Gíraffi... namminamminamm

Namibía er paradís ferðamannsins, og ekki síst þeirra sem eru sjálfstæðir og geta keyrt sjálfir - því keyrslan er mikil. Landið er átta sinnum stærra en Ísland, en vegakerfið hins vegar mun betra, svo að það er ekkert mál fyrir ferðaþyrsta gesti. Eitt er það sem vefst fyrir fólki, og það er að fá grænmetisfæði. Ef einhver pantar salat, bíður þjónustufólkið eftir því að maður panti einhvern mat, þ.e. kjötmetið. Enda eru hér fyrirtaks þýskir slátrarar og kjötvinnslumenn. Það á nú vel við helstu kjötætu heimilisins, hann Óskar. Heima á Íslandi vildi hann helst spranga um á nærbuxunum með skinku í annari. Hér getur hann gert betur og sprangar um nakinn með skinku í annari og salami í hinni.

Oskar

Svo er hann mjög hugmyndaríkur þegar kemur að því að panta á veitingahúsum. Hér er nefninlega hægt að fá kjöt af öllum tegundum, villisvín, krókódíl, strút og antílópur af öllum stærðum og gerðum. Óskar vill hins vegar endilega borða gíraffa, en hann hefur ekki verið á borðum þar sem hann er ekki veiddur til matar, eða er ekki trophy animal, eins og þeir segja. 

Drengurinn hefur reyndar eitthvað til síns máls því að gíraffakjöt ku vera ákaflega ljúffengt. Ein sem vinnur með Davíð vann einu sinni á búgarði þar sem gíraffi var drepinn af einhverjum ástæðum. Hún þáði með þökkum að fá gíraffakjöt þegar henni var boðið það. Í hennar hlut kom svo lærið, sem reyndist vera einhver 70 kíló, hvorki meira né minna. Þið getið rétt ímyndað ykkur að frystirinn fylltist og vel það.

Annars er lífið bara ljúft hér, ég hóf daginn með því að rölta 5 km. í býtið til styrktar rannsóknum á brjóstakrabbameini og Erik vinur hans Halla er í gistingu í nótt. Við erum svo búin að vera úti í garði að una okkur við leiki og borðtennis. Veðrið er mjög ljúft og það eru komin ský á himininn, til tilbreytingar. Stefán varð furðu lostinn þegar hann sá þau í fyrradag og benti til himins eins og þarna væru geimför frá öðrum hnöttum, enda hefur ekki sést skýhnoðri á himni svo mánuðum skiptir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæl Erla mín!

Takk fyrir skemmtilega og fræðandi bloggið þitt. Það er svo gaman að fara til ykkar í huganum á meðan maður er að lesa Þegar ég sé myndefni frá Afríku þá eruð þið komin í hugann og reyndar miklu oftar.'Eg brosi út undir bæði þegar ég sé 'Oskar fyrir mér með kjötsneiðarnar sínar eins og lítill veiðimaður.Kveðjur til ykkar allra

                                                         Margrét tengdó

G.Margrét (IP-tala skráð) 20.10.2008 kl. 10:20

2 identicon

Sæl og blessuð Erla mín!  En langt síðan síðast.  Vonandi er allt gott að frétta af ykkur.  Ég sé að drengirnir bara stækka og stækka.  Héðan er bara ágætt að frétta miðað við allt og allt.  Lífið gengur sinn vanagang þrátt fyrir krepputal.  Pálmi er voða duglegur í skólanum og var í samræmdum prófum í síðustu viku.  Hann er bara sáttur við nýja bekkinn sinn en talar oft um Halla sinn.  Hann er áfram í fótboltanum og dansinum.  Davíð Snær er kominn á gelgjuna, orðinn 13 og byrjaður í fermingafræðslu.  Hann hefur lítinn áhuga á skóla en mun meiri á stelpum ha ha.  Litla frekjan okkar hún Elísa er yndislegt, vefur okkur um fingur sér og veit af því.  Ég þarf að fara að senda ykkur myndir.  Hafið það sem allra best, knús og kossar, Paloma.

Paloma (IP-tala skráð) 20.10.2008 kl. 12:35

3 identicon

Elsku Margrét, já, litli veiðimaðurinn virðist ekkert vera að færa sig yfir í grænmetið. Yfir kvöldmatnum á sunnudaginn horfði drengurinn með vandlætingu á matinn sinn á disknum og sagði: "ÉG ER EKKI FUGL!". Maturinn var grænmetisbuff með sesamfræjum utaná, hýðishrísgrjón og salat. Eitthvað sem kjötætan okkar taldi ekki vera mannamat, heldur fuglafæði.

Elsku Paloma, gaman að heyra frá þér. Þið eruð nú ósjaldan í umræðunni hér, og sérstaklega mikið upp á síðkastið því að við erum farin að sakna ykkar svo. Ég verð að fá ítarlegri fréttir, en ég sé að þú ert komin á facebook, svo að við getum náð saman þar. Skilaðu kveðjum og kysstu alla frá okkur!

Erla perla (IP-tala skráð) 21.10.2008 kl. 06:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband