Jólastuð í Kuneneferð

Fyrst ég er nú búin að uppgötva kosti picasa, þá skelli ég inn myndasýningu hér neðar frá Kunene ferðinni, þar sem við fórum inn í hjarta Kaokolands. Magga á frasa ferðarinnar: "ég er bara í sjokki, þetta er svo fallegt". Hvað finnst ykkur?

 oryx_951540.jpg

 

Reyndar vorum við akkúrat þá að keyra í gili frá Pourros, í vesturátt þar sem náttúrufegurðin er gífurleg. Við vorum að leita að ljónum, sem reyndust svo hafa farið alveg niður að strönd, en þau fara stundum niður á Helgrindarströnd til að gæða sér á selum og hvalreka.

Kunene er hérað í norðvestur Namibíu sem er þónokkuð stærra en Ísland, og þar telst vera síðasta ósnortna víðerni Afríku og þó víðar sé leitað. Við rákumst ekki á neitt ferðafólk, enda er nú ekki fjölfarið þarna. Við fórum eftir vegaslóðum sem eru eins og draumur jeppaferðalanga (er búin að finna hlaupaleið sem yrði kjörin fyrir hlaupafólk í ævintýraleit, bara ekki svona á heitasta tímanum). Við vorum þríbíla en ferðafélagar okkar voru frá vatnsmálaráðuneytinu og frjálsum félagasamtökum sem hafa unnið við beitarstjórnun á svæðinu í marga áratugi. Þeir voru staðkunnugir, enda eins gott því að þarna er auðvelt að villast. Einn bíll fór útaf einu sinni, og svo lentum við ofan í árfarvegi þegar við vorum búin að skilja við ferðafélagana. Við vorum svo glöð að sjá vegamerkingu að við fylgdum henni í blindni með ofangreindum afleiðingum. Það fór nú allt vel að lokum. Í myndasýningunni má sjá marmaranámu, húsið á hæðinni, rauðtunnu, fjölskylduna, en síðast ekki ekki síst náttúruna og mannlífið. Ferðin tók viku og gekk í alla staði hið besta.

 

Samveran í bílnum gekk glimrandi vel. Við fórum með jólalögin með okkur og sungum við raust við Baggalút. Þar var líka mikið spjallað og sumir að berjast við bílveiki í hristingnum.

Magga: ég get svarið það, ég held að þessir tveir séu minnst bílveikustu börn í heiminum
Óskar: Magga, sjáðu hér í Gagn og gaman... Tóóótii hnerrar oog hnnerrar
Stefán: Magga, Magga, Magga, sjáðu kúkabókina - hver á þetta spor, sjáðu, þetta spor?

Magga: úfff strákar, það er ekki hægt að lesa í svona hristingi, það getur það enginn. Ég sver það, þeir eru ekki eðlilegir. Halli, þú er hvítur í framan. Varstu að spila gameboy? Ekki vera í svona kuðung. Það er ávísun á bílveiki. Hallaðu þér bara aftur, svona, og reyndu að anda rólega. 

Hitinn úti er um 40 yfir daginn, og er það eins og að ganga inn í ofn þegar maður opnar bílhurðina til að fara út. Sólin er yfir hvirfli manns þegar hún er í hádegisstað. Þá ríður á að finna skugga. Himbarnir láta sér fátt um finnast og teyga það sem dýrmætast er af öllu dýrmætu á þessum slóðum; vatnið.

Nú fer að líða að því að Magga fari til Malasíu, reyndar fyrst til London. Suður afrískur réttur í kvöldmatinn af því tilefni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband