Hjátrú..

Það eru mörg vandamálin hér í Afríku sem við eigum ekki að venjast í Evrópu (ehemm, já álfan er ákafleg víðfem og því skal varast alhæfingar, hér með er gerður fyrirvari varðandi það). Hjátrú og töfralæknar er gott dæmi, sem virkar kannski sjarmerandi svona úr fjarlægð, líkt og álfarnir okkar og huldufólkið heima á Fróni. Hér er þó ekki eins meinleysisleg hjátrú. Margir trúa því t.d. að þeir geti læknast af eyðni ef þeir hafa mök við hreina mey. Af þessum sökum kemur fyrir að mjög ungum stúlkubörnum er nauðgað.

Forseti Gambíu er kominn af ætt grasalækna og er mjög stoltur af því, eins og gefur að skilja. Hann tilkynnti í vor að hann væri búinn að finna lækningu við eyðni, sem væri leynileg blanda sjö jurta. Sjúkir flykktust til hans til að fá bót sinna meina, en vestrænir læknar sögðu að ekkert benti hins vegar til að lyfið hefði læknismátt. Kona ein sem starfaði hjá Sameinuðu Þjóðunum í Gambíu við þróunarverkefni á sviði eyðni, lýsti yfir efasemdum um að slíkar yfirlýsingar væru heppilegar fyrir baráttuna gegn eyðni í landinu, því að þetta gæti leitt til óábyrgs kynlífs. Henni var vísað úr landi.

Nú eru mikil læti í Tansaníu, þar sem albínóar hafa verið ofsóttir. Ég verð reyndar að segja að það eru ótrúlega margir albínóar hér. Við vorum að koma utan af landi um daginn og sáum í fjarlægð einhvern hvítan bíða á strætóstoppistöð. Dabbi sagði strax að viðkomandi væri albínói, en ekki hvítur, því að hvítan mann væri aldrei að sjá á strætóstoppi í Windhoek. Þegar nær dró kom í ljós að hann hafði rétt fyrir sér með það. En nóg um það og aftur til Tansaníu. Þar er jafnvel trúað að blóð þeirra hafi lækningamátt og fólk myrt. 11 ára stúlka, albínói, var nú nýverið dregin út af heimili sínu í skjóli nætur, hárið skorið af henni og fæturnir höggnir af við hné og hún svo myrt. Nú eru réttindasamtök um heim allan, m.a. alþjóðasamtök albínóa, að heimta að yfirvöld taki í taumana. Einhverjir hafa verið handteknir, en helsta spurningin er hvort að það sé möguegt að tryggja réttindi þessa hóps til framtíðar og að breyta hjátrú sem getur mögulega átt sér langa sögu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Úff hvað þetta var skelfileg lesning. Þetta er hræðilegt segir ég nú bara uppfull af vanmætti og vonleysi á döpru föstudagskvöldi hérna í Cambridge. Sýnir bara hvað trú í blindni (óháð því hvort það er blind trú á markaðinn eða manneskjur, eða töfradrykki) þá leiðir slíkt ávallt til bölvunar...

Linda (IP-tala skráð) 24.10.2008 kl. 21:18

2 identicon

þetta er svakalegt Erla, þá er okkar hjátrú meinlaus og skemmtileg.  Mörg skólasystkina minna koma frá mismunandi afríkuríkjum og hafa einmitt frá mörgu svona að segja, ég óska þess innilega að þau eigi eftir að leggja sitt af mörkum til að draga úr þessari skelfingu, væri sjálf til í að leggja þessu lið þegar tímar til þess koma.  Ástarkveðjur úr rigningunni og prófalestrinum (því miður engin lindubuff til að auka lífsgæðin á meðan;) manstu?)

Brynja (IP-tala skráð) 26.10.2008 kl. 08:48

3 identicon

Já, lindubuffin voru góð til að örva heilastarfsemina, ég man það þegar þú minnist á það. Rosalega neytti maður af þeim, ég held ég sé enn að borga fyrir buffin með puði í ræktinni. Þetta eru náttúrulega skelfilegar sögur, en maður vonar að þetta breytist á komandi áratugum..

Erla perla (IP-tala skráð) 26.10.2008 kl. 14:08

4 identicon

Ég gleymdi að segja þér að við sáum albinóa þegar við vorum á labbinu í Windhoek. Það var svört kona sem strunsaði framhjá okkur og dró á eftir sér tvær litlar dömur. Þær voru eins klæddar og voða sætar, en önnur var svört og hin alveg hvít. Það var svolítið sérstakt að horfa á eftir þeim þar sem krullurnar sveifluðust í bláu slaufunum - svartar hjá annarri og hvítar hjá hinni. Þær vöktu töluverða athygli - mömmunni til mikillar armæðu.

Rósa (IP-tala skráð) 29.10.2008 kl. 00:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband