Líf og leikur

Þegar við fluttum út, komum við með óskapar magn af íslensku barnefni - leikritum, þáttum og myndum handa strákunum. Eggert Þorleifsson var ákaflega vinsæll á tímabili, þar sem hann leiklas alla gömlu Tinnaþættina, sem horft var á lon og don, og fór á kostum í hlutverki Vælu Veinólínu. Á sama tíma hljómaði Hárfinnur í tækinu og við fullorðna fólkið álpuðumst til að horfa á Stóra planið. Nú er Íþróttaálfurinn aðalhetjan hjá Stefáni og ef hann er þægur og stilltur fær hann að horfa á myndbrot af netinu í tölvunni. Við vorum áðan að horfa á Magnús Scheving tala um hugmyndafræði þáttanna á netinu (náttúrulega búin að fara í gegnum allt hitt efnið) og klöppuðum honum lof í lófa.

legoRúnar Atli er núna í heimsókn og er lególeikur í fullum gangi, en Óskar leikur sér lon og don að því. Þar umbreytast flugvélar í þyrlur yfir í bát og svo aftur í flugvélar. Mjög praktískt því leiknum er aldrei lokið. Stefán aðstoðar eftir megni og syngur svo twinkle twinkle little star fyrir byggingarmeistarana.

málariÁður hafði Óskar tekið litunar- og málunaræði og eyddi heilu og hálfu dögunum í að lita eftir númerum.
Fótboltaguttar
Hér kemur svo önnur mynd af stákunum þegar þeir voru að fara í crazy soccer day í skólanum. Halli er nú reyndar ekki alveg jafn hress á þessari stundu og hann var á myndinni. Hann fékk einhvern veginn bit á kviðinn í síðustu viku sem er heiftarlega sýkt, væntanlega kóngulóarbit. Fór til skólahjúkkunnar á föstudag, læknis á sunnudagmorgun og byrjaði á lyfjum, annar læknir í býtið á þriðjudagsmorguninn og enn meiri lyf. Hann er alveg bakk og við bíðum nú eftir að seinni lyfin fari að virka. Davíð er í vinnuferð fyrir norðan og snýr til baka seint á föstudagskvöldið. Við höfðum ætlað út úr bænum um helgina á fótboltamót með Halla, en þeim áætlunum hefur öllum verið aflýst. Annars er allt við það sama, nema Windhoekbúar kvarta sáran yfir kuldakastinu sem hefur hrjáð þá, og virðist ekki ætla að linna. Þetta er ágætis aðlögunartími fyrir okkur drengina, svo að viðbrigðin verða ekki mikil þegar við komum heim til Íslands.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband