hann angaði allur af bensíni þegar ég hitti hann um hádegisbilið og var hálf eftir sig eftir að hafa andað þessu inn, en athöfnin tók rúma tvo tíma. Nemarnir voru 6 talsins - svo er maður að kvarta yfir lengdinni á útskriftarathöfnum í HÍ!

Athöfnin sjálf var skemmtileg, en kennarinn hafði rekist á götutónlistarmann niðri í miðbæ, sem hafði verið kippt með. Sá hann um undirleik og spilaði á gítar og jafnframt trommur og hristur. Nemendurnir sungu svo söguljóð um kennarann og þá dýrð að vera að útskrifast. Kennarinn hafði leyft öllum að búa hjá sér og fór svo með þá í ferð niður að strönd til að sjá hafið í fyrsta skipti. Útskriftarnemarnir voru ákaflega þakklátir og komu því til skila með söngnum.

Líkkistusmíði er mjög mikilvæg hér, en eyðni er ákaflega mikil í mörgum hópum hér og því mikil eftirspurn eftir líkkistum. Ekki er óalgengt að fólk þurfi að jarða ástvini í ruslapokum. Það er mikið afrek fyrir fólk úr jaðarhópum líkt og San fólkið er, að læra einhverja iðn og útskrifast, jafnvel þó að það sé bara eftir 8 vikna nám. Því er mikið haft við og mætti aðstoðarforsætisráðherrann á staðinn og hélt tölu í tilefni dagsins.

Þegar Davíð var búinn að skipta um skyrtu og jafna sig eftir gufurnar var hann nokkuð hress með athöfnina.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það er náttúrulega lágmark að tileinka hverjum nemanda eina klukkustund af svona athöfn! Ég get ímyndað mér að það hafi ýmsar illar hugsanir farið um höfuð Davíðs á meðan á þessu stóð.

Harpa skarpa (IP-tala skráð) 27.6.2008 kl. 15:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband