Ágætis búðarferð

Ég stóð við hraðbankann í gær þegar vaktaskipti stóðu yfir hjá öryggisvörðunum. Annar veifaði myndarlegri haglabyssu framan í mig, og var að stympast með hana í gríni við félaga sinn sem var að koma á vakt. "Þú verður að taka hana, hún er góð þessi.." Ég horfði til himins og hugsaði hverjar líkurnar væru að hún væri óhlaðin. Engar. Líkurnar á að þessir félagar myndu skjóta mig óvart í hausinn. Verulegar. En þeir voru fjörugir og glaðir, svo að ég brosti eins og morgusólin til þeirra.

Hraðbankinn er við verslunarkjarnann Eros sem er mjög nálægt heimili okkar (nafnið minnir mig reyndar óljóst á einhver dónablöð). Þar er slátrari, kaffihús, vídeóleiga, apótek, blómabúð, innrömmun, djúsbúð (ávaxta), djúsbúð (ekki ávaxta), banki og verslun. Framkvæmdir hafa átt sér stað, svo að allt er að verða óskaplega snyrtilegt og flott. Búðin hefur líka staðið í framkvæmdum, þar er verið að skipta um allt gólfefni, en verið er að setja ægilega fínar nýmóðins flísar á gólfið. Þeir hafa ekki haft fyrir því að loka búðinni. Rekkunum hefur verið ýtt hingað og þangað, svo að viðskiptavinir þurfa að troða sér á milli til að finna vörur. Þær eru vanalega með þykku ryki og óhreinindum.

Iðnaðarmennirnir voru með slípurokk fyrir ofan dyrnar, svo að neistum rigndi yfir mann þegar gengið var inn. Og þessi indæla lykt sem fylgir. Nú voru komnir nokkrir skurðir í mitt gólfið, þar sem vinnumenn stóðu upp að mitti og hjuggu af miklum móð með hökum (það eru reyndar alltaf nokkrir aðrir að horfa á þegar einhver er að vinna). Á nokkrum stöðum var búið að setja blikkplanka yfir skurðina þar sem maður gat farið með innkaupakerrurnar yfir.

Ég var skítug og úfin þegar ég kom heim eftir að hafa skroppið í búðina. Kom sigri hrósandi með mjólkurflösku sem var brún af ryki, en hafði svo ekki fundið helminginn af því sem ég hugðist kaupa því að þeir eru alltaf að færa hluti til og frá, og enginn leikur að leita að hlutum. Ég var amk. ekki með brunasár eftir neistana, og hafði heldur ekki verið skotin í hausinn með haglabyssu. Þetta var ágætis búðarferð.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Má ég þá biðja um Bónus;) sem ég er reyndar hætt að versla við.....en kannski maður nenni frekar í búðina með von um SMÁ spennu í kaupæti;)

FAnney (IP-tala skráð) 4.6.2010 kl. 21:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband