Hitt og þetta

Nú eru allir komnir í langt frí í skólanum, alveg fram yfir páska. Við fórum í skólann á fimmtudaginn að fá vitnisburð og sjá verk drengjanna. Það þarf ekki að taka fram að allir drengirnir ganga á vatni, nema kannski Halli í art, sem veður í háls. Hann og myndlistarkennarinn eiga sumsé ekki í mjög ástríku sambandi. Ég skammaði hana nú reyndar duglega, enda setti kerlingin límmiða á myndir hjá flestum krökkunum, sem á stóð "I don't like this piece of art", meira að segja hjá leikskólakrökkunum. Ekki beint jákvætt og uppbyggjandi.

Við höfðum haft hug á að ferðast, en Davíð fer í vinnuferð í næstu viku sem brýtur fríið upp. Við höfum hins vegar tækifæri til að leggjast út vikuna þar á eftir og ætlum að fara suður á bóginn, alla leið til Fish River Canyon sem er alveg við landamæri Suður Afríku. Næst stærsta gil veraldar.

Svo hefur lasleiki verið að angra okkur, Halli var fyrst lasinn og svo Óskar og ég með einhverja lympu. Sofnaði, aldrei þessu vant, fyrir framan sjónvarpið í gærkvöldi. Davíð var svo hugulsamur að hann "leyfði" mér að sofa. Það var opið út á verönd og ég vaknaði upp af værum blundi, öll útbitin af moskítóflugum, og viðþolslaus af kláða. Hitinn hefur verið yfir 30 stig undanfarið og mikið af flugu.

Stúlkan sem drukknaði og dó, en hætti svo við, heitir Maureen. Hún var dögum saman í öndunarvél og var haldið sofandi. Nú er hún loksins komin úr öndunarvél, en er enn á gjörgæsludeild. Þaðan verður hún væntanlega flutt á morgun eða hinn, en þeir búast við að henni verði haldið á spítalanum í tvær vikur enn. Hún ku vera farin að tala og vera hin sprækasta, en engar áreiðanlegar fregnir herma hvort að hún hefur hlotið varanlegan skaða af atvikinu. Ég fer í heimsókn á spítalann á morgun og er spennt að sjá hvernig henni líður.

Nú er Óskar að leika sér í lego, Stefán er að læra stærðfræði og Halli tók að sér það metnaðarfulla verkefni að útskýra mínus fyrir drengnum. Gangi honum vel.

Leja stendur alltaf í einhverjum stórræðum. Á fimmtudaginn fékk hún útburðarpappíra, þar sem átti að henda henni út á miðvikudag komandi. Fékk sumsé minna en viku frest. Ég fór í að kanna málið með henni á föstudag, tala við lögfræðing og svo fyrirtækið. Það er að hluta til í eigu hins opinbera. Skrifstofan var full af fólki úr fátækrahverfinu, sem allt var að reyna að semja um frest, en undanfarið hefur mikið verið um útburð. Leja skildi ekkert í þessu öllu saman. Reyndar viðurkenndi hún að hún á að borga N$ 1500 á mánuði, en hefur eiginlega bara látið duga að borga N$ 1000. Nema í þarsíðasta mánuði þegar hún ákvað að kaupa frekar legstein fyrir leiði pabba síns sem lést fyrir nokkrum árum, og þá ákvað hún að sleppa bara að borga af húsinu. Og svo borgaði hún rosa lítið áður en hún byrjaði að vinna hér, eiginlega bara ekki neitt. Við björgum þessu fyrir horn fyrir hana, en hún þarf að borga N$4000 fyrir miðvikudag. Konan við hliðina á henni í röðinni átti að borga N$5000 til að komast hjá útburði.

Ég gaf Dabba þá forspá að það yrði mikið um innbrot um helgina. Hann horfði á mig opinmynntur, hélt helst að ég sæi það fyrir að borgin yrði full af hústökufólki. Nei, ekki var það nú mín meining, heldur að nú væru margir sem þyrftu á lausafé að halda og það ekki seinna en strax. Þá aukast glæpir því að fólk grípur til örþrifaráða.

Nú er stærðfræðikennslunni lokið og kennarinn hefur lýst því yfir að nemandinn sé of ungur fyrir frádrátt. Of flókið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband