Týnd í óbyggðum

Gleðilega páska! Við erum komin heim úr suðurferðinni. Við vorum tvær nætur í Namib Rand friðlandinu í suðvesturhluta landsins, í Namib eyðimörkinni. Þar leigðum við gamalt bóndabýli á afskekktum stað, ásamt annarri fjölskyldu. Húsið var með rennandi vatni en ekki rafmagni, sem bara jók á sjarmann. Eins og alltaf úti í eyðimörk er stjörnuhimininn ótrúlegur, og svo var nánast fullt tungl, sem lýsir ótrúlega vel yfir nóttina. Þarna er ógnarfagurt en ógnarheitt líka yfir hádaginn. Við fórum í dune surfing, sem eru brettaferðir niður sandöldur. Það fór misvel í drengina, Óskar fékk fullt af sandi í augun og móðirin þeyttist með Stebba greyjið inn í þyrnirunna. Halli fann sig betur.Lestarstöð

Við fórum einnig í ökuferð í friðlandinu til að skoða okkur um. Á þriðja degi var svo farið í maraþon fjallgöngu með allt liðið, sem endaði með því að ég hljóp heim í hús að sækja bílinn, enda var hitinn að verða yfirþyrmandi. Svo tók við heljarinnar keyrsla niður í Fish River Canyon. Þetta er eitthvert strjálbýlasta svæði veraldar. Ef ég nota Dabba orð "bara ekkert að gerast... bara nákvæmlega ekki neitt". Í norðurhlutanum er maður gjarnan að keyra í gegnum þorp þar sem er mannlíf, en þarna var nú ekki mikið um það. Þessi lestarstöð sem er á myndinni er kannski lýsandi fyrir umhverfið, þarna liggja teinarnir í gegn en ekki mannhræðu að sjá svo langt sem augað eygir.

Við gistum í litlum kofa sem var byggður inn í bergið, ótrúlega flott hönnun. Þarna var sami rosalegi hitinn. Ég var einmitt að dást að því að hafa verið svo forsjál að pakka langerma peysum, buxum og svo náttúrulega flíspeysum. Við hefðum fengið hitaslag með það sama ef þær hefðu verið notaðar, en ég sá fyrir mér að við værum komin svo sunnarlega að það yrði hrollkalt. Svo var farið í fjallgöngu daginn eftir, farið að skoða gljúfrin og þá haldið í áttina að Windhoek.

 LostVið stoppuðum til að skoða quiver skóg og svo leiksvæði risanna, en þar eru ótrúlegar steinmyndanir. Okkur tókst að villast þar, og hér lauma ég inn einni mynd þar sem kemur svo innilega berlega í ljós hvað við erum villt, ég og Halli bæði gapandi í ólíkar áttir að reyna að finna leiðina til baka. Halli bjargaði deginum með því að klifra upp á steinstrýtu og fann þannig bílastæðið. Við vorum alveg komin á síðasta snúning með að komast í náttstað fyrir myrkur.

Það hafðist þó, en núna var gist í Kalahari eyðimörkinni. Þar er efalaust hægt að ráfa um í heila lífstíð og aldrei hitta neinn.  Við komum svo til Windhoek á páskadag þar sem strákarnir gæddu sér á litlum, íslenskum páskaeggjum sem Ágústa kom með færandi hendi frá Íslandi í síðustu viku. Ferðamyndir koma inn á síðuna fljótlega.

Helsta nýjungin í þessari ferð var að íslensku barnalögin og leikritin fengu að fjúka og í staðinn sá Halli um tónlistina. Þetta olli því að nú eru Óskar og Stefán að syngja búmm búmm pá og amma bí. Við erum sumsé öll komin með nýmóðins tónlist á heilann eftir þennan tíma. Mest með Black Eyed Peas.

Nú sitja Dabbi og Halli inni í stofu, þar sem Halli er að fara yfir vinsældalistana í tónlistarmyndböndunum með föður sínum:

Dabbi: heyrðu, já, þetta er hún Lady Gaga, hún er nú með mjög fjölbreytta og skemmtilega tónlist. Dálítið sniðug stelpan......... hvur fja.... ERLA?! Hefðurðu séð....
Móðirin kallandi frá skrifstofunni: Ha? Ertu að tala um myndböndin hjá Lady Gaga? Hvað þau sýna mikið hold? Blessaður vertu, foreldrar um allan heim eru að loka á þetta fyrir börnin.
Dabbi: Já, Halli, ég skipti um rás, ég held að þetta sé ekkert fyrir þig (Alicia Keys fer að hljóma í staðinn.. í smá stund.... svo heyri ég í Lady Gaga aftur)
Dabbi: Heyrðu, Halli, hún er nú bara ekki í neinu... og þarna er Beyoncé líka... já, hún er rosalega sæt... hva, hún Lady gúgú er bara alveg steikt, þetta er nú meira ruglið hjá henni... skemmtilegir þessir tónlistarmenn sem eru svona steiktir...


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband