Ferð á hárgreiðslustofuna

Fólk er að einhverju leyti metið og vegið eftir útlitinu. Hárið skiptir ekki litlu máli. Drengirnir líta allir út eins og útigangshross núna, með hárlubbana út í loftið. Við erum að vinna að því að fá tíma í klippingu handa þeim. Ekki hefur móðirin verið skárri. Ég fór reyndar í klippingu í morgun. Loksins.

Hárgreiðslumeistarinn er þýsk og heitir Melanie. Er með djúp og ótrúlega blá augu. Kannski afkomandi þýskra nýlenduherra. Eða þýskra flóttamanna frá fyrra stríði. Hún er með flott hár eins og flestar klippikonur. Hún talar ekki mikla ensku. Sagði með heillandi brosi þegar ég sat fyrst í stólnum hjá henni; ahh, æ nó zjust ze ræght eerkutt for jú. Verí poppula in Zermaní, jaa. Fyrir hugskotsjónum mér svifu myndir af þýsku stúlkunum hér, sem fá hræðilega kynlausa, stutta klippingu frá unglingsaldri sem er svo púkkað upp á með fjólubláum eða bleikum lit hér og þar. Mér leist ekki á það. En klippinguna fékk ég og var hæstánægð.

Nú horfði hún hugsandi á mig, leit á kortið mitt og sagði að ég hefði síðast komið í september. Ég, játaði full sektarkenndar og skömmustuleg að hafa líka slitna enda. Fyrir íslenska klippara er það eins og að játa sig seka um mannsmorð, á meðan Melanie dáist að því hvað ég held lengi út. Hún hyggur efalaust að ég sé svona aðhaldssöm og leyfi mér bara tvær klippingar á ári, og kinkar stolt kolli yfir mér eins og ég hafi rétt lokið við að vinna listdans á skautum á Ólympíuleikunum. Aðhaldssemi finnst Þjóðverjunum vera hin mesta dyggð. Það er þó ekki ástæðan (spyrjið bara Dabba ef þið viljið fá ítarlega útlistun á minni sparsemi og vöntun þar á). Ég hef ekki þolinmæði til að hanga á hárgreiðslustofun eða snyrtistofum. Það sem aðrar konur kalla dekur, finnst mér vera hálfgerð pína. Þessir staðir eru fullir að svokölluðum kvennablöðum sem er mannskemmandi lesning. Það kemur þó ekki í veg fyrir að ég blaði í gegnum þessar bókmenntir og ég finn mig vanalega fara að spá í hvað þessi iðnaður velti miklu á ári...hmm... hvað eru margar konur í vestrænum samfélögum - hvað les hver meðalkona mörg blöð á mánuði - hvað mikið af þvælu kemst inn í hausinn á fólki – hvort verður þetta eða tóbak bannað á undan ... er enginn The Economist hérna?

Síðast fann ég Men‘s health, sem ég fann út að væri þó ögn skárri lesning. Hvernig á að fullnægja konum –er hægt að byrja að stunda jaðarsport eftir fertugt – hvernig á að ná sixpack á sex vikum? Það liggur í augum uppi að þetta er þó öllu skárra en kvennablöðin. Ef ég hefði haldið mig við fjölmiðlafræðina hefði ég kannski getað eytt svosem þremur árum til að greina hvernig kvennablöðin viðhalda firringu og heilaþvo konur. Þetta hefði verið líkt og þriggja ára, stanslaus, sársaukafull heimsókn á hárgreiðslustofu.

Núna var ég sniðug og tók með mér bók úr klúbbnum. Hún reyndist vera um 33 ára konu sem er þunglynd, finnst hún vera orðin gömul og búin að missa af lífinu. Ég horfi á sjálfa mig í speglinum, í óaðlaðandi sloppi og man nú að ég var búin að sverja að fara aldrei í klippingu nema að hafa málað mig rækilega áður til að fá ekki sjokk þegar ég liti í spegilinn. Stórt moskítóbit er að spretta út á hálsinum. Það er gott að maður hneygist ekki til þunglyndis.

Nú segir Melanie; ahh, zis is ze geomatrikaal eerkutt, jaa og byrjaði að skipta höfðinu á mér í þríhyrninga af þýskri nákvæmni. Svo er litunin. Ég afþakka handanudd. Svo er beðið undir einhverjum þurrkskermi. Sú þunglynda í bókinni er að ná sér á strik. Klukkan í skerminum bylur svo skart að ég held að einhver hafi skotið mig með aftökustíl í hnakkann. Þvottur. Konan rífur í hnakkahárin en ég kveinka mér ekki, vil bara að þessu fari að ljúka. Ég afþakka höfuðnudd. Hárblástur tekur heila eilífð. Ég kíki á klukkuna og hugsa til hins tékkneska sundþjálfara strákanna. Sá er vaxinn eins og naut og með aflitaða burstaklippingu. Hann kvartar sáran yfir þýsku mæðrunum; „þær kvarta ef maður tekur ekki amk fimm mínútur í að þurrka hárið á börnunum eftir sund. Líka á strákunum. Og þeir eru með broddaklippingu! Það er 30 stiga hiti, og þær segja að blessuð börnin verði veik!“

Við sameinumst í aðdáun á hörku fólks af norðurhjara þar sem enginn þurrkar á sér hárið og þá er líka hægt að sjúga það eins og íspinna þegar maður kemur út í frostið eftir sundferðir.

Loks er þessu aflokið. Melanie sest niður með mér alvarleg í bragði, horfir með þessum bláu augum sínum sorgmædd inn í mín, og klappar róandi á hendur mér. Ég hugsa að hún sé komin með krabbamein og verði fallin frá þegar ég ætla að koma í klippingu næst. Sem betur fer var það ekki; hún hafði hækkað verðskrána.

Niðurstaða dagsins er að hárið segir margt um fólk; aflituð burstaklipping segir að þú sért frá fyrrverandi austantjaldslandi, broddaklipping að þú ert þýskur, lítill strákur, stutt kvenklipping með bleikum lokkum segir að þú sért þýskur kvenmaður, fönkuð og flott að viðkomandi er hárgreiðsludama og litlir strákar með úfinn hárlubba eru örugglega sárlega vanræktir. Hvað segir annars glæný, geómatrísk klipping um kvenfólk?

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hæ hæ Erla efast ekki um að þú sért orðin þvílík skutla með rosa flott hár.  Best að ég fari líka að drífa mig í yfirhalningu þó ekki sé víst að klipping dugi mér.  Er enn í andlegu skjokki eftir að hafa verið spurð hvort ég væri amma hans Bergþórs þegar ég sótti hann í heilsdagsskólann.   bk.  Anna gamla :)

Anna (IP-tala skráð) 17.2.2010 kl. 15:28

2 Smámynd: Erla Hlín Hjálmarsdóttir

Hahaha, það er alveg milljón. Eftir þennan maraþonblástur Melanie er ég eins og klippt út úr dömubindaauglýsingu, hárið bylgjast létt í miðaftangolunni. Dásamlegt.  En þú sérð það, að 33 ára gamlar konur geta verið með ellimóral, eins og í bókinni, svo að það er ekki nema von að við eldumst um nokkra áratugi í einu! Þú verður bara að skella þér í klippingu og lesa Séð  og heyrt þér til gleði...

Erla Hlín Hjálmarsdóttir, 17.2.2010 kl. 15:42

3 identicon

Þetta er bara snilldarpistill. Skemmtileg lesning og eg vil bara endilega fa að sja mynd af dyrðinni. Þu ert örugglega mega sæt eftir þrihyrningaskipta klippingu.

Harpa óklippta (IP-tala skráð) 17.2.2010 kl. 20:38

4 identicon

Þakka þér fyrir, Harpa mín. Ef ég væri ögn einbeittari bloggari hefði ég beðið Dabba um að taka video af mér í gær með hárið að bylgjast í golunni. Svo hefði ég getað sett einhverja fallega músik undir, eins og "I wanna know what love is". Það hefði verið alveg fyrirtak. Núna er tækifærið farið og ég blæs ekki á mér hárið fyrr en ég fer aftur í klippingu, sem verður nú ekki alveg á næstunni...

Erla perla (IP-tala skráð) 18.2.2010 kl. 05:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband